Júnídagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

29. júní 2004

Nýtt og gamalt.

Ég var að koma heim úr langþráðri sundferð. Hef ekki á heilli mér getað tekið síðan úti í Frakklandi þegar sundþörfin helltist skyndilega yfir mig af miklum krafti. Það var hins vegar ekki fyrr en í dag að ég gat gert alvöru úr hugmyndinni. Það kom að sjálfsögðu ekkert annað til greina en að fara í mína gömlu laug, Vesturbæjarlaug. Fyrstu 20 ár ævi minnar, eða þar um bil, fór ég ekki í neina aðra laug, rámar reyndar óljóst í að hafa verið neydd í Sundhöllina einhvern tíma í frumbernsku og er sú minning sveipuð miklum óhugnaði. Nei, Vesturbæjarlaugin var mín laug allt þar til enginn þótti maður með mönnum nema hanga í Árbæjarlaug í hvert skipti sem minnsti sólargeisli náði að brjótast fram úr skýjaþykkninu ... já og svo tók ungbarnasundið við á enn fjarlægari slóðum! En í dag leitaði ég sem sagt uppi mína gömlu laug. Meðan ég lagði í stæðið fyrir utan áttaði ég mig á að slík reynsla var algjörlega ný af nálinni, ég hef aldrei áður keyrt í Vesturbæjarlaug enda ekki með bílpróf bróðurpartinn af þeim tíma sem þetta var minn sundstaður. Mér brá reyndar líka töluvert í brún þegar ég stormaði með nýja sundbolinn minn, í nýju sundtöskunni upp að gömlu byggingunni. Sömu hurðir og ég ýtti upp hér á árum áður opnuðust nú sjálfkrafa um leið og ég nálgaðist ... tæknin hefur greinilega rutt sér rúms víða! Eftir að hafa keypt mér nýtt sundkort og ný sundgleraugu hélt ég í gamla búningsklefann. Upplifði þar alveg nýja reynslu því í fyrsta skiptið var mér fenginn lykill að skáp í „konuhlutanum“, já og svo hef ég heldur aldrei áður upplifað að afklæðast við hlið einhvers sem er frægur í útlöndum (Peaches ákvað greinilega að skella sér í sund fyrir tónleikana!). Eftir ferð í gömlu sturturnar tók ég nokkrar ferðir í lauginni allt þar til ég kom auga á gamla söngkennarann minn og kórstjórann. Hann var með glænýja ístru! Þá ákvað ég að flýja í pottana sem mér sýndust reyndar enn fullir af sama gamla vatninu og þegar ég var þar síðast fyrir næstum tíu árum!!! Þegar gamli kennarinn tók að nálgast mig þar líka ákvað ég að tími væri kominn til að halda heim. Um leið og ég var komin upp úr helltist yfir mig eldgömlul löngun í eina með öllu ... sem ég lét reyndar ekki eftir mér í þetta sinn! 

Þessi ár sem liðin eru frá því ég fór síðast í sund í Vesturbæjarlaugina gerðu það einhvern veginn að verkum að reynslan var algjörlega ný þó hún byggðist á gömlum grunni. Á leiðinni heim ákvað ég að setja mér glænýtt markmið ... fara í sund í gömlu laugina mína á hverjum degi! Eru kannski einhverjir nýir sundfélagar tilbúnir til að slást í hópinn?!

 

25. júní 2004

Þar sem mér hafa borist fjölmargar (tvær) óskir þess efnis að ég uppfæri síðuna mína hef ég ákveðið að verða við þeim þrátt fyrir að einbeitinguna skorti fullkomlega. Í huga og hjarta er ég stödd í París, nánar tiltekið á litla karókíbarnum við Rue de Faubourg Saint Antoin ... í herbergi nr. 304 á herragarðinum Domain du Tremblay ... á margra alda gömlum steinhellum djúpt í innviðum kjallara Notre Dame ... með öndina í hálsinum í kirkjunni Saint Louis des Invalides ... (andvarp!). Ég stefni að því að setja inn myndir og ferðasögu innan skamms enda engin leið að lýsa þessari ferð í nokkrum orðum. Það verður þó ekki í kvöld því við hjónaleysin ætlum tvö saman út að borða á La Primavera. Eftir að hafa borðað úti í öll mál og sötrað rauðvín með, já, eftir þessa sex hástemmdu daga er algjörlega vonlaust að ætla að setjast niður við borðstofuborðið og slafra í sig grjónagraut! Það verður að trappa sig niður í rólegheitunum eftir svona ferð og kvöldið í kvöld verður liður í því! Þangað til næst segi ég því bara:

Vive la France

Góða helgi!

 

17. júní 2004

Gleðilega þjóðhátíð!

Í morgun þegar ég vaknaði ætlaði ég ekki að trúa mínum eigin augum. Sól og blíða á sjálfan 17. júní?!! Það er of gott til að vera satt! Enda kom í ljós þegar við börnin röltum út til að hlusta á Fjallkonuna og kaupa blöðrur að það er varla stætt fyrir roki! Það verður nú að vera eitthvað!!! Þetta var því bara stutt stopp á Austurvelli hjá okkur og höfum við frekar í hyggju að eiga ótrúlega notalegan dag hér heima við, leika okkur með blöðrur og pakka niður í ferðatösku! Við erum svo boðin í snemmbúna útskriftarveislu til hennar Ingu, vinkonu okkar sem verður með mér að halda tónleika í dómkirkjunni í Orléans á eiginlegum útskriftardegi sínum! Í kvöld skal mér svo takast að fara snemma að sofa enda þarf ég að vakna rétt upp úr fjögur um nóttina til að fara út á flugvöll. Úff hvað ég er orðin spennt! 

Ég setti inn nokkrar nýjar myndir áðan, bæði frá þjóðhátíðardeginum og svo nokkrar frá síðustu viku.

Ég óska ykkur gleðilegs þjóðhátíðardags og vona að þið njótið alls þess sem hann hefur upp á að bjóða þrátt fyrir rokið! Hæ, hó, jibbí jei og allt það!!!

 

16. júní 2004

Spennan eykst ...

Eftir tvo sólarhringa verð ég búin að koma mér þægilega fyrir á herragarði í franskri sveit, búin að sporðrenna fimm rétta kvöldverði á franska vísu með ostum, rauðvíni og tilheyrandi og verð örugglega um það bil að fara yfir um af gleði á einhverri kvöldvöku íklædd fagra sumarkjólnum!!! En þetta er ekki fyrr en eftir heila tvo sólarhringa ... áður en að þessu kemur þarf ég að þvo allt það sem ég ætla að taka með mér út, pakka niður (ekki gleyma kórbúningnum, ekki nótunum og alls ekki gleraugunum!), taka til í íbúðinni, reyna að skemmta Maríu og Huga á sjálfan þjóðhátíðardaginn, fara í útskriftarveislu og eitt og annað smálegt. Ég verð reyndar að hrósa sjálfri mér fyrir ótrúlega þrautsegju í ferðareddingum núna síðustu daga. Þar sem ég á ekki einu sinni klæðnað sem hæfir 15° íslensku sumarveðri, hvað þá 35° franskri hitabylgju, þurfti ég að taka mér á hendur eina stóra og góða Kringluferð í vikunni. Keypti sandala af nokkrum gerðum, sundbol, pils, boli og ýmislegt sem nauðsynlegt er hverri stúlku í langferð. Get ekki annað sagt en að ég hafi verið komin með Kringluveiki á háu stigi eftir þessi fjárútlát og allt þrammið! En afraksturinn var þó sá að ég losna við að vera í svörtum prjónapeysum, svörtum sokkabuxum af þykkustu gerð og svörtum pilsum innan um fáklædda kórfélaga mína!

Á síðustu fjórum dögum hafa verið þrjár æfingar til að undirbúa ferðina. Á sunnudag og mánudag gekk alveg ótrúlega vel, kominn ferðahugur í alla og það skilar sér svo sannarlega í söngnum þegar allir eru kátir og glaðir. Allt gekk upp, líka erfiðu staðirnir og það var einhvern veginn eins og kórinn væri undir heillastjörnu! Í dag var hins vegar eitthvað annað uppi á teningnum! Stemmningin lafði rétt niðri við ökkla og hvert klúðrið rak annað. Skýringin felst kannski í því að það vantaði ansi marga, í það minnsta í minni rödd ... eða kannski er þetta bara alveg dæmigert fyrir lokaæfingu?! Í öllu falli er langt síðan það hefur gengið svona illa og nokkuð ljóst að í staðinn fyrir heillastjörnuna góðu var komið stórt og dimmt þrumuský! En öll él birtir upp um síðir og ég er nokkuð viss um að þegar við verðum öll búin að sötra svolítið kampavín saman í útskriftarveislu á morgun, syngja „Hver á sér fegra föðurland“ og kveðjast með bros á vör og áminningum um að verða nú ekki of sein í rútuna klukkan 5 morguninn (eða nóttina!) eftir ... já, þá er ég viss um að heillastjarnan lætur sjá sig aftur og að við munum svífa á vit ævintýranna með sól í hjarta! Það kemur ekki annað til greina!

Eftir 36 klukkustundir, fjórar þvottavélar, töskupakk, tiltekt, fánaveif, kampavínsdrykkju og allt of stuttan svefn ... verð ég loks komin til Parísar!!!

 

14. júní 2004

Versti kokkur í heimi ...

það er ég! Eins og flestir vita er það Einar sem sér alfarið um eldamennsku á þessu heimili enda er hann listakokkur. Mér var hins vegar ekki gefinn þessi hæfileiki, að elda mat, þrátt fyrir að ég sé ótrúlegur bakarameistari (þó ég segi sjálf frá!). Ég skil í rauninni ekki þessa gloppu í vöggjugjöfunum en staðreyndin er í öllu falli sú að þegar ég reyni að elda mat þá verður hann a) viðbrunninn b) mauksoðinn c) hrár og án undantekninga d) vondur! Þegar ég neyðist til að elda (sem er nú því miður reglulega enda heimiliskokkurinn talsvert oft að vinna um kvöldmatarleytið) þá endar það yfirleitt með því að ég þarf að hringja í Einar í vinnuna til að láta leiðbeina mér með einföldustu atriði. Það hlýtur að vera afar sérstakt að hafa kannski fengið hjartaáfall, þurfa að bruna á bláu ljósunum á spítalann með sjúkrabíl og að neyðarbílslæknirinn um borð svari í hringjandi símann sinn: „Hæ ... já, það er einn bolli af grjónum á móti tveimur af vatni ... þú lætur bara suðuna koma upp og lækkar svo undir og bíður ... æ, ég veit ekki alveg hvað lengi, bara þangað til grjónin eru soðin ... heyrðu, maðurinn er að deyja hérna, ég verð að hætta, þú verður bara að bjarga þessu sjálf ... bless ástin mín, þú ert líf mitt og yndi og hjarta mitt berst í brjósti mínu af ást til þín!“ (æ, ok, hann segir ekki þetta síðasta en smá rómantík sakar engan!!!)  Alla vega ... eftir að ég komst í sumarfrí einsetti ég mér hins vegar að ekki aðeins skyldi ég vera ótrúlega dugleg að elda heldur skyldi ég gera það alveg án þess að vera með Einar í símanum allan tímann. Þetta hef ég staðið við, með misjöfnum árangri. Það var þó stór dagur í mínu kokkalífi á laugardaginn ... þá tókst mér í fyrsta skipti að steikja á pönnu án þess að reykskynjarinn færi í gang!!! Húrra, fyrir pylsugerðarmanninum ... eða grænmetisbuffsteikingarkonunni!!!

 

11. júní 2004

Úr öskunni í eldinn ...

Hafi mér fundist heimsóknin til tannlæknisins slæm þá veit ég ekki alveg hvernig ég á að lýsa magaspegluninni sem ég fór í daginn eftir! Jú, kannski bara á þann veg að það að liggja með valíum í æð inni í Glæsibæ er einhvern veginn eitthvað sem mér finnst að ætti ekki að koma fyrir mig! (Ég er eilíflega minnug þess þegar ég sá einhvern þátt um undirheima Reykjavíkur þar sem lyfjafíkill stökk niður á klósettið í Smáranum til að sprauta sig ... finnst þetta tvennt óneitanlega hljóma eitthvað svipað þó ég hafi að sjálfsögðu verið tilneydd!) En í öllu falli þá veit ég núna að maginn minn er eins og nýsleginn túskildingur og þykir bara almennt með betri mögum á höfðuborgarsvæðinu. Ég hefði reyndar alveg verið til í að sleppa þeim heiðri og losna á móti við valíumið og slönguna í kokinu ... en það er búið og gert! Það eina sem ég hugsaði meðan á þessu stóð var að ég gæti þó alla vega glaðst yfir að sumarfríið myndi fyrst byrja af fullum krafti eftir að þessum hryllingi lyki! Og sumarfríið er byrjað, það er nokkuð ljóst. Í dag er nákvæmlega vika í að farið verði til Frakklands og nú erum við stórfjölskyldan í óðaönn að undirbúa heimsókn til Edinborgar um miðbik sumars! Þetta verður sko sumarfrí í lagi ... það er nokkuð ljóst!

 

9. júní 2004

Ég fór til tannlæknis í dag. Alveg er það deginum ljósara að munnholið var ekki skapað til að þar yrði krukkað með einhverjum hárbeittum vírum og töngum! Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna ég þarf að ganga í gegnum tannsteinshreinsun á sex mánaða fresti þegar til dæmis ljón virðast komast í gegnum allt sitt líf án þess að ganga nokkrum sinnum í gegnum þessa kvöl og pínu ... og þurfa þau þó töluvert meira á tönnunum að halda en ég! Já það er nokkuð ljóst að guð skapaði ekki tannlæknana! Mér er reyndar alls ekkert illa við þá persónulega og þykir minn tannlæknir meira að segja einstaklega elskuleg kona en þessar pyntingaraðferðir hennar vekja hins vegar litla lukku hjá mér! Já, það er starfsgreinin sem slík sem er ekki að dansa!

Bakhtin-ritgerðin virðist hins vegar alveg hafa verið í þvílíkri sveiflu því ég fékk 9 fyrir hana! Þar með hef ég afsannað að öfugt orsakasamhengi sé í þessum draumum mínum! Ég get því hafið sumarfríið af fullum krafti! Frakklandsreisan verður farin eftir aðeins eina viku og tvo daga og ég held að þið trúið ekki hvað ég hlakka til! Þessa örfáu daga þangað til þarf ég hins vegar að nýta  til að rifja upp alla frönskuna sem ég lærði hér á yngri árum. Sérdeilis mikilvægt verður að rifja upp alla nauðsynlega frasa til að verslun geti farið fyrirhafnarlítið fram! „Gæti ég fengið að máta?“ „Est-ce que je pourrais laukur“ ... eða var það kannski „est-ce que je pourrais essayer“?!!!

 

7. júní 2004

Þá er fyrsti formlegi frídagurinn langt kominn. Reyndar mætti alveg deila um hvort ég hafi í raun tekið mér nokkurt almennilegt frí frá skóla- og ritgerðarstússi í dag því ég hef um fátt annað hugsað en þessa blessuðu einkunn sem átti að vera væntanleg strax núna í eftirmiðdaginn. Í nótt dreymdi mig nefninlega að ég hefði fengið níu og ég tel að það geti varla boðað gott. Ég var nefninlega alveg búin að sjá út að ef mann dreymir að maður fái tvo þá fær maður níu! Þetta hef ég sannreynt bæði á mér og Svanhildi. Þess vegna óttast ég að það að dreyma að maður fái níu þýði jafnvel að maður fái bara tvo í raunveruleikanum. Í dag er ég því búin að vera í nánast fullu starfi við að athuga hvort einkunnin sé komin inn. Reyndar tók ég mér örlítið hlé frá þessu mikilvæga starfi þegar við Einar fórum með son okkar á Slysavarðstofuna með fyrsta gatið á höfðinu! Það hlaut að koma að því og bara undarlegt að þetta hafi ekki gerst fyrr miðað við öll hoppin og prílið! Einar eyddi því þessum hálfa frídegi sem hann átti í vinnunni þar sem gatið var límt saman!

Þrátt fyrir að ég fái kannski tvo fyrir ritgerðina fékk ég nú samt verðlaun í gær ... nema hvað!

     

Þessi yndislega bóndarós var að sjálfsögðu mynduð í bak og fyrir! Og talandi um myndir þá skellti ég inn nokkrum nýjum frá helginni. Endilega skoðið ferðina okkar í Grasagarðinn og ýmislegt fleira með því að smella á myndina af þrestinum hér fyrir neðan:

Megi vikan verða sólrík og björt hjá okkur öllum!

 

6. júní 2004

Sumarfrí!!!

Ritgerðin er búin og allar 16 síðurnar hafa verið sendar til kennarans! Ég telst því loksins komin í fyrsta formlega fríið mitt í eitt og hálft ár! Við taka sólbjartir dagar þar sem ég verð á tásunum úti í garði að lesa eitthvað allt annað en skólabækur, prjóna barnaföt og sötra svaladrykki! Á næstu vikum ætla ég að njóta þess að skipuleggja Frakklandsferðina í rólegheitum, fara í sund og rölta um miðbæinn þar sem ég mun reglulega stinga mér inn á kaffihús í þeim tilgangi einum að sækja mér bolla til að taka með út í blíðuna! Í júlí tekur svo við allsherjar sumarfrí Bárugötumanna en þá fá bæði Einar og börnin tímabundna lausn frá spítala og leikskóla. Síðasta sumar voru slíkir frídagar ansi fáir og þá sjaldan þeir áttu sér stað neyddist ég til að reka heimilisföðurinn út með börnin svo ég gæti setið í friði og ró við að semja B.A.-ritgerðina! En í ár verður annað uppi á teningnum. Já, sumarið 2004 verður lengi í manna minnum haft sakir fjölbreyttrar útivistar fjölskyldunnar á Bátugötunni og almennrar gleði hennar! Og hver veit nema þess verði einnig minnst fyrir fyrstu utanlandsferð stórfjölskyldunnar?! 

Elsku vinir og ættingjar, búið ykkur undir endalausar heimsóknir og heimboð frá mér á næstu mánuðum þar sem ég mun úthella gleði minni yfir ykkur... ég er komin í frí!!!!

 

5. júní 2004

Ritgerðin var rétt í þessu að skríða á blaðsíðu 6 af um það bil 15. Það þýðir að ég verð að skrifa töluvert meira í dag en ég gerði í gær því ég má ekki skila henni inn mikið síðar en um hádegisbilið á morgun. Ég er þó ekkert sérstaklega örvæntingarfull, bara alveg að koðna niður úr leiðindum. Þau eru orðin svo djúpstæð að ég er farin að spila Snake II í símanum mínum í tíma og ótíma til þess að þurfa ekki að stara á tölvuskjáinn! Það er náttúrulega merki um að ástandið sé frekar slæmt! Að utan berst ilmur af nýslegnu grasi og fuglasöngur og einhvern veginn langar mig bara miklu meira til að vera úti í góða veðrinu heldur en að hanga hér undir rjáfri að reyna að kreista eitthvað gáfulegt upp úr galtómum huganum. Ég þakka bara fyrir að ég píndi mig til að gera þetta uppkast um daginn og á því eitthvað í handraðanum sem kennarinn hefur lagt blessun sína yfir. 

En ef allt gengur að óskum verð ég komin í langþráð sumarfrí eftir sólarhring eða svo. Það verður þá fyrsta almennilega fríið mitt í næstum því eitt og hálft ár þar sem ég eyddi síðasta sumri í að skrifa B.A.-ritgerðina og jólafríinu í að vinna rannsóknarverkefni svo ég gæti útskrifast! Eftir næstu þrjá mánuði sem verða algjörlega lausir við ritgerðir og verkefni vonast ég til að ég verði orðin alveg ótrúlega spennt að byrja í skólanum aftur og muni því alltaf lesa fyrir tíma næsta haust (mun að sjálfsögðu ekki fara sjaldnar en þrisvar yfir efnið), skila öllum ritgerðum a.m.k. 2 dögum fyrir síðasta skiladag (geri mér líka miklar vonir til þess að þær verði ævinlega 4-5 blaðsíðum lengri en þær eiga að vera) og að kennarinn komist bara ekkert að í tímum þar sem ég verði svo atkvæðamikil og virk (hef eitthvað verið að fá á mig gagnrýni fyrir hið gagnstæða ... en það er nú bara af því að ég blaðra svo mikið í frímínútum að ég er orðin uppgefin þegar kennsla hefst að nýju!). Já ég veit að ég hef sagt þetta áður en ég ætla sko að vera alveg rosalega dugleg í skólanum næsta haust!!! Í sumar hins vegar ætla ég að vera alveg eins löt og mig langar til!!!

 

3. júní 2004

Ég trúi því varla að það sé komið fram í júní og að enn sitji ég með stafla af bókum í kringum mig, áherslutúss í hönd, tölvuskjáinn auðan fyrir framan mig og eyðimerkurrunna rúllandi um galtóman hugann!!! Einhvern veginn minnti mig að háskólanemar væru vanalega að komast í sumarfrí um miðjan maí, jafnvel löngu fyrr!!! Ég veit líka ekki alveg hvort ég á fremur að þakka fyrir að þetta verði þó búið eftir aðeins þrjá daga eða skelfast yfir tilhugsuninni. Ég á jú, ansi margt eftir að gera á þessum þremur dögum! Og þegar tekið er tillit til þess að helstu ráðamenn þjóðarinnar eru önnum kafnir við að skrifa sögubækur framtíðarinnar þá er ekki nema von að örvænting hellist yfir mann. Ég hef engan tíma til að skrifa ritgerð þegar það er nánast  fullt starf að fylgjast með fréttunum! Ég óska eftir því að þingmenn gefi sér góðan tíma til að liggja undir feldi næstu daga svo ég geti lokið við þetta verkefni áður en hasarinn heldur áfram!!!

Það er að sjálfsögðu ýmislegt annað sem glepur hugann svona á lokaspretti annarinnar. Eins og flestir þekkja verður maður alveg gríðarlega upptekinn af öllum þeim hlutum sem maður ekki nær að gera þegar mikið er um að vera í skólanum. Milli þess sem ég sit og reyni að berja einhverjar örfáar staðreyndir um Bakhtin og Kristevu inn í kollinn á mér, geri ég því langan lista yfir allt það sem ég ætla að ástunda eftir næstu helgi! Ég ímynda mér einhvern veginn að í sumar muni ég fara á fætur klukkan sjö, ná að fara í sund fyrir morgunmat, prjóna svo og renna í gegnum heimsbókmenntirnar fram að hádegi en þá taki við að mála veggi heimilisins, flísaleggja og lakka gólflista. Þegar því er svo lokið tel ég nokkuð víst að ég muni skella mér í Esjugöngu áður en ég sæki krakkana á leikskólann og eftir kvöldmat muni ég svo setjast niður og vinna eins og tvær eða þrjár greinar til að birta í blöðum og tímaritum um allan heim! Er það ekki alveg raunhæft?! 

 

2. júní 2004

Brunaheld náttföt!

Nú er júní loksins kominn og því styttist allverulega í Frakkklandsferð Mótettukórsins. Eins og allir vita er best að byrja að undirbúa ferðalög í tæka tíð og því þarf ég að huga að ýmsu á næstu tveimur vikum eða svo. Til dæmis eyðilagði ég „útlanda-sandalana“ á Strikinu í Kaupmannahöfn í fyrra og þarf því að fjárfesta í nýjum. Ég þarf líka að fara með hvítu kápuna í hreinsun og láta festa tölu á hana aftur. Eitt er þó það í undirbúningnum sem ekki má klikka og það eru brunaheldu náttfötin. Ævintýraleg nótt með kórnum í Kanada sumarið 2001varð þess nefninlega valdandi að ég mun aldrei klæðast öðru en glæsifatnaði þegar lagst er til hvílu á hóteli erlendis!

Forsaga málsins er sú að í Kanadaferðinni góðu var meðal annars gist í Toronto í tvær nætur. Eftir frábæran kvöldverð í CN Tower og svolítið bæjarrölt var haldið heim á hótelið sem var vel staðsett í hjarta miðborgarinnar. Ætlunin var að ná góðri hvíld um nóttina svo menn væru þess albúnir að skoða borgina dásamlegu daginn eftir og syngja tónleika þar um kvöldið. Við komuna til Kanada, nokkrum dögum áður, hafði ég því miður uppgötvað að í undirbúningi mínum fyrir ferðina hafði ýmsu verið ábótavant, meðal annars hafði mér láðst að pakka niður náttfötum. Þetta kvöld í Toronto neyddist ég því til að leggjast til hvílu í slitnum teygjubuxum og gömlum bol af Evu herbergisfélaga. Við stallsystur vorum rétt nýbúnar að festa svefn þegar brunabjöllur hótelsins tóku að glymja óstjórnlega hátt og vöktu okkur með andfælum. Þarna uppi á sjöundu hæð hótelsins tóku náttklæddir gestir að tínast fram á gang með undrunarsvip. Enginn vissi hvaðan á sig stóð veðrið og fólk tvísté því í herbergisdyrunum í spurn. Það var ekki fyrr en ungur maður hljóp fram hjá og æpti að okkur „There is a fire!“ að óttanum laust niður. Við Eva snöruðumst inn í herbergi, ég klæddi mig í skó og greip með mér töskuna og svo hlupum við af stað. Á leiðinni niður stigann (því það er jú bannað að taka lyftur í brunaútköllum eins og allir vita) efaðist ég þó stórlega um að einhver væri eldurinn enda ekkert að sjá né heyra því til sönnunar annað en skerandi bjölluóminn. Alveg þangað til brunastiginn tók enda og hersingin steig inn á aðra hæð hótelsins ... þar var loftið hins vegar fullt af sótsvörtum reyk og varla þverfótað fyrir flýjandi fólki! Í gegnum mökkinn þurftu þó allir að vaða til að komast niður um eina hæð, þvert yfir anddyrið og út! Og þarna stóð ég um hánótt, úti á götu í miðborg Toronto, þessarar miklu tískuborgar, á þeim allra ömurlegustu náttfötum sem um getur síðan á víkingaöld!!! Niðurlægingin var algjör, sérstaklega þegar áhorfendur tók að drífa að auk slökkviliðsins og lögreglunnar sem þar voru fyrir!!! Af eldinum hafði ég minni áhyggjur! Það varð mér til happs að hótelgestir voru auðvitað í misjöfnu ástandi, sumir höfðu greinilega gefið sér tíma til að klæðast, flokka farangurinn, brjóta saman og pakka, meðan aðrir stóðu berfættir og klæðalitlir í nætursvalanum. Þrátt fyrir það lít ég á þessa nótt sem ein af mínum allra stærstu tískumistökum og falla náttfötin án efa í flokk með rauða gallajakkanum með gígantísku axlapúðunum og tjullpilsinu! Það skal hins vegar tekið fram að ekki tók langa stund að slökkva eldinn og hótelgestir komust því að endingu aftur inn á herbergi sín og sváfu sæmilega rótt þrátt fyrir stöku gelt í bjöllunni góðu! Daginn eftir fór ég svo að sjálfsögðu beinustu leið í stærstu verslunarmiðstöð borgarinnar og fjárfesti í bleikum glæsináttfötum með pífu!!!

Þessi leikur verður hins vegar ekki endurtekinn í Frakkklandi. Ef til brunaútkalls kemur mun ég rigsa út í þeim allra lekkerustu náttfötum sem sést hafa í þessari háborg tískunnar! Fyrir nokkru fjárfesti ég í Calvin Klein náttbuxum og hef í hyggju að kaupa náttföt til skiptanna ... svona ef það skyldi kvikna í tvisvar á þessum sex dögum ... maður lætur náttúrulega aldrei sjá sig í sama dressinu aftur!!! Spurning um að kaupa líka háhælaða inniskó með fjaðraskúf?!!

p.s. Nýjar myndir!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar