Júlímyndir

Hugi og María fara stundum saman í bað því það er svo miklu skemmtilegra og auk þess helmingi minni vandræði fyrir mömmu og pabba.

Var einhver að kalla á mig?

Jú, það var pabbi með eitthvað rosalega fyndið grín!

Það allra fyndnasta þessa dagana er að láta pabba „teygja hárið“ þegar sjampóið er komið í. Það má endalaust hlæja að því og fá að kíkja í spegilinn.

Er ég ekki með fyndið hár?

Hugi fékk svona fínan hamakamb. Fara svona pönkarar ekki örugglega í bað líka!?

Við uppgötvuðum geitungabú í garðinum okkar þegar loksins átti að fara að taka til í arfabeðinu sem stóð í miklum blóma! Það þurfti að reyna að hafa ofan af fyrir skvísunum Maríu og Söru meðan geitungarnir sveimuðu um og þarna voru þær komnar með nokkra bolta að leika sér!

Þeim fór hins vegar að leiðast boltaleikurinn frekar fljótlega og þá var brugðið á það ráð að leyfa þeim að fara frjálsum höndum um myndavélina! Þessa mynd tók María af Söru. Bara nokkuð góð, ekki satt?

Hér er svo búið, ógeðslegt ekki satt!!! Ef vel er að gáð má sjá tvo geitunga liggja í valnum við hliðina á því!

Þann 17. júlí skelltu systkinin sér með ömmu Imbu á ylströndina í Nauthólsvík. Foreldrarnir voru hins vegar ekki með í för og því eru heimildirnar um það sem fyrir augu ber á myndunum kannski ekki fullkomlega öruggar! María hefur farið nokkrum sinnum áður á ylströndina og látið sig þá dreyma um að fá að vaða. Nú loks fékk hún tækifæri á því og hér er hún heldur fáklædd að moka og sulla.

María þurfti heilmikið að skoða strandlífið.

Amma var vel undirbúin og eftir smá busl fengu þau sér nesti í sandinum.

Á leiðinni heim! Er það svo ekki bara einhver suðræn sólarströnd næst eftir svona góða upphitun?

Við skelltum okkur í smá bæjarferð í dag enda ekki hægt að vera innandyra í þessari gríðarmiklu hitabylgju sem riðið hefur yfir að undanförnu. Mía María, dúkkan hennar Maríu, fékk að koma með í bæinn. Hér eru allir ferðbúnir og María og Hugi í smá mömmu- og pabbaleik!

Hér er María í skokknum sem ég var að prjóna á hana. Er hann ekki bara vel heppnaður á sumarskvísunni?

Hugi hefur þurft að vera með derhúfuna sína undanfarna daga svo sólin skíni ekki í augun eða hann fái sólsting. Hann getur hins vegar ekki látið hana alveg í friði og því situr hún yfirleitt aðeins skökk á honum eins og sjá má á þessari mynd!

Við fengum virkilega góða heimsókn þegar Ölvir, Eva, Emil, Jódís og Hrappur komu í heimsókn til okkar í góða veðrinu. Allir komu með eitthvað á grillið og ýmislegt annað var hrist fram úr erminni, góð salöt, meðlæti og eftirréttir! Við borðuðum úti í garði og krakkarnir léku sér þar meðan foreldrar þeirra spjölluðu. Alveg ótrúlega vel heppnað!!!Hérna eru allir að finna sér mat á diskana. Aumingja Jódís mun sennilega aldrei bera þess bætur að hafa þegið steiktan lauk hjá okkur á Bárugötunni...eftir nokkra vonda munnbita komumst við að því að laukurinn hafði þránað allsvakalega enda útrunnin um mitt ár 2001!!!!!

Hér má sjá Einar með Maríu, Evu (og blákollinn á Emil) og Ölvi.

Krakkarnir nutu þess að vera úti að leika og hér eru þau í frumskógarleik. María og Emil eru í stuði en Hugi er á leið út úr mynd!

Hér eru sætu frændurnir Hrappur og Hugi að leika sér.

María fékk að fara frjálsum höndum um myndavélina þetta kvöld og myndaði meðal annars pokann utan um grillkolin ...

 

... og Ölvi frænda sinn að grilla.

Laugardaginn 26. júlí skellti ég mér í heimsókn til Svanhildar, Sigurðar og Ástþórs Arnar en þau búa í Birkeröd í Danmörku. Á sunnudeginum vorum við mest innivið þar sem það var heldur rigningarlegt úti. En það var sko ekki verra! Þarna erum við vinkonurnar með nýuppáhellt kaffi í þessum líka fínu bollum sem Svanhildur fann á flóamarkaði. Prjónadótið er ekki langt undan enda hélt Prjónafélagið Pálína nokkra fundi á meðan á dvöl minni stóð!

Hér er Ástþór litli dúllustrákur að leika á fína teppinu sínu. Ég hafði ekki séð hann síðan í apríl og hann var orðinn alveg svakalega stór og flottur.

Þarna erum við Svanhildur í húsmóðurlegum stellingum. Svanhildur lagaði þessa líka yndislegu kantarellusúpu eftir finnskri arfleifð en ég bakaði hindberjaböku.

Á mánudeginum fórum við í heimsókn til Sigrúnar, Björns, Snædísar og litlu Matthildar sem ég hafði aldrei séð. Þarna kúrir Matthildur í vagninum sínum.

Þarna er Snædís að skottast í garðinum.

Og hér eru báðar mömmuvinkonurnar mínar í Danmörku með krílin sín.

Á þriðjudeginum héldum við svo inn til Kaupmannahafnar í verslunarleiðangur. Mér finnst nú engin útlandaferð fullkomnuð fyrr en búið er að eyða óhóflega miklum pening í kaup á alls kyns varningi!!! Hér er Svanhildur í Birkröd á leiðinni á lestarstöðina.

Og hér er ég!

Og hér er herra Dúlla í vagninum sínum. Ástþór var alveg svakalega góður að þvælast þetta allt með okkur og lék sér bara með dót í vagninum þá sjaldan að hann var ekki bara steinsofandi!

Kaupæðið hafið!!! Þarna sýni ég stolt eyrnalokkana sem ég keypti mér. Við Svanhildur uppgötvuðum gullsmið sem selur þá allra fallegustu skargripi sem við höfum nokkru sinni séð. Ég keypti mér eina eyrnalokka þar en við Svanhildur höfum nú á prjónunum að brjótast þarna inn til að ræna afgangnum...nema náttúrulega mennirnir okkar gefi okkur svo sem eins og eitt armband eða einn hring þaðan áður!!!! Sigurður og Einar, ef þið viljið ekki missa okkur í lífstíðarfangelsi í Danmörku þá skulið þið strax festa kaup á einhverju glingri þarna!!!!

Svanhildur og Ástþór alveg ótrúlega sæt í sumarskapi!

Svona er nú notalegt að búa í Birkröd! Það sést kannski ekki nógu vel en gatan heitir Rolighedsvej eða Rólegheitavegur!

Á miðvikudeginum var svo haldið í Sjællsö. Þar er þessi fallegi skógur bara í göngufæri frá þeim Svanhildi og Sigurði Ágústi. Kindur, kýr, fuglar, risasniglar, diskóflugur og fiðrildi!

Við Svanhildur urðum alveg heillaðar af þessum ævintýrafiðrildum sem þarna voru á hverju strái (í orðinsins fyllst merkingu. Hey, þetta orðatiltæki að vera á hverju strái hefur sko pottþétt verið samið um einmitt svona fiðrildi!).

Inni í skóginum er svo Jægerhytten. Þar settumst við niður og fengum okkur öl og gos, svöluðum þorstanum áður en við héldum áfram göngunni. Ég flaug svo heim sama kvöld og þó það hafi verið yndislegt að hitta Einar, Maríu og Huga aftur þá hefði ég sko vel getað þegið eins og tvo daga enn í Birkirjóðri!

Að lokum birtist svo hér albúm sem Einar setti upp á sinni síðu þegar hún var og hét.

Dagurinn

06.07.03

Kl. 10

 

Kl. 11

 

Kl. 12

 

Kl. 13

 

Kl. 14

 

Kl. 15

 

Kl. 16

 

Kl. 17

 

Kl. 18

 

Kl. 19

 

Kl. 20

 

 

Kl. 21

 

Kl. 22

 

Kl. 23

 

Kl. 24