Júlídagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

24. júlí 2004

Mikið óskaplega er langt síðan ég skrifaði síðast! Ég ber við tæknilegum örðugleikum og svo að sjálfsögðu Edinborgarferðinni sem við fjölskyldan komum heim úr í gær. Ferðin var stórfín, við skoðuðum kastala, grasagarð, dýragarð og kirkjur svo fátt eitt sé nefnt. Ég lét mitt svo að sjálfsögðu ekki eftir liggja í búðunum á Princes Street og eyddi aðeins meira en til stóð. En Einar verður örugglega voðalega feginn þegar visareikningurinn kemur ... þá þarf hann alla vega ekki að hafa áhyggjur af því hvað hann eigi að gera við alla þessa peninga sem hann vinnur sér inn fyrir!!! Þó ég hafi nú keypt sitt lítið af hverju verð ég að játa að ég missti mig fullkomlega í snyrtivörum og kremum! Á heimleiðinni var ég fjórum augnskuggum ríkari, einum glossi, einu púðri, tveimur augnblýöntum, einum andlitsmaska, einni andlitssápu, þremur kremum fyrir líkamann, tveimur sturtusápum, baðmjólk, kornakremi og fótakremi!!! Hér á Bárugötunni hefur því verið stofnað mini-spa og ég ætla að dunda mér við það það sem eftir er af sumarfríinu að löðra á mig öllum þessum kremum og ég hugsa að ég verði að fara að sofa með augnskugga ef ég ætla að ná að nota alla þessa fjóra áður en þeir komast úr tísku! En þetta var sem sagt vel heppnuð ferð og ég set nú inn nokkrar myndir og aðeins ítarlegri ferðasögu með tíð og tíma.

Já og talandi um ferðasögur og myndir þá er ég loksins, loksins, loksins búin að útbúa slíkt um Frakklandsferðina. Þar sem það tók mig næstum tvo heila daga að setja þetta upp og kostaði mig allt plássið á heimasvæðinu þá hét ég sjálfri mér að Edinborgarsíðan yrði aðeins viðaminni! Ég hafði nú samt lúmskt gaman af að setja inn myndirnar og rifja upp ferðina svona mánuði eftir heimkomu ... ég vona að þið hafið það líka ... gjörið svo vel!

 

9. júlí 2004

Börnin heim og Einar í snyrtifræðina!!!

Já, nýjasta baráttumálið mitt er að Einar skipti algjörlega um starfsvettvang og skelli sér í snyrtifræði! Ástæðan er andlitsbaðið sem ég fór í á huggulegri snyrtustofu hér í bæ í gær! Baðið var útskriftargjöf frá tveimur dásamlegum vinkonum mínum sem mér tókst ekki að nýta mér fyrr en núna. Þvílíka sælu hef ég sjaldan upplifað. Krem og heitar gufur og maskar og nudd ... ég get eiginlega ekki ímyndað mér margt betra en það! Ég var orðin svo ótrúlega afslöppuð þarna á bekknum að ég hef greinilega sofnað því ég hrökk upp við að ég var farin að hrjóta ... eða ropa, ég er ekki alveg viss hvort það var! Þakkaði mínum sæla fyrir að snyrtifræðingurinn hafði brugðið sér frá rétt á meðan! Þegar andlitsbaðinu svo lauk á mjög svo ótímabæran hátt þá var ég komin í svipað ástand og eftir valíumið í Glæsibæ þarna um daginn. Ég ætlaði varla að ná að skrönglast heim og þegar ég loksins ráfaði inn um dyrnar hér á Bárugötu varð ég að henda mér beint upp í rúm og liggja fyrir dágóða stund! Mæli ekki með að fólk fari í andlitsbað til að slappa af fyrir einhver átök ... það mun fara illa! 

Í það minnsta þá þætti mér ekki úr vegi að svona meðferð væri í boði daglega og þá að sjálfsögðu endurgjaldslaust. Eina leiðin til að ná því fram er að senda Einar bara beinustu leið í snyrtifræðina. Svo myndi ég fegin fórna borðstofuborðinu fyrir svona bekk sem ég gæti legið á meðan Einar beitti nýlega aflaðri þekkingu sinni á nuddaðferðum og kremum! Ég taldi mig nú nógu heppna með tásunuddið sem ég fæ nokkrum sinnum í viku hjá honum en sé nún að það er ekkert!!! Ekkert!!! Já hver þarf á lækni að halda þegar snyrtifræðin er annars vegar!!!

 

7. júlí 2004

Litlu þúfurnar og þungu hlössin ...

Lítil þúfa: Ég man mjög greinilega eftir því að sumarið sem ég var fimm ára voru uppi einhverjar vangaveltur um að senda mig ári fyrr í skóla. Ég var orðin fluglæs og mamma hafði einhverjar áhyggjur af því að mér myndi bara dauðleiðast í skólanum meðan bekkjarsystkinin lærðu að A segir aaaaaa og S segir ssssss! Hún hafði því fengið þá hugmynd að ef til vill yrði þetta ögn skárra ef ég færi bara í skóla ári fyrr. Ég þykist svo muna eftir því að hafa verið að keyra með henni í bíl þegar málið var borið undir mig og ég, af einhverjum ástæðum, þvertók fyrir að flýta skólagöngunni um eitt ár! Það var því ekki fyrr en rúmu ári seinna, haustið '82, að ég hóf skólagönguna.

Þungt hlass: Oft síðan hef ég velt fyrir mér hvernig líf mitt hefði orðið hefði mér litist vel á þessa hugmynd og heimtað að fá að byrja í skóla sem allra fyrst. Það er nokkuð ljóst að bekkjarfélagar mínir hefðu verið allt aðrir og þar af leiðandi sennilega mjög líklegt að ég hefði aldrei tengst sama fólki vinaböndum. Það liggur líka ljóst fyrir að ef ég hefði ekki kynnst henni Svanhildi minni í níu ára bekk þá hefði ég aldrei farið í Hagaskóla (því ég elti hana þangað) og þar með hefði ég misst af enn fleiri vinum og ótal lífsreynslum sem mótuðu mig svo um munaði. Þá er líka allsendis óvíst að ég hefði lagt leið mína í Menntaskólann í Reykjavík (var nefninlega enn að elta þá!) og ég tel það næsta víst að þá hefði ég aldrei farið í bókmenntafræði því sú ákvörðun var tekin í málvísindatíma hjá Sveini Yngva í 6. bekk. Ef ég hefði farið ári fyrr í skóla er ekkert víst að mig hefði langað að byrja í skólakórnum í sjö ára bekk eins og raunin varð. Þar af leiðandi hefði ég ekki haft margra ára kórreynslu að baki þegar Þórunn systir spurði mig hvort mig langaði að koma með henni í Háskólakórinn og hefði þar af leiðandi sennilega sagt nei! Enginn Háskólakór ... engin kórferð til Þýskalands og Tékklands ... enginn undarlega heillandi, ljóshærður lækna- og myndlistanemi með há kollvik og stórt bros ... enginn Einar. Og ef enginn Einar þá engin María. Enginn Hugi. Engin notaleg risíbúð við Bárugötu með lúnum orkideum í glugga og kumrandi kaffivél úti í horni. Já og ef það væri engin bókmenntafræði, enginn Mótettukór, enginn Einar, engin María, enginn Hugi, engin Bárugata, orkidea og kaffivél ... þá væri bara engin Guðrún Lára!!!

Lítil þúfa: Fimm ára dömu í bíltúr með mömmu sinni líst einkar vel á að byrja í skóla ári fyrr og krefst þess að móðirin vinni í því máli!

Þungt hlass: Litlu stúlkunni leiðist einstaklega mikið í skólanum, henni finnast bekkjarfélagarnir leiðinlegir og er með minnimáttarkennd yfir að vera langyngst. Hún verður fyrir alvarlegu einelti af hálfu skólasystkina sinna sem leggja líf ungrar stúlku nánast í rúst. Vegna þessa ástands treystir móðir hennar sér ekki í framhaldsnám til Bandaríkjanna eins og hana hafði dreymt um heldur ákveður þess í stað að sækja um kennarastöðu á Grundarfirði í von um að dóttirin geti hafið nýtt líf í nýju umhverfi. Á Grundarfirði líkar litlu fjölskyldunni einkar vel og systkinin vaxa úr grasi. Sumarið eftir að skólaskyldu lýkur fær unga stúlkan vinnu við fiskvinnslu hjá Djúpakletti. Á sama tíma ræðst þangað ungur og ævintýragjarn Suður-Ameríkubúi, Emilio að nafni. Unga stúlkan verður yfir sig ástfangin og að ári liðnu þegar Emilio þarf að snúa aftur til heimahaganna ákveður hún að elta hann. Hið unga par kemur sér fyrir í pínulítilli íbúð rétt við ströndina í Fortaleza í Brasilíu. Frumburðurinn, sonurinn Juan, fæðist ári seinna þegar móðirin er aðeins 17 ára gömul. Esteban kemur í heiminn að öðrum tveimur árum liðnum og Manuel aðeins 11 mánuðum eftir það. Á meðan Emilio stendur vaktina á veitingastað við Praia de Iracema annast móðirin unga syni sína þrjá af stakri prýði þrátt fyrir að ekki séu þau loðin um lófana. En það er ekki sjaldan sem hún hugsar með söknuði til móðurinnar og bróðurins á Grundarfirði og félaganna sem skemmta sér áhyggjulausir í félagsmiðstöðinni Eden. En þrátt fyrir allt er unga konan hamingjusöm og þegar drengirnir eru orðnir nógu stálpaðir ákveður hún að sækja tölvunám í kvöldskóla. Hún setur markið hátt og vonast til að geta seinna meir sótt um starf á einu af fínu hótelum borgarinnar og jafnvel orðið móttökustjóri í fyllingu tímans. Þegar söknuðurinn eftir íslensku fjölskyldunni, íslenska vatninu og kúlusúkkinu eru alveg að fara með hana gengur unga konan gjarnan eftir strandlengjunni, horfir yfir hafið, klæðir sig úr skónum, stendur berfætt í sandinum og horfir á sömu sól og mörgum klukkustundum áður skein á Grundarfirði, setjast í sjóinn. Á þeirri stundu grunar hana ekki einu sinni að á skurðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss standi ungur læknir inni á klósetti, horfi á sjálfan sig í speglinum og velti fyrir sér hvort sæta hjúkrunarfræðingnum sem er nýbyrjuð á deildinni finnist menn með skalla heillandi. Og enn síður hefur konan á brasilísku ströndinni hugmynd um að í notalegri risíbúð við Bárugötu hafi sérvitur heimspekiprófessor komið sér fyrir ásamt einum 15 köttum sem næstu tíu árin eiga eftir að halda vöku fyrir nágrönnunum með mjálmi og breimi. 

„Eingin afleiðíng er án orsakar, sagði Birtíngur hæversklega; allir hlutir eru í einni keðju og miða til hins besta.“ (Birtíngur, Voltaire).

 

2. júlí 2004

Nýr mánuður byrjar vel hjá okkur á Bárugötinni. Hæst ber þó auðvitað nýju nágrannana í bakgarðinum (sem þó teljast til íbúa Ránargötu ... sem er eiginlega alveg jafngott og að búa á Bárugötunni!). Á þessum eina degi frá því að þau hjónaleysin Eva og Gunni fengu íbúð sína afhenta höfum við hérna megin þróað með okkur einstaka tækni í að stökkva yfir vegginn sem aðskilur garðana án þess að rífa buxur eða innanlærisvöðva! 

Já það má eiginlega segja að gamlir taktar hafi verið rifjaðir upp í gær því frá því ég var svona sjö til fimmtán ára fannst mér alveg ómögulegt að ganga eftir venjulegum gangstéttum og götum á leið minni um borgina. Af einhverjum ástæðum sem eru mér gleymdar í dag þótti mér mun ánægjulegra að klifra yfir veggi, stelast í gegnum garða og skríða í gegnum rifin hænsnanet! Þetta áhugamál mitt gekk svo langt að ég var farin að skipuleggja sérstakar ferðir í þeim eina tilgangi að finna upp á nýjum „leynileiðum“ (sem sennilega hafa verið afskaplega lítið leynilegar í raun og alveg örugglega ekkert styttri en hefðbundnari leiðir). „Leynileiða-áráttan“ var hins vegar ekki nærri því jafnalvarleg og „skríða inn um glugga-áráttan“! Í hvert skipti sem ég uppgötvaði að ég hafði gleymt húslyklinum gladdist ég innilega enda var það ávísun á góða afsökun fyrir að skríða inn um gluggann til að komast inn (þrátt fyrir að móðir mín ynni í tveggja mínútna fjarlægð frá heimilinu og hefði sennilega fegin lánað mér húslykil ef þess hefði verið óskað). Eldhúsglugginn var vinsælastur og jafnframt auðveldastur viðureignar. Það þurfti bara að draga ruslatunnuna undir þann glugga, klifra upp á hana, tylla tánum á örmjóa brún í húsveggnum, vega sig upp, troða sér inn um lítinn gluggann og vona bara af öllu hjarta að ekki væri mikið af óhreinu leirtaui sem biði á lendingarstað! Einu sinni var eldhúsglugginn þó ófær af einhverjum orsökum og ég ákvað að reyna við stofugluggann í staðinn. Hann var aðeins opnanlegur efst og töluvert langt úr honum niður á jörðina. Með einhverjum ráðum og aðstoð Svanhildar sem var þarna gengin í lið með mér, tókst mér þó að klifra upp, finna einhvers staðar skrúfjárn til að losa festingarnar svo ég gæti opnað gluggann upp á gátt og mjaka mér inn. Vandinn óx þó þegar þar var komið sögu því meðan fæturnir og rassinn héngu út um gluggann náðu hendurnar langt því frá niður á borðstofuborðið sem beið fyrir neðan. Þarna hékk ég því á maganum, fullkomlega ósjálfbjarga og hugsaði ráð mitt! Ég er eiginlega mest hissa á að enginn löghlýðinn nágranni hafi kallað á yfirvaldið. Einhvern veginn minnir mig að ég hafi svo endað á því að hrökklast til baka út þrátt fyrir að ég hafi náð þeim árangri að komast hálf inn! Og skrúfurnar voru aldrei festar aftur þrátt fyrir miklar skammir móður minnar ... svo mikið man ég!!!

Þrátt fyrir að ég sé nú aftur farin að stökkva yfir veggi og stytta mér leið á leynilegan hátt held ég að ég láti gluggaprílið alveg vera ... enda töluvert langt upp í mína íbúð. Það mætti þó alltaf reyna við þvottahússgluggann ... já það er í raun alveg spurning um það!!!

 

Forsíða     Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar