Jólin á Bárugötu   

Eins og við var að búast fóru jólin einstaklega vel fram hér hjá okkur á Bárugötunni. Gjafir fylltu stofuna, jólasteikurnar magann og gleðin hjartað!

Annar af amaryllislaukum heimilisins skartaði sínu fegursta á aðfangadegi.

Í hádeginu fengu María og Hugi að snæða piparkökukarlana sem þau höfðu bakað og skreytt á Bakkastöðum fyrr í mánuðinum. Þau voru vitanlega orðin spennt yfir kvöldinu, eða aðallega María þar sem Hugi vissi svo sem minnst um hvað í vændum var.

María skreytti sinn karl alveg sjálf ... en amma hafði séð um Huga piparkökudreng!

Hann var samt kátur með þetta allt! Jólasveinamjólkin svo kallaða hefur verið sérdeilis vinsæl undanfarnar vikur og erum við foreldrarnir strax farin að kvíða því þegar þessar líflegu mjólkurfernur hverfa af sjónarsviðinu ... það verða vonbrigði sem erfitt verður að tækla!

Allt tilbúið í stofunni! Heilmikið brauk og braml hefur átt sér stað að undanförnu hér á Bárugötu þegar nýjar bókahillur voru keyptar og húsgögnum skákað til. Þetta hafðist þó sem betur fer í tæka tíð fyrir jólin! Takið sérstaklega eftir jólaglugganum sem er stolt húsfreyjunnar ár hvert. Þangað fara Georg Jensen óróarnir og ýmislegt fleira jólaskraut í sérflokki!

Jólatréð líka tilbúið og pakkarnir farnir að tínast undir það. Þetta er þó ekkert í líkingu við staflana sem hlóðust upp þegar líða tók á daginn!

Það verða að fylgja nokkrar myndir af uppáhaldsjólaskrautinu! Þessi kúla kom sterk inn í ár!

Og þessi líka! Takið sérstaklega eftir hvað það speglast skemmtilega í kúlunni ... ég er þarna að munda myndavélina bak við stóra snjókornið og Einar til hægri eitthvað að snúast í kringum sjálfan sig!

María, Jósep og Jesúbarnið eru ævinlega í miklu uppáhaldi. Svo sést þarna í eina rauða og hvíta Stokkhólmskúlu í baksýn!

Það voru þreyttir frændur sem rúlluðu út af saman í sófanum þegar jólin gengu í garð. Elli vaknaði nokkuð hress en annað var uppi á teningnum með Huga sem vaknaði í því alversta skapi sem hann hefur nokkrum sinnum komist í! Jólasteikin stóð í okkur hinum meðan hann öskraði þar til hann var orðinn eldrauður í framan og æpti milli ekkasoganna: „Mig langar í lambakjöt!“ (sennilega var þó átt við hamborgarhrygginn góða sem drengurinn kom ekki niður fyrir geðshræringu!).

Hann var þó eldfljótur að jafna sig og eftir góðan skammt af „lambakjöti“ var komið að pökkunum. Hugi dundaði sér lengi með þessa gjöf og hafði virkilega gaman af krullaða bandinu!

María var allra spenntust fyrir því að við foreldrarnir opnuðum gjafirnar frá henni og allir pakkar merktir Maríu bliknuðu í samanburði við þetta augnablik! Innan úr umbúðunum komu tvær skáldsögur eftir hana sjálfa sem amma Imba hafði aðstoðað við að skrifa inn í tölvuna, setja inn myndir og prenta svo allt heila klabbið út og búa til bók. Ég fékk Sagan af Rósu prinsessu, mikla ættarsögu sem minnir á fyrstu kaflana í Íslendingasögunum! Einar fékk einstaklega póstmóderníska sögu, Þetta er sagan af Subbulandi, sem ber sterk metatextaleg einkenni!!! Tvímælalaust bestu gjafirnar þetta árið!

Einar og Elli sökktu sér niður í bækur í sófanum meðan gjafir voru flokkaðar!

Pakkarnir þeyttust fram og til baka um stofuna, flokkaðir í réttar hrúgur. Álestrarjólasveinninn er greinilega farinn að þreytast á þessu gjafastandi!

Það tókst þó að stilla Maríu upp í nýja jólakjólnum ... sem henni hafði þegar tekist að setja varanlega bletti í! Öll húsráð vel þegin!!!

Amma aðstoðaði við pakka álestur!

Í ár hafði María í fyrsta sinn óskað sér einhvers ákveðins í jólagjöf sem hún vonaðist heitt og innilega til að fá! Mikil varð því gleðin þegar Þyrnirósardúkkan birtist upp úr pakkanum frá Imbu ömmu! Ógleymanlegt augnablik!

Þarna eru þær vinkonurnar! Þrátt fyrir allt tók María þessu tilstandi öllu af mikilli ró, var glöð og þakklát en ekkert æst! Sama var að segja með Huga sem hvort eð er skildi ekki mikið í því sem fram fór, tók upp sínar gjafir, sæll og glaður en salírólegur! Við foreldrarnir erum einstaklega ánægð með frammistöðu þeirra í þessum hamagangi öllum saman!

Hugi fékk svo þetta fína bílahús frá ömmu sinni og er búinn að leika mikið með það. Á þessum tímapunkti hafði reynst nauðsynlegt að fjarlægja sparifötin sem voru útklínd í súkkulaði ... nærfötin fóru sömu leið skömmu síðar!

Á jóladagsmorgun var framreitt kókópöffs í tilefni dagsins! María og Hugi fengu svona fín systkinanáttföt frá Birnu frænku sem vöktu mikla lukku ... Maríu er mikið í mun að þau séu í stíl!

Og morgunverðarskálarnar voru frá ömmu á Sóló! Alltaf svo gaman þegar maður getur strax farið að nýta jólagjafirnar!

Systkinin eru mikið búin að ærslast þessa leikskólalausu daga ... byrjar sem ákaft knús en endar í miklu fjöri!!!

Mæðgurnar að kvöldi annars í jólum!

Eftir allt jólatilstandið, jólaboð og mikið fjör var Hugi alveg búinn á því!

Það var sofið til ellefu næsta morgun ... nýtt met á Bárugötunni!