Júlídagbók 2005  

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

27. júlí 2005

Ég set inn myndir eins og mér væri borgað fyrir það þessa dagana! Þið getið skoðað nokkrar nýjar sumarmyndir með því að smella á okkur Maríu hér fyrir neðan.

 

25. júlí 2005

Atburðaleysi!

Eitthvað lítið hefur verið ritað á þessa góðu síðu að undanförnu. Hér er fyrst og fremst um að kenna gífurlegu atburðaleysi enda fjölskyldan öll í sumarfríi. Dagarnir líða áfram, hver er öðrum líkur en allir jafndásamlegir. Þó er ég ekki frá því að mig sé farið að þyrsta í örlítið viðburðaríkara sumarfrí. Kannski eitthvað í líkingu við sumarfrí þeirra Finns, Dísu, Lárusar, Palla og Betu?! Það stóð ævinlega heima að þegar þau voru búin að troða í sig nægju sinni af rjómaís, rétt mátulega búin að drekka límonaði og te í bakgörðum hvers annars og Palli var búin að sparka einum tuttugu sinnum í sköflunginn á pabba sínum við miðdegisverðarborðið þegar hann ætlaði að dangla í Betu ... já þá einhvern veginn fylltist allt af ævintýrum! Finnur fór í eitthvað sniðugt dulargerfi og hrelldi Gunnar lögregluþjón, bærinn fylltist af demantaþjófum, peningafölsurum og stórvarasömum sígunum og börnin höfðu ekki undan að stelast út í njósnaferðir, sönnunargagnaleit aðrar svaðilfarir. Af hverju er mitt sumarfrí ekki svona?

Ég er að hugsa um að leggja 824 blaðsíðna (og 4,2 kg) ævisögudoðrantinn til hliðar á næstu dögum, sömuleiðis fræðibækurnar níu sem ég ætti að vera að lesa og talvan mun fá algjöra hvíld. Í staðinn ætla ég að kanna hvort tilgáta mín um að nágrannarnir á neðri hæðinni séu smaragðasmyglarar sé ekki örugglega rétt, eins að staðfesta grun minn um að konan í næsta húsi stundi þjófnað á rándýrum, sérræktuðum köttum. Milli þess mun ég leysa nokkur innbrot í Pétursbúð og Kjötborg. Að sjálfsögðu mun þetta kosta hættuferðir í næturhúmi og varasöm ferðalög inn í hella og leynigöng. Einar verður mér svo til halds og trausts, íklæddur sem franskur sérvitringur, og Bjartur mun bíta í ökklann á þeim lögreglumönnum sem eru nógu vitlausir til að reyna að stöðva mig.

Eða kannski ég bara lesi Harry Potter? Og kaupi mér falleg blóm til að gefa dögunum eilítinn lit?

      

Eins og til dæmis þessar rósir sem ég get frætt ykkur um að bera hið mjög svo óvirðulega nafn Lenny! Já og hver veit nema ég dundi mér við að taka enn fleiri myndir til að setja inn á síðuna eins og þessar hérna?! Endilega látið mig samt vita ef ykkur grunar að einhver sé að undirbúa rán á pósthúsið og ég skal sjá hvað ég get gert!

 

13. júlí 2005

Nýtt útlit, nýjar myndir!!!

Ég hafði mig loksins í það að setja inn myndir úr Barcelonaferðinni. Þetta var pínu mál, svona þar sem þær hlaupa örugglega á hundruðum en hafðist loks! Gjörið þið svo vel:

Ég ætlaði hins vegar ekki að nenna að setja inn sumarútlit á síðuna eins og ég gerði í fyrra. Ég var því hálfpartinn búin að ákveða að láta bara vorið teygja sig fram á haust, enda var ég enn ánægð með túlípanana mína og tréin. Hins vegar veiktist ég skömmu eftir heimkomuna frá Spáni (helvítis loftkælingar!) og þar af leiðandi hafði ég nægan tíma til að dunda mér með tölvuna uppi í rúmi, búa til bakgrunna, skipta um lit á letrinu og velja nýjar myndir á föstu síðurnar. Afraksturinn er þetta hressilega sumarútlit með Barcelonaívafi! Verst að sumarið virðist aðeins komið á síðunni og á Spáni en ekki enn hafa látið sjá sig á Íslandi!

 

1. júlí 2005

Fyrir og eftir!

Eins og áður sagði höfum við heimilismeðlimir á Bárugötunni dundað okkur við það undanfarna daga að hressa upp á útlitið á baðherberginu. Nú höfum við loksins lokið störfum, erum búin að mála og lakka, þrífa, skipta um spegil, hillur, snaga og slár ... og punta heilmikið líka! Við erum harla ánægð með okkur og finnst baðherbergið agalega fínt. Núna eru stærstu áhyggjur mínar að tannkremstúpurnar passi ekki nóg vel við aðra muni ... ég mun í framtíðinni aðeins velja mér tannkrem eftir smekklegheitum! Finnst ykkur munurinn ekki mikill?

    

                                  Fyrir                                                                           Eftir

Verst að við virðumst ekki eiga neina nægilega góða mynd til að sýna ykkur ástandið fyrir breytingar, ég er búin að leita í gegnum allt myndasafnið og svo undarlega vill til að við höfum augljóslega engan áhuga haft á að mynda klósettið fram að þessu! Við þessa miklu leit í gegnum allar þær myndir sem teknar hafa verið á heimilinu á undanförnum árum rakst ég þó á eina sem, borin saman við nýlegar myndir, sýnir glöggt aðrar breytingar sem orðið hafa á heimilinu:

Fyrir (haustið 2002) ...

... og eftir ... eða eigum við að segja „í miðjum klíðum“!

Ótrúlegt hvað mikið getur breyst á stuttum tíma og það algjörlega án þess að kíttispaðar eða penslar komi við sögu! 

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar