Jól og áramót 2009

á Konsulentvägen 2B

 

Þorláksmessa

Á Þorláksmessu var tréð skreytt eins og vanalega. Á þeim tímapunkti var frekar mikið eftir og við foreldrarnir orðin svolítið stressuð! Það var því tilvalið að opna jólakassa frá Svanhildi, Sigurði, Ástþóri Erni og Arnaldi Kára sem sendu okkur íslenskt nammi, súkkulaðirúsínur, Pipp og Djúpur, hressa mannskapinn við og koma blóðsykrinum á hreyfingu! Eftir á get ég fullyrt að þetta var ein albesta jólastundin!

Aðfangadagur

Loksins allt tilbúið á aðfangadegi, hreint og skreytt!

Við höfðum sparað okkur að nota nýja stellið þangað til á jólunum og ég verð að segja að mér finnst það taka sig stórvel út þarna við fína God Jul löberinn og silfurstjörnurnar sem skreyttu borðið að þessu sinni.

Uppáhaldsjólaskrautið mitt þetta árið voru þessir fínu hjartavasar, úr pjátri en ekki pappír. Og svo var ég líka mjög ánægð með God jul kveðjuna sem ég setti saman úr skapalónum sem ég átti í fórum mínum. Hún sést að vísu ekki alveg nógu vel á myndinni.

Hugi og María uppáklædd tilbúin fyrir jólin passa Baldur Tuma á sokkabuxum og skítugri samfellu!

Jólatréð í stofu stendur ...

Allir tilbúnir! Takið sérstaklega eftir bræðadressinu!

Það er endalaust hægt að birta myndir af svona sætum börnum en ekkert endilega endalaust hægt að skrifa sniðugan texta við þær!

Hamborgarhryggurinn kominn á borðið og eftirvænting í loftinu!

María fyndin!

Klukkan var kannski aaaaðeins meira en sex þegar við settumst að borðum en okkur fannst ekki gera nokkurn skapaðan hlut til þótt við værum á ... hvað eigum við að segja ... sirka grænlenskum tíma!

Þetta var aðfangadagskvöldssvipur Baldurs Tuma.

Getur hún ekki látið mann í friði?!

Á meðan hjartavasarnir voru uppáhaldsjólaskreytingin mín var þetta almennt kosin besta skreytingin að mati heimilismanna.

Ég sé ekki betur en að hér fari fram pyntingar í stofunni meðan foreldrarnir vaska upp. Uppþvottavélin okkar ákvað einmitt að gefa upp öndina á aðfangadagskvöld, akkúrat þegar stóð til að þvo upp eftir hátíðarmatinn! Hún hefur nú verið úrskurðuð ónýt og við búin að festa kaup á nýrri sem við fáum að vísu ekki fyrr en í febrúar. Hér hefur því gefist dýrmætt tækifæri til að kenna Maríu og Huga að vaska upp með gamla laginu!

Hugi og María sæt og fín en Baldur Tumi býr sig undir að veita stóru systur sína sérstöku og „notalegu“ andlitsmeðferð!

Jólasveinar á ferð og flugi með pakka.

Baldur Tumi fylgdist með af áhuga framan af ...

... en fékk sér svo smá blund í mömmufangi.

         

Hann er annars á þeim aldri þar sem pappírinn er mun skemmtilegri en jólagjafirnar sjálfar!

Einar með jólagjöfina frá fjölskyldunni! Harmonikkan hefur fengið betri viðtökur en ég þorði að vona og hann er búinn að dunda sér við að lagfæra hana og betrumbæta fyrir nú utan hvað hann hefur verið duglegur að æfa sig! Nú er svo komið að ég er farin að íhuga að fá leigt æfingahúsnæði undir hann þar sem ég komst að því að svona gripir eru gerðir til að yfirgnæfa veisluglaum á Októberfest en ekki framkalla ljúfa stofutóna!

Jóladagur

María og Hugi eru vön að fá jólanáttföt frá Birnu frænku sinni í jólagjöf og engin undantekning var gerð frá þeirri reglu þetta árið. Nema náttúrulega að nú bættist einn lítill náttgalli í hópinn!

Á jóladegi er skylda að vera á náttfötum fram eftir degi og blómabörnin á Konsulentvägen hlýða því auðvitað.

Feðgarnir hjálpast að við að setja saman tryllitækið sem Baldur Tumi fékk í jólagjöf frá foreldrum sínum.

Á meðan lék Hugi ljúfa tóna á þykjustunni rafmagnsgítarinn sem hann fékk frá ömmu Imbu í jólagjöf. Honum finnst þetta mikill kostagripur þar sem maður þarf ekkert að kunna að spila heldur nægir að ýta á takka! Svolítið svona eins og þegar honum fannst að sitt hjól hlyti að vera betra en með Maríu þar sem það var með fjórum dekkjum (hjálpardekk meðtalin) en hennar bara tveimur!

         

Baldur Tumi kominn um borð og flugtak að hefjast!

Og hér með þessari sætu mynd af litlum jólastrák verða ákveðin vatnaskil í þessu albúmi og hugsanlega komandi albúmum á síðunni því héðan í frá eru allar myndir teknar á nýju fínu myndavélina mína sem ég fékk í jólagjöf frá Einari og var einmitt fullhlaðinn þegar þarna var komið sögu. Finnst ykkur ég ekki annars hafa gert góð skipti þegar ég gaf honum gamla harmonikku en fékk í staðinn ógeðslega fína og græjulega myndavél?!

Minnsti jólasveinninn.

Með öngul í augabrúninni!

         

Enn og aftur býður Baldur Tumi upp á andlitsmeðferð! Ótrúlegt hvað stóra systir hans elskar hann alltaf mikið þrátt fyrir þær!

Bíókvöld á jóladag: Harry Potter, smákökur, ísköld mjólk og kaffi. Baldur Tumi svaf hins vegar allt fjörið af sér.

Sumir jólasveinar vilja ekki fara að sofa ...

Annar í jólum

Baldur Tumi kannar aðstæður í nýja leiktækinu, slæst við hval en er ekki enn búinn að fatta almennilega að það er hægt að hoppa og skoppa í því.

Ómótstæðilegur í jólabaði!

Einbeittur að busla.

Enn ómótstæðilegri nýkominn upp úr baði!

Setuæfingarnar hafa loks skilað árangri og nú þarf hann ekki lengur að liggja bakk á leikteppinu. Er þó alvarlegur yfir þessu öllu saman!

Aðdáun!

Milli jóla og nýárs

Fólkið okkar á Íslandi var ótrúlega duglegt að senda okkur jólagjafir þrátt fyrir að við værum hér í Svíþjóð. Einhverjir pakkar náðu þó ekki fyrir jól sem gerði ekki nokkurn skapaðan hlut til því þá höfðum við tilefni til að halda Litlu jólin milli jóla og nýárs! Hér er Baldur Tumi að máta dásamlega fallega og mjúka kasmírullarhúfu frá Svanhildi guðmóður sinni og virðist býsna ánægður með sig!

Ég veit að ég er mamma hans en ég trúi bara ekki öðru en að ALLIR bráðni þegar þeir sjá svona sætan lítinn kall!

Ef eitthvað er er hann enn sætari þegar nýja myndavélin fangar hann en sú gamla!

Ég kættist mjög þegar ég rakst á svona eldgamaldags handa- og fótanaghringi í búð um daginn. Stundum er það einfaldasta best og Baldur Tumi hefur mun meiri ánægju af að japla á þessu en einhverjum vökvafylltum tryllitækjum með mörgum ólíkum áferðum!

Ykkur fer kannski að finnast nóg komið af myndum frá þessari annars hversdagslegu leikstund á eldhússgólfinu? Þetta er sú síðasta, ég lofa!

María og Hugi er ótrúlega dugleg að hafa ofan af fyrir bróður sínum en ef eitthvað er er Hugi þó enn duglegri eftir að Baldur Tumi eignaðist hoppigræjuna. Honum finnst nefnilega ótrúlega gaman að stilla sér upp fyrir framan hann og svo hoppa þeir saman eins og tvær litlar Duracell kanínur! Þá gefst líka gott tækifæri til að kanna gæði myndavélarinnar nýju og hve vel hún ræður við að taka myndir af fyrirsætum á fleygiferð!

Fitjað upp á trýnið!

Mér finnast gæði nýju myndavélarinnar sjást mjög vel á þessari litríku og björtu mynd af fallegu barni!

Gamlárskvöld

Nóakonfektkassinn frá ömmu á Sóló var opnaður á gamlársdag við góðar undirtektir! (Takið sérstaklega eftir aðdáun litla á stóra bróður!).

Baldur Tumi fékk vatnssopa úr stútkönnu í fyrsta sinn á gamlárskvöld. Við vorum með myndavélina í skotstöðu því við eigum svo hræðilega fyndnar myndir af Huga að taka sinn fyrsta vatnssopa (sem honum fannst vægast sagt skelfilegur). Baldur Tumi setti hins vegar ekki upp neinn svip heldur fannst þetta stórkostleg lífsreynsla og hefur síðan verið gríðarlega spenntur fyrir bæði könnunni og vatninu.

Þrjú börn, þrjú hjörtu og einn stór kalkúni!

Ég má til með að sýna ykkur fögru blúndu-vasa-kertakrúsirnar mínar! Mér finnst þær eitt það allra fínasta sem ég hef á ævi minni séð!

Þegar líða tók á borðhaldið (sem sagt Einar einn eftir að borða!) skapaðist mikil stemmning fyrir fyndnum myndatökum. Hér setur Hugi upp eitthvað sem honum fannst mjög fyndinn svipur!

         

Mér sýnast systkinin hins vegar sammála um að þessi svipur sé mjög fyndinn!

Mitt í öllum fyndnu myndatökunum fékk ég þau til að sitja fyrir á einni knúsumynd.

    

En svo tók fyndið aftur öll völd!

Þessi ungi maður er farinn að draga sig áfram á maganum um öll gólf og getur nú nagað stólfætur að vild! Nammmm!!!

Með þessu litla nagdýri kveðjum við árið 2009 og ljúkum þessu albúmi. Ótrúlegt magn af myndum frá nýju ári bíða nú birtingar svo það ætti ekki að ríkja lágdeyða á síðunni á árinu 2010!

Takk fyrir árið allt góða fólk!