Janúarhelgi

Helgin 8. - 9. janúar var hin ágætasta hjá okkur á Bárugötunni. Húsmóðirin var bundin yfir ritgerðarskrifum en aðrir fjölskyldumeðlimir höfðu það gott.

Hugi fékk að fara aleinn með ömmu sinni að velja sér afmælisgjöf. María var svolítið spæld að fá ekki að fara með (það hafði verið ákveðið að leyfa honum að vera einum með ömmu alla vega svona í þetta eina skipti) en tók gleði sína á ný þegar móðirin þáði boð um að koma í prinsessu- og pæjuleik! Sá leikur felst aðallega í því að María fari í einhver prinsessuföt og ég máli hana. Eftirleikurinn skiptir ekki öllu, nema hvað ég verð að samþykkja að vera drottningin! Drottningin má hins vegar alveg vera að skrifa ritgerð!

 

Pæjuprinsessan var einstaklega ánægð með útkomuna!

Á sunnudeginum skemmtu systkinin sér hið besta við að hoppa í hjónarúminu. Þetta er sívinsæl skemmtun allra kynslóða og virðist aldrei tapa sínu gildi.

María býr sig undir glæsilegt stökk, Hugi er nýlentur!

Ofur-Hugi í loftköstum!

Annars er það alveg til skammar að vera að sýna myndir þar sem þetta gapandi hurðarop blasir við! Við erum búin að vera á leiðinni að lagfæra þetta frá því Hugi, sá hinn sami og tekur æsilegt stökk á myndinni fyrir ofan, orðinn stór og sterkur, lá nýfæddur í vöggu!!! Spurning um að búa til eitthvað áramótheit úr þessu ... fyrir árið 2007 þá!