Jólagleði og jólastress

Það hefur verið meira en nóg að gera á aðventunni hjá okkur Konsulentunum og þetta tímabil hefur verið hvort tveggja í senn fullt af gleði og fullt af stressi! Við höfum verið að undirbúa jól með alveg glænýjum hætti því við ætlum að eyða hátíðunum hér í Uppsölum og fáum til okkar góða gesti! Á Bárugötunni var jólaundirbúningurinn kominn í nokkuð fastar skorður en nú höfum við þurft að aðlaga okkur breyttum aðstæðum sem er svolítið strembið en aðallega ótrúlega skemmtilegt!

En áður en að öllum jólaundirbúningi kom héldum við upp á þrjátíu og fjögurra ára afmæli Einars yfirkonsulents (æ, ok, auðvitað vitum við öll að ég er ég yfirkonsulentinn en hann átti nú afmæli greyið!). Hér er fjölskyldan samankomin í hefðbundnu afmæliskakói snemma að morgni afmælisdagsins. Reyndar þurtum við að vakna extra snemma þetta árið því Einar er að vinna í Enköping næstu þrjá mánuði og þarf að leggja af stað klukkan 6:45! Afmæliskakóið byrjaði því bara um sexleytið!

Fyrsta gjöfin komin úr umúðunum og reyndist vera sænsk matreiðslubók. Einar hefur dreymt um að komast yfir uppskriftir að ýmsum sænskum réttum eins og biff á la Lindström og Wallenberger sem ég fann svo í þessari góðu bók!

María var auðvitað búin að föndra afmælisgjafir handa pabba sínum og bjó meðal annars til þetta fín blóm. Hún er nú búin að föndra jólagjafir handa öllum heimilismeðlimum sem alls verða sex hér um jólin (auk hennar sjálfrar) og ekki verður annað sagt en að við bíðum spennt eftir að sjá hvað kemur upp úr þeim pökkum!

Hugi sætur og sybbinn!

María ofsaspennt að sjá hvað kemur upp úr næsta pakka!

Og upp úr honum komu skautar! Feðginin ætla saman á skauta við fyrsta mögulega tækifæri en okkur Huga vantar enn allan búnað til slíkra ferða þannig að við verðum kannski bara heima að drekka kakó á meðan!

Hugi teiknaði þessa fínu mynd handa pabba sínum í afmælisgjöf og María hjálpaði honum og skrifaði smá afmæliskveðju á hana. Á myndinni má augljóslega sjá (frá vinstri) pabba sjálfan, Huga, Maríu, mömmu (vá, ég er miklu mjórri en ég hélt, ég get kannski alveg gengið í leggins eftir allt saman?!!) og Bjart.

Nærmynd af afmælisbarninu! Mér finnst þetta hreint og beint stórkostleg túlkun á Einari!

Við Einar réðum okkar fyrstu sænsku krossgátu um daginn og vorum ótrúlega stolt! Ég er mikið búin að reyna að endurtaka leikinn síðan en algjörlega án árangurs!

Um daginn fórum við ásamt fleiri Íslendingum sem búa hér í Uppsölum í jólasveinaleit í Stadsskogen. Við gengum í hóp eftir skógarstígunum og sungum nokkur vel þekkt íslensk jólalög í von um að þeir myndu heyra í okkur. Og viti menn ... eftir dágóða stund sáum við glytta í kunnuglega menn í fjarska!

Þetta voru þá þeir Stekkjastaur og Giljagaur sem komu við hér í Svíþjóð á leið sinn til Íslands! Þar vorum við aldeilis heppin!

Jólasveinarnir spjölluðu við okkur dágóðastund og börnin horfðu dáleidd á þá!

Jólasveinarnir gáfu okkur svo epli og sleikjóa úr pokanum sínum og saman tylltum við okkur við lítið skógarvatn og borðuðum nesti. Verst var þó að jólasveinarnir gátu ekki þegið neinar krásir hvorki á fljótandi né föstu formi því þeir komu ekki neinu inn fyrir þetta rosalega skegg! Ótrúlegt að þeir skuli samt vera svona bústnir?!!

Eftir dvölina í skóginum var okkur ískalt og það var því afskaplega notalegt að koma heim, kveikja á kerti númer tvö á aðventukransinum og sötra heitt kakó og kaffi.

Allur jólaundirbúningur hefur þurft að vera töluvert fyrr á ferðinni en við erum vön. Gjafir og kort þurftum við að senda um miðjan desember og því var komin hálfgerð Þorláksmessustemmning í okkur í kringum aðra aðventuhelgina! Hér má sjá hluta af innpökkuðu gjafaflóði! Ég elska að pakka inn gjöfum og hef oft óskað þess að ég gæti komist í vinnu einhvers staðar við að pakka inn!

Jólakortskrif seint um kvöld. Einar klórar sér í kollinum og veltir fyrir sér hvað hann eigi að skrifa.

Ég bakkaði sænskar lussebulla fyrir skemmstu. Þetta eru nokkurs konar saffransnúðar sem borðaðir eru hér alla aðventuna. Í fyrra þóttu mér þær aðallega skrýtnar en samt svona pínu góðar en í ár er ég búin að vera sjúk í lussebulla og varð því ákaflega glöð að komast yfir svona súpergóða uppskrift.

Þessi skammtur kláraðist reyndar hratt en við stefnum að því að ná að gera aðra porsjón fyrir jólin.

Eftir að búið var að kaupa, prjóna og pakka inn öllum jólagjöfum var þeim komið vandlega fyrir í kössum til að hægt væri að senda þær til Íslands. Hér er Einar önnum kafinn við að sníða til umbúðir í réttum stærðum.

Á meðan við foreldrarnir hömuðumst sveitt innan um bylgjupappa og maskínupappír sátu börnin stillt og prúð og lituðu myndir við sófaborðið.

Þegar allt var komið á sinn stað fór svartklæddur jólanisse með gjafirnar í poka á bakinu út á póstafgreiðslu!

Á degi heilagrar Lúsíu voru hefðbundin hátíðarhöld á Hemmingsförskola. Hér kemur Luciatåget syngjandi út í garðinn þar sem foreldrar, ömmur og afar fylgdust spennt með.

Þetta var snemma morguns og því enn dálítið dimmt og erfitt að taka myndir (Hugi er þarna við hlið fóstrunnar lengst til hægri). Krakkarnir stóðu sig ótrúlega vel að vanda og sungu jólalög fullum hálsi.

Ég bað Einar um að skríða fremst og taka nokkrar myndir með flassi þar sem Hugi sæist. Hann gerði það og ég spurði hann svo þegar hann kom til baka hvort það hefði gengið og hann hélt nú það. Þegar ég fór að skoða myndirnar eftir á fann ég hins vegar eiginlega ekki neina mynd af stráknum mínum. Þarna er hann til dæmis lengst til hægri og sést eiginlega bara í bakið á honum! En myndin er fín engu að síður og krakkarnir ótrúlega sætir!

Laugardaginn fyrir þriðja sunnudag í aðventu héldum við í Hammarskogen á jólahlaðborð á herragarðinum. Eins og í fyrra var byrjað með glögg og piparkökum í tjaldi hjá tomtanum! Hér erum við skötuhjúin að sötra glögg í frostinu þótt það sjáist reyndar ekki alveg á myndinni!

Jólahlaðborðin hér eru nokkuð svipuð þeim sem við erum vön að heiman. Það er kalt borð með síld og reyktu og gröfnu kjöt- og fiskmeti og svo auðvitað jólaskinkunni. Heitu réttirnir samanstanda af freistingu Janssons (sem er nokkurs konar kartöflugratín), kjötbollum, prinspylsum, rifjasteik og einhverjum skrýtnum fisk. Það sem hins vegar hefur tekið mig heilt ár að fatta er að hefðbundið sænskt jólahlaðborð er líka hefðbundinn sænskur jólamatur. Hér er (að mér skilst) dúkað upp hlaðborð í hádeginu á aðfangadag og eru þar þessir sömu réttir í boði. Og þótt það setjist allir saman og fái sér jólamáltíð þá stendur borðið uppi allan daginn þannig að það er hægt að raða í sig allan liðlangan daginn eins og magarúm leyfir. Hvað um það, hér eru systkinin María og Hugi að fá sér ekta sænska jólaskinku og pylsur.

Frumsýndi nýja kærustu! Einar (34ra) frumsýndi nýja kærustu á jólahlaðborðinu, Grýlu (754ra). Ástein geislaði af þeim allan daginn og Einar virtist ekki vitund hræddur þegar Grýla gnæfði yfir honum! „Ég elska hana og vona því að hún éti mig ekki“, sagði Einar þegar Séð og heyrt hafði samband við hann vegna nýja sambandsins.

Eftirréttirnir girnilegu! Kardimommupannacottað var ótrúlega gott!

    

Systkinin södd og sæl!

Það er alltaf ótrúlega notalegt á herragarðinum, ekki síst á aðventunni.

Þriðja sunnudag í aðventu var svo Lúsíuhátíð hér í Vängekyrka þar sem barnakórinn hennar Maríu var í aðalhlutverki. Hér er Luciatåget á leiðinni inn í þéttasetna kirkjuna.

Yndislega fallegur lúsíukór! María er þarna í efri röð sirka fyrir miðri mynd.

Einar var aftur sendur út af örkinni með myndavélina og tókst mun betur upp í þetta skiptið þótt aðstæður til myndatöku væru síst betri en á leikskólanum!

Lúsíur, þernur og stjörnugosar! Ég er alveg hissa á því hvað þær stelpur sem voru með lúsíukórónur hafa verið duglegar við að syngja með spenntar greipar! Þessar tvær litlu fremst (þriðja og fjórða frá hægri) eru sérstaklega krúttlegar. Þernurnar voru svo auðvitað líka mjög duglegar að halda fallega á kertunum sínum.

Þegar heim var komið sat María fyrir í þernubúningnum sínum og með jólakúluna sem kórstjórinn hafði gefið öllum börnunum í jólagjöf að skilnaði.

Sæt en svolítið þreytt María.

Og svo var auðvitað kveikt á þriðja kertinu.

Við kveðjum héðan af Konsulentinum í bili og óskum ykkur á Íslandi góðs gengis á lokasprettinum í jólaundirbúningnum. Farið nú varlega í umferðinni og munið að njóta allra litlu góðu stundanna inn á milli alls stressins!