Janúardagbók

                                                         2012

                   

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

Laugardagurinn 28. janúar 2012

Óskalisti í skýjunum

Ég á afmæli eftir tæpar tvær vikur ef mér reiknast rétt til. Í tilefni af því setti ég saman óskalista yfir alls konar hluti sem ég er aldrei að fara að fá í afmælisgjöf en finnst ég eignast pínuponsulítið ef ég set þá alla saman á eina mynd og geri grein fyrir hverjum og einum. Þá á ég þá að minnsta kosti hér á litlu síðunni minni.

Nr. 1 - Þetta svarta borð er ég búin að vera með á heilanum frá því ég sá það fyrst fyrir jólin. Það voru bara til tvö stykki í búðinni og þau koma aldrei aftur þannig að ef þau eru ekki nú þegar uppseld þá verða þau það nokkuð örugglega áður en ég næ að safna mér fyrir einu svona. En ó, hvað það væri fínt hjá mér, ég veit alveg nákvæmlega hvað ég myndi setja á litlu hilluna undir og hvað ætti að standa ofan á því.

Nr. 2 - Hér er einmitt eitt af því sem á að standa ofan á svarta borðinu! Ég er líka búin að vera með þennan mussel mega kökudisk á heilanum frá því ég sá hann fyrst.

Nr. 3 - Ég er virkilega engin ilmvatnsmanneskja en ef eitthvað dregur fram kellinguna-með-varalit-á-tönnunum í mér þá er það Byredo! Nú hef ég ekki einu sinni þefað af þessu ilmvatni (stóð með það í höndunum í NK fyrir jólin en hrökklaðist undan svartklæddum afgreiðslustúlkum sem stóðu vörð um flöskurnar eins og haukar um hreiður) en meðal helstu innihaldsefna eru rabarbarar og túlípanar! Mér finnst það bara ekki geta verið annað en dásamlegur ilmur!

Nr. 4 - Þessi lukt er svo fín ... og asnalega dýr!

Nr. 5 - Þessi stóra musselmalet salatskál var sett á markaðinn fyrir fáum árum og þar af leiðandi held ég að ég muni ekki finna hana á notaða markaðnum fyrr en eftir áratug eða tvo. En maður getur alltaf vonað ... eða látið sig dreyma um að maður geti bara keypt hana nýja út úr búð.

Nr. 6 - Ég er komin í alvarlegt prjónafráhvarf. Hef ekkert prjónað í viku þar sem ég er verkefnalaus. Þetta veldur mér meiri angist en mér finnst eðlilegt! Mig langar í garn í þessa peysu.

Nr. 7 - Meðfram musselmalet söfnuninni byrjaði ég að safna annars konar postulíni í fyrra. Enn sem komið er á ég bara tvo hluti, eina svona skál og einn bolla en mig langar í meira meira meira af Agnetu Livijn postulíni! Hver hlutur er svo skemmtilega skakkur og skældur og glerjungurinn rennur í taumum eftir yfirborðinu. Elska!

Nr. 8 - Ég á ein uppáhaldsrúmföt sem ekkert annað jafnast á við. Yfirleitt þvæ ég þau samdægurs til að geta sett þau strax á aftur af því mig langar ekki að nota neitt annað. Þangað til um daginn þegar ég þuklaði á þessum Soul of Himla rúmfötum úti í búð og fann að þar var loksins kominn verðugur keppinautur við Gleymméreina úr Lín.

Nr. 9 - Ég á eitt svona silkisjal í lillabláum tónum. Ég nota það ótrúlega mikið allan ársins hring og það heldur mér vel heitri um hálsinn þótt það sé allt upp undir 10 stiga frost úti. Ég væri meira en til í að eiga annað í aðeins hlutlausari og vetrarlegri litum. Eins og til dæmis þetta brúna.

Nr. 10 - Meira Agneta Livijn postulín. Mig langar að bjóða ykkur öllum í lasagna úr þessu fati!

Nr. 11- Mig langar líka í garn í þessa peysu. Raunar hefur hún verið efst á prjónalistanum mínum í heilt ár en ég hef aldrei tímat að kaupa garnið. Sem merkilegt nokk er það sama og í hinni peysunni á þessum lista.

Nr. 12 - Byredo Bibliothéque ilmkerti. Mest af öllu myndi mig reyndar langa í vinnu hjá Byredo við að finna nöfn á ilmvötn og kerti. Það fínasta við þessar vörur eru nefnilega nöfnin. Þar úir allt og grúir af draugablómum, frönskum skáldum, trjáhúsum og hringekjum. En ef Byredo vill ekki ráða mig í vinnu þá sætti ég mig alveg við þetta bókasafns ilmkerti í sárabætur. Því hef ég nefnilega lyktað af og sá um leið fyrir mér gulnaðar blaðsíður, trosnaða kili, dansandi bókstafi, dulmagnað andrúmsloft og grænt vor fyrir utan franska glugga.

Ó hve gaman er að dreyma ...

 

Þriðjudagurinn 17. janúar 2012

Að hamstra

Ég á tvöhundruð stykki, ætli það sé nóg?

 

Föstudagurinn 13. janúar 2012

Anatómía fyrir bókmenntafræðinga

Frá því við Einar fórum að búa saman hefur heimili mitt alltaf verið fullt af alls konar læknisfræðibókum. Í seinni tíð hafa hryllingsfóstrin sem betur fer vikið fyrir viðtalstækni og aðhlynningu en við getum alla vega sagt að ég hafi séð góðan slatta af flókinni anatómíu í gegnum árin. Þannig að þegar ég rakst á teikningu af hjarta með anatómíu sem ég skildi á einni af ferðum mínum um alnetið vissi ég að svona þyrfti ég að eignast. Ég setti mig í samband við hina dásamlegu Betsy í Vermont og þegar hún bauð mér ekki bara að velja mín eigin orð, ástríður og æði til að setja í hjartað heldur lofaði að gera sitt besta til að reyna að skrifa íslensku vissi ég að eitthvað skemmtilegt hlyti að vera í vændum. Sem rættist heldur betur. Allt síðasta sumar dunduðum við okkur við að búa hjartað mitt til svona milli heimsálfa. Fullkomnunaráráttan heltók mig og það tók mig margar vikur að velja réttu orðin, Betsy var gæsuð, ég fór til Lysekil og var internetlaus í Svenljunga, Betty teiknaði, ég skrifaði og skannaði inn lýsingar á séríslenskum bókstöfum, Betsy gifti sig, ég fyllti buslulaugina, Betsy skannaði, ég útskýrði muninn á P og Þ ... og svo á endanum var hjartað tilbúið! Og ekki nóg með það heldur var Betsy á leiðinni í brúðkaupsferð til Evrópu, meðal annars Svíþjóðar. Á endanum fór það því svo að ég skipulagði blint stefnumót, sagðist verða með bláan klút, tók við hjartanu persónulega á Arlanda, drakk kaffi með þeim nýgiftu, hló að amerískum tengdamæðrum, hlustaði heilluð á frásagnir af æskudraumum um langhlaup á skíðum í Noregi, fræddist um fjöllin í Vermont og faðmaði þau nýgiftu og óskaði þeim góðrar skemmtunar í París og Amsterdam. Og nú hangir hjartað mitt á myndaveggnum í stofunni. Í framtíðinni vil ég reyndar hafa það nær mér. Sé fyrir mér lítið vinnuherbergi með rykugum bókastöflum upp með öllum veggjum, pappírsrúllum í öllum regnbogans litum, garnhnyklum sem rúlla eins og eyðimerkurrunnar út úr hornunum, skrifborði með krukkum fullum af blýöntum, pennum og penslum. Og einhvers staðar mitt í allri óreiðunni myndin sem minnir mig á allt það besta sem lífið hefur upp á að bjóða: lúðrasveitir, nýja garnhnykla, turna, mjúk náttföt, hrím, leynileiðir, flugelda, hrein rúmföt, gamlar barnabækur, ljósaseríur, pappírsblúndur, bókasöfn, uppstoppuð fiðrildi, að dreyma, að hlæja, að syngja, broshrukkur, kaffi, regnhlífar, skranbúðir, blómstrandi tré, pakka með borða, myndaalbúm ... og þig! 

 

Mánudagurinn 9. janúar 2012

Gleðilegt nýtt ár

... og takk fyrir þau gömlu! Hér á Konsulentvägen rennur nýtt ár ljúflega af stað. Ég myndi segja ykkur frá áramótaheitinu mínu ef ég hefði ekki rofið það 4. janúar! Já, já, ef ég verð búin að missa allar tennurnar 45 ára gömul þá sveiflið þið fingri framan í mig og minnið mig á Flux áramótaheitið 2012.

Þótt ég hafi ekki strengt nein heit þess efnis er ég samt búin að vera ógurlega dugleg og setja inn áramótamyndir:

Áramót 2011/2012

Svo bíða hér myndir frá 10 ára afmæli Huga, handavinnualbúm er í bígerð og vonandi verður ekki allt of langt þangað til ég get sent myndir af blómstrandi túlípönum í garðinum, hreiðrum í trjám og berfættum börnum.

 

Forsíða     Um okkur     Mín síða     Myndirnar okkar     Hafðu samband     Gestabókin okkar