Janúargestir

Í lok janúar komu góðir gestir úr öllum áttum í heimsókn hingað á Konsulentvägen, heimilismönnum til mikillar gleði!

Fimmtudaginn 24. janúar komu Sveinn, stóri bróðir Einars, og stelpurnar hans, Ester og Bríet, í heimsókn til okkar frá Óðinsvéum. Lestarferðin tók þau allan daginn þannig að það voru lúnir ferðalangar sem lögðust til svefns það kvöld. Á föstudeginum var hins vegar ekki þreytu að sjá á mannskapnum og frænkurnar drifu sig út í garð að leika! María 7 ára, Ester 10 ára og Bríet 7 ára.

Bríet að róla!

Í bílskúrnum þóttust bræðurnir vera að rétta stuðarann á bílnum okkar með aðstoð hárþurrku ...

... en það var auðvitað bara yfirvarp fyrir hárgreiðsluleik!!!

Um kvöldið var pizzuveisla á la Konsulentinn og við stelpurnar fylgdumst svo með Let's dance í sjónvarpinu meðan herrarnir sköruðu í eld og fleira karlmannlegt!

María og Bríet fóru líka í hárgreiðsluleik!

Laugardagurinn hófst með hefðbundnum nammileiðangri.

Upp úr hádeginu fóru bræðurnir hins vegar með dæturnar í Hammarskogen. Við Hugi urðum bara eftir heima til að útivistarfólkið kæmist allt fyrir í bílnum. Eðli málsins samkvæmt mun því ekki verða sagt frá þessum góða degi af mjög mikilli nákvæmni hér!

Í skóginum var kveikt bál eitt mikið enda bræðurnir miklir áhugamenn um eld!

Yfir eldinum var svo grillað brauð á teini. Maríu þótti þetta besta brauð sem hún hafði nokkurn tímann bragðað!

Pálína með prikið? Nei, bara Bríet með eldsteikt brauð.

Hér sé ég ekki betur en að Sveinn sé að grilla pylsu þannig að augljóslega hafa slíkar veitingar einnig verið með í för.

Í sönnum anda bræðranna Sveins og Einars birti ég svo þessa mynd af bálkestinum!

Bríet borðar brauð.

Á næsta akri við eldstæðið hafði myndast smá svell og stelpurnar skemmtu sér konunglega við að renna sér fram og til baka þar. Þær munu víst hafa leitt feður sína út á hálan ís (í bókstaflegri merkingu) þegar þær neituðu að koma aftur í bílinn og létu sækja sig út á svellið!

Snemma morguninn eftir héldu Sveinn, Ester og Bríet aftur til Danmerkur. Einar náði rétt mátulega að keyra þau á lestarstöðina áður en ég þurfti að rjúka út á flugvöll að sækja næsta gest! Það var engin önnur en hin yndislega Una Björk Ómarsdóttir sem sótti okkur heim þennan dag en hún hafði fyrirvaralaust þurft að fara í vinnuferð til Stokkhólms og ákvað að fljúga út aðeins fyrr en samstarfsfélagarnir til að geta eytt sunnudeginum með okkur. Við vinkonurnar eyddum deginum í að spjalla og gleðjast yfir endurfundum og því gleymdist alveg að taka nokkrar myndir fyrr en um það leyti sem Einar bar hið girnilega Thai beef salad á borð fyrir okkur!

Við vinkonurnar (ég hélt sko að það hefði verið planið að vera með spekingssvip á þessari mynd!).

Eftirrétturinn var súkkulaðikaka sem ber heitið Death by chocolate - afar viðeigandi! Una þurfti svo að yfirgefa okkur þetta sama kvöld enda biðu hennar fundir og kynnisferðir í Stokkhólmi snemma morguninn eftir! Við kvöddum hana með söknuði en hlökkum þeim mun meira til að fá þau öll þrjú, Unu, Þröst og Þorra, í heimsókn til okkar sem allra fyrst!