Janúardagbók 2011

                                                                               

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

31. janúar 2011

Biðin er á enda!

Án frekari málalenginga kynni ég baðherbergismyndir:

Nýja baðherbergið

Meðan þið skoðið myndirnar ætla ég að horfa á ótrúlega lélegan þátt um bókasafnsþjóf á SVT Play. Eins gott að ég strengdi engin asnaleg áramótaheit um að gera bara eitthvað uppbyggilegt og af viti!

 

26. janúar 2011

Áramótaheit

Áramótaheit eru trikkí. Mann langar alltaf til að strengja stór heit um að vera betri manneskja, betri mamma, borða hollari mat, greiða niður lán, fara fyrr á fætur, oftar út að ganga, hætta að taka nærri sér hluti sem maður tekur nærri sér, klippa visakortið, skrifa meiri ritgerð, Bikini 1997 (dáldið langt síðan ég gafst upp á því sko), ganga frá eftir sig jafnóðum, drekka meira vatn og minna kaffi, hringja oftar í ömmu, fara oftar með börnin á róló ... og allt það. En slíkt er auðvitað dæmt til að mistakast.

Fyrir örfáum árum ákvað ég að breyta um stefnu og strengja heit um að ég myndi bara gera hluti sem létu mér líða vel. Það er að segja, ég myndi til dæmis frekar skrifa ritgerð þótt hægt gengi en hanga á netinu klukkutímunum saman. Því manni líður jú vel af að skrifa ritgerð. Og ef ég af einhverjum ástæðum fyndi að þetta með ritgerðina væri ekki að fara að ganga þá ætti ég bara frekar að standa upp frá tölvunni, laga góðan kaffibolla og hringja kannski í skemmtilega vinkonu. Sem sagt, gera uppbyggilega hluti sem láta manni líða vel. Merkilegt nokk tókst mér ekki heldur að standa við þetta heit.

En í ár held ég að ég sé með þetta, áramótheit í tveimur liðum sem ég er næstum viss um að ég geti staðið við. Áramótaheitin eru eftirfarandi:

Nr. 1 - Vera duglegri við að nota afgangsgarn þegar ég prjóna

Nr. 2 - Vera duglegri við að nota alla eyrnalokkana mína

Það er vissulega bara liðinn tæpur mánuður af árinu en mér gengur stórkostlega að standa við gefin heit! Eyrnalokkar notaðir á árinu: Tveir! Rock on! (Vanalega hef ég sko verið með sömu eyrnalokkana í mér frá kannski janúar til júní og þá skipt og verið með annað par út árið.) Og allt stefnir í að ég gjörsamlega rústi heitinu um afgangana. Það sem af er ári er ég byrjuð á/búin með fimm prjónaverkefni, öll úr afgöngum. Ég hlakka brjálað til að geta sýnt ykkur myndir af þeim í handavinnualbúmi en það er ekki alveg tímabært enn. Hins vegar er ég loksins tilbúin með handavinnumont fyrir síðari hluta ársins 2010:

Handavinna frá maí til desember 2010

Næst: Nýtt baðherbergi.

 

16. janúar 2011

Á nýju ári

Gleðilegt nýtt ár elsku bestu vinir!

Einhvern veginn er ég alveg sannfærð um að 2011 verði frábært ár. Það liggur einhvern veginn bara í orðanna hljóðan - tvöþúsundogellefu. Já eða þeirri staðreynd að það er hægt að búa til reikningsdæmi úr ártalinu, 2+0 = 1+1. Svoleiðis finnst mér alltaf veita á gott. Í öllu falli sé ég árið fyrir mér í sama dýrðarljóma og umvefur örlagadísina á myndinni hér að ofan. Myndin er annars eftir Jenny Nyström og prýðir póstkort sem ég giska á að sé einhvern tímann frá fyrstu áratugum síðustu aldar.

Hér á Okkar síðu byrjar árið alla vega vel með risastórum myndaskammti:

Bráðum koma blessuð jólin

Jól og áramót 2010

Ég er svo búin að heita sjálfri mér því að koma fljótlega upp annars vegar handavinnualbúmi og hins vegar baðherbergisalbúmi. Fylgist með! Og skrifiði komment ... í guðs bænum skrifiði komment!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar