Jól á Íslandi

2011

 

Við flugum til Íslands í gegnum eld og brennistein þann 21. desember og lentum í brjáluðu veðri í Keflavík klukkutíma á eftir áætlun. Ekki gafst þó mikill tími til að jafna sig eftir flugið þar sem þurfti að mæta í jólaglögg, setja jólakort í póst og útbúa jólasælgæti til að stinga í jólapakka strax fyrsta kvöldið. Dagana á eftir vorum við líka á þönum en á Þorláksmessumorgun gafst þó örlítil stund til að skreyta jólatréð á Bakkastöðum. Baldur Tumi var frá sér numinn af gleði yfir trénu enda búið að tala um  „jólatré hjá ömmu“ í margar vikur!

Baldur Tumi og amma taka seríurnar út en Tuminn var sérstaklega hrifinn af „lólalós“.

         

Eftir að tréð hafði verið skreytt þeyttumst við aðeins meira og svo allt í einu var það runnið upp, aðfangadagskvöldið! Börnin fóru í sitt fínasta púss og stilltu sér upp við tréð.

         

Baldri Tuma fannst að það yrði betra að hann stæði svolítið fyrir aftan þau hin!

         

Svo er líka voða gott að eiga stóra systur sem getur haldið á manni og knúsað mann.

Tréð var dásamlega fallegt og pakkarnir voru margir (og ekki einu sinni allir komnir þarna!).

Ég var ekkert smá ánægð með jólahárgreiðsluna sem ég gerði í Maríu og sá til þess að hún yrði mynduð í bak og fyrir!

Það var fjölmenni á Bakkastöðum þetta kvöld þar sem bæði amma á Sóló og Elli og Ása voru með okkur. Allir voru glaðir og hamborgarhryggurinn var unaðslega góður - eins og alltaf!

Hugi, Ása, María.

Amma og Hugi. Ég tek eftir að ég er alltaf við það að fara að kalla Huga Ella í þessu albúmi, það segir kannski eitthvað um hvern hann minnir mig stundum á!

         

Baldur Tumi og Einar sem var í nýju jakkafötunum sem hann fékk frá okkur fjölskyldunni í afmælisgjöf fyrr í mánuðinum. Baldur Tumi var aftur á móti í vesti sem mamma hans prjónaði á hann fyrr í mánuðinum í einhverju stundarbrjálæði þegar hún fann engin fín spariföt á litla stráka í búðunum!

María og þreytta amman sem var búin að standa í stórræðum í eldhúsinu allan liðlangan daginn og lagði hönd undir kinn og fékk sér ööörlitla kríu þarna við matarborðið. Eða var það ekki annars?

Við systkinin.

Möndlugrauturinn var borinn fram beint eftir matinn og það var amma á Sóló sem fékk möndluna en hún laumaði henni yfir til Huga sem framvísaði henni og fékk pakka í staðinn.

Baldur Tumi er brjálæðislega skotinn í Ásu og okkur grunar nú að hún sé kannski eitthvað pínuponsu skotin í honum líka!

Þegar þarna var komið sögu gafst ég upp á að taka myndir flasslaust svo flassið var dregið fram í fyrsta sinn þennan vetur til að fanga jólapakkabrjálæðið enn betur á mynd. Hér er Baldur Tumi að færa Ásu pakka sem sennilega tilheyrði henni nú ekki en Baldri Tuma fannst það engu skipta, hún ætti allt gott skilið!

Hugi les vandlega á merkispjöldin, komin úr jakkanum til að synda í gegnum pakkaflóðið.

Þau stóðu sig vel í þessu systkinin enda orðin vön.

Bræðurnir vaða í kringum tréð.

Allt að gerast!

Og svo var að opna pakkana! Hér er María í glæsilegri heimaprjónaðri peysu frá ömmu sinni og með fallegan klút frá vinum sínum Ástþóri Erni og Arnaldi Kára.

Baldur Tumi fékk Mack og ó-ó bílinn ...

... og Hugi fékk Svörtu perluna, ja svona meðal annars!

„Ammalóló“ og Baldur Tumi á jólanáttfötum spiluðu bingó í lok kvöldsins og skemmtu sér vel!

Á jóladag mætti stórfjölskyldan í hangikjöt á Bakkastaði og amma á Sóló kom með gamla upphlutinn hennar Áslaugar móðursystur svo María gæti mátað hann. Hann smellpassaði á hana og hún var svo fín og ægifögur að það myndaðist nokkurs konar paparazzi stemmning í stofunni þar sem fólk kepptist við að ná sem bestum myndum!

         

Ég var sjálf alveg ótrúlega stolt móðir og æstasti paparazzinn!

Mér fannst svo ótrúlegur heiður fyrir Maríu að prófa að klæðast upphlut! Sjálf hef ég ekki farið í slíkan búning frá því ég var eins og hálfs árs en þá klæddist ég einum sem er alveg eins og þessi sem María sést skarta hér (ef skrollað er aðeins niður). Þessi búningur hér að ofan er eins og áður sagði frá Áslaugu móðursystur minni og amma bjó hann til fyrir fermingardaginn hennar. Áslaug var nett og María er stór svo hún smellpassar í hann núna á tólfta ári. Og var svo fullorðinsleg og falleg að ég hef aldrei séð neitt eins dásamlegt!

Eftir að mesta paparazzifárið var gengið yfir komst ró á í stofunni og Kári og Jenný spjölluðu við afa Þór sem er 94ra ára gamall pabbi þess fyrstnefnda.

Ekki virðist hægt að taka mynd af ömmu og Maríu saman öðruvísi en að önnur þeirra sé að fá sér blund!

Hér sitjum við Baldur Tumi mitt í Áslaugarklíkunni: Ölvir, Steini, Gísli, Áslaug og Gunndís, vantar bara Evu skvísu og svo Emil og Pálu Ölvisbörn sem vour í öðru partýi þenna dag.

Baldur Tumi vildi helst af öllu leika við afa Þór og ömmulóló og sýndi þeim hvert leikfangið á fætur öðru! Mér sýndist þau hafa dálítið gaman af þessum litla stúf!

Á annan í jólum söfnuðumst við systkinin ásamt mökum okkar og mömmum saman hjá afa Bíbí og Gittu ömmu. Staðráðin í að ná sem flestum á mynd lét ég fólk stilla sér upp hist og her og náði nokkrum skemmtilegum og kannski svolítið óvæntum samsetningum fyrir vikið. Hér eru Ása, María, Pétur, Elli og Baldur Tumi saman á mynd.

Allir svo ægilega sætir og fínir!

Mér fannst líka stórgóð hugmynd að fá Huga til að stilla sér upp með Sollu og Möggu, ég hef áreiðanlega aldrei áður tekið mynd af akkúrat þessum þremur saman!

Svanhildur Margrét og Andrés Pétur eru góðir vinir og sjálfsagt er nú til fjöldinn allur af myndum af þeim saman.

Upp úr öllum þessum myndatökum spratt svo auðvitað ein alvöru fjölskyldumyndataka með okkur öllum systkinunum og þeim af afkomendum okkar sem voru á staðnum saman. Sigrún Marta var því miður veik heima og Tryggvi Geir ákvað að halda sig fjarri svo kennaranum hans, Gittu ömmu, dytti nú ekki í hug að fara að lækka við hann einkunn ef hann sýndi ekki sínar bestu hliðar í boðinu!

Það er auðvitað vonlaust að taka mynd sem allir eru fínir á en þessi verður nokkuð góð þegar ég klipp handlegginn á Soffu og flatskjáinn burt!

Pabbi, mamma og Ása svona líka sæt og fín.

Þrjár eiginkonur og ein kærasta!

Magga, Elli og pabbi á spjalli.

Við hreyfum okkur stundum dálítið líkt í þessari fjölskyldu eins og sést á Möggu og Ella sem hér spegla hvort annað!

Á þriðja í jólum heimsóttum við guðson minn Arnald Kára, stóra bróður hans Ástþór Örn og foreldra þeirra þau Svanhildi og Sigurð. Hér er Arnaldur Kári uppi í koju að sýna okkur flottan hákarl.

Baldur Tumi hefur aldrei séð eins flott strákaherbergi á ævinni og var hugfanginn af öllu og öllum, sérstaklega Arnaldi Kára sem nennti alveg að leika við hann þrátt fyrir eins og hálfs árs aldursmun.

Ástþór Örn og Hugi skelltu sér hins vegar út í snjóinn að leika og komu kaldir inn í kökur og kaffi. Mikið vildi ég að þessir tveir gætu hist aðeins oftar, ... já og bara við öll!

Um kvöldið var haldin óvænt stórveisla á Bakkastöðum þar sem Elli og Ása og mæðgurnar Unnur og Þórunn borðuðu humar með okkur. Mikið var það gaman! Og svo var bara að pakka, liggja andvaka af stressi uppi í rúmi í nokkra klukkutíma og fljúga svo aftur heim á Konsulentvägen!