Júnídagbók 2003

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. júní 2003

Þessi mánudagur að kveldi kominn og búinn að vera að mestu leyti internetlaus á þessum bænum. Sendum báðar tölvurnar okkar til tölvulæknis í morgun sem gerði aðgerð á þeim og nú erum við s.s. komin með þráðlaust net á báðar tölvurnar. Já, það tókst að lokum! En björninn er ekki unninn! Ó, nei, nú á eftir að setja allt upp, flytja gögn milli talva og ýmsilegt annað. Ég skil ekki núna hvernig mér datt einhvern tíman í hug að það yrði „miklu þægilegra“ að vera með tvær tölvur á heimilinu. Einar sér nú um að koma þessu á koppinn. Ég held að ég sé honum til töluverðra ama í því ferli þar sem ég verð alveg sjúklega stressuð og svartsýn undir svona kringumstæðum. Ég vil aldrei breyta neinu, ENGU, þannig að aumingja Einar þarf að setja tölvuna mína nýju upp nákvæmlega eins og gamla jálkinn, með kostum og göllum. Ég veit ekki alveg af hverju ég læt svona því að vissu leyti er ég líka mjög nýjungagjörn, en þegar kemur að tækni og þá sérstaklega tölvum hlýt ég að vera íhaldsamasta manneskja í heimi. Hefði umhverfið ekki neytt mig út í breytingar í þeim efnum (sem ég er í dag einstaklega ánægð með) væri ég sennilega enn að þrjóskast með bleiku og gráu ritvélina sem keypt var handa mér dýrum dómum fyrir vélritunarkennslu í Hagaskóla!!! En sem sagt stendur þetta allt til bóta og vonandi get ég sem allra fyrst uppfært þessa síðu mína beint úr nýju tölvunni. Verður örugglega allt miklu flottara þá og ég skrifa örugglega miklu skemmtilegri færslur!!!

 

29. júní 2003

Þá er helgin komin á lokasprettinn! Æ, mér finnast sunnudagskvöld alltaf hálfsorgleg. Ég er alltaf uppfull af hugmyndum um eitthvað stórkostlegt sem ég ætlaði að gera þessa helgi en náði ekki. Ekki það, ég kann afskaplega vel við virku dagana líka og hef það ótrúleg gott í rólegheitunum sem þeim fylgja. Já, ég er sko ekki illa sett! Framundan er vinnutörn í rigerðinni. Ég er að vakna upp við þann vonda draum að einungis einn dagur er eftir af júní og því nálgast óðfluga að ég þurfi að skila inn fullbúnu B.A. verkefni...en ég hef einmitt ekki sett stakt orð á blað. Er reyndar búin með fyrstu yfirferð í gegnum þýðinguna sem er stærsti hluti ritgerðarinnar, en ég á eftir að fá hana til baka frá leiðbeinandanum og veit því í raun ekkert hve mikil vinna er eftir í kringum hana. Já, ég get með sanni sagt að ég sé farin að fá hland fyrir hjartað vegna þessarar ritgerðar og því ekki neitt annað í stöðunni en að spýta í lófana. Eftir næstu viku byrjar María í sumarfríi frá leikskóla og Einar verður í fríi í eina viku þá og svo aftur í lok júlí og byrjun ágúst. Þá verður hér standandi helgi og ég get því lagst til svefns núna með gleði í hjarta því allir þeir stórkostlegu viðburðir sem ekki náðust þessa helgi komast bara til framkvæmda þá!!!

 

28. júní 2003

„Það verður að sprengja þetta upp með vítamíni!“

...sagði María í morgun niðursokkin í leik. Hún hefur nú vafalaust átt við dýnamít en þetta er kannski góð hugmynd? Alla vega eru margir sem hafa trölltrú á inntöku alls kyns vítamína og bætiefna! Það allra skemmtilegasta við helgarnar er einmitt þetta, að fá að sitja og ráða krossgátuna með kaffibollann í hönd meðan börnin vappa í kringum mann, leika sér og bulla!

Helgin er hálfnuð, hvernig stendur á því að þetta líður alltaf svona hratt? Kannski af því að við eyddum deginum að mestu í eitthvað fúlt tölvustúss og búðarráp! Í þetta sinn komum við börnunum í örugga höfn hjá ömmu á Bakkastöðum áður en milljónasta tilraun var gerð til að fá adsl tengingu í nýju tölvuna...tókst ekki, frekar en fyrri daginn! Nei, nú stendur til að þetta komist allt á hreint á mánudaginn, en ég er nú alveg hætt að treysta á nokkuð í þessu sambandi, vona þó auðvitað það besta! Svo þurfti að kaupa inn og við nýttum okkur pössun barnanna í það líka. Þó það sé auðvitað alveg dásamlegt að vera með Maríu og Huga verða einföldustu hlutir samt flóknir þegar þau eru með og því ágætt að komast einu sinni í Bónus án þess að þurfa að hlaupa á eftir Huga eða að hlusta á Maríu öskra af sárri móðgun þegar við bönnum henni að kaupa allt sem hana langar í!!! Mér finnst líka að það geti verið ansi skemmtilegt og jafnvel pínu rómantískt að gera hversdagslegu hlutina tvö saman, þarf ekkert alltaf að vera á einhverjum veitingastað eða við kertaljós til að skapa rómantík. Sjálfir finnst mér alla vega mun rómantískara að skellihlæja saman að því hvað við séum miklir aular í tölvumálum eða að ræða lífsins gagn og nauðsynjar innan um þvottaefni í Bónus! Ekki veit ég hver það var sem tókst að fá meirihluta íbúa á Vesturlöndum til að trúa því að kertaljós, jarðaber og freyðivín væru nauðsynlegir hlutir til að skapa rómantíska stemmningu...en sá hinn sami hlýtur að vera eftirlýstur af Klisjulögreglunni!!! Og hananú!!!

 

27. júní 2003

Hér kemur enn ein færslan í þessa ágætu dagbók mína. Þið lesendur góðir hafið kannski velt því fyrir ykkur hvernig hin önnum kafna, upptekna, tveggja barna móðir hafi tíma í að sinna svona netvafstri! Ef svo er þá kemur svarið hér:

Helgarfrí framundan, það finnst mér alltaf svo skemmtilegt þó ég persónulega fari svo sem ekki í frí frá neinu. En það er auðvitað gaman að hafa Einar og Maríu heima, ég verð nefninlega alltaf hálfgrátklökk þegar þau fara á morgnana og finnst svo leiðinlegt að þau geti ekki bara líka verið heima með okkur Huga að hafa það huggulegt! En sem betur fer getum við gert það tvo daga vikunnar, sem betur fer!!!

En þar sem við Hugi erum bara tvö saman fimm daga vikunnar bregðum við oft á það ráð að skella okkur í gönguferð um bæinn til að lyfta okkur upp. Á þessu miðbæjarrölti okkar rekst ég oft á unglingahópa og eins og allir sem komnir eru yfir tvítugt velti ég því fyrir mér af hverju í ósköpunum börnin þurfi öll að vera í nákvæmlega eins fötum. En þá verður mér jafnan hugsað til sumarsins sem við Svanhildur vorum 13 ára. Þá áttum við báðar rauða gallajakka, mynstraða krossboli úr 17, Big Star gallabuxur úr sömu búð og Converse strigaskó. Að auki vorum við svo báðar með ríkulegan skammt af Colors ilmvatninu! Það var hins vegar langt því frá að við værum eins...að því er okkur fannst! Rauðu gallajakkarnir voru nefninlega ekki keyptir í sömu búð, krossbolirnir voru sinn með hvoru blómamynstrinu, Big Star gallabuxurnar ekki af nákvæmlega sömu gerð og Converse strigaskórnir ekki í sama lit (mig minnir að mínir hafi verið svartir en Svanhildur átt rauða)! Nei, við töldum okkur sko ekki hafa fallið í sömu gryfju og mörg önnur vinkvennapör í kringum okkur sem voru eins klæddar! En þegar ég horfi á unglingana í dag sé ég auðvitað það sanna í málinu. Svanhildur mín, við vorum án efa miklar pæjur...en við vorum eins og eineggja tvíburar!!!!!!

 

26. júní 2003

Langt liðið á góðan fimmtudag. Ég plataði Jódís til að koma í heimsókn til mín í hádeginu og koma við á Deli og kaupa pastasalat handa okkur. Mmmmm! Við röltum svo aðeins í bæinn þegar Hugi var vaknaður og hittum þar alveg fullt af fólki enda veðrið ótrúlega gott. Eftir að við komum heim gerðum við Einar svo tilraun til að græja þessi tölvumál. Þetta er svo óendanlega flókið allt og að reyna að setja sig inn í það með bæði börnin (Hugi vildi bara hlaupa út og í veg fyrir bíla en María var alveg að tapa sér af löngun í rúgbrauð og gat bara ekki á heilli sér tekið þarna inni) er bara ómögulegt og maður verður bilaður á svona 3 mínútum og 17 sekúndum! Engin lausn því komin enn en við teljum (í fimmta skipti!!!) að nú séum við búin að fá þetta á hreint og getum græjað þetta á morgun!!!

Og í kvöld erum við Einar að fara út að borða, bara tvö! Ekkert voða fínt, bara á Hornið en það er alltaf svo notalegt! Við erum svona aðeins að byrja að fatta að við getum gert eitthvað án barnanna! Erum orðin svo ótrúlega vön þeirri tilhugsun að geta ekkert gert að maður hefur eiginlega ekki hugmyndaflug orðið í svona „flipp“ eins og að skella sér á Hornið í pizzu eða fara í bíó! Ég hlakka alveg ótrúlega til og nokkuð ljós hvað ég ætla að fá mér...alltaf það sama...ostapizzu með rifsberjahlaupi!!! Og hver veit nema við fáum okkur kaldan öl í tilefni dagsins!

Og í dag er akkúrat mánuður þangað til ég fer í heimsóknina til Svanhildar, Sigurðar og Ástþórs Arnar! Mikið verður það yndislegt. Ég heimsótti þau líka í lok nóvember og það verður gaman að sjá Birkeröd í sumarbúning í þetta sinn. Íbúðin þeirra er ótrúlega kósí þó hún sé lítil og þar munum við án efa hafa það gott vinkonurnar, sötra kaffi, spjalla og leika við Ástþór litla. Sigurður Ágúst verður nú kannski upptekinn við vinnu við mastersverkefnið en ég vona að hann gefi sér tíma í að þiggja af mér nokkra kalda í góða veðrinu sem við erum að sjálfsögðu búin að panta!!! 

 

25. júní 2003

Ég fékk nýja tölvu í gær! Búið að standa til í nokkurn tíma að ég fengi fartölvu til að nota í ritgerðarskrifum og svo í skólanum næsta haust. Komst svolítið upp á lagið með það í fyrra að nota tölvuna meira í náminu og fannst það mikill munur. Og nú er ég sem sagt stoltur tölvueigandi! Hún er reyndar ekki alveg komin í gagnið enn, er t.d. ekki nettengd og meðan það varir finnst mér varla taka því að kveikja á henni! En eitt fannst mér dálítið skrýtið, þegar við vorum að setja stýrikerfið upp í gær var ég beðin um að skíra tölvuna! Hún heitir sem sagt Björn, kjarngott og íslenstk nafn á væntanlega traustan ferðafélaga!!! Þetta verður svo vonandi gott spark í rassinn á mér að fara að vera duglegri við þessa margumtöluðu ritgerð!

Ég veit annars að það er sjúklegt en það eru svona þrjár vikur síðan ég byrjaði að hlakka til jólanna!!! Einu sinni var ég bara eins og klukka og þegar 1. ágúst rann upp þá byrjaði ég að hugsa um jólaseríur, jólatré, jólagjafir o.s.frv. Undanfarin tvö ár hefur þetta hins vegar færst fram til u.þ.b. 1. júní! Ég var nú frekar að vona að þessu seinkaði svona með aldrinum enda kannski hálfhallærislegt þegar ég, mamman, er farin að æsa jólastemmninguna upp í Maríu í byrjun sumars! Ég reyni því eins og ég get að bæla þetta niður svona fram í nóvember en þá verður líka algjör sprengja! Sem betur fer kemur þetta ekki heldur í veg fyrir að ég njóti líðandi stundar og auðvitað finnst mér sumrið alveg yndislegt og vil hafa það sem lengst!

Og ég gleymdi líka alltaf að segja að Harry Potter er löngu búinn að skila sér til mín...á 50% afslætti meira að segja!!! Hann þarf hins vegar að bíða þolinmóður þangað til ég er búin með Murakami bókina. Svo þegar ég sá þennan doðrant þá fannst mér líka allt í einu að ég þyrfti svo ægilega mikið að rifja upp allt sem gerðist í fyrri bókunum fjórum áður en ég legði í þessa. Ég er nú búin að lesa þær allar tvisvar en bruna kannski í gegnum síðustu blaðsíðurnar í Eldbikarnum áður en ég tek til við þessa nýju! Ótrúlega spennandi! 

En núna ætla ég hins vegar að skreppa í þvottahúsið! Góðar stundir!

 

24. júní 2003

Talvan okkar er komin í verkfall!!! Það er bara fyrir einhverja guðlega forsjón að hún leyfir mér að skrifa þessi orð! Við getum vonandi gert einhverja bragarbót á þessu í dag en ef ekkert nýtt verður fært inn á síðuna okkar á næstu dögum er það væntanlega ekki vegna leti í heimilisfólki heldur verkfalli tölvu!!!

Ég var víst búin að lofa að hætta öllu kórtali en get ekki staðið við það, það var nefninlega miðnæturmessa í gær á Jónsmessu! Það var mjög gaman, reyndar eitthvað skolast til upplýsingar um klæðnað þannig að sumir voru í kórbúning, aðrir í messufötum og einhverjir bara í hversdagsfötum. En það gerir þetta nú bara lifandi! Tónlistarmaðurinn KK söng þarna tvö lög sem voru alveg frábær...hann hefur eignast a.m.k. einn nýjan aðdáanda eftir þetta kvöld! Annars hef ég eiginlega aldrei getað hugsað um þann mann kinnroðalaust undanfarin ár eftir litla neyðarlega uppákomu sem ég óviljandi tók þátt í á menntaskólaárunum! Það var nefninlega strákur með okkur í MR sem gekk undir sama nafni, þ.e.a.s. KK! Hann hafði við þriðja mann staðið fyrir einhverju uppistandi á árshátíð skólans og þótti standa sig vel. Markús fyrrum MR-ingur og þáverandi þáttastjórnandi í unglingamagasíninu Ó hafði einhvern áhuga á að fá kappann til að koma í þáttinn og hringdi í mig á Herranæturæfingu í Tjarnarbíó til að vita hvort ég gæti útvegað símanúmerið hjá manninum. Ég var hins vegar ekki með neina Sveinbjörgu (símaskrá MR-inga) og taldi því að það væri útilokað að ég gæti útvegað þetta númer. Markús var hins vegar eitthvað svo spældur að ég ákvað að kanna hvort einhver af samstarfsmönnum mínum í Herranótt væri vinur umrædds KK og kynni símanúmerið utan að. Reyndar var ég frekar vondauf um árangur því ég mundi ekki eftir neinum sem væri góður vinur hans en lét slag standa og kallaði yfir hópinn hvort einhver vissi símanúmerið hjá honum KK! Okkur Markúsi, sem enn beið á línunni, til mikillar gleði stökk ein stúlkan upp úr sæti sínu og sagðist nú heldur betur vita það og umrætt númer var góðfúslega veitt! Nú hafa sjálfsagt flestir lesendur gert sér grein fyrir hvernig sagan endar! Markús hringdi sem sagt aftur í mig 15 mínútum seinna heldur skömmustulegur þar sem hann hafði eftir langt samtal áttað sig á að hann var að biðja gítarhetjuna og landsþekkta söngvarann KK um að koma og vera með „stand up“ í unglingaþætt í sjónvarpinu! Það hafði gert hlutina enn flóknari að söngvarinn er örugglega oft beðinn um að koma fram í sjónvarpi sem og á öðrum uppákomum og hafði því ekkert kveikt strax á perunni að um misskilning væri að ræða þó bónin hafi verið undarleg! Já, við vorum frekar skömmustuleg eftir þetta! Upp úr dúrnum kom svo að Lína, sú sem hafði veitt símanúmerið góða, var vinkona dóttur KK og kunni símanúmerið því að sjálfsögðu utanað! Undarlegast fannst mér þó að henni dytti virkilega í hug að ég væri upp á von og óvon að kanna hvort einhver í hóp menntaskólakrakka vissi símanúmerið hjá landsþekktum einstaklingi! Bara svona eins og ég hefði hrópað hvort einhver vissi kannski númerið hjá Björku, forsetanum eða einhverjum öðrum frægum!!! En alla vega, ég ákvað eftir gærkvöldið að ég yrði að komast yfir þessa gömlu skömm og fara að gefa meiri gaum að þessum frábæra tónlistarmanni!

Við fengum tölvuglaðning frá fjölskyldunni á hæðinni fyrir neðan í gær. Þau höfðu tekið nokkrar stafrænar myndir af krökkunum úti að leika á digital vél sem er þúsund sinnum betri en gamla skrímslið okkar! Smellið bara á myndina hér fyrir neðan ef þið viljið sjá fleiri myndir!

Annars er það helst af mér að frétta að ég keypti mér farseðil til Kaupmannahafnar í gær! Það var svo ansi ódýrt að ég ákvað að skella mér í heimsókn til Svanhildar og fjölskyldu í lok júlí! Það verður sko gaman, ég sé okkur alveg fyrir mér sitjandi við Jægerhytten að sötra öl meðan maríuhænurnar sveima í kringum okkur (Svanhildur er reyndar með ofnæmi fyrir humlum en henni verður boðið upp á gosglas að eigin vali!) Svo væri gaman að ná aðeins að hitta á hana Matthildi litlu, stóru systur hennar og foreldra! Sjáum til hvort það næst ekki líka! Ég hlakka óstjórnlega til og er búin að hengja upp Tivolikort við skrifborðið til að minna mig á gleðina sem er framundan og hvetja mig þannig áfram í ritgerðarskrifum! Maður þarf alltaf að hafa einhverja gulrót! Og talandi um það, þá er best að glugga aðeins í bækurnar meðan Hugi hefur enn þolinmæði í að horfa á Stubbaspólu!

 

 

23. júní 2003

Fram, fram, aldrei að vita.

Fram, fram, bæði menn og fjós.

Já, það er aldrei að vita nema skáldið hafi einmitt ætlað að hafa textan við „Öxar við ána“ svona en þetta eitthvað skolast til í útgáfu. Alla vega syngur María lagið svona! Eitthvað búið að vera að æfa þjóðlögin í leikskólanum, bæði fyrir 17. júní og svo væntanlega fyrir sumarhátíðina sem verður á Drafnarborg í dag. Við Einar og Hugi förum þangað í hádeginu og tökum þátt í skrúðgöngu og pylsuveislu. Það verður án efa mjög skemmtilegt. Svo á ég von á Hönnu vinkonu minni eftir hádegið. Búið að standa lengi til að hitta hana og ég hlakka óskaplega til.

Mér finnst svo að mér beri skylda til að láta vita hér að ég lagði ekki í þriðja bindið af Kristínu Lafranzdóttur eftir allt saman. En ég skal, skal, skal samt lesa það í sumar...bara aðeins seinna! After the Quake eftir Haruki Murakami var á endanum svo freistandi að ég varð að byrja á henni. Hann er líka án efa uppáhaldsrithöfundurinn minn og þegar ég sá að hann ætti að koma hingað til lands á bókmenntahátíð (í haust minnir mig) þá fékk ég  bara í hnén og leið örugglega eins og mörgum sem eiga vona á að Justin Timberlake haldi tónleika í heimaborg þeirra!!! Kannski verð ég úti í sal þegar Haruki Murakami talar og byrja að öskra stjórnlaust og svo líður yfir mig og þarf að bera mig út!!! Einhvern veginn finnst mér þessi gamla Bítlaæðisstemmning alltaf svo heillandi og langar til að upplifa svoleiðis. Ég get kannski snúið þessari bókmenntahátíð upp í eitthvað svipað!

 

22. júní 2003

Það sem af er þessari helgi hefur verið alveg frábært hjá okkur! Ég kíkti í búðina til Rögnu í gær og keypti af henni hvorki meira né minna en tvo sumarlega boli! Ég er nýlega búin að ákveða að framfylgja ströngu sirkúsþema í fatavali og innanhússskreytingum í sumar og bolirnir falla vel inn í það. Í gærkvöldi var okkur boðið í grillveislu til fatahönnuðarins að Lundi í Kópavogi sem var einstaklega vel heppnuð. Myndir úr henni hér! Eftir að þeim gleðskap lauk skellti ég mér svo í útskriftarveislu til hennar Evu og fagnaði aðeins með henni. Veðrið var eins og best verður á kosið og þegar ég labbaði heim í gegnum Grjótaþorpið upp úr miðnætti var gleðskapur í hverju húsi og víða sat fólk í görðunum, sötraði vín og hlustaði á góða tónlist! Gleðin var svo sannarlega við völd...framan af kvöldi! Eitthvað annað var þó uppi á teningnum þegar ég vaknaði upp af værum svefni við að ungur maður úti á götu öskraði í símann sinn: „Þú sagðist vera hætt með mér og skelltir svo á mig“! Þetta öskraði hann svona 37 sinnum og hærra og hærra í hvert skiptið! Þá tók við ný setning: „Erum við hætt saman eða ekki“! Það var öskrað álíka oft og álíka hátt! Veit ekki hvort honum hefur fundist nauðsynlegt að allir íbúar Bárugötu, Ránargötu, Öldugötu, Stýrimannastígs og Bræðraborgarstígs tækju þátt í símtalinu en sú var alla vega raunin! Við Einar vorum nú bara farin að skellihlæja með stýrurnar í augunum uppi í rúmi! En einmitt þegar ég var alvarlega að hugsa um að hlaupa út á náttfötunum og brjóta þennan síma þá varð allt hljótt! Veit ekki hvort það hefur verið hún Helga (en það hét þessi grimma kannski-fyrrum-kærasta) sem gafst upp og skellti á eða hvort hinn ungi og háværi maður hefur allt í einu áttað sig á að spilið væri búið milli sín og Helgu! Við íbúarnir vorum hins vegar svefninum fegnir!

Nú erum við fjölskyldan á leið í pönnukökuhádegisverð til mömmu minnar! Mamma bakar án efa bestu pönnukökur í heimi og ekki spillir fyrir að neyta þeirra meðan maður nýtur dásamlegs útsýnis á Bakkastöðum!

Ég vona að allir eigi notalegan sunnudag!

 

21. júní 2003

Í dag á hún Snædís vinkona okkar fjögurra ára afmæli. Til hamingju!!!

Við á Bárugötunni byrjuðum hins vegar daginn líkt og um afmælisdag væri að ræða. Í gærkvöldi kom nefninlega pósturinn með sendingu til okkar frá Svanhildi vinkonu í Danmörku. Þar sem börnin voru sofnuð urðum við að bíða morgunsins en þau urðu auðvitað afskaplega glöð og hissa að koma fram í morgun og fá bara pakka. María fékk bol og smá svona skvísudót (hárteygjur, spennur, armbönd) og Hugi fékk súperman nærföt. Ég fékk kort, sápu og mynd af litla vini mínum honum Ástþóri Erni. Takk fyrir okkur elsku Svanhildur mín. 

Hér er María í nýja bolnum, með nýju spennurnar í hárinu og með fínu armböndin. Reyndar finnast henni þessi „gimsteina“ armbönd svo flott að nú vill hún helst losna við gamla gullarmbandið sem hún fékk í skírnargjöf og hefur borið síðan. Ég er ekki alveg á sama máli!

Og hér er Ofur-Hugi í nýju nærfötunum, alveg ótrúlega gæjalegur. Þetta er kannski ekki besta myndin en það er alveg ótrúlegt hvað það getur verið erfitt að ná af honum mynd og þá sérstaklega svona í morgunsárið þegar orkan er enn í hámarki og hann getur ómögulega verið kyrr í eina sekúndu!

Pakkarnir frá Svanhildi komu á hárréttum tíma því ég er búin að vera í nettu þunglyndiskasti eftir úrslitaþátt American Idol í gær! Minn maður, Clay Aiken, vann EKKI! Ég er ótrúlega sár út í amerísku þjóðina! Ekki það að mér finnst Ruben Studdard vel að titlinum komin en ég meina, ég hélt með Clay og það er ekkert bara hægt að skipta! Ég veit svo sem að framtíð beggja er björt, náttúrulega báðir orðnir heimsfrægir og með örugga plötusamninga...en það er samt skemmtilegra að vinna....og skemmtilegra að vera í vinningsliðinu, en það var ég einmitt ekki í gær! Einar var það hins vegar sem jók að sjálfsögðu á vonbrigði mín!

Já, og nú eru sjálfsagt einhverjir komnir með vökustaura eftir að hafa setið uppi í nótt við að lesa fimmtu Harry Potter bókina! Í gær þegar við Hugi röltum eftir Laugaveginum um eftirmiðdaginn voru nokkrar hressar nornir búnar að koma sér fyrir framan við Mál og menningu til að vera fyrstar í röðinni þegar búðin opnaði um nóttina! Búið að stilla upp öllu Harry Potter dóti sem er til í búðinni og skilti í glugganum sem taldi niður tímana þar til bókin kæmi út! Mig langaði nú pínu til að slást í hópinn enda mikið fyrir svona stemmningu. En ég ákvað að bíða bara þolinmóð þar til pósturinn kemur með mitt eintak og okrar svo sjálfsagt eitthvað á tollinum!

Í dag eru svo þessi hefðbundnu helgarverk framundan, tiltekt og krossgátan (sem hefur gengið afskaplega illa það sem af er morgni, vitið þið t.d. um eitthvað orð sem byrjar á „AA“ og nei, A.A. samtökin passa ekki!!!). Svo ætla ég að skella mér í heimsókn til hennar Rögnu vinkonu á eftir. Hver veit nema ég versli eitthvað af henni í leiðinni!? Í kvöld fer ég svo í útskriftarveislu til hennar Evu vinkonu sem má eftir daginn í dag, að því mér skilst, titla sig sálfræðing! Til hamingju elsku Eva!

Ég vona að þið eigið öll góða helgi framundan!

 

20. júní 2003

Enn einn föstudagurinn runninn upp og enn ein helgin framundan. Sem er auðvitað ekki annað en gott mál!

Ég hringdi í Þórunni systur til Berlínar í morgun. Maður er enn eitthvað svo fastur í þeim hugsunarhætti að það sé ógjörningur að hringja til útlanda þar sem það sé svo dýrt. En engum virðist hins vegar finnast það tiltökumál að hringja í eða láta hringja í sig í gsm síma oft á dag þó það kosti örugglega næstum því jafnmikið. Ég ákvað sem sagt að gera bragarbót þar á og hringja í systur mína a.m.k. einu sinni á meðan Berlínardvöl hennar varir. Það var líka hverrar krónu virði, gaman að spjalla við hana og fá fréttir af söngnámi og öðru. Takk fyrir samtalið, elsku systir.

Svo skelltum við Einar okkur með Huga til læknis skömmu fyrir hádegið. Ekkert alvarlegt, bara verið að kíkja í þessu sætu eyru sem eru eilíflega með einhver uppsteyt! Annað eyrað lítur sem sagt ekkert allt of vel út en lækninum fannst rétt að sjá hvort það gæti hreinsast upp yfir sumarið, sem er hið besta mál. Mér finnst algjör óþarfi að vera að setja upp rör nema það sé algjör nauðsyn. Við þrjú skelltum okkur svo á Súfistann og fengum okkur hádegismat og kaffi áður en Einar hélt aftur á vit ævintýranna í Efstaleitinu. Mér finnst svo ótrúlega gaman að hitta Einar í hádeginu og sérstaklega ef við förum örstutt á kaffihús eða eitthvað. Lyftir deginum einhvern veginn upp á æðra plan! Svo er líka svo þægilegt að núna þegar Hugi er að leggja sig þá er ég komin í fötin (sem ég verð því miður að játa að er ekkert alltaf staðreyndin á þessum tíma dags ef ekkert rekur á eftir okkur!!!) og búin að borða þannig að ég hef ekkert annað að gera meðan drengurinn sefur en að velja milli þess hvort ég vil læra, taka til, fara í þvottahúsið eða bara hengslast í tölvunni eða við að prjóna! Í dag er ég að hugsa um að velja tvo af möguleikunum, fara bæði í þvottahúsið og læra!

Góða helgi!

 

19. júní 2003

Kvennafrídagurinn í dag og feministar búnir að mælast til þess að fólk klæðist bleiku sem tákn um vilja fyrir jafnrétti kynjanna. Ég þarf hins vegar enga hvatningu frá fólki utan úr bæ til að vera í bleiku...verð það sjálfsagt í dag eins og flesta aðra daga! En í dag mun það sem sagt standa fyrir annað og meira í augum fólks en bara skvísulegheit.

Ég er annars komin með töluverðar áhyggjur af nýju Harry Potter bókinni. Frá því að ég las fyrstu fjórar bækurnar gerði ég þau leiðu mistök að sjá báðar þessar helv... Warner bros. myndir um kappann. Nú er ég svo logandi hrædd um að ég eigi bara eftir að sjá fyrir mér leikara og sviðsetningu myndanna þegar ég les næstu bók...í staðinn fyrir mína eigin krúttlegu útgáfu. Úff, ég hefð aldrei átt að sjá þessar myndir. Hefði átt að læra það af Gittu, konunni hans pabba, sem gat aldrei lesið Önnu í Grænuhlíð aftur eftir að hafa séð einhverja sjónvarpsmynd um hnátuna!

Af okkur er annars allt gott að frétta. Hugi búinn að vera í „pabbaleik“ hér í morgun. Keyrði dúkkuna hennar Maríu um allt í kerrunni og stóð svo fyrir framan hana og æpti „Allo, allo, allo...“ framan í skilningssljóa dúkkuna sem starði á hann tómeyg og tók ekki unndir kveðjuna, Huga til sárra vonbrigða! Hann er svo að hugsa um að hitta Birnu frænku sína í dag meðan ég læri dálítið. Kominn tími til!

Og að lokum þetta: takk fyrir allar frábæru kveðjurnar í gestabókina! Allir sem eiga heimasíðu með gestabók vita hvað það er gaman þegar einhver skrifar...þið hin verðið bara að trúa mér og halda áfram að láta ljós ykkar skína á þeim vettvangi til að gleðja okkur!

 

 

18. júní 2003

Við mæðginin erum aldeilis búin að eiga huggulegan morgun. Vorum boðin í kaffi í Faxaskjólið til hennar Ingu en Guðrún systir hennar og litla dóttirin Áróra eru í sumarheimsókn á Íslandi og þær voru boðnar líka enda stutt að fara þar sem þær mæðgurnar búa á efri hæðinni þessa dagana. Ótrúlega notalegt að fara í svona morgunkaffi og það var líka gert ansi vel við okkur með góðu kaffi, brauði og köku. Gaman að hitta Áróru sem var yndisfríð og ótrúlega stillt þó hún sé bara rétt rúmlega tveggja mánaða. Svo eru Inga, Vignir og Björt nýbúin að fá sér fiska og þeir voru alveg æðislegir. Og núna langar mig alveg ótrúlega í fiska líka! Veit samt ekki alveg hvernig Bjarti myndi semja við þá!

Annars er ég voða mikið þessa dagana að velta fyrir mér hvað ég eigi að lesa næst. Ég er núna að klára annað bindið af Kristínu Lafransdóttur eftir Sigrid Undset. Las það fyrsta í skólanum og varð svo spennt að ég fékk bindi númer tvö lánað. Núna veit ég ekki alveg hvort ég á að leggja í þriðja og jafnframt síðasta bindið eða hvort ég eigi að láta þetta gott heita í bili (sem þýðir að ég lesa aldrei þetta blessaða þriðja bindi ef ég þekki mig rétt!) og fara að snúa mér að öðru skemmtilegu. Mín bíður t.d. enn afmælisgjöfin frá Einari sem var nýjasta bók Haruki Murakami sem er algjörlega uppáhaldsrithöfundurinn minn þessa dagana! Svo bankar vonandi póstmaðurinn upp á hjá mér fljótlega með nýjustu Harry Potter bókina (ég pantaði á Amazon en las í blaðinu í dag að enska útgáfan kemur út á sama tíma hér og úti. Eymundsson verður með opið þarna eftir miðnætti daginn sem hún kemur út, bara eins og í útlöndum þannig að ég er kannski að sækja vatnið yfir lækinn! Hefði samt ekki verið pínu halló ef ég, á þrítugsaldri hefði staðið í biðröð með nokkrum 12 ára þarna aðfaranótt laugardagsins!?Er kannski yfir höfuð bara sorglegt að ein 27 ára sé að panta barnabók í forsölu á netinu???). Svo hafa komið inn um lúguna nokkrar neon bækur undanfarna mánuði sem ég komst ekki til að lesa út af skólanum. Það er sem sagt nóg sem bíður en mér þætti samt sorglegt að ljúka ekki við söguna af Kristínu sem Sigrid Undset fékk Nóbelsverðlaunin fyrir á sínum tíma. Sérstaklega þar sem ég á nú ekki svo mikið eftir. En ég veit samt að það tekur mig örugglega margar vikur að ljúka því og á meðan bíða bara Haruki og Harry á náttborðinu. Úff, þetta er vandasamt, góðar ráðleggingar óskast!

 

Enn 17. júní 2003

Við mæðgurnar skruppum í bæinn í morgun. Hugi er pínu lasinn svo hann og pabbi urðu eftir heima. Við María komum hins vegar niður á Austurvöll í miðju ávarpi forsætisráðherra. Tókum okkur stöðu við Alþingishúsið til að missa nú örugglega ekki af Fjallkonunni. María hafði reyndar meiri áhuga á löggunum sem stóðu heiðursvörð (mikið hlýtur annars að vera erfitt að standa svona grafkyrr með hendur fyrir aftan bak í klukkutíma!). Fjallkonan birtist að lokum og ekki var það nú hún Maríanna mín...nei Inga María Valdimarsdóttir bar skautbúninginn þetta árið en það mun án efa koma að Maríönnu einhvern tíma á næstu árum!!! Einmitt þegar dagskránni lauk mætti amma Imba í bæinn og missti því af öllu saman! Í staðinn fórum við með ömmu og Silju (sem er dóttir Borgars og Ann vinafólks mömmu sem býr í Finnlandi) að leita að heppilegri blöðrubúð. María vildi vanda valið og var alveg með það á hreinu að hún vildi fjólubláa blöðru (uppáhaldsliturinn!). Hún fannst um síðir, keyptum líka blöðru handa Huga í sárabætur og fána handa þeim báðum! Ég hef örugglega litið út eins og gjörspillt dóttir á þrítugsaldri sem hefur heimtað að fá eins og litla barnið en ég druslaðist náttúrulega gegnum bæinn með fána og blöðru Huga! Síðan settumst við á Ömmukaffi í Lækjargötunni. Settumst fyrst út og þegar fór að dropa úr lofti vorum við María hæstánægðar með að sitja undir stóru tré og finna því ekkert fyrir rigningunni. Mamma fann hins vegar borð inni og við ákváðum að setjast þar þó ekki rigndi á okkur enda fannst mér það öruggara ef það kæmi kannski allt í einu hellidemba. Og viti menn...svona hálfri mínútu eftir að við settumst inn kom þessi líka rigning, ég hef bara aldrei áður séð svona skúr hér á landi! Við frekar fegnar að sitja inni að borða vöfflur, hefði verið eitthvað sorglegt að horfa á þær fljóta á diskunum úti og rjómanum rigna burt! 

Ég hugsa nú að við látum þetta gott heita af fagnaðarlátum í dag og höfum það huggulegt inni. Einar ætlar að elda lamb á eftir, brúnaðar kartöflur og tilheyrandi í tilefni dagsins. Við smelltum nokkrum myndum af þjóðhátíðardömunni okkar áðan í upphlut saumuðum af langömmu hennar fyrir um 50 árum. Þá var það mamma mín sem bar hann fyrst eitthvað 2ja eða 3ja ára gömul. Síðan hafa flestar stúlkur fjölskyldunnar verið myndaðar í honum og reyndar Elli bróðir líka!!!

Finnst ykkur hún ekki fín? Afganginn af myndunum má svo skoða hér

Ég óska landsmönnum öllum, nær og fjær, til sjávar og sveita gleðilegrar þjóðhátíðar!

 

17. júní 2003

Gleðilega þjóðhátíð!

Hæ, hó, jibbí jei og jibbí-í jei...og svo framvegis! Búinn að vera bjartur og fagur þjóðhátíðarmorgun hér en spáð rigningu sem mér sýnist einmitt vera á leiðinni hér yfir í þessum skrifuðu orðum!

Við fjölskyldan að bræða með okkur hvort við eigum að fara á Hátíðardagskrá á Austurvelli. Ég lít nú eiginlega ekki á aðra dagskrárliði því ég hef lítinn áhuga á að troðast áfram með Huga í kerrunni og týna Maríu þarna seinna í dag! Þeim sem hafa áhuga á slíku er hins vegar bent á þessa síðu þar sem er hægt að nálgast allar upplýsingar um dagskrá dagsins í dag. Án efa margt skemmtilegt í boði þó við ætlum að afþakka það og hafa það frekar hátíðlegt hérna heima við!

Í Fréttablaðinu í dag er heil opna tileinkuð fjallkonunni. Stutt viðtal við manninn sem velur fjallkonuna og ljóðið sem hún flytur og annað við konuna sem hefur umsjón með skautbúningnum. Svo er þarna fjallkonutal frá upphafi og annað skemmtilegt. Sjálf hafði ég þó mestan áhuga á að lesa svör gangandi vegfarenda í Reykjavík við hver ætti að vera fjallkonan í ár. Enginn stakk upp á henni Maríönnu minni....en það var hins vegar stungið upp á Birgittu Haukdal! Jahá, mér datt það nú ekki einu sinni í hug! Sá hinn sami og stakk upp á henni vildi svo líka að við tækjum upp þann sið að hafa Fjallmann...það líst mér hins vegar mjög vel á!

Við hér á Bárugötunni fögnum þjóðhátíðardeginum með okkar eigin hætti. Komnar inn nýjar myndir sem þið getið skoðað hér og svo tók hann Einar sig til og gerði bragarbót á sinni síðu!

Góða skemmtun í dag!

 

16. júní 2003

Jæja, þá er þjóðhátíðarveðrið mætt á svæðið! Rok og rigning, greinilega verið að hita aðeins upp fyrir morgundaginn! Maður getur svo sem ekki kvartað undan því og ætti að vera orðinn vanur.

Sætu systurnar og frænkur mínar Jódís og Ragnheiður búnar að vera í morgunkaffi hjá mér. Mjög gaman að hitta þær og Ragnheiði hef ég ekki séð síðan um jólin þar sem hún hefur búið í Svíþjóð í vetur. Verður án efa gott að leita til hennar ef við fjölskyldan ákveðum að setjast að þar tímabundið í framtíðinni! Ég elska líka þegar mér tekst að draga fólk í morgunkaffi til mín (sem er nú í raun svona rétt-fyrir-hádegi-kaffi!) þar sem það er yfirleitt frekar daufur tími hér á bæ. Það eru sem sagt allir velkomnir hingað til okkar Huga árla dags! Og mikið hlakka ég til í haust þegar margir af mínum góðu vinum flytja aftur til Íslands í haust því þá aukst til muna möguleikar á að draga fólk hingað í kaffi. Svanhildur, Sigurður Ágúst og Ástþór Örn flytja heim í lok sumars og hjá þeim mun ég væntanlega verða daglegur gestur. Sigrún, Björn, Snædís og nýjasti fjölskyldumeðlimurinn hún Matthildur, koma heim um svipað leyti. Ég hlakka alveg óendanlega til að geta komið við hjá þeim á melunum á leið heim úr skóla næsta vetur! Þar hafið þið það, elsku vinir, þið eigið eftir að sjá nóg af mér á komandi hausti og ykkur verður án efa boðið oft hingað í morgunkaffi!!! 

Nú er víst mál að fara að læra meðan herrann sefur! Hann er annars voðalega þreyttur eitthvað þessa dagana. Svaf lengi frameftir í morgun (gerist aldrei!!!) en var samt alveg uppgefinn hér í hádeginu og steinsofnaði um leið og hann var lagður til hvílu. Ætli það sé ekki lægðin og þjóðhátíðarveðrið sem geri hann svona þreyttan. Og þegar ég hugsa mig um þá er ég reyndar líka voðalega þreytt í dag! En ég get víst ekki leyft mér þann munað að kúra mig undir sæng núna heldur tek til við lesturinn. Mín bíður nefninlega frekari lestur í kaflanum Aristotle´s Coercive System of Tragedy!

 

 

 

15. júní 2003

Sunnudagur að kveldi kominn, búinn að vera ansi letilegur eitthvað hjá mér. Byrjaði á að syngja í messu í morgun. Ég held ég hafi aldrei sungið í messu sem hefur gengið jafnilla. Í fyrsta lagi var fremur dræm mæting sem var leiðinlegt þar sem við ætluðum einmitt að vera í fjölmennara lagi í þessari messu. Í öðru lagi vorum við bara frekar fölsk og óákveðin eitthvað í kórnum, vorum langt á undan orgelinu og á einum tímapunkti var kórinn að syngja annað lag en organistinn var að spila...segi ekki meir!!! Annars fannst mér alveg dásamlegt þegar ég sá litla skottu í messunni sem var búin að binda hvíta slæðu um höfuð sér þannig að hún féll niður bakið. Rifjaði upp ansi skondnar minningar af sjálfri mér. Mig langaði alltaf svo að vera með sítt hár en einhvern veginn gekk það aldrei á þeim árum (kannski hefur þetta líka verið á sama tímabili og þegar klipptur var á mig drengjakollur gegn mínum vilja. Fór frekar illa í prinsessuna skal ég ykkur segja!!!). Alla vega gekk ég í gegnum tímabil þar sem ég hengdi á höfuðið á mér svona hvítt net til að hafa fyrir barnavagni. Mig langaði svo ægilega að vera með síða lokka sem sveifluðust um mittið og þar sem ég hafði enga þolinmæði í slíkt brá ég bara netinu góða á höfuðið og það var næstum eins! Man nú að á afmælinu mínu var mamma eitthvað að leggja til að ég léti netið vera og ég hafði samþykkt það....en var samt komin með það upp þegar veislan var hálfnuð! Ég er alveg viss um að sú stutta í kirkjunni í dag var í sömu hugleiðingum og ég forðum daga. Það úreldist greinilega ekki þetta ráð þegar maður hefur ekki þolinmæði í að safna!!!

Um daginn vorum við að skoða eitthvert tímarit þar sem mynd var af heldur fáklæddri útlenskri stúlku á leið á einhverja verðlaunahátíðina. Einhver dula bundin yfir brjóstin og pilsið sat svo lágt á mjöðmunum að það hefði ekki hulið keisaraskurð hefði hún verið með einn slíkan. (Fyrir þá sem ekki hafa gengið í gegnum þá aðgerð þá er skurðurinn gerður bara svona beint ofan við lífbein.) María sá þessa mynd og spurði pabba sinn hvort hún væri að fara í bað. Nei, hann sagði henni nú að hún væri að fara í veislu! Sú stutta keypti það nú ekki...að einhver færi í veislu bara hálfberrassaður!!! Nei, hún hlaut þá a.m.k. að vera á leiðinni í sund! Og mikið var ég hjartanlega sammála henni dóttur minni, það eru alveg ótrúlegustu druslur sem hægt er að kalla föt þessa dagana!

Nú, fyrir utan hræðilegan kórsöng í morgun er annars allt í góðum gír á heimilinu. María reyndar eitthvað lasin og við þurfum að sjá til hvort hún fer á Drafnarborg á morgun! Einar búinn að vera svakalega duglegur í tiltekt í dag. Takk fyrir elsku Einar!!!!! Ný vika að hefjast og með henni fylgja ný markmið...eða kannski gömul og margnotuð markmið, nefninlega að vera duglegri að læra! Og svo þjóðhátíðardagurinn á þriðjudag! Ætli við skreppum ekki stutt í bæinn fyrir hádegi, rétt til að heyra hver fjallkonan er og kaupa blöðrur handa börnunum. Mér finnst þetta alltaf jafnspennandi með fjallkonuna. Hver skyldi það vera í ár? Hmmm, alltaf einhver tiltölulega nýútskrifuð leikkona. Kannski bara hún Maríanna elskuleg vinkona mín! Hún myndi alla vega sóma sér vel! Já, ég held barasta að ég verði að mæta í bæinn til að sjá þetta með eigin augum! 

 

14. júní 2003

Laugardagur og allir í stuði hér. Við búin að eiga notalegan morgun, Einar bakaði kotasælubollur og börnin horfðu á barnatíma. Ég reyndi svo að ráða krossgátuna og í þetta sinn ætlaði ég sko ekki á fá neina hjálp frá meistara Einari. Gafst reyndar upp þegar ég var hálfnuð og fékk smá aðstoð. Ég er ekkert sérstaklega góð í þessu og fæ oft út einhver skringileg orð inn á milli. Finnst ykkur t.d. líklegt að „rolluskjáta“ geti verið „irra“. Einar segist nú ekki kannast við það úr sinni sveit...en ég held mig fast við að þetta sé málið! Hvað segja fjárbændurnir í Dal?

Eins og ævinlega stendur svo til að að taka hér til og þrífa. Það mál virðist eilíflega vera á dagsrká! Eins og sannri húsmóður í vesturbænum sæmir er ég alveg með á heilanum að hafa fínt hjá mér og finnst bara hvorki líkami né hugur starfa eðlilega ef það er skítugt og drasl hérna! María hefur kannski erft eitthvað af þessu því þessa dagana er hún mjög upptekin af því að hún geti bara ómögulega verið til innan veggja heimilisins meðan herbergið hennar er gult og stofurnar hvítmálaðar! Henni finnst þetta alveg ómögulegt og er margoft búin að leggja fram þá kröfu um að heila klabbið verði málað fjólublátt og appelísnugult. Það hefur hins vegar ekki fengið mikinn hljómgrunn hjá okkur foreldrunum sem erum hæstánægð með gult og hvítt! Eins þykist María oft ekki geta farið að sofa því það sé svo mikið drasl í herberginu og skipar okkur foreldrunum að taka til hjá sér! Já við erum kannski ansi líkar mæðgurnar!

Ég setti annars inn nokkrar nýjar myndir áðan, þeir sem hafa áhuga geta skoðað þér hér!

 

13. júní 2003

Búinn að vera langur letidagur hér í dag! Rigning úti og því ekki hægt að gera eins og í gær en þá sat ég heillengi úti í sólinni og lærði! Við Hugi vorum því bara að dunda okkur í rólegheitunum og reyna að drasla svolítið til. Gekk mjög vel, vægast sagt!!! Ég prjónaði svolítið en ég keypti mér garn í skokk á Maríu í gær sem ég vona að verði fínn. Svo hringdi ég í Svanhildi vinkonu, alltaf gaman að heyrast smá þó við notum nú tölvupóst, msn og heimasíður óspart til að skiptast á fréttum. Mæli einmitt með síðunni hennar og þá sérstaklega myndum af dúllunni honum Ástþóri Erni.

Núna er hins vegar u.þ.b. að hefjast rosalegt kósí-kærustuparakvöld hjá okkur Einari. Aldrei slíku vant keypti ég bjór áðan og svo ætlum við að sækja okkur mat á Bahn-Thai en fyrir þá sem ekki vita það þá fæst þar allra besti austurlenski matur sem til er. Svo verður bara horft á American Idol, orðið æsispennandi, bara þrír eftir og ég er ekki búin að stelast til að kíkja hver vinnur! Ég er algjör „sökker“ fyrir raunveruleikasjónvarpi, verð bara að játa það. Varð eiginlega hálffegin í sumarbyrjun þegar Survivor og Bachelorette kláruðust því það var alveg orðið erfitt fyrir mig að fylgja svona stífri dagsrká í sjónvarpshorfi! Sá hálfpartinn fram á að ég þyrfti bara að fresta B.A.-ritgerð út af því að ég þyrfti að horfa á svo mikið raunveruleikasjónvarp. En sem betur fer þá verður greinilega smá sumarfrí í því.

Lítið framundan yfir helgina. Við þurfum, eins og ævinlega, að taka hér til og þrífa og eins og ævinlega þarf ég að kíkja svolítið í búðir!!! Svo á ég messu á sunnudaginn sem verður væntanlega sérdeilis skemmtileg þar sem á að skíra litla dóttur hjóna í kórnum og við ætlum að fjölmenna til að hafa sönginn sem fegurastan!

Læt hér fylgja eina mynd sem ég tók af Huga í dag. Honum finnst ægilega gaman að vera með sólgleraugu og þessi eru vinsæl. Hann veit því miður ekkert af því að þetta eru nú eiginlega pæjusólgleraugu:

Are you talking to me?

 

12. júní 2003

Sit við tölvuna og nýti tímann meðan ég bíð eftir að sólin birtist í garðinum mínum. Um leið og það gerist hef ég hins vegar ákveðið að skella mér út með hina frábæru bók Theatre of the Oppressed og fræðast smá. Er reyndar að vinna mig í gegnum frekar óspennandi kafla í augnablikinu þar sem Boal rekur sig í gegnum aðra fræðimenn til að finna kenningum sínum grundvöll. Mér finnst það hins vegar mun meira óspennandi en hans eigin hugmyndir. Birna ætlaði að taka Huga í smá göngutúr og mér skildist að þau væru m.a. boðin í kaffiboð úti í bæ. Aldeilis að hann er orðinn fullorðinn að vera bara boðinn hingað og þangað um bæinn án þess að mamma sé með í för. 

Þetta er annars það þetta sem bíður mín í garðinum á eftir og líka þetta:

Mikið getur sumarið verið fallegt (andvarp)!

Setti annars inn nokkrar nýjar myndir áðan af Huga á leið út með frænkunni. Hann er óttalegt sólskinsbarn þessi drengur og þykir fátt skemmtilegra en að vera úti í góða veðrinu. Þið getið líka kíkt á myndirnar hér.

 

11. júní 2003

Ég hlýt að teljast klaufi aldarinnar. Tókst í dag að læsa mig úti! Ætlaði aðeins að skella mér í lærdómssólbað og taka bara úr lás en þegar ég kom að útidyrahurðinni komst ég ekki út fyrir pósti. Tók því að mér að safna honum saman og flokka og þegar það var búið var ég fyrir löngu búin að gleyma að ég þurfti nauðsynlega að taka úr lás til að komast aftur inn. Hugi var úti að rölta með Birnu frænku og þegar hún kom til að skila honum neyddist ég til að bæta um betur og fara sjálf með hann á röltið þangað til Einar kæmi heim. Þakka bara guði fyrir að hafa verið í peysu utan yfir hlírabolinn og í skóm en hvort tveggja var ég alvarlega að hugsa um að skilja eftir inni, því ég hefði jú, hvort eð er geta skotist inn eftir því!!!! Ég hefði ekki verið gæfuleg á röltinu með kerruna, berfætt og í hlírabol, sérstaklega þar sem öll sól hvarf að sjálfsögðu 20 mínútum eftir að ég settist út! Svo er ég einstaklega heppin að hún Jódís frænka mín vinnur niðri í miðbæ, nánar tiltekið í hinni frábæru búð, Liverpool! Ég stakk mér því inn hjá henni, fékk að hringja og hanga svolítið þar þangað til tími var til að labba heim aftur. Annars er gaman að því að ég var vön að hanga tímunum saman í Liverpool þegar ég var lítil, skoða barbídúkkur og þannig. Síðan Jódís byrjaði að vinna þarna, sem eru nú orðin nokkur ár síðan, hef ég tekið upp á þessum ljóta ósið að hanga þar, en sem betur fer á nýjum forsendum!

En nú er allt eins og það á að vera, kaffibolli mér við hönd og námsefnið fyrir framan mig, ósnert! Ég er allt of dugleg að hanga í tölvunni. Einar er niðri að laga kvöldmatinn, pizza með gömlum lauk, en það er einmitt það sem María nefnir fína focacciað okkar með kartöfluskífum og rauðlauk! Mér er hins vegar hollast að sveifla áherslutússinum nokkrar ferðir yfir námsbækurnar! Góðar stundir!

 

10. júní 2003

Í dag hefði ég átt að vera að fara í kórferðalag um Þýskaland og Tékkland með sama prógramm og flutt var í gærkvöldi. En....fengum ekki styrkinn sem var nauðsynlegur til fararinnar og þar með frestast það um ár.

Tónleikarnir gengu annars alveg frábærlega vel. Það var alveg ótrúlega gaman, stuð og stemmning hjá kórnum, hljómsveitinni, stjórnanda og áheyrendum. Svo kom strætó og sótti okkur upp í kirkju og flutti okkur niður í Sundahöfn þaðan sem báturinn var tekinn út í Viðey. Ingu tókst að komast um borð í bátinn án þess að skvísuskórnir dyttu í sjóinn en við vorum svolítið hægfara að Viðeyjarstofu þar sem vorum ekki skóaðar í svona hark! Kvöldið var virkilega skemmtilegt, aðeins of margar ræður fyrir minn smekk reyndar! Fengum gott lambakjöt og alveg ógeðslega vont crême brulée (kann ekki alveg að skrifa en ég kann hins vegar að bera þetta orð fram...rétt!!!), bragðaðist nákvæmlega eins og ommeletta með smá perlusykri ofan á, alveg viðbjóður! Þegar flestar ræðurnar voru búnar og partýið rétt að byrja var okkur hins vegar mokað pent út á stétt og þegar þangað var komið byrjaði báturinn að flauta á bryggjunni þrátt fyrir að enn væri hálftími í brottför! Mér fannst það nú einum of! Þegar ég skildist við mína góðu vini voru flestir á leiðinni í pottinn í Faxaskjólinu þar sem búa tvenn mektarhjón, Inga Rós og Hörður og Inga Harðar og Vignir! Ég ákvað hins vegar að láta staðar numið í gleðinni enda vissi ég hvað biði mín í dag, nefninlega að leika við Huga milli þess sem ég fiktaði í tölvunni! Alveg týpístk að ég var svo með eindæmum óheppin með morgun til að vera illa sofin. Hugi vaknaði hrikalega snemma og María var ótrúlega úrill þegar hún var vakin. Niðurstaðan er því þessi: ég fór að sofa klukkan þrjú og vaknaði klukkan sex! En drengurinn sofnar nú á eftir og þá skríð ég aðeins undir sæng! 

Og nú verður ekki meiri kór næstu mánuðina. Reyndar messusöngur svona einu sinni í mánuði en engar æfingar og ekki neitt. Mér finnst það aðallega dapurlegt. Held þó að raddböndin mín fagni kærkomnu söngfríi og þið lesendur góðir, fagnið kannski líka?

 

9. júní 2003

Tónleikadagurinn miklu runninn upp! Lokaæfingin búin og allt til reiðu, kórkjóllinn hangir pressaður niðri (þökk sé Ingu Rós), partýfötin eru tilbúin fyrir Viðey, nóturnar á vísum stað og gleðin í hjartanu! Ég veit, ég veit, ég veit, þetta síðasta er mjög væmið en engu að síður sannleikanum samkvæmt! Næst á dagskrá er að fara í gott bað og fá sér góðan mat áður en haldið er upp í kirkju. Svo verður vonandi mikil gleði í Viðey í kvöld, en samt ekki of mikil því ég þarf að vakna eldsnemma á morgun til að annast hann Huga minn! Það eru annars blendnar tilfinningar að fara út í Viðey í gleði. Bæði á ég þaðan góðar minningar frá því ég var unglingsstúlka og vann þar í unglingavinnunni. Það var sko alveg æði, gott veður allan tíman (eins og alltaf þegar maður var lítill) og yndislegt að vera í heyskap (það var reyndar ekki eins gaman að hreinsa rusl í fjörunni, þið getið sko ekki ímyndað ykkur hvað rak á þær fjörur!). En ég á líka frekar slæmar minningar þaðan frá því ég vann sem þjónn í jólahlaðborði í Viðeyjarstofu! Drukkið fólk að missa af bátnum, fullir kallar að segja lélega brandara sem mér var, sem þjóni, skylt að hlæja að og síðast en ekki síst, þreyttir fætur!!! En þetta verður án efa skemmtilegt kvöld og væntanlega eitthvað sungið. Mikið held ég annars að það sé leiðinlegt að skemmta sér með kórfólki. Við viljum alltaf vera syngjandi en ég hef hins vegar fullkominn skilning á að það sé ekki eins gaman að hlusta á 50 manns mismikið í glasi að gaula! Og fyrir ykkur sem lesið þessa dagbók og eruð komin með alveg nóg af endalausu þvaðir um kórinn lofa ég betri dögum. Eftir þessa tónleika liggur allt kórstarf að mestu niðri í þrjá mánuði, mér til mikilla ama en kannski einhverjum til gleði!!!

 

8. júní 2003

Gleðilega Hvítasunnu öll! Segir maður kannski ekki svona???

Hér á Bárugötunni hefur verið aldeilis fínn dagur! Vöknuðum í hreinni íbúð þar sem það tókst að þrífa allt í gær. Ég er alveg búin að komast að því að skapið mitt sveiflast í öfugu hlutfalli við skítastuðul heimilisins!!! Skelltum okkur í sund í Árbæjarlaugina og áttum þar góða stund. María hafði gist hjá ömmu á Bakkastöðum og við hittumst öll í lauginni. Hugi er óðum að jafna sig á sundhræðslunni og verður vonandi bráðum sund-ofurHugi! Líka ekki annað hægt þegar maður á flunkunýja gullfiska sundskýlu! Ég fór svo á kóræfingu sem var virkilega skemmtileg, loksins kom stuðið sem ég var búin að bíða eftir. Dálítið skrýtið að maður er alltaf að syngja sömu tónlist en stundum kemur stuðið og stundum ekki. Sem betur fer er það nú eiginlega alltaf mætt á svæðið á sjálfum tónleikunum. Kvöldinu var svo bara eytt í smá spjall við Brynhildi vinkonu í símann! Ég hef ekki heyrt í henni svakalega lengi og það var svooooo gaman að tala smá við hana. María hefur hér verið á fótum í allt kvöld af því að við Einar erum svo grimmir foreldrar að reyna að venja hana af því að sofna með snuð! Hún hefur alveg neitað að fara að sofa og þar sem ég var bara að kjafta í símann og Einar langaði að horfa á X-men í sjónvarpinu þá fékk hún bara að hanga með honum! Ég smellti af þeim nokkrum myndum áðan sem þið getið kíkt á hér

Og að lokum verð ég víst að leiðrétta smá misskilning. Ég, hljóðfæravillta, var hér eitthvað um daginn að lýsa því að upprunalegu strengjahljóðfærin væru bara alveg eins og þau sem notast er við í dag. Þetta var s.s. hinn mesti misskilningur því þau eru með styttri háls, styttra bretti, allt öðru vísi strengi og öðru vísi bogi notaður! Þar hafið þið það!!! Heppilegt að eiga að svona tónlistarsnillinga eins og hana Ingu vinkonu.

 

7. júní 2003

Það er nú meira hvað það er gaman að fara á búðarráp! Við Jódís skelltum okkur aðeins aftur í Smáralindina og nú settum við sjálfar okkur í fyrirrúm en ekki drengina okkar. Ég keypti mér pils og buxur og eyrnalokka. Þá get ég kannski verið smá pæjó í veislunni í Viðey sem haldin verður eftir tónleikana á mánudagskvöld! Jibbíkóla! Hér er annars bara verið að taka til og þrífa. Það hefur setið á hakanum allt of lengi og þegar maður er með tvö börn þá er ansi fljótt að verða hér bara eins og í útihúsum!!! En það stendur sem sagt til bóta. Mamma og Elli buðu Maríu og Huga upp á Bakkastaði þannig að við Einar höfum kannski smá tíma til að ruska til hér!Elli var annars að koma úr frægðarför til London þar sem hann spilaði á tónleikum við frábærar undirtektir. Gaman að því! Héðan er annars sárafátt að frétta. Au revoir!

 

6. júní 2003

Ég skammast mín svo ótrúlega mikið núna að ég er enn kafrjóð í framan!!!

Forsaga málsins er sú að ég ákvað að kórbúningurinn minn þyrfti ærlega yfirhalningu fyrir tónleikana n.k. mánudagskvöld og setti hann því í hreinsun fyrr í vikunni. Hann átti að vera tilbúinn á hádegi í dag og ég vissi að ég yrði að muna eftir að ná í hann því annars yrði hann innlyksa í hreinsuninni yfir helgina og ég stæði uppi búningslaus á mánudagskvöldið. Ég skrifaði þetta því skýrum stöfum inn í dagbókina og bað Einar um að hjálpa mér að muna. Í dag á hádegi var ég hins vegar steinsofandi uppi í rúmi! Eftir það fór ég svo í smá pæjuferð í Smáralindina með Jódísi frænku algjörlega grunlaus um gamla, góða búininginn minn sem væri u.þ.b. að lokast inni í hreinsuninni. Mér kom hann ekki einu sinni í hug í dag! Svo mætti ég á kóræfingu nú undir kvöldið, enn alveg grunlaus um hvað hefði gerst. Söng langa og stranga kóræfingu og lét mig hlakka til tónleikanna sem ég ætlaði að sjálfsögðu að syngja í glansandi fínum kórbúning. Þegar æfingunni lauk og ég var að strunsa út úr kirkjunni grípur Inga Rós, framkvæmdastjóri Kirkjulistahátíðar, eiginkona Harðar kórstjóra og mamma Ingu vinkonu, í mig og réttir mér kórbúninginn (og buxur af Einari sem líka höfðu farið í hreinsun) og segir: „Ég bjargaði þessu úr hreinsun fyrir þig áðan“! Og þá fyrst mundi ég að kórbúningurinn minn hefði í raun á þessari stundu átt að vera lokaður inn í Efnalauginni á Eiðistorgi ef ekki hefði verið fyrir einhverja óstjórnlega heppni. Inga Rós hafði s.s. sjálf átt erindi þangað og séð þennan líka hreina og fína kórkjól sveiflast þarna á slánni og þar sem hún er náttúrulega snillingur í að hugsa fyrir öllu áttaði hún sig á að einhver gleymin dama úr Mótettukórnum væri u.þ.b. að fara að klúðra heildarsvip lokatónleika Kirkjulistahátíðar. Hún fékk að hringja í Einar og spurði hvort hún ætti ekki að kippa kjólnum upp í leiðinni fyrir okkur, sem Einar þáði enda ég á bílnum uppi í kirkju og alveg að fara að loka í hreinsuninni!!! Ég bara skil ekki hvað ég var ótrúlega heppin og ég skil heldur ekki hvað ég var ótrúlega gleymin og kærulaus og skammast mín óendanlega fyrir að vera að láta önnum kafið fólk úti í bæ sækja föt fyrir mig í hreinsun!!! Og við sem erum nýbúin að ákveða að hætta að skipta við hreinsunina sem við höfum annars alltaf notast við. Ef við hefðum ekki gert það héngi kjóllinn minn sennilega enn í Hraða við Ægisíðu hjá fúla starfsfólkinu þar því þó hún Inga Rós sé snillingur þá átti hún ekki leið þar um!!! En ég mun alla vega syngja þessa frábæru tónleika á mánudaginn í nýstroknum kórbúning og hugsa um leið hlýlega til Ingu Rósar.

Æfingin í kvöld var annars nokkuð strembin en gaman að vera búin að fá hljómsveitina, Das Neues Orchestra (úff, ég held að þetta sé skrifað einhvern veginn svona) sem spilar á upprunaleg hljóðfæri. Ég er reyndar alveg ótrúlega hljóðfæravillt og kalla t.d. næstum öll blásturshljóðfæri lúðra og því sá ég nú eiginlega ekki hvað var svona upprunalegt, nema jú, það voru nokkrir skrýtnir „lúðrar“ þarna!

Og þrátt fyrir að ég hefði átt að vera stödd í Efnalauginni á Eiðistorgi í dag þá var mjög gaman hjá okkur Jódísi og Huga í pæjuferð í Smáralindinni. Við frænkurnar vorum einbeittar í að skoða skvísuföt þó við keyptum á endanum ekki neitt nema sundskýlur á strákana okkar!!! Svona er þetta eftir að maður eignast börn!!!

 

5. júní 2003

Jæja, við erum komin heim úr vel heppnaðri sveitaferð. Tvær stórar rútur fluttu okkur að Grjóteyri í Kjós en mér skilst að þangað fari nánast allir leikskólar í heimsókn enda búið að búa til góða aðstöðu fyrir borgarbörnin. Þau voru nú flest dálítið smeyk þar á meðal María. Hugi var hins vegar ansi brattur og gekk erfiðalega að ná honum á mynd þar sem hann var á þeysispretti milli dýranna. Svo borðuðum við nesti í garði þarna við bæinn sem er í yndislegu rjóðri. Það er örugglega ekkert eins fallegt og að horfa á börnin í náttúrunni að borða brauð með osti og drekka glænýja mjólk. Ég er búin að setja inn nokkrar myndir á myndasíðuna sem þið getið skoðað hér.

 

5. júní 2003

Það tók mig einungis tvo tíma að gefa börnunum morgunmat, fá mér kaffi, klæða okkur öll og labba með Maríu út á leikskóla!!! Betra að hafa tímann fyrir sér þegar maður er einn með tvo grislinga. Það er nefninlega ekki þannig að hægt sé að tvöfalda tímann sem tekur að undirbúa eitt barn undir brottför! Ó, nei!!! Það þarf að gera ráð fyrir að eftir að fyrra barnið sé klætt og meðan verið sé að klæða það seinna takist því fyrra að hella niður á sig. Meðan maður svo skiptir um föt á því aftur kúkar hitt o.s.frv. En þetta hafðist allt að lokum og við röltum þetta spottakorn út á Drafnarborg í fallegum sumarveðri. Svo er sveitaferðin í dag. Það væri nú ósköp gaman að taka nokkrar myndir til að setja hér inn á síðuna en ég veit varla hvort ég þori að fara með digitalvélina með. Ekki af því að hún sé svo fín og ég sé hrædd um  að ég fái drullu á hana heldur af því að hún er svo gömul og hallærisleg og ég er dálítið hrædd um að hinir foreldrarnir geri grín að mér!!! Hún er svona stór og þykkur hlunkur og þarf gamaldags diskettur í hana! En hún gerir sitt gagn og skilar ekkert svo mikið verri myndum en vélar af nýjustu gerð. Þannig að hún fær kannski að fljóta með! Ómögulegt að vera svona spéhræddur kominn á gamals aldur! Það verða því vonandi komnar inn nýjar myndir af börnum og lömbum hér seinna í dag!

 

4. júní 2003

Við Hugi skelltum okkur í morgunkaffi til ömmu á Sóló eldsnemma í morgun. Þurftum að keyra Einar í vinnuna og Maríu á leikskólann og fannst bara ómögulegt að fara svo beint heim aftur fyrst við vorum búin að drífa okkur í fötin og koma okkur út svona snemma. Alltaf gaman að hitta ömmu og fá sér smá nessopa hjá henni. Nú er litli maðurinn hins vegar farinn að leggja sig:

Alveg yndislegur! Einar um það bil að fara að leggja af stað í Grímsá þar sem haldið verður smá svona Balint þing með nokkrum breskum læknum. Balint er svona áfallahjálp fyrir lækna þar sem þeir bera saman bækur um erfið tilfelli og þiggja ráðleggingar frá kollegum! Mjög nauðsynlegt eftir því sem mér skilst! 

 

3. júní 2003

Langt liðið á hinn ágætasta þriðjudag. Skellti mér í klippingu í hádeginu, alveg nauðsynlegur hluti af minni tilveru að kúpla sig út í nokkra klukkutíma af og til, lesa kjaftablöðin og láta dekra aðeins við sig. En aðallega nauðsynlegt fyrir mig að láta lita gráu hárin í burt! Það er náttúrulega bara grín að byrja að grána 14 ára (daginn eftir fermingu! Tók þetta „í fullorðinna manna tölu“ háalvarlega!)og vera orðinn næstum alveg grár um tvítugt! Alla vega, fín klipping og skemmtilegt að koma út af hárgreiðslustofunni hress og kátur en ekki eins og síðast, hálfgrátandi. Á leiðinni í bílinn gekk ég svo fram hjá uppáhalds eyrnalokkabúðinni minni. Þar fyrir utan var búið að stilla upp stærðarinnar leirkeri og þegar einhver stelpa gekk utan í það riðaði það hægt til falls uns það mélbrotnaði á götunni. Stelpan sú arna strunsaði hins vegar eins og blátt strik fyrir næsta horn. Mér fannst ég nú verða að fara inn að láta eigandann vita hvað hefði gerst (og hreinsa mig allri sök í leiðinni!) en sá þá mér til mikillar gleði að komin var ný sending af eyrnalokkum. Í stuttu máli þá varð ég nauðsynlega að kaupa mér þrenn pör, alveg ótrúlega flottir! Aldeilis lán í óláni með þetta leirker!!!

Við mæðginin annars búin að eiga hér góðan dag saman. Einar er svo á leiðinni í smá sveitaferð miðvikudag til föstudags þannig að ég verð grasekkja. Svo er sveitaferð á leikskólanum hjá Maríu á fimmtudaginn og við erum að hugsa um að skella okkur með, ég, mamma og Hugi. Hugi án efa spenntur fyrir að sjá alla „voffana“ í sveitinni. María er annars byrjuð í aðlögun á stóru deildinni, alveg ótrúlegt, litla barnið mitt!

Frábærir dómar um Elía tónleikana í Mogga í dag! Gaman að því! Átti svo sem ekki von á öðru, þetta voru hreint út sagt frábærir tónleikar. En í kvöld er svo síðasta kóræfing á mótettum Bach áður en hljómsveitin fína mætir frá útlöndum. Þá eru nokkrar hljómsveitaræfingar eftir (mér finnst þetta alltaf svolítið smart, dálítið svona eins og ég sé í einhverri rokkhljómsveit!) og svo bara tónleikarnir sjálfir á annan í hvítasunnu. Ég hlakka mikið til þeirra, hvort sem fólk trúir því eður ei er þetta mesta stuðtónlist í heimi þegar maður er sjálfur að syngja!

 

2. júní 2003

Sit hér uppi undir rjáfri að reyna að lesa! Kominn tími til, búin að eyða öllum „læritíma“ undanfarið í heimasíðugerð! Ég er nú alveg einstaklega heppin, held ég, að finnast efni B.A.-ritgerðarinnar minnar alveg ótrúlega skemmtilegt og spennandi. Vissuð þið t.d. að kaupmenn og aðrir sem hafa ama af götubörnum í Brasilíu borga 10 dollara hverjum þeim sem myrðir eitt barn!? Þetta er alveg hræðilegt. En það er auðvitað ekki þetta sem ritgerðin mín mun fjalla um heldur hinn frábærlega krúttlega Augusto Boal! En hann er brasilískur og þetta er sá bakgrunnur sem hefur mótað hann og hans hugmyndir.

Annars eyddum við dágóðum tíma í gær í fjölskyldumyndatöku. Gekk afar illa eins og þetta dæmi ber með sér! Ha, ha, ha, við erum sko búin að hlæja endalaust að þessari mynd. Þessi kannski aðeins betur heppnuð...en samt! 

Hugi er farinn út með Birnu föðursytur að ganga. Þau ætluðu að hitta vinkonu Birnu og hundana hennar. Það er nú eitthvað sem á vel við minn mann. Voffar alveg í einstöku uppáhaldi! En ég þarf víst að nýta tímann vel í lestur og tiltekt á meðan. Hlýt því að kveðja í bili.

 

1. júní 2003

Frábær dagur að kveldi kominn! Við aldeilis búin að njóta blíðunnar. Byrjuðum á gönguferð upp í Hallgrímskirkju en þar var alls kyns húllulmhæ eftir messu í tilefni af Kirkjulistahátíðinni. Ís og leiktæki og harmonikkuspilerí. Fengum okkur svo langt og notalegt sólbað í garðinum (myndir af því í júníalbúmi!). Síðan var haldið niður að tjörn. Þar var fullt af fólki samankomið og voða stemmning. Reyndar átti sér stað svolítið skondinn atburður! Þarna voru stolt amma og afi með lítinn strák á hjóli. Hann hefur verið kannski svona fjögurra ára gaur. Alla vega tókst honum að stíma á hjólinu beinustu leið út í tjörn! Afinn fiskaði hann háorgandi upp og Einar fór svo og veiddi hjólið! Það varð auðvitað að drífa manninn úr blatu fötunum og þarna stóð hann organdi vafinn inn í dömujakkann af ömmu meðan afinn vatt nærbuxurnar!!! Æ, dálítið fyndið. En hann á samúð mína alla enda er ég þjáningarsystir í þessum efnum. Jebb, ég hef líka dottið í tjörnina! Ég var nú öllu eldri, svona 11 ára og treysti um of á þunnan ís! Fór alveg upp að handarkrika og fæturnir sukku í drulluna. Mín beið svo hressandi ganga í frosti í rennblatum fötum heim! 

 

1. júní 2003

Loksins er búið að opna síðuna okkar, húrra fyrir því! Búnar að eiga sér stað heilmiklar framkvæmdir hér á síðunni fyrir luktum dyrum að undanförnu. Einar heldur nú að það sé af því að ég sé svo spéhrædd að ég vildi ekki senda allt út jafnóðum...en það var nú ekki ástæðan. Ástæðan var einfaldlega sú að ég vissi að til að byrja með yrði þetta ekkert annað en eitthvað óttalegt rugl og í því hafði ég rétt fyrir mér. En nú erum við búin að læra svona grunnatriðin, búin að setja upp síður, velja bakgrunna, letur og liti á það o.s.frv. Dálítið svona eins og koma sér fyrir í nýrri íbúð og vera að mála, raða inn húsgögnum og kannski kaupa eitthvað nýtt! Og það allra besta við heimasíðuheimilið er að hér kemur ekkert drasl og þarf aldrei að taka neitt til!!! Eða kannski ætti ég að endurskoða það...rétt áðan var Einar að rústa öllu hér á síðunni og ég þurfti að hella mér út í neyðarbjörgunaraðgerðir. Jú, þannig að kannski kemur smá drasl...en alla vega engar ryksugur, afþurrkunarklútar eða moppur! Húrra fyrir því líka!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar