Jól á herragarðinum

Við erum svo heppin að þekkja góðan hóp af fólki hér í Uppsölum sem getur miðlað til okkar upplýsingum um hvað er hægt að gera sér til skemmtunar hér í nágrenninu. Um daginn vorum við boðin í glögg ásamt fleiri Íslendingum og þar fréttum við af herragarði nokkrum hér skammt frá. Herragarðurinn stendur við Hammarskogen sem okkur er sagt að sé frábært útivistarsvæði. Við verðum þó að viðurkenna að þegar við lögðum af stað í  sunnudagsbíltúr þangað þá voru það nú fremur veitingarnar sem við höfðum frétt að hægt væir að kaupa á herragarðinum sem freistuðu.

Það frysti loksins aftur um helgina. Hér sést Hugi kappklæddur aðgæta „gildruna fyrir vatn“ sem hann hefur komið upp í sandkassanum. „Mamma, það vex gler út úr vatninu“ sagði hann og horfði steinhissa á mig. Eitthvað hefur eðlisfræðikennslu heimilisins verið ábótavant!!!

Þegar allir fjölskyldumeðlimir voru komnir í hlý föt og búnir að byrgja sig upp af húfum og vettlingum var loks lagt af stað.

Á leiðinni til Hammarskogen keyrðum við fram á þessi dádýr sem voru að kroppa fæðu úr frosnu grasinu!!! Ég varð dálítið æst og skapaðist mikið umferðaröngþveiti á sveitaveginum þar sem ég heimtaði að bíllinn yrði stoppaður svo ég gæti tekið myndir! Skömmu eftir að við lögðum af stað aftur stukku svo dýrin inn í skógarþykknið. Ég held að þetta dádýrsævintýri eitt og sér hefði nægt til að gera mig hamingjusama með ferðina ... en við áttum þó enn eftir að upplifa nóg af dýrðum og dásemdum!

Vetrarlegt í sveitinni.

Þetta er svona ekta sænskur sveitabær, alveg eins og amma og afi hennar Lottu í Skarkalagötu eiga heima á!

Orð eru óþörf!!!

Þegar við komum að herragarðinum blasti við stórkostlegt útsýni yfir Mälaren. Og þvílíkur dýrðardagur, frost en algjörlega stillt og bjart. Svona eiga vetrardagar að vera!!! Ég verð að játa að ég er eiginlega alveg búin að fá nóg af hlýindunum sem hafa verið hér að undanförnu. 15° hiti í desember ... það er bara svindl!!!

Á tröppum herragarðsins mættum við jólasveinaklæddri þjónustukonu sem spurði okkur hvort við værum að koma á jólahlaðborðið. Við neituðum því en datt svo í hug að spyrja hvort það væri kannski laust borð fyrir okkur þar. Og viti menn, eitt fjögurra manna borð var laust! Þar með var það ákveðið! Það er fátt eins skemmtilegt og að taka óvæntar ákvarðanir um að gera eitthvað nýtt og spennandi með fjölskyldunni.

Á tröppunum stóð jólahafur úr greni og bauð gesti velkomna.

Jólahlaðborðið byrjaði hins vegar með glögg hjá jólasveininum í risastóru tjaldi sem búið var að reisa fyrir utan herragarðinn.

Hér er Einar inni í tjaldinu með glögg í bolla. Inni var hlýtt og notalegt þar sem búið var að koma fyrir stórum stampi með glóandi kolum.

Rétt eftir að við komum streymdu fleiri gestir að og jólasveinninn í tjaldinu hafði því í nógu að snúast.

Þegar ég kom út aftur var ég strax búin að gleyma hversu fallegt útsýnið var þarna ofan af herragarðshæðinni og tók því dálítið fleiri myndir af því!!! Ég skil samt ekki af hverju þær eru svona skakkar hjá mér?!

Hugi beið þolinmóður við hlið geithafursins eftir að aðrir fjölskyldumeðlimir kláruðu glöggina og hægt yrði að snúa sér að hlaðborðinu.

Þegar inn í herragarðinn var komið supum við hveljur af aðdáun. Húsið er ótrúlega fallegt og ekki spillti jólaskrautið fyrir! Maríu leist vel á þetta allt saman. Ég held að ég sé búin að gera hana að einhverri svona Mini-me því hún stundi reglulega: „Ó, hvað þetta er allt dásamlegt“!!!

Húsbóndinn var líka kátur!

En Hugi var aðallega svangur!

Áður en gengið var að hlaðborðinu mátti ég þó til með að smella einni mynd af salnum ... og kannski eins gott því nokkrum mínútum seinna fylltist allt af fólki!

Við byrjuðum á forréttarhlaðborðinu og hlóðum brauði, jólaskinsku, hjartarkjöti (dálítið svona mis í tengslum við dádýradásemdina skömmu áður) og fleiru á diskana okkar. Einar lagði meira að segja í ál sem Maríu leist hins vegar ekki meira en svo vel á!!!

María bragðar á fyrsta réttinum. Svipurinn er kostulegur og enn skondnara að hún stundi á mjög ósannfærandi hátt um leið og myndin var tekin: „Mmmmmm“!!!

Hugi var ánægður með skinkuna ... hún var líka rosalega góð!

Þessar tvær sátu á næsta borði við okkur og spjölluðu saman meðan aðrir meðlimir fjölskyldu þeirra stóðu í biðröð við hlaðborðið. Það er alltaf eitthvað svo fallegt við að sjá eldra fólk og börn saman.

María og Hugi voru ótrúlega prúð og sátu þæg og góð yfir þriggja rétta máltíð! Það var nú aldeilis ekki til að spilla fyrir gleðinni að vera með svona óskaplega duglega sessunauta!

Húsfreyjan á Konsulentvägen var í sjöunda himni og áformar nú bankarán til að geta fest kaup á herragarðinum! Löngum var Borgarbókasafnið (gamla!) draumahúsið mitt en nú má einhver annar hirða það!!!

Stofurnar á herragarðinum voru fullar af matargestum og okkur fannst við óskaplega heppin að hafa fengið borð. Við ákváðum strax að gera þetta að árlegum sið meðan við dveljum hér í Svíþjóð ... næst ætlum við samt að vera eilítið prúðbúnari, við vorum nefnilega klædd fyrir útivist en ekki ferð á fínan veitingastað!!!

Hugi og María aðgæta jólatréð milli aðalréttar og eftirréttar!

Þegar kom að eftirréttinum varð ég skyndilega ótrúlega södd!!! Verandi mikil eftirréttarkona ákvað ég þó að þræla stórum hluta þess sem ég hafði sett á diskinn í mig! Litlu piparmyntumarengstopparnir voru himneskir!

Hugi gerði eftirréttunum að sjálfsögðu góð skil ... en ekki hvað!!!

Þegar ég kom út aftur eftir þetta dásamlega jólahlaðborð varð ég enn og aftur steinhissa á fádæma fegurð útsýnisins ... tók aftur slatta af myndum.

Systkinin nutu þess að fá að spretta aðeins úr spori eftir matinn ... vel dúðuð að sjálfsögðu! Minna þau ekki dálítið á álfa á þessari mynd?!

Foreldrar úr fókus!

Við erum strax farin að hlakka til að halda Litlu jólin á herragarðinum að ári!