Júnídagbók 2005         

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

27. júní 2005

Í dag!

Frá því síðustu ritgerð var skilað inn fyrir um það bil þremur vikum hefur líf mitt einkennst af tvennu: annars vegar af því að vera upptekin við að gera ekki neitt og hins vegar af málningavinnu á baðherberginu. (Já, kraftaverkin gerast enn! Þið ykkar sem hafið horft hneyksluð á málningarprufusletturnar á baðherbergisveggnum hjá mér og spurt sjálf ykkur hvort við ætluðum aldrei að fara að ákveða lit og drífa í þessu ... ja, þið voruð bara að hugsa nákvæmlega það sama og við Einar!!!) Í morgun varð hins vegar breyting á þessu lífsmynstri mínu því í bítið dreif ég mig á Þjóðarbókhlöðuna til að byrja að lesa fyrir mastersritgerðina. Hjálpi mér hvað það var erfitt! Ég sat þar í þrjá tíma og sofnaði að minnsta kosti sjö sinnum á meðan. Náði að lesa eina skitna grein áður en ég skjögraði heim aftur við illan leik, staðráðin í að eyða því sem eftir væri af deginum uppi í rúmi! Svona rétt áður en ég skríð undir sæng með æsilegan reyfara í höndum skellti ég inn nokkrum nýjum myndum til að gleðja þau ykkar sem þurfið að eyða fleiri en þremur tímum í vinnu í dag! Smellið á Maríu að dansa og Huga í rólu til að skoða þær nýju!

  

Á morgun, segir sá lati!

 

21. júní 2005

Stokkhólmsmyndir!!!

Og það glás af þeim! Þið getið skoðað þær með því að smella á þá af okkur Einari, alsælum í siglingu eftir sænskum kanal!

 

12. júní 2005

Plan ...

... kvöldsins: að drekka rauðvín, hlusta á Matteusarpassíuna og taka til!

... vikunnar: að njóta þess að vera í sumarfríi, vera berfætt í skónum, borða prinsessutertur, kíkja í búðir, lesa glæpasögur og baða mig í sólinni!

... sumarsins: að skrifa eina grein í tímaritið Andvara; að halda áfram að vinna að lexíkonfærslum (sem verður fyrsta launaða vinnan mín frá því ég fékk borgað fyrir að sofa í beðunum í unglingavinnunni ... eða svona nánast!) og síðast en ekki síst að byrja af kappi að undirbúa mastersritgerðina mína. Ég er búin að ákveða að skrifa 30 eininga ritgerð, búin að fá tvo leiðbeinendur og velja mér efni ... svona nokkurn veginn alla vega. Ætla að skrifa um möguleika fagurfræðilegrar tilvistar ... veit ekki hve mikið það segir ykkur! Ég er æsispennt og hlakka til að byrja, er búin að panta mér fullt af bókum og verð að vera búin að koma mér vel inn í efnið þegar haustönnin byrjar. Þetta verða síðustu einingarnar mínar í mastersnáminu þar sem ég er nú þegar búin með 35 af þeim 60 sem þarf til að ljúka prófi. Það finnst mér undarleg og nánst hrollvekjandi tilhugsun! Var hálfpartinn farin að ímynda mér að ég yrði nemandi við Bókmenntafræði- og málvísindaskor HÍ það sem eftir væri!

Næst á ykkar plani, kæru lesendur, er hins vegar að skoða fullt af glænýjum myndum! Góða skemmtun!

p.s. Ég var búin að upphugsa svona fjörutíu og átta leiðir til að koma einkunum nýliðinnar annar ótrúlega laumulega inn í textann ... þannig að það liti út fyrir að vera fullkomlega nauðsynlegt að koma þessum upplýsingum á framfæri en ekki bara mont! Engin þessara fjörutíu og átta leiða var sannfærandi! Ég verð því bara að monta mig! Ég fékk 9,5 í báðum námskeiðunum sem ég tók eftir áramót!!!

 

8. júní 2005

Enska fyrir byrjendur!

Ég var rétt rúmlega tvítug þegar ég réðist í það í fyrsta sinn að lesa glæpasögudoðrant á ensku (fyrir utan skiptið þegar ég þóttist ætla að lesa Agöthu Christie bók á frummálinu tíu ára gömul ... þá strandaði ég hins vegar (skiljanlega!) á nákvæmlega fimmta orði ... ég taldi!). Fyrir það hafði ég aldrei komist í gegnum heila bók á erlendri tungu enda stundaði ég það í menntaskóla að sjá annað hvort myndina eða lesa þýðingu! Í öllu falli keypti ég mér þykka og mikla kilju sem fjallaði um morð í litlum smábæ á Englandi hvar þrúgandi hitabylgja ríkti einmitt þá daga sem það tók lögreglukonuna að leysa málið. Það kom sjálfri mér eiginlega á óvart hversu sjaldan ég lenti í vandræðum með enskuna en ég man þó eftir tveimur atriðum sem vöfðust sérstaklega fyrir mér.

Ég skildi aldrei hvers vegna lögreglukonan hugsaði svona mikið um samkynhneigða karlmenn, já hún hreinlega virtist þrá þá í tíma og ótíma. Ég meina, það hlýtur hvert mannsbarn að vita að hommar gagnast þurfandi konum afskaplega lítið! Þegar lögreglukonan hugðist svo kveikja í einum þeirra var mér nóg boðið! Þvílíka og aðra eins fordóma í garð samkynhneigðra hafði ég aldrei vitað í nokkurri bók. Ég skildi svo sem vel að lögreglukonan væri spæld þó það hefði náttúrulega átt að vera ljóst frá upphafi að hommarnir gætu ekkert komið henni til aðstoðar og létt af henni spennunni. En að kveikja í þeim ... það var bara ógeðslegt! Hvers konar Ku Klux Klan bók var þetta eiginlega sem ég hafði álpast til að kaupa?!! Hvernig í ósköpunum datt bókabúðarmanninum í hug að mæla með henni?! Rétt áður en ég fleygði bókinni út í næsta horn í mótmælaskyni rann hins vegar upp fyrir mér ljós! Orðið „fag“ er nefninlega bæði notað um samkynhneigða karlmenn OG sígarettur!!!

Erfiðari viðfangs reyndist mér þó aðdáandinn sem sífellt virtist hanga á lögreglustöðinni í litla smábænum. Í hvert einasta sinn sem lögreglukonan gekk þangað inn var aðdáandinn mættur ... þetta var bara alveg út í hött! Hvers vegna kom líka ekki fram hvernig aðdáandi þetta var?! Ég meina, var þetta til dæmis Madonnu aðdáandi eða kannski æstur fótboltaaðdáandi? Og hvað var hann að gera þarna ... hafði hann ef til vill verið handtekinn fyrir einhverjar aðdáenda-óspektir? Gamanið tók þó fyrst að kárna þegar aðdándinn virtist hringsnúast yfir höfðum starfsfólksins á lögreglustöðinni. Ég sá hann fyrir mér með Liverpool trefilinn um hálsinn, kannski búinn að mála sig rauðan í framan og jafnvel búinn að fá sér aðeins of marga bjóra (eru þessar fótboltabullur ekki alltaf fullar?), með einhvern asnalegan hatt, berjandi trumbu og alveg öskrandi dýrvitlausan þarna á fleygiferð uppi undir lofti lögreglustöðvarinnar!!! Hring eftir hring snerist hann og hversu óskiljanlegt sem það var þá virtist engum þykja neitt sérstaklega athugavert við þetta! Ætlaði fólkið ekki að bjarga manninum niður? Var hann ekki kominn með svima? Hvað var eiginlega í gangi á þessari lögreglustöð?! Seint og um síðir rann upp fyrir mér ljós. Ég lagði saman tvo og tvo og fékk það út að orðið „fan“ getur bæði þýtt aðdándi OG vifta!!!

Ég lét þessa byrjunarörðugleika að sjálfsögðu ekki aftra mér frá frekari glæpasagnalestri og hef verið óþreytandi síðan. Nýlega keypti ég mér eina sænska glæpasgögu (í enskri þýðingu) til að taka með til Stokkhólms og eina spænska glæpasögu (líka í enskri þýðingu) til að taka með til Barcelona. Hver veit nema ég geti lært af þeim einhver ný orð eða óvæntar merkingar þeirra sem ég þekki fyrir!

 

 

5. júní 2005

Einhvern tíma í vor var ákveðið að skiladagur á ritgerð í þessum eina kúrsi sem ég er í, yrði 12. maí. Ég varð alveg ólýsanlega glöð og hugsaði með mér hvað það yrði yndislegt að komast snemma í sumarfrí þetta árið. Í fyrra skilaði ég síðasta verkefninu mínu nefninlega ekki inn fyrr en 6. júní og fannst það heldur seint. Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar að fá sumarfrí næstum mánuði fyrr þetta árið. En viti menn ... ég skilaði þessu verkefni ekki fyrr en í gær! Sko ... fyrst ákvað kennarinn að fresta skiladeginum, svo veiktist ég og varð því sjálf að biðja um frest og svo frestaði kennarinn skiladeginum aftur. Á endanum var skiladagurinn ákveðinn laugardagurinn 4. júní. Þegar til stóð að fresta þessu um enn einn daginn í gær, sagði ég nei! Búin að fá algjört ógeð á þessari ritgerð og hugsaði um það eitt að koma henni út úr húsi sem fyrst þar sem ég hafði af því nokkrar áhyggjur að ég myndi hella bensíni yfir hana og kveikja í, yrði hún í mínum fórum heilan sólarhring í viðbót! Niðurstaðan er því tveimur dögum lengra sumarfrí en í fyrra!

Hvað um það, ég er komin í frí að eins miklu leyti og hægt er að vera í fríi þegar engin einkunn er komin. Næstu daga verð ég sennilega í svona 75% starfi við að fara inn á vefinn til að gá hvort hún sé í höfn! Eeeeen, þegar það gerist þá verð ég loksins, loksins, loksins komin í almennilegt sumarfrí. Þá ætla ég til Stokkhólms og Barcelona, í sund í Vesturbæjarlaugina og hjólreiðaferðir meðfram sjávarsíðunni. Þá ætla ég að liggja í sólbaði í garðinum, rölta í morgunkaffi á Kaffitár og lesa þar einhverja mergjaða glæpasögu meðan ég sötra kaffið mitt! Þá ætla ég sko að hafa það gott!!! Æ, og svo þarf ég víst líka að skrifa eina grein, slatta af lexíkonfærslum og lesa svona eins og átta bækur fyrir mastersritgerðina ... verð að finna tíma fyrir það einhvers staðar milli sólbaða og sundferða!

Ég byrjaði fríið hins vegar á því að gera bragarbót á síðunni. Setti inn nýtt kommentakerfi sem ég vona að virki betur en hið fyrra, og tvö ný albúm sem þið getið skoðað með því að smella á myndirnar hér fyrir neðan.

        

Svo lofaði ég Gunnu Finn að vera dugleg að uppfæra síðuna í sumarfríinu. Ég tileinka þessa færslu henni og Völu ... enda er það í tísku í bloggheimum!!!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar