Jól og áramót á Íslandi

Við héldum til Íslands þann 20. desember til að halda jól og áramót hátíðleg í faðmi fjölskyldu og vina. Frá því við komum til landsins og fram að aðfangadegi höfðum við hins vegar í nógu að snúast, útbjuggum og sendum jólakort, keyptum síðustu gjafirnar og létum keyra aftan á okkur svo eitthvað sé nefnt. Myndavélin var því alveg í fríi þennan tíma og ekki dregin upp fyrr en klukkan hafði slegið sex á aðfangadagskvöld og við hjónaleysin komin heim úr messu.

Jólatréð á Bakkastöðum var stórt og mikið og ákaflega fallegt.

Elli alltaf jafnfyndinn! Hér sitja frændurnir og bíða spenntir eftir að sagt verði "gjörið þið svo vel"!

Ungfrúin beið líka prúðbúin og stillt.

Einar reyndi að gera gagn í eldhúsinu ...

... en það var auðvitað móðir mín, Bakkastaðahúsfreyjan, sem hafði yfirumsjón með öllu.

Elli ... fyndinn!

María stillir sér upp við tréð meðan beðið er eftir matnum.

Við systkinin á góðri stundu ... Elli fyndinn!

Önnur tilraun og ein af fáum myndum sem ég á af Ella nokkuð venjulegum!

Hamborgarhryggurinn var að vonum ákaflega ljúffengur og eftir hann fengum við okkur möndlugraut. Við fullorðna fólkið vorum fljót að klára úr skálunum okkar en engin fannst mandlan. Grunurinn beindist því að systkinunum Maríu og Huga. María neitaði að smakka á grautnum en skoðaði þó vandlega í sína skál... en engin fannst mandlan þar. Meðan Hugi brá sér á klósettið stóðumst við hin ekki mátið og leituðum í hans skál ... og fundum möndluna Það vissu því allir aðrir en sigurvegarinn sjálfur hvar hana var að finna og því gátum við tekið röð af myndum af Huga að uppgötva hvað var á seyði. Eins og kannski sést á munnsvipnum á þessari mynd er hann nýbúinn að setja grautarskeið í munninn og farinn að átta sig á að ekki sé allt með felldu !

Búinn að fatta að hann sé sjálfur með hina eftirsóttu möndlu í munninum!

Ég er með hana!!! Í möndlugjöf fékk Hugi sniðugt púsluspil.

Meðan gengið var frá eftir matinn léku krakkarnir sér við Ella frænda sem hér sést í gervi Sófasofarans!

Ljúfasta fegurð fljóða, fegursta blómið mitt ...

María og Hugi skiptust á um að vera með jólasveinahúfuna og bera pakka í ömmu sem las á merkimiðana. Eftir því sem á leið reyndum við þó að hafa Maríu lengur og lengur í senn með húfuna góðu enda eyddi Hugi miklum tíma í að rölta kringum tréð þegar hann gegndi stöðunni, spá og spekúlera í hvaða pakka hann ætti mögulega sjálfur og velja þá úr til álestrar !

María og Hugi höfðu miklar áhyggjur af því hvað Elli fékk fáa pakka ... af myndinni að dæma var hann þjakaður af sömu áhyggjum!

Hugi rétt nær uppfyrir eigin pakkahrúgu!

Að pakkaopnun aflokinni þurfti auðvitað að prufukeyra allt nýja dótið. Hugi brá sér í Súpermann náttföt og lék sér ásamt pabba með nýtískulegu tölvupósts brio brautina sem við foreldrarnir gáfum honum.

Hér er ég með hluta af uppáhaldsgjöfunum mínum þetta árið. Hvítu sparikápuna og uglulampann fékk ég hvort tveggja frá Einari.

María skellti sér í glænýjan náttkjól og náttslopp og situr hér með stelpurnar sínar tvær sem líka komu upp úr jólapökkum!

Hugi prófar fjarstýrða spidermanbílinn frá ömmu. Spennan leynir sér ekki í svipnum!

Knús ...

... og aftur knús!

   

Á jóladag var mikil jólaveisla á Bakkastöðum. Hér bíður Hugi spenntur eftir fyrstu gestunum og spilar í leiðinni jólalög fyrir fjölskyldumeðlimi með aðstoð þessa hressa jólasveins sem hann hafði fengið kvöldið áður frá Bríeti, Ester og Hörpu frænkum sínum.

María með dúkkuna frá mömmu og pabba. Ég skemmti mér afskaplega vel þegar ég keypti þessa dúkku handa henni í Stokkhólmi skömmu fyrir jólin. Dúkkan var ekki seld í fötum heldur gat maður sjálfur valið úr heimasaumuðum dúkkufatnaði. Ég eyddi áreiðanlega hálftíma í dúkkuleik ásamt afgreiðslukonunni þar sem við mátuðum á hana alls kyns föt og ó-uðum og æ-uðum svo yfir því hvað hún væri svakalega sæt í dressunum!!! Ég þurfti reglulega að minna mig á að þetta væri dúkka en ekki barn, að ég ætti ekki einu sinni að eiga þessa dúkku og að ég væri alveg að verða 31 árs!!!

Amma kom snemma til að bjarga uppstúfnum fyrir horn en Einar hafði gert sitt besta til að klúðra honum alveg!

María hefur ákveðið að dúkkan frá okkur foreldrunum heiti Litla Létt ... nafgiftin útskýrist ágætlega með þessari mynd! Dúkkuna sem hún fékk frá ömmu sinni skírði hún hins vegar Freyju eftir litlu vinkonu sinni og fyrrum grannkonu!

Fullt hús gesta!

Kaffi eftir hangikjötið og heimalagaða ísinn.

Elli reynir að segja Áslaugu brandara en hún tekur fyrir eyrun. Við Jódís ræðum eitthvað óskaplega mikið leyndó yfir borðið og Ása reynir að hlera!

Jenný og Bjöggi í djúpum samræðum, amma brosir fallega og Gísli lætur barnabörnin trufla sig frá kaffinu. María dandalast í bakgrunninum.

Pála og Orri eru yngst í barnabarnabarnahópnum. Pála er einstaklega hrifin af Orra, eins og sjá má.

Og Orra finnst hún ekki heldur svo slæm!

Það var með því sætara sem ég hef lengi séð að sjá þessi tvö knúsast og faðmast og kyssast!!!

Hugi þreyttur að kveldi dags.

Ekki þó eins þreyttur og sumir! Jódís og Kári voru síðustu gestirnir í boðinu og hér sjást þau fá sér góðan lúr yfir þætti um Sigurbjörn biskup. Neðst í hægra horninu glittir líka í kollinn á mér sem einnig sef vært yfir sjónvarpinu!

   

Hugi var hress á öðrum degi jóla í svona líka smart múnderingu!

Of lítill nærbolur, nærbuxur og spariskór ... töff!

Amma og María föndra í rólegheitum við borðstofuborðið. María er mikill föndrari og það vita greinilega ýmsir af okkar vinum og ættingjum því hún fékk heilmikið af föndurdóti í jólagjöf. Það hitti að sjálfsögðu allt beint í mark!!!

Síðdegsi fórum við í jólaboð til Pabba og Gittu. Hér eru heiðurshjónin Steini og Þórunn.

Páfagaukurinn Sóley, María, Einar, Solla og Magga í stofunni hjá afa Bíbí (sú nafngift kemur frá Maríu og er augljós þessu samhengi!).

Svanhildur Margrét Arnalds með Imbu skáömmu sinni. Henni finnst flassið ekkert sérstaklega þægilegt!

Ása og María snússast.

Andrés Pétur og Hugi horfðu saman á Harry Potter inni í herbergi Péturs stóra frænda (sem er kominn í Verzló!!! Litli bróðir minn?!?!).

Nei, þetta flass er bara alls ekki þægilegt! Svanhildur Margrét, litla djásn og uppáhaldsfrænka með mömmu sinni Þórunni.

  

María í mömmuskóm á Bakkastöðum.

   

Dögunum milli jóla og nýárs eyddum við í heimsóknum hjá vinum sem við höfðum neytt til að bjóða okkur í mat! Hér erum við í Faxaskjólinu hjá Ingu og stórfjölskyldu. Ákveðið var að slá upp jólaballi og hér spilar Hörður á flygilinn undir söng Maríu, Bjartar Ingu og Ásu Diljá.

Hugi var hins vegar tregur til að taka þátt í söngnum og fylgdist með af hliðarlínunni.

Ísleifur svaf í vagninum þegar við komum en mætti skömmu síðar eldhress í partýið eftir snögga baðferð.

Við gerðum stutt hlé á jólaballinu og fengum okkur dásamlegt hangikjöt frá Mýri, kaffi og súkkulaðikökur. Síðan var haldið áfram og dansað í kringum ...ja, ekki neitt!

Tröppumynd! María fædd 2000, Björt Inga fædd 2001, Hugi fædur 2002, Áróra fædd 2003 og Ísleifur fæddur 2005. Tæknileg mistök urðu þess valdandi að hvorki ég né Faxaskjólsystur eignuðumst barn árið 2004!

Ísleifur þreyttist fljótt á tröppumyndatökunni en hin voru nokkuð seig!

Að lokum voru staðsetningar þó gefnar frjálsar og þá færði Áróra sig til Maríu! Stórar stelpur hafa alltaf ótrúlegt aðdáunarafl! Eru þetta ekki falleg börn?!

Systur með afkvæmi. Inga með Ísleif Elí og Guðrún Hrund með Áróru, öll búsett í Den Haag.

Einar rifjaði upp „Allt í grænum sjó“ meðan Hörður lagði sig!

Sætu mæðginin Inga og Ísleifur.

Tröppumynd II: Guðrún Hrund fædd 1974, Guðrún Lára fædd 1976, Inga fædd 1979!

Við héldum beinustu leið úr Faxaskjólinu á Ránargötu til Evu, Gunna og Freyju. Freyja tók kát og hress á móti fyrrum nágrönnum sínum og við vorum öll jafnhissa á hvað hún hefur stækkað og þroskast frá síðasta sumri. Meira að segja Hugi (sem er nú ekki alltaf sá eftirtektarsamasti) sagði upp úr eins manns hljóði skömmu eftir að við höfðum heimsótt fjölskylduna: „Freyja er orðin svo stór. Hún kann að tala“!!! Og Freyja kann svo sannarlega að tala og margt annað. Hún tók við af systkinunum á Drafnarborg og höfum við góða trú á að hún haldi þar stífum aga, bæði á börnum og fóstrum!

Litla spons í feluleik bak við gardínu. Út um þennan glugga var hún vön að kíkja á okkur þegar við komum heim á Bárugötuna, bankaði í glerið og tók svo að bisa við að opna hurðina út á pall! Stundum tók hún reyndar ekki eftir okkur en þá nutum við þess bara að sjá litla glókollinn hreyfast fyrir innan. Þetta er nú eitt af því sem ég sakna hvað mest frá Bárugötunni!!!

Vinirnir slaka á uppi í sófa yfir Söngvaborg og góðri bók!

   

Á gamlársdag var fallegt á Bakkastöðum og systkinin skelltu sér aðeins út að leika í góða veðrinu. Hugi var í óvenjumiklu stuði ...

... eins og sjá má!

Útsýnið var stórkostlega fallegt! Mér finnst einhvern veginn tilheyra að hafa svona stillt og kalt veður á annað hvort gamlársdag eða nýársdag!

Krúttan úti í kuldanum.

Við vorum eiginlega alveg búin með myndavélaþrekið á gamlárskvöld og myndavélin sjálf alveg að verða búin með batteríið. Það varð þó að festa Huga á filmu enda réði hann sér ekki fyrir kæti úti í sprengingunum! Hingað til hefur hann bara verið skíthræddur en þetta árið lét Einar hann hafa blys sem hann notaði óspart til að töfra fram fallegt stjörnuregn! Raunin var reyndar sú að það var algjörlega slökkt á blysinu og stjörnurnar bara eitthvað sem aðrir Reykvíkingar skutu upp!!!

Áramótin nálgast!

Hugi með blysið!!!

Harry Potter áhorf jólanna hefur sjálfsagt haft sitt að segja um þennan mikla töfrasprota- og galdraáhuga á gamlárskvöld!

„Sjáðu hvað þessi er flott“!!!

María horfir agndofa á ljósadýrðina, Hugi galdrar og galdrar og fyrir innan fylgist amma þeirra með Frostrósum í sjónvarpinu.

Ljósadýrð, loftin fyllir! (Eða er það ekki þannig?)

Fremur skelfileg mynd af okkur Einari en mér fannst svo fyndið hvernig flugeldurinn kemur beint fyrir ofan hausinn á mér og rennur eiginlega saman við fremur „flugeldalegt“ hárskrautið.

Mæðgur á áramótum.

2007!!!

Gleðilegt nýtt ár!!!