Júlídagbók 2003

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

31. júlí 2003

Þá er ég komin aftur heim í heiðardalinn!

Átti unaðslega daga í Danmörku með góðum vinum. Það var alveg yndislegt að spóka sig í Birkeröd, Lyngby, Kaupmannahöfn og síðast en ekki síst í Eskemoseskov! Ég verð að játa að þó það hafi verið alveg dásamlegt að hitta Einar, María og Huga aftur þá hefði ég alveg verið til í að vera áfram. Er hér í dag búin að vera gráti næst yfir að hér séu engin tré, engin fiðrildi, engin sól, enginn hiti og engin Svanhildur! Það hefur bara alltaf átt aðeins betur við mig að hafa há tré, litskrúðug blóm og lítil dýr fyrir augunum. En það má að sjálfsögðu ekki skilja það sem svo að mér þyki ekki vænt um landið mitt því það þykir mér að sjálfsögðu. En ég væri voða til í að eiga eitt lítið og sætt sumarhús við ströndina einhvers staðar á Norðurlöndunum! Stefni tvímælalaust að því í framtíðinni. Þangað til stefni ég að því að flytja það besta inn frá Danmörku, nefninlega Svanhildi og fjölskyldu!

Hér er smá sýnishorn af dásemd undanfarinna daga. Þessi ævintýrafiðrildi rákumst við á í tugatali á leið okkar um Eskemoseskov. 

Nú er bara ritgerðarvinna framundan. Það er vægast sagt sjokkerandi að ágúst sé að renna upp. Ágúst er mánuðurinn sem hlutirnir gerast og þegar hann er liðinn þarf ritgerðin að vera tilbúin. Á morgun mun ég því setjast niður og hefja vinnuna við hana af kappi. Nú er um að gera að spýta í lófana og bretta upp ermarnar. En ég hlakka bara mjög til og það verður enn skemmtilegra að geta vonandi átt von á gráðu í kjölfarið. Annars er ég mjög svo efins um að verði af þessari útskrift. Finnst það bara of gott til að vera satt eftir u.þ.b. sjö ár viðloðandi þetta nám! Núna þegar ég sé fram á að erfitt verði að klúðra BA-ritgerðinni úr þessu þá fer ég bara að ímynda mér alls kyns aðra vitleysu sem muni setja allt úr skorðum. Ég er því algjörlega með plan B, plan C og gott ef ekki líka plan D!!!

 

26. júlí 2003

Eftir tvo tíma verð ég lögð af stað út úr bænum. Er orðin rosalega spennt. Ég á nú samt enn eftir að pakka svolítið. Æ, það er svo flókið að pakka löngu áður en maður fer því yfirleitt á maður eftir að nota helminginn af dótinu og þarf að rífa allt upp aftur. Reyni að pakka skynsamlega og er búin að taka helminginn af því sem komið var niður upp aftur. Þetta eru nú bara fjórir dagar! Svo þarf líka að vera pláss í töskunni ef maður skyldi rekast inn í einhverjar búðir!!! 

Ég vona að þið hafið það gott meðan ég er í burtu!

 

 

25. júlí 2003

Stór dagur í lífi mínu!

Ég byrjaði að skrifa B.A.-ritgerðina mína áðan!!!!!!!!! Þetta var betri tilfinning en orð fá lýst! Lauk við örstuttan inngang sem jafnframt var sá kafli sem ég kveið mest fyrir að skrifa í þessari lotu. Einhvern veginn finnst mér það oft vera inngangarnir og lokaorðin sem erfiðast er að ná utan um, eitthvað svo órætt og opið og kannski þeir kaflar sem maður skrifar mest frá eigin brjósti. Inngangurinn gefur ritgerðinni ákveðið yfirbragð og er því mjög mikilvægur kafli, slær tóninn fyrir það sem koma skal. En ég er s.s. búin að skrifa u.þ.b. eina blaðsíðu um póstmódernisma og áhrif hans! Byrja vítt og þrengja sig svo niður að efninu, er það ekki það sem kennt er í hinu merka riti Handbók um ritun og frágang? Ég þræddi mig alla vega frá póstmódernismanum og niður að dúllunni minni, Augusto Boal. Þegar ég kem heim mun ég svo hefjast handa við að skrifa um ævi hans, störf og hugmyndir. Og ég hlakka í rauninni bara til þess. Bæði er efnið svo skemmtilegt og nú finnst mér ég heldur engu þurfa að kvíða fyrst inngangurinn er tilbúinn og mér gekk ljómandi vel að skrifa hann. Reyndar er seinni hluti ritgerðarinnar aðeins lausari í reipunum en þar þarf ég að fjalla um hugmyndir annarra um hugmyndir Boal og hugmyndir mínar um hugmyndir Boal!!! Ég þarf að lesa mér svolítið meira til áður en ég get byrjað á því. En úff, hvað það var mikill léttir að ljúka þessu af. Ég er líka fegin að ég ákvað að gera ekkert meira en bara að skrifa þennan inngang. Ég var eitthvað með einhverjar hugmyndir um að skrifa bara fram á rauða nótt og nýta tímann þangað til ég færi út á flugvöll á morgun líka. En ég held að það sé bara ágætt að setja punktinn hér í bili og núna get ég farið að hafa það gott, undirbúa ferðina og láta mig hlakka til að hitta góða vini í útlöndum...með hreina samvisku!

Maður verður alltaf að marka svona stóra atburði í lífinu af. Hér er því sjálfsmynd af mér, tekin í þá andrá þegar ég var u.þ.b. að fara að slá inn fyrsta orðið! Ég er nú engin pæja á þessari mynd (og það er dálítið eins og ég sé með glóðarauga!) en þetta var merkilegra augnablik en svo að maður gæti eitthvað verið að hafa sig til og vera skvísulegur!

Hér er svo önnur mynd handa dyggum lesendum mínum:

Svona kom ég að dóttur minni í gær þegar ég fór inn í rúm að hátta! Ég veit ekki alveg hvað hefur gerst hér, hvort hún hefur bara runnið fram úr rúminu og endað svona eða hvort hún hefur eitthvað rumskað og ætlað að fara á stúfana en ekki haft orku í að fara lengra en rétt fram úr....í öllu falli sat hún þarna og steinsvaf! Ef vel er að gáð má svo sjá ponsulitlar táslur Huga gægjast þarna út á hægri jaðri myndarinnar! Það er ekkert, akkúrat ekkert, fallegra en sofandi börn!

Á morgun verð ég í háloftunum á leiðinni á vit ævintýranna. Ég fer nú ekki fyrr en í eftirmiðdaginn og mun því gefa mér tíma til að kveðja netvinina hér! Hver veit svo nema ég sendi Einari nokkrar digital myndir og biðji hann að setja inn hér svo lesendur geti fylgst með ferðalaginu og öfundað mig!!!

 

 

24. júlí 2003

Vefurinn okkar búinn að vera í einhverju óstuði frá því í gærkvöldi og ekkert hægt að uppfæra. Ég held þó ótrauð áfram að skrifa í dagbókina í trausti þess að hægt verði að kippa þessu í liðinn á næstunni! Ef þið eruð að lesa þessa færslu er sennilega allt komið í lag!

Búin að læra fullt í dag enda fer ég út til Kaupmannahafnar eftir tvo daga og þarf að hafa mig alla við svo ég geti slappað af með góðri samvisku hjá Svanhildi og fjölskyldu. Ég þykist nú viss um að hjólin fari að snúast fyrir alvöru þegar ég kem heim aftur enda ekki svo langt í skiladag þá (sem ég veit reyndar ekki hvenær er!!!). Við Svanhildur erum svo farnar að skipuleggja tíma okkar þarna úti. Vonumst til að komast í Jægerhytten á sunnudeginum en munum annars að mestu nýta tímann í huggulegheit, spjall og kannski smá búðarráp! Hver veit! Ég hlakka líka óskaplega til að sjá þennan litla mann!

Ef öll vefvandamál verða úr sögunni kveð ég ykkur á morgun eða hinn áður en ég skelli mér í húsmæðraorlofið!

 

23. júlí 2003

Enn einu sinni sit ég við tölvuna, orðin ótrúlega þreytt með bauga undir augum og geispa...en þrjóskast samt við að uppfæra dagbókina á hverjum degi! 

Var að koma úr matarboði hjá Hönnu fallegu vinkonu minni. Önnur falleg vinkona, hún Birta eldaði handa okkur rosalega góðan mat að indverskum hætti. Namm...þetta gula var rosalega gott! Við Brynhildur (einnig falleg!) sáum svo bara um að njóta matarins og húsakynnanna! Mikið hlakka ég til þegar við höfum það aftur svona huggulegt saman, verður vonandi sem fyrst!

Og mér gengur bara bærilega að læra. Er á svo spennandi stað í sjálfsævisögu kallsins þar sem segir frá því þegar honum var rænt af vondu herforingjunum í Brasilíu, fangelsaður, pyntaður og seinna sendur í útlegð. Ég lifi mig þvílíkt inn í þetta....hvaða brögðum munu þeir beita við að ná upp úr honum upplýsingum....hvenær sleppa þeir honum eiginlega lausum....hvað verður um Cécíliu og Fábían litla???!!! Framhald í næsta hefti!

 

22. júlí 2003

Eftir fimm sólarhringa verð ég með hellu í eyrunum, rétt ólent á Kastrup! Mikið hlakka ég til. Það verður svo frábært að hitta Svanhildi og fjölskyldu, sjá hvað Ástþór hefur stækkað mikið og svona að kynnast honum almennilega. Og í ferðinni fæ ég líka að kynnast einni lítilli dömu því Sigrún og Björn eignuðust dóttur á dögunum, hana Matthildi litlu, sem ég hef aldrei séð. Nýti ferðina því líka til að hitta hana, Snædísi stóru systur og foreldrana. Já þetta verður aldeilis skemmtilegt.

Við Einar fórum út að borða í kvöld í boði mömmu sem tók líka að sér að passa börnin. Ansi hugglegt. Fórum á Hornið og fengum okkur pizzu og spjölluðum, gengum svo heim og skoðuðum trén í hverfinu. Tré og runnar eru nýjasta áhugamálið okkar, ekki síst þar sem loks tókst að reyta í arfabeðinu fræga og nú stendur til að pota þar niður einhverjum fallegum runnum.

Og að lokum þessar myndir:

Huga finnast alltaf voða gaman þegar María leyfir morgunmatnum. Þá fer hann á stúfana og gæðir sér á afgöngum af bestu lyst!

Gleypirinn mikli!

Hér er María að hlusta á Ávaxtakörfuna á nærbuxunum. Hún hlustaði á þann disk hvorki meira né minna en þrisvar í röð í morugn, mér til mikillar armæðu!

Sparibrosið!

 

 

21. júlí 2003

Ný vika, ný markmið...þetta er slagorð mánudaga hjá mér!

Ég er reyndar búin að standa mig vel hvað markmiðin varðar og var ógeðslega dugleg að læra í dag. Það var reyndar ekki mikið mál þar sem ég var að lesa sjálfsævisögu Boal sem er hreint ótrúlega skemmtileg. Hann er svo frábær og mikil dúlla að það hálfa væri nóg! Ég er hér bæði búin að skellihlæja og hágráta...hvað margir geta sagt það um BA-ritgerðina sína!?! (Örugglega ófáir sem hágráta, reyndar!) Svo sé ég fram á að geta byrjað að skrifa sjálfa ritgerðina fljótlega. Úff, hvað ég hlakka mikið til þess. Það er svo erfitt þegar maður lærir og lærir en er ekki kominn með neinn mælikvarða á árangur eins og blaðsíðu-, orðafjölda eða slíkt! Ég á reyndar eftir að þurfa að lesa fullt meðfram skrifunum sjálfum en það gerir ekkert til, hlakka bara til þegar ég get farið að standa við eilíf loforð mín um að fara að skila leiðbeinandanum einhverju inn!

Og nú er orðið ansi stutt í húsmæðraorlofsferð mína til Kaupmannahafnar. Það er m.a.s. orðið svo stutt að ég er farin að þvo fötin sem ég ætla hugsanlega að taka með mér! Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og ég hef of oft lent í því að fatta kvöldið fyrir brottför að allt sem ég þarf að hafa með er óhreint! En þetta er óbrigðult merki um að brottfararstundin nálgist og ég fagna því að sjálfsögðu! Eftir nákvæmlega fimm sólarhringa stend ég ráðvillt við töskufæribandið á Kastrup!!!

María sem á að vera farin að sofa valsar hér fram og til baka þessa stundina, þykist þurfa að pissa, vantar hina og þessa bókina, er þyrst...bara svona eins og Einar Áskell (muna ekki allir eftir honum?). Þetta kallar hún að vera „dagleg“ sem ég geri ráð fyrir að þýði að kvöldin og þar með háttatíminn sé ekki hennar uppáhalds tími sólarhringsins!!!! Ég er nú sjálf svolítið dagleg líka...og því er best að reyna að rumpa af nokkrum blaðsíðum fyrir háttatíma!!!

 

20. júlí 2003

Kominn sunnudagur, leiðinlegasti dagur vikunnar, eða það finnst mér. Það er nefninlega algjört bull að mánudagar séu leiðinlegastir. Þeir eru jú mjög fúlir, það viðurkenni ég fúslega en sunnudagar eru verstir! Þá er maður strax farinn að kvíða svo fyrir mánudeginum, orðinn svo meðvitaður um að gamanið sé alveg að verða búið að fyrir vikið verður yfirleitt ekkert úr sunnudegi sem almennum frídegi og gleðidegi! Þetta hefur virkað nákvæmlega eins hjá mér með hitabylgjuna sem gengið hefur yfir Ísland undanfarna daga. Ég hef verið svo hrikalega meðvituð um að sælan taki allt of skjótan enda og að þá verði maður svo dapur að ég hef næstum verið farin að óska eftir rigningu til að ljúka vonbrigðunum af sem fyrst! Kannski svartsýni af verstu gerð!!! 

Við áttum frábært kvöld í gær þegar tvö af frændsystkinum mínum komu í heimsókn til okkar með fjölskyldur sínar. Við áttum ótrúlega huggulegt kvöld saman, grilluðum og borðuðum úti í garði. Krökkunum fannst svoooo gaman að leika sér saman og það er ekki spurning að þetta verður endurtekið sem fyrst. Að ári verða svo kannski allir orðnir færir í svona fjölskylduútilegur og þá fyrst byrjar nú fjörið!!! Endilega kíkið á myndirnar frá þessu kvöldi hér og sérstaka útgáfu Maríu af því hér!

Ég vona að allir eigi góða viku framundan og minni á að sjálf mun ég halda á vit ævintýranna til Kaupmannahafnar eftir einungis sex daga og skilja ykkur eftir hérna í rigningunni!

 

 

19. júlí 2003

Enn einn sumardagurinn að kveldi kominn. Mér er algjörlega farið að líða eins og persónu í Karli Blómkvist (fyrir þá sem ekki hafa lesið þær frábæru bækur þá gerast þær í endalausu sumri og sól, allir eru á stuttubuxum, sólbrúnir að drekka svaladrykki!). Við röltum aðeins í bæinn í dag, gerðum svo sem ekki neitt nema bara spóka okkur aðeins. Núna erum við hins vegar u.þ.b. að fara að fá góða gesti, Ölvir frændi minn með Evu sína og Emil son þeirra og Jódís frænka með Hrapp. Við sjáum fram á notalegt kvöld við grillið í garðinum. Ég setti inn nokkrar nýjar myndir og býð ykkur að kíkja endilega á þær hér

 

18. júlí 2003

Ég veit svo sem að þetta vita allir EN...það var frábært veður í dag!!! Man bara ekki eftir svona góðum degi í langan tíma. Brakandi sól og hiti en brotið upp af svalri golu svona af og til! Enn sem áður fór ég með námsbækurnar út í sólbað og enn sem áður er ég með næpuhvítan háls, nú á móti aðeins brúnni bringu!!! Ég verð að fara að gera eitthvað í þessu, ætli það sé hægt að bera brúnkukrem bara á hálsinn?! Ég fór svo á smá bæjarrölt með mömmu minni og Maríu og Huga. Alltaf svo gaman að rölta í bæinn á góðviðrisdögum. Það var reyndar alveg fyndið að það var enginn inni í búðunum og í rauninni ekkert svo margir á Laugaveginum...greinilega allir annað hvort í sundi nú eða bara á leið út úr bænum enda góð spá áfram!

Á morgun verður því enn meiri sól og enn meiri gleði. Undir kvöld höfum við frændsystkinin sem eigum börn ákveðið að hittast og borða saman. Nákvæm staðsetning hefur ekki verið ákveðin enn en nokkuð ljóst að við viljum geta verið úti! Það verður gaman fyrir Maríu og Huga að hitta Emil og Hrapp og okkur Einar að hitta Jódís, Ölvi og Evu...enda allt alveg frábært fólk!!! 

Góða helgi og munið eftir sólarvörninni!!!

 

Enn 17. júlí 2003

Vildi bara rétt láta vita að ég var að smella inn nokkrum myndum af Maríu og Huga frá því þau fóru með ömmu sinni í Nauthólsvíkina í dag. Endilega kíkið á þær hér.

 

17. júlí 2003

Ótrúlega er ég sniðug!

Nú ætla ég að uppfæra síðuna mína um hábjartan dag og losna því við að vera með tannburstan í munninum og ótrúlega sybbin þegar ég man að það er enn ógert!!! Reyndar hét ég sjálfri mér því þegar við opnuðum síðuna okkar að ég myndi nú bara sleppa þvi að skrifa þegar ég hefði ekkert að segja...já, það væri svo helvíti leiðinlegt að lesa blogg þegar fólk er bara að blogga til að blogga! Í þessa gryfju ætlaði ég sko ekki að falla!!! En viti menn! Æ, ég er svo ótrúlega nákvæm að mér finnst alveg glatað að sleppa úr degi í dagbókinni, það myndi bara riðla öllu kerfinu! Þannig að hér sit ég yfirleitt á náttfötunum með nýburstaðar tennur að uppfæra! En ekki í kvöld!

Ég er orðin rosa sólbrún eftir lærdómssólbaðið í gær. Reyndar er ég alveg búin að sjá að það virkar engan veginn að vera lærandi í sólbaði. Afraksturinn er þessi: Ég er sólbrún á ristum og sköflunum, bringu, nefi og kinnum! Aðrir staðir hafa orðið út undan þar sem ég hokraði yfir bókunum. Sérstaklega er áberandi, að ekki sé talað um asnalegt, hvað ég er trélímshvít á hálsinum! Andlitið sæmilega sólbrúnt og bringan líka en svona hvít, breið rönd í milli!!! Næst þegar sólin sýnir sig er ég að hugsa um að leggjast út í bol og breiða yfir andlitið á mér til að sólin skíni bara á hálsinn til að jafna þetta út!

Í gær var ég eitthvað að fetta fingur út í stirðbusalega dansandi íslenska karlmenn! Verð eiginlega í kjölfarið að gera eina játningu. Þegar ég horfði á þetta sjónarspil í gær varð mér óneitanlega hugsað til þess að umtalaðir einstaklingar væru sennilega foreldrar einhvers. Hafa ekki allir lent í því að horfa á foreldra sína dansa og finnast það alveg átakanlega vandræðalegt? Alla vega hef ég lent í því margoft! (Mamma þú ert frábær dansari, ég efast ekki um það, þetta er bara lögmál! Og Elli er sammála mér!!!) Nema hvað, nýlega er ég farin að átta mig á því að einnig ég er farin að breytast í hallærisdansandi foreldraviðundur. Stundum þegar við erum hérna heima að hlusta á tónlist og mér finnst tilvalið að hrista á mér rassinn get ég séð sjálfa mig utan frá og vá...ég er einmitt svona mamma sem börnin eiga eftir að æpa á þegar þau hafa aldur til. Ég er því sennilega ekkert skárri en hoppiboltarnir þarna í gær!!! Spurningin er bara hvort ég eigi að hætta þessu strax eða njóta þess á meðan börnunum finnst ég enn vera „mamma besta“ og frábær dansari!!!???

 

16. júlí 2003

Svona á lífið að vera!

Sat úti í sólinni í dag að læra meðan litlu englarnir mínir skemmtu sér hjá ömmu sinni. Varð nokkuð ágengt og lauk við aðalbókina! Jibbí! Þegar María og Hugi komu aftur til síns heima ákváðum við að taka okkur göngutúr niður í bæ. Það var barasta ekki hægt að vera inni í þessu veðri! Röltum niður á troðfullan Austurvöll þar sem einhverjir grænlenskir trumbuslagarar voru búnir að stilla sér upp og spiluðu ótrúlega hressilegan takt fyrir gesti og gangandi og nokkur dansandi börn!!! María skellti sér með í dansinn þegar hún sá vinkonu sína úr leikskólanum og var algjör dúlla þarna að hoppa og skoppa, ekki í takt við tónlistina. Reyndar fannst mér alveg vandræðalegt þegar nokkrir fullorðnir ætluðu að skella sér með í fjörið. Íslenskir, stirðbusalegir karlmenn sem halda að það flokkist undir dans að hoppa jafnfætis upp og niður á staðnum....ekkert sérstakt augnayndi!!! Við lukum svo bæjargleðinni á að kaupa ís áður en farið var til móts við fjölskylduföðurinn sem þurfti að húka inni í góða veðrinu og hlusta á fólk rekja raunir sínar og vandamál! Eyddum svo eftirmiðdeginum í garðinum og fórum ekki inn fyrr en klukkan að ganga sjö og þá voru enn allir að stikna á stuttermabolunum! Henni Svanhildi vinkonu minni finnst kannski ekki mikið til þessa koma...enda a.m.k. 10° heitara hjá henni og verið á stuttermabolum öll kvöld! En elsku Svanhildur þú manst nú enn, er það ekki, hvernig íslensku sumrin eru? Og eftir tíu daga verð ég komin í danska loftslagið líka!!! 

 

Hér er ein mynd af Huga frá því í dag. Honum finnst langskemmtilegast að fara bak við hús þar sem er algjör skuggi og hanga þar!!! Það finnst mér hins vegar ekkert skemmtilegt! Þarna er hann einmitt að tilkynna mér að hann sé að „sidda“!

Og hér er ein af Maríu að fá að prófa hoppiboltann sem Sara fékk í afmælisgjöf í gær! Þetta er rosa stuð!!!

 

 

15. júlí 2003

Ótrúlegur letidagur að baki og mest lítið búið að gerast. Í þetta skiptið er ég því að hugsa um að láta myndirnar tala sínu máli.

Hér er María að setja á sig smá gloss áður en við fórum á smá bæjarrölt. Hún vildi reyndar líka fá „svona svart“ en ég tók það nú ekki í mál!!!

Hér má svo sjá afraksturinn af snyrtingunni! 

Og þessa dagana er alveg aðalmálið hjá þeim systkinum að knúsast! Hugi breiðir út faðminn á móti Maríu sem vill glöð faðma hann á móti og spyr: „Er María systir best“!!! Það er ekkert eins fallegt og þessi sjón! Að minnsta kosti gleymast allar vökunætur, kúkableiur og ferðir á slysó!!!

Og að lokum er hér ein mynd af Maríu á leiðinni í afmæli til Söru vinkonu sinnar! 

 

14. júlí 2003

Einar sneri aftur til vinnu í morgun og skildi okkur Maríu og Huga ein eftir heima. Alveg ótrúlegt hvað lítið frí getur fengið mann til að gleyma því að það er jú ekkert annað en eðlilegt að fara til vinnu því í morgun fannst mér ég hreinlega bara svikin! En við áttum samt góðan dag, mamma fór aðeins út með þau systkin á meðan ég lærði og eftir að hún var búin að skila þeim af sér skelltum við okkur þrjú í Kirsuberjatréð að heimsækja mæðgurnar Rögnu og Högnu Sól sem þar voru við búðarkonustörf! Skvísurnar María og Högna settust út á stétt og sögðu „hæ, hæ“ við alla sem gengu fram hjá, bjuggu sér til leynihús í kjólföldunum hennar Rögnu og fundu sér ýmislegt annað til dundurs! Þær voru ótrúlega góðar svona þar til undir blálokin þegar þeim laust saman eins og reiðum köttum! Þá var Hugi líka orðinn ansi þreyttur á stöðunni þannig að börnunum var bara pakkað út og við röltum aðeins í sólinni og blíðunni. Ég náði nú að gera mér aðra ferð þangað seinna til að kaupa mér enn einn af þessum yndisfögru sumarbolum sem Ragna framleiðir um þessar mundir!!! Maður á aldrei of mikið af svoleiðis fegurð! Í leiðinni söng ég líka Agadú fyrir Högnu Sól kannski svona 487 sinnum!!! En bolurinn góði fer einstaklega vel við gleraugun mín en það er einmitt eitt af stærstu markmiðunum hjá mér þessa dagana að vera duglegri að nota þau. Það er náttúrulega alveg frábært að vera með gleraugun. Um daginn rifjaðist t.d. alveg upp fyrir mér að það eru í raun laufblöð á trjánum! Gleraugnalaus var ég alveg búin að steingleyma að það er eitthvað þarna í trjákrónunni annað en græn súpa. Þrátt fyrir þetta gengur mér ekkert rosalega vel að venja mig á að nota þau. Vandamálið er einhvern veginn að ég get ekki gleymt mér með gleraugun á mér og er alltaaf mjög meðvituð um þau. Mér finnst ég einhvern veginn alltaf sjá þau og líður voða svona eins og fjórða Bjarnabófanum með þau! Þið vitið, eins og ég sé með svona bófagrímu um augun!!! En nú er Einar læknir búinn að úrskurða að mér sé lögboðið að nota þau við akstur þannig að ekki er seinna vænna en að fara að gera gleraugun að föstum punkti!  

 

13. júlí 2003

Þá er síðasti frídagurinn að verða búinn. Á morgun fer Einar í vinnu og lífið fellur í eðlilegan farveg aftur. Eða reyndar ekki þar sem María er áfram í fríi. En þetta fer bara vel í mig, ég er þakklát fyrir þessa góðu daga og svo er stutt í næstu frílotu. 

Ég lauk við Harry Potter í dag. Sá að ég yrði að gefa mér smá tíma í að klára hana í einum rykk. Spennan var óbærileg undir lokin og ég var öll orðin helköld, hef örugglega verið orðin svo æst að blóðstreymið hefur verið orðið óeðlilegt!!! Og já, ég veit sem sagt núna hvernig leikar hafa farið í könnuninni minni, en að sjálfsögðu verður ekkert gefið upp að sinni! Það segir svo kannski sitt um hve eftirsótt þessi bók er að ég var búin að missa hana út úr höndunum svona korteri eftir að ég kláraði hana!!! Það er hins vegar óbærileg hugsun að þurfa kannski að bíða í þrjú ár eftir sjöttu bókinni. Ég vona svo sannarlega að J.K. Rowling hafi hrokkið í gírinn aftur við þessa bók og taki núna síðustu tvær í rykk! En þó það sé vissulega gaman að lesa svona góða bók þá er ég líka pínu fegin að vera búin með hana. Núna get ég væntanlega eytt aðeins meiri orku og tíma í ritgerðina enda er það nauðsynlegt.

Annars verið tíðindalítill dagur hjá okkur. Ég söng í messu í morgun, ég virðist einhvern veginn alltaf vera að syngja í messu þessa dagana! Stefán kórfélagi minn og kirkjuvörður segir a.m.k. að ég sé farin að lykta eins og gömul kirkjurotta!!! (Ætli þær noti s.s. líka þarna Mademoiselle ilmvatnið frá Chanel!!!) En áðan dró þó til tíðinda hér á bæ þegar ég rölti út á vídeóleigu! Það er náttúrulega skömm að því hvað við Einar förum sjaldan í bíó (að ekki sé nú talað um leikhús!) en maður skyldi þó ætla að við værum dugleg við að sækja okkur spólu til að smella í tækið eftir að börnin eru sofnuð. En nei, við erum afskaplega ódugleg við það líka. Í kvöld langaði mig bara til að sjá einhverja léttvæga afþreyingarspólu...reyndar langar mig aldrei til að sjá neitt annað en léttvægar afþreyingarspólur, svona þegar ég hugsa mig betur um!!! Ég smellti mér því á eina rómantíska gamanmynd, dægurmenning í sinni bestu (eða verstu?) mynd!!! 

Og að lokum verð ég að sýna ykkur fallegu eldliljuna mína sem er núna að springa út í garðinum. Njótið!

 

 

 

12. júlí 2003

Laugardagskvöld og allir í stuði!!!!!

Við vorum að koma úr kvöldmat hjá mömmu. Hún bauð upp á frábærlega góðan engiferkjúkling og aveg hreint ótrúlega köku í eftirrétt, áströlsk bomba, eitthvað sem maður þarf hiklaust að fá uppskriftina að!

Annars búinn að vera nokkuð rólegur dagur, ég náði lestrartakmarkinu og er því sæmilega vel sett. Ritgerðin er nú óðum að mótast í kollinum á mér og verður vonandi tilbúin til yfirfærslu á prent fljótlega. Ég kann bara ekki að vinna ritgerðir öðruvísi en að ákveða fyrst alveg hvað ég ætla að gera, lesa allar heimildir sem ég ætla að nota og svo sest ég niður og skrifa ritgerðina í einum rykk (eða svo gott sem). Ég hef aldrei náð tökum á því að gera fyrst uppkast og fara svo ótal sinnum í gegnum það, breyta og bæta, þangað til maður er ánægður með útkomuna. Ég byrja aldrei að skrifa fyrr en á síðustu stundu og þá skil ég ekki við setningu fyrr en ég er fullkomlega ánægð með hana! Kannski stundum óþarflega tafsamt, ég veit það ekki. En á móti kemur að þegar ritgerðinni er lokið á ég í mesta lagi eftir að fara yfir innsláttarvillur áður en ég get skilað henni inn. Ég er a.m.k. löngu búin að sjá að þetta er ferli sem ég get ómögulega breytt...fyrir nú utan að það hefur hingað til virkað bara glimrandi vel þannig að væntanlega er heldur ekki ástæða til þess. Mér fannst þó á köflum dálítið erfitt að sitja ritgerðakúrsinn í bókmenntafræðinni því þar voru einmitt lögð til grundvallar vinnubrögð eins þar sem gerðar eru a.m.k. 37 útgáfur af hverjum skrifuðum texta áður en hann er tilbúinn!!! Það bara opnaðist heill heimur fyrir mér þá þegar ég sá að það gerðu þetta ekki allir eins og ég!!! Svona getur maður verið sálfhverfur!

Á morgun er svo síðasti frídagurinn í þessari lotu. Ég kvíði svo fyrir að Einar fari aftur að vinna, það er svo ótrúlega gaman að hafa hann heima alla daga. Það verður líka kannski svolítið erfitt þar sem framundan er dálítil vinnutörn í ritgerðinni og María er í fríi á leikskólanum. Ég verð því með bæði börnin á minni könnu sem þýðir að tími til ritgerðarskrifa verður....akkúrat enginn! En ég nýti bara kvöldin í staðinn, er staðráðin í að skila hluta ritgerðarinnar inn til leiðbeinandans míns áður en ég fer út til Kaupmannahafnar.

Og talandi um þá ferð: eftir nákvæmlega tvær vikur verð ég.....að hafa það huggulegt í stofunni á Dambakken og spjalla svolítið við hjónin áður en gengið verður til náða. Hver veit nema ég gleðji þau með einhverju að heiman! Vá hvað ég hlakka til!!!

 

 

11. júlí 2003

Oj bara!!! 

Við ákváðum loksins að gera skúrk í arfabeðinu okkar alræmda! Hefur staðið til lengi og í dag ofbauð okkur arfinn sem kominn var í mittishæð! Einar ákvað að klippa hann alla vega aðeins niður og sjá svo hvort við gætum ekki pælt beðið upp á næstunni. Þegar búið var að snyrta svona hálft beðið birtust skyndilega grunsamlega margir geitungar! Sveimuðu þarna svona 10-20 stykki á einum stað! Já, það var ekki um að villast, það hlaut að vera geitungabú þarna einhvers staðar! Í samráði við Birnu á neðri hæðinni var því hringt í meindýraeyði. Meðan beðið var eftir honum róaðist nú talsvert í beðinu og við vorum farin að velta fyrir okkur hvort þetta hafi kannski bara verið einskær tilviljun. En meindýraeyðirinn kom og velti við stórum steini og í ljós kom þetta líka stærðarinnar bú! Jebb, svona 400-500 geitungar í einu svona stykki! Og þessu hefur maður gengið fram hjá á hverjum degi!!! Ef ekkert hefði verið að gert hefðu þeir sjálfsagt verið nokkrir, reiðu geitungarnir sem hefðu sveimað inn um gluggana í ágúst!!! Svo sem skárra að hitta á þá núna en þá! Síðast þegar ég leit á þá voru þeir nú orðnir ansi syfjaðir og slappir greyin eftir meðhöndlun meindýraeyðisins! 

Annars verið notalegur dagur í yndislegu veðri. Skelltum okkur í Árbæjarlaugina í hádeginu. Höfum nú ekki verið alveg nógu dugleg að fara með börnin í sund og Hugi var orðinn ansi hreint mikil skræfa og hefur greinilega gleymt öllum töktum úr ungbarnasundinu. Við komum því með hann ofan í laug alveg hágrátandi og hann vildi ekki gera neitt annað en að kúra alveg fast upp við mig! En hann jafnaði sig smám saman og undir lokin var hann alveg kominn í essið sitt, vildi bara spranga um bakkana og steypa sér svo ofan í hér og hvar! Þvílíkur munur á einu barni á bara klukkutíma!!!

Ég er nú ekki búin að vera alveg eins dugleg að læra og í gær...en þó búin að komast sæmilega vel áfram. Það er bara erfiðara að sitja inni og lesa í góðu veðri og þegar svona geitungahasar er í gangi í garðinum er náttúrulega vonlaust að ætla að sitja salírólegur með flókinn fræðitexta í höndunum! En ég held ótrauð áfram og finn að ritgerðin er öll að mótast í höfðinu á mér! Jafnframt sé ég líka að ég á því miður eftir að gera ansi margt! Já, svona námslega séð verð ég eiginlega að vona að það komi ekki margir góðviðrisdagar á næstunni! Sigurður Ágúst á samúð mína alla að sitja sveittur við verkefnið sitt í sumarblíðunni í Kaupmannahöfn!

Enn ein helgin framundan, alveg merkilegt! Reyndar er búinn að vera stöðugur sunnudagur í mér í þessu fríi Einars og ég er alltaf jafnhissa að búðir og annað sé opið! Góða helgi!!!

p.s. Setti inn nokkrar myndir af geitungafárinu. Kíkið á þær hér!

 

10. júlí 2003

Loksins, loksins, loksins!

Það hlaut að koma að því að ég yrði það stressuð yfir þessari BA-ritgerð að ég færi að gera eitthvað í því! Í morgun sá ég hlutina í réttu ljósi, þ.e.a.s. ég áttaði mig á hvað það væri fáránlegt að liggja uppi í rúmi á náttfötunum og lesa Harry Potter meðan kúlan svarta stækkaði og stækkaði! Ég var alveg hætt að gera mér grein fyrir hvort ég væri svona hrædd við vondu kallana í Harry eða tilhugsunina um ritgerðina sem ég átti að vera að smíða af list! Ég ákvað því að plata Einar til að gera fínt á loftinu þar sem lesaðstaðan mín er og fara svo upp og lesa heilan kafla í bókinni sem ég þarf nauðsynlega að klára svo ég geti hafist handa við að skrifa sjálfa ritgerðina. (Kaflarnir eru sko frekar fáir þannig að þetta var töluvert afrek!) Já, ég dreif mig ekki í þessu af virðingu við sjálfa mig heldur af því að ég varð náttúrulega að gera þetta fyrir Einar fyrst hann var svona góður að taka til fyrir mig!!! Svona getur maður platað sig til að gera alls konar leiðinlega hluti og það er kannski ekkert verra! En í öllu falli er kaflinn lesinn og ég bætti um betur með því að smíða beinagrind utan um ritgerðina og senda leiðbeinandanum mínum þolinmóða bréf og biðja hann að hitta mig hið fyrsta! Já, boltinn er svo sannarlega farinn að rúlla í ritgerðarmálum og ég sé núna að ég má engan tíma missa! Reyndar gerði þetta átak mig eiginlega enn stressaðari en áður því núna sé ég hvað ég á gífurlega mikið eftir og tókst að spana mig upp í smá kvíðakast! En það er líka óneitanlega léttir að vera komin almennilega af stað. Finn líka að þetta var spark í rassinn og nú held ég ótrauð áfram!

En í kvöld ætla ég að hafa það náðugt. Ekki hægt að lesa allan daginn því þá gefst maður bara upp allt of fljótt. Nei, í kvöld ætla ég að velja milli þess að lesa Harry eða þess að horfa á lélega sumardagskrá sjónvarpsstöðvanna og prjóna! Hvort tveggja mjög góðir kostir! Og svo er ég komin með nýjan kvöldsið! Eins og flestir áhangendur síðunnar vita sjálfsagt er ég mikil kaffikona! En þar sem það er ekkert allt of skynsamlegt að drekka rótsterkt kaffi úr La Pavoni vélinni okkar seint um kvöld er ég farin að taka upp á því að laga besta te í heimi! Ótrúlega vont brenninetlute sem ég lét gabba mig til að kaupa þegar ég var ólétt að Huga þar sem bíræfnir sölumenn sannfærðu mig um að það væri vatnslosandi! En ég kreisti slatta af sítrónusafa út í það og set eina til tvær sítrónusneiðar og svo gommu af hunangi! Alveg ótrúlega ljúf kvöldhressing sem ég mæli með!

Og María er búin að ákveða hvenær hún ætlar að hætta með duddur! Það á að vera þegar komið er barn inn í mallann á mér! Jahá...ég er því miður hrædd um að hún geti nú þurft að bíða aðeins eftir því! En hún er allt í einu komin á þetta skeið að vilja systkini og þar sem hún er bara þriggja ára er hún kannski frekar óraunsæ en talar samt statt og stöðugt um þegar litla barnið kemur!!! Já, já, alveg eins og það verði bara í næstu viku eða þar næstu!!! Ég veit ekki alveg hvernig ég á að útskýra fyrir henni að litli bróðir eða litla systir sé bara ekki á teikniborðinu næstu árin! En ég má kannski bara þakka fyrir meðan hún spyr ekki hvernig börnin verði til!!!

Setti inn nýjar myndir af þeim systkinum í baði áðan. Aldeilis kominn tími á nýjar myndir hér á heimasíðubæ! Kíkið endilega á þær hér!

 

 

9. júlí 2003

Hér gerist mest lítið þessa dagana. Ég er eiginlega orðin hálfundrandi á að maður geti verið í sumarfríi en afkastað svona afskaplega litlu. Ein biluð matvinnsluvél í viðgerð og ein ferð í bankann, það er allt og sumt. En æ, ég má ekki vera svona neikvæð því við höfum auðvitað haft það mjög notalegt heima við, sötrað kaffi og spjallað við börnin og svona. Manni fer bara að líða hálfóþægilega af svona mörgum „sunnudögum“ í röð! En þetta aðgerðarleysi hefur það einnig í för með sér að erfitt er að uppfylla skyldur sínar á netinu og dagbókin því heldur lítilfjörleg um þessar mundir, afsakið það!

Ég fékk reyndar ánægjulegt símtal í dag þegar hringt var í mig frá Storknum til að tilkynna að nýja barnablaðið væri loksins komið. Hinar yndislegu starfstúlkur búnar að fá nóg af heimsóknum mínum og símhringingum undanfarna tvo mánuði þegar ég hef verið að spyrjast fyrir um blaðið góða. Þeim hefur greinilega fundist best að láta mig bara vita strax til að losna svo við mig sem fyrst aftur. En ég er komin með blaðið í hendurnar og garn í lítið herravesti á litla herrann minn og verður því ekkert að vanbúnaði þegar ég klára skokkinn á Maríu. Það er svo ótrúlega góð tilfinning að vera með glænýtt garn í poka, taka það upp og fitja upp á einhverju spennandi verkefni. O.k. nú hljóma ég örugglega hræðilega leiðinlega en þetta er samt satt. Tilfinningin er eitthvað svo fersk að byrja á einhverju alveg nýju verkefni. Og það er svo sem sama hvort það er prjónadót eða eitthvað annað. 

Ég læt staðar numið hér, sýnist á öllu að ég sé að breytast í kórsyngjandi, tiltektaróðan handavinnukennara!!!

 

8. júlí 2003

Í maganum á mér er stór svört kúla sem stækkar og stækkar...þetta er hin hræðilega en vel þekkta B.A.-ritgerðarkúla! Það er ofar mínum skilningi hvernig ég get verið orðin ótrúlega stressuð með þetta en verið samt að gera ekki neitt. Í dag tókst mér að halda á bókinni sem ég á að vera að lesa í, í smá stund og trúið mér ég hef ekki komist það langt í marga daga! Reyndar er aðallega ein ástæða fyrir að ég leyfi B.A.-ritgerðarkúlunni að stækka óáreittri...Harry Potter! Nú er ég u.þ.b. hálfnuð við bókina og orðin alveg ótrúlega spennt. Og talandi um Harry þá lýkur getrauninni í dag! Þáttakan var framar vonum en ekkert verður gefið upp um úrslit fyrr en...tja...alla vega ekki fyrr en ég veit sjálf hver vann!!!

Langur sumarleyfisdagur er annars  að kveldi kominn hér hjá sumarleyfisfólkinu á Bárugötu. Við gerðum svo sem ekki margt, fórum í smá útréttingar og svo eldaði Einar alveg dásamlega ljúffenga tómat-chilli súpu úr glænýjum íslenskum tómötum. Það gerist ekki meira sumar en það! 

Ég freistaðist til að kaupa mér Vogue í dag. Alltaf dálítið gaman að kaupa svona fín blöð. Þarna er innlit til heimsfrægrar fyrirsætu í fína húsið hennar sem ekki lætur á sjá þó þar búi hjón með þrjú börn. Úff, maður verður nú svolítið deprimeraður af svona. Hér sit ég og er ekki enn búin að koma því í verk að mála baðherbergið (þó við höfum komið því í verk um árið að gera litaprufur á veggina og sitjum því uppi með mislitar málningarskvettur á veggjunum!), olíubera gólfin né nokkuð annað sem þó er bráðnauðsynlegt. En það er líka svo mikið svindl að bera sig saman við svona myndir í blöðum. Í fyrsta lagi er kannski ekki svo mikið mál að eiga fallegt heimili þegar maður á pening til að kaupa flott hús, innbú og fá svo einhverja innanhússhönnuði til að skipuleggja allt saman og koma jafnvel með manni í innkaupaleiðangra, geta alltaf verið með fersk blóm o.s.frv. Í öðru lagi er svo kannski lítið mál að viðhalda fínheitunum þegar maður er með fólk sem sér um þrifin og í þriðja lagi er frekar auðvelt að stilla öllu upp fyrir eina myndatöku, færa bara til smádót og húsgögn þannig að það komi vel út á einni mynd þó maður færi það svo bara til baka aftur. Það er bara algjört frat að vera að miða sig við svona blöð hvað híbýli varðar (og fyrirsæturnar...don´t get me started!!!) og ég er því búin að ákveða að vera hæstánægð með fínu íbúðina mína þó það sé sandur á gólfunum og Bjartur sé búinn að rífa upp helminginn af áklæðinu á sófann! En reyndar stendur nú til að bæta úr þessu með málningaklessurnar á baðinu...þær ætla ég ekki að taka í sátt!!!

Og nú styttist óðum í frægðarför mína til Kaupmannahafnar. Við Svanhildur með á prjónunum að trylla lýðinn gjörsamlega og spurning hvort Fredrik dömpar ekki bara þessari Mary Donaldson eða hvað hún nú heitir eftir að fregnir berast af okkur skvísunum á svæðinu. Eða nei, kannski ekki við erum nú aðallega að hugsa um að vera bara í hárgreiðsluleik, drekka kaffi og leika við Ástþór Örn, nú og svo verða rifjaðir upp einhverjir taktar í prjónamennsku. Elsku Svanhildur mín, nú styttist aldeilis í þetta hjá okkur!

 

7. júlí 2003

Þá er fyrsti formlegi sumarfrísdagurinn langt kominn. Búinn að vera bara notalegur. Við kíktum í hádegismat á Súfistann en erum annars bara búin að hafa það notalegt hér heima, höfum lesið og hlustað á tónlist. Já í rauninni bara frekar viðburðalítill dagur og ég hef því ákveðið að láta myndirnar tala sínu máli:

Hér eru Einar og María í smá skólaleik. Ég elskaði að fara í þannig leiki þegar ég var lítil. Fóru þannig fram að ég þóttist vera kennarinn og píndi Jódísi frænku og Ella bróður til að vera nemendur mínir og batt þannig snöggan enda á þeirra ljúfa líf áður en skólaskyldan tók við. Ég man það eitt að ég var mjög ströng og sífellt með stjörnustimpilinn á lofti!!! En þetta var nú ekkert þannig hjá þeim feðginum í dag. Einar keypti svona litla verkefnabók handa henni um daginn, um aða gera að byrja nógu snemma (hún er að sjálfsögðu undrabarn hafi það farið fram hjá einhverjum!!!) og þarna voru þau að æfa sig í að gera lóðréttar línur! Ég veit ekki hvort það sést nógu vel á myndinni en línurnar sem María gerði sjálf voru ótrúlega krúttaralegar! Tók reyndar gífulegum framförum eins og eins og jafnframt kemur fram á myndinni, þ.e.a.s. ef eitthvað sést á annað borð.

Og þarna er María að halda á bróður sínum. Henni finnst þetta alveg ótrúlega skemmtilegt en hann er eitthvað minna fyrir fjörið. Reyndar endaði þetta með slysi nokkrum sekúdnum eftir að smellt var af þegar Hugi datt á borðshornið sem er þarna fremst á myndinni! Og ég bendi sérstaklega á að einhver sumarfrískall er að hafa það náðugt þarna í sófanum!

Og hér er svo ein af Huga að lesa í „voffa“bókinni sinni en hún er í miklu uppáhaldi. 

Vegna fjölda áskorana (sjá gestabók) er ég svo búin að setja upp kommentakerfi. Eða réttara sagt held ég að það sé komið inn, vona það besta! Hlakka til að heyra frá ykkur á þeim vettvangi!

 

6. júlí 2003

Ég vaknaði eldsnemma í morgun eða alla vega löngu á undan öðrum fjölskyldumeðlimum (María var tímabundið flutt til ömmu sinnar!). Ástæðan var þessi:

Í rúminu breiddu þessir tveir herramenn úr sér og þó það sjáist ekki alveg á myndinni þá var plássið sem mér var ætlað svona 10 cm á breidd! Ég ákvað því bara að drífa mig á fætur og sá ekki eftir því. Átti hér ótrúlega notalega stund ein með góðan kaffibolla í annarri hendinni og Harry Potter í hinni. Það er svo ótrúlega sjaldan sem maður er bara einn að dunda sér eftir að maður eignast börn og þessi stund var því nokkuð kærkomin. En svo var auðvitað gaman líka þegar feðgarnir fóru á fætur og við sameinuðumst yfir morgunmat.

Ég dreif mig svo í messusöng, virðist eitthvað ganga erfiðlega að standa við loforðið sem ég gaf hér um að hætta öllu kórtali! Í kirkjunni sá ég svo bréf sem borist hafði frá Olivier Latry organista í Notre Dame sem var eitt af aðalnúmerunum á Kirkjulistahátíðinni. Hann lofaði þar hátíðina og aðstandendur hennar í hástert en einnig kórinn minn og flutninginn á Mótettunum. Ég man sérstaklega eftir setningunni „And the choir!!!!!“ úr bréfi þessu. Hann virðist helst vilja fá okkur sem fyrst til að syngja í kirkjunni sinni. Það væri nú ekki amalegt að syngja í Notre Dame og ég kem til með að styðja það heilshugar að farið verði í frægðarför til Parísar.

Við skelltum okkur svo í síðdegiskaffi á Selfoss til mömmu Einars og hittum þar fyrir bræður hans, mágkonu og bræðradætur. Ég var svolítið kvíðin að vera að ferðast á þessari annarri mestu ferðahelgi ársins en þetta gekk furðuvel. Við erum svona aðeins búin að vera að fylgjast með umferðinni hér og það virðast þó nokkrir hafa skroppið út úr bænum og allir á leið heim!!!

Á morgun hefst svo sumarfríið formlega! Ætli við nýtum það nú í annað en bara að kíkja í kaffi til vina og ættingja og svo þarf ég eitthvað að reyna að vera dugleg að læra meðan húsbóndinn getur annast börnin. Þetta er líka bara vikufrí í þetta skiptið og svo fær Einar aftur frí í lok júlí. Þá ætla ég hins vegar að stinga af til Kaupmannahafnar!

Og ég minni enn á Harry Potter getraunina hér að neðan! Hvet alla til að taka þátt. Dumbledore enn með þessa vafasömu forystu að þykja líklegastur til að vera kálað í nýju bókinni. Enn eru eftir tveir dagar til að kjósa og keppast um glæsilega vinninga.

Góðar stundir!

 

5. júlí 2003

Eftir nákvæmlega þrjár vikur verð ég að lækka flugið yfir Kaupmannahöfn. Í kjölfarið verður svo stanslaus gleði og notalegheit hjá hjónunum að Dambakken 3! Ég hlakka ótrúlega til!

Dagurinn í dag var svo ekki af verri endanum. Ég hitt þær frænkur, Erlu Kristínu og Berglindi á Ítalíu í hádeginu og við fengum okkur pizzur, spjölluðum, hlógum og fylgdumst með mannlífinu á Laugaveginum. Tókum okkur svo rölt, kíktum í búðir og spjölluðum og hlógum svolítið meira. Þetta verður tvímælalaust reglulegur viðburður hjá okkur að hittast svona yfir huggulegum hádegisverði. Ég sannaði það hins vegar enn og aftur hve mikill þræll tískunnar ég er. Var nefninlega svo spennt að vígja nýju skóna þrátt fyrir að þeir væru enn svolítið stífir og fékk að launum óendanlega sársaukafullt hælsæri. Læt þó eki deigan síga og mun án efa nota skóna mikið á næstunni, kannski bara með hælsærisplástur í stíl!!!

Rólegt kvöld framundan. Ég er að hugsa um að hafa það notalegt með bók eða prjóna í hönd. Nú er loksins væntanlegt nýja Rowan barnablaðið og ég verð því að reyna að hespa skokknum af sem fyrst! Laugardagskvöld og allir í stuði...eða þannig!!!! Vona að þið eigið öll góða helgi!

 

4. júlí 2003

Þá er runninn upp síðasti dagurinn fyrir sumarfrí. Við vorum alveg æsispennt í morgun, öll fjölskyldan að fara nú að hefja þetta langþráða frí.

Ég kíkti aðeins á upphaf útsölunnar í Kringlunni í gær. Mér leiðast útsölur annars alltaf óskaplega. Maður verður eitthvað svo æstur í að kaupa eitthvað og er í stórkostlegri hættu á að verlsa eitthvað sem mann í rauninni langar ekkert í bara af því að það er eitthvað ódýrara og af því að allir í kringum mann eru á þeim buxunum! Ég keypti mér reyndar skó...ekki á útsölu! Þegar ég kom heim kíkti ég svo á heimasíðu skóframleiðandans og sá þar enn flottari skó, bleika með blómi! Þeir voru hins vegar ekki í boði í búðunum hér. Mér til mikillar gleði komst ég hins vegar að því að í Kaupmannahöfn eru svona 12 búðir sem selja þetta merki og hver er einmitt á leiðinni þangað eftir þrjár vikur og einn dag?....ég!!!! Hver veit því nema ég komi heim með bleika skó í farteskinu!

Og Harry Potter getraunin er enn í fullum gangi hér að neðan! Dumbledore með flest atkvæði enn sem komið er og hlýtur þann vafasama heiður að vera líklegastur til að gefa upp öndina í nýju bókinni! Minni á að enn er tækifæri til að kjósa og reyna að keppast um stórkostleg verðlaun! Ekki kannski alveg nógu margir búnir að taka þátt, hmmm! Sko, þetta er ástæðan fyrir að ég er ekki með kommentakerfi, það myndi öruggleg enginn kommenta hjá mér!!! En reyndar komst ég hálfa leiðina í að ná mér í slíkt í gær en þegar þetta fór ítrekað í klúður hjá mér gafst ég upp...tímabundið! Ég fæ Einar til að hjálpa mér við að setja það inn í fríinu!

Svanhildur vinkona mín er ótrúleg. Stjörnurnar flykkjast að henni eins og mý að mykjuskán! Hún hefur hitt alls konar heimsfrægt fólk og má þar til dæmis nefna De La Soul félaga og frönsku leikkonuna Julie Delpy! Í gær hitti hún svo engan annan en Viggo Mortensen, stjörnuna úr Lord of the Rings og fleiri myndum! Hann var þarna að árita bækur í miðbæ Kaupmannahafnar og þangað stormuðu þau mæðgin Svanhildur og Ástþór Örn auðvitað með sína bók! Ekki nóg með það heldur tókst henni fyrir vikið að fá fjallað um sig í Berlingske Tidinder! Lesið þetta!

Hugi er búinn að eyða hálfum morgninum í að troða sér í eitt stígvél og vill greinilega fara að komast út! Ég er hins vegar ekkert á þeim buxunum og hann er líka enn bara á nærbuxunum (voða fyndið grín!!!). 

Á endanum gafst hann svo upp á að fá mig út með sér og fór bara í staðin að lesa nokkrar bækur úr bókaskáp foreldranna! Við mægðin óskum ykkur öllum góðrar helgar!

 

3. júlí 2003

Styttist í helgina og frí Einars eins og þið sem lesið hans eigin dagbók vitið sjálfsagt. María byrjar í fríi á sama tíma þannig að hér verður standandi helgi í eina 9 daga! Það verður gaman að hafa alla fjölskylduna heima, við Einar getum sötrað kaffi að vild saman en verst að krossgátan fylgir Mogganum áfram bara einu sinni í viku! Skyldu þeir ekki vita að við verðum í fríi?!

Ég er orðin æsispennt í Harry Potter. Komin á 6. kafla! J.K. Rowling var búin að lýsa því yfir fyrir margt löngu að einhver söguhetjanna myndi deyja í þessari bók og að hún hefði tárast þegar hún skrifaði þann kafla. Þar sem ég er bara rétt að byrja og veit ekkert hver það er ákvað ég að það væri gaman að hafa smá getraun. Gaf mér það bessaleyfi að velja sex persónur sem mér finnst líklegari en aðrar að fái að fjúka (og að höfundurinn hefði mögulega tárast yfir að drepa!!!) og bið ykkur nú, lesendur góðir að kjósa hver ykkur finnst líklegastur! Vitanlega verður ekkert gefið upp um rétt svar, a.m.k. ekki fyrr en kjósendur eru búnir með bókina! Og þið hafið bara fimm daga héðan í frá til að kjósa, ég treysti því að enginn sem ég þekki verði búinn með bókina fyrir þann tíma! Þegar þar að kemur verða svo vegleg verðlaun veitt fyrir réttar ágiskanir!

Annars allt gott af okkur að frétta!

 

2. júlí 2003

Fyrsta dagbókarfærslan skrifuð á nýju tölvuna!!! Úff, hvað ég var annars reið út í hana í morgun. Var hér í rólegheitum að dunda mér við skjáinn þegar allar upplýsingarnar sem Einar hafði mikið fyrir að flytja milli talva í gær hurfu allt í einu! Ég varð alveg öskuill út í tölvuna og tölvubransann í heild. Það er nú líka dálítið óhugnaleg tilhugsun að einhverjar tölvur taki ákvarðanir um hvað maður vilji hafa í tölvunni sinni og hvað ekki.  Það var einmitt eitthvað þannig sem henni gekk til í morgun, í öllu falli hafði ég ekki fyrirskipað neinar breytingar! En alla vega er Einar núna búin að bjarga þessu og ég aftur orðin sátt. Leyfði honum meira að segja að gera hér eina breytingu til batnaðar...segið svo ekki að ég sé ekki stórmannleg!

Að öðru leyti hefur dagurinn verið ósköp rólegur. Ég byrjaði af fullu kappi á Fönixreglunni í gærkvöldi. Og Þórunn mín, þú þarft engar áhyggjur að hafa, ég mun að sjálfsögðu ekki ljóstra neinu upp um gang mála!!! En bókin lofar góðu (mér leyfist vonandi að segja það, er það ekki?!) og þar sem ég var svo fúl út í tölvuna í morgun ákvað ég að það væri góð afsökun fyrir að nenna ekki að læra og lesa bara í staðinn!

Og eins og flestum aðdáendum síðunnar er orðið kunnugt breyttum við aðeins til á forsíðunni. Sú gamla átti aldrei að vera nema til bráðabirgða þangað til betri fjölskyldumynd næðist. Það er hins vegar þrautinni þyngri að ná báðum börnunum kátum og hressum saman á mynd. Og tókst eiginlega ekki heldur í þetta sinn því María er eitthvað heldur niðurlút en það verður að hafa það og við lítum því bara lika á þessa forsíðumynd sem bráðabirgða niðurstöðu enn og aftur!!!

 

1. júlí 2003

Já þá er barasta kominn júlí! Mig grunaði nú að þegar það gerðist yrði ég komin allt of stutt með ritgerðina...og sú er raunin! Ég verð að einsetja mér að hafa þetta vinnumánuðinn mikla! En líka ferðamánuðinn mikla því núna eru rúmar þrjár vikur í að ég skelli mér til Kaupmannahafnar að heimsækja vini og vandamenn! Það verður sem sagt ýmislegt á döfinni í þessum mánuði.

Við Hugi annars búin að hafa það huggulegt í morgun. Ég aðeins að fikra mig áfram í nýju tölvunni, ansi þægilegt að geta bara setið við borðstofuborðið og vafrað á netinu en þurfa ekki alltaf að hírast hér undir rjáfri (sem er nú reyndar býsna notalegt líka!). Nú er ungi maðurinn hins vegar farinn að leggja sig og ég að hugsa um að nýta tímann í að rifja upp Harry Potter. Ég spjallaði nefninlega aðeins við Svanhildi í símann í gær og komst að því að ég er orðin ansi hreint ringluð í söguþræðinum. Man auðvitað í grófum dráttum hvað gerist en finn að ég er dálítið farin að rugla saman hverjir eru í góða liðinu og hverjir í því vonda! Tók því upp Eldbikarinn í gær og blaðaði í síðustu blaðsíðunum til upprifjunar. Nú er ég orðin æsispennt að byrja á Fönixreglunni sem hefur starað á mig móðguð undanfarið! Þegar ég las hinar fjórar bækurnar í einum rykk sumarið eftir að María fæddist var ég orðin svo heilluð að mig var farið að dreyma næstu bók á nóttunni og þar var ég í stóru hlutverki!!! Ég var svo spennt að fá framhaldið að ef einhver hefði sagt mér þá að ég þyrfti að bíða eftir því í þrjú ár hefði ég örugglega farið að gráta! Það hlýtur því að teljast undarlegt nokk að ég skuli svo bara láta bókina bíða dögum saman þegar hún loks kemst undir mínar hendur. En nú á ég bara eftir síðustu smásöguna í After the Quake og ef allar áætlanir standast verð ég því að byrja að lesa Harry Potter and the Order of the Phoenix á morgun!!!

Í tilefni mánðarmóta býð ég svo lesendum mínum upp á tvær myndir:

Hér er lítill maður sem vildi ómögulega fara að sofa áðan...en var svo reyndar alveg steinrotaður svona fimm mínútum eftir að þessi mynd var tekin af honum hoppandi í rúminu!

Og hér er svo ein mynd af prjónadótinu mínu! Er að prjóna skokk á Maríu og litirnir í honum fara svo einstaklega vel við bakgrunninn hér á síðunni!

Ég vona að lesendur mínir nær og fjær eigi góðan dag í dag!


Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar