Janúardagbók 

                      2009 

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

21. janúar 2009

Jólagjöfin

Hér er hún, jólagjöfin stórkostlega! Þetta orgel (sem er kannski frekar pósitíf?) fékk ég í snemmbúna jólagjöf frá Einari! Þetta var ást við fyrstu sýn! Ég var á leiðinni að hitta Einar á indverska hlaðborðinu þegar ég stakk nefinu örstutt inn í uppáhaldsantikbúðina mína, Två sekel, og þar blasti það við, svo bjart og fagurt. Og ég hugsaði að ef ég bara gæti eignast svona orgel þá væri mér næstum sama þótt ég ætti enga aðra veraldlega hluti. Ég strauk fingurgómunum létt yfir nóturnar og óskaði mér svo margra margra peninga að ég gæti alveg leyft mér að kaupa það. Þótt ég vissi að það breytti engu um staðreyndir málsins hóf ég örvæntingarfulla leit að verðmiða. Að lokum fann ég agnarsmáan verðmiða ofan á orgelinu sem mér fannst bæði allt of lítill til að geta mögulega átt að endurspegla gildi þessa stórkostlega dýrgrips fyrir utan að talan sem á honum stóð var svo fáránlega lág að ég ákvað að hann hlyti að eiga við jólsvein sem stóð við hlið hans.

Yfir logandi sterka vindalooinu á New India fór Einar að kvarta undan því að hann vissi ekkert hvað hann ætti að gefa mér í jólagjöf. Ég stóðst ekki mátið og sagði honum frá orgelinu. Þótt við drægjum bæði þá ályktun að það væri pottþétt allt of dýrt eða þá bara alveg handónýtt ákváðum við að nota síðustu mínútur hádegishlésins til að skoða það. Innan um gömlu kristalsglösin, rósóttu bollana og hreindýramálverkin í Två sekel gekk Einar úr skugga um að allar nóturnar virkuðu og allt hljómaði eins og það ætti að hljóma. Ég hélt áfram leitinni að verðmiðanum en fann sem fyrr engan nema þennan agnarsmáa með allt of fáum núllum. Að endingu gripum við eiganda búðarinnar og spurðum hann út í verðið. Og eins og ekkert væri eðlilegra gaf hann okkur upp hina undarlega lágu tölu af litla miðanum. Á þeim tímapunkti vissum við aðeins tvennt, að við hefðum ekkert pláss fyrir orgel í húsinu og að við yrðum að eignast þetta orgel! Einar dró því upp veskið og 10 mínútum eftir að við komum inn í búðina héldum við þaðan út sem orgeleigendur! Enda þurftum við svo sem ekkert að hugsa okkur mikið um. Orgelið kostaði ekki mikið meira en máltíðin okkar á New India að viðbættu bílastæðinu sem ég borgaði fyrir á meðan ég dvaldi í bænum. Það kostaði sirka jafnmikið og ein fín peysa og eitt pils í H&M. Og örugglega helmingi minna en sæmileg búðarferð. Það kostaði hvorki meira né minna en 400 sænskar krónur!

Orgelið hefur fengið góðan stað hér á Konsulentvägen eftir dálitlar hrókeringar og við skemmtum okkur öll hið besta við að spila á það. Einar hefur forskotið enda tók hann þrjú stig í píanóleik á æskuárum. María er á brunandi siglingu upp að hælunum á honum, er búin að læra allar nóturnar og farin að skrifa sín eigin lög auk þess sem hún spilar „Signir sól“ og fleiri góða slagara af miklum móð. Hugi spilar frjálst ... en fallega! Sjálf er ég búin að fullæfa lagið „Jag gjör så att blommorna blommar“ (sem er sko spilað með báðum höndum!) og var að byrja að æfa lag númer tvö úr hinni stórkostlegu bók Vi spelar piano II. Svo ætla ég að vera búin að læra afmælissönginn fyrir afmælið mitt!

Og þá vitið þið það!

 

12. janúar 2009

Er ekki tilvalið að byrja vikuna á góðri myndasyrpu:

Afmæli, aðventa og annríki

Heimilisiðnaðurinn

Jól og áramót 2008

Seinna í vikunni ætla ég hins vegar að segja ykkur frá bestu jólagjöfinni minni ... og til þess að koma í veg fyrir allan misskilning er rétt að taka það fram að hún er af fullkomlega veraldlegum toga!

 

6. janúar 2009

Gleðilegt nýtt ár elsku góða fólk og takk fyrir það gamla!

Myndin hér að ofan er eftir Elsu Beskow (næstþekktasta barnabókahöfund Svía) og er tekin upp úr bókinni Årets saga sem kom fyrst út árið 1927. Ég er ákaflega veik fyrir hvers kyns mánaðarmyndum og kaupi þær gjarnan á öllum formum sem ég kemst yfir. Safnið mitt inniheldur til dæmis bækur, póstkort og svo fínu, fínu innrömmuðu myndirnar á veggi tímans sem ég hef sagt frá áður. Og þar sem það er auðvitað ómögulegt að sitja ein að þessum gersemum hef ég ákveðið að birta viðeigandi mynd úr Årets saga í hverjum mánuði ... þannig get ég líka tryggt að minnsta kosti eina færslu mánaðarlega!

Janúarmyndin af litlu stjärngossaklæddu systkinunum á einkar vel við í dag á sjálfum þrettándanum. Eftir því sem ég best kemst næst á stjärngossabúningurinn að vísa til vitringanna þriggja en mér skilst einmitt að þrettándinn hafi upphaflega verið tileinkaður þeim. Í Svíþjóð hafa þeir hins vegar smám saman færst inn í Luciuhátíðarhöldin, aðallega svo strákarnir geti líka tekið þátt.

Talandi um myndir, ég á eftir að setja inn svo mörg myndaalbúm að mig sundlar af tilhugsuninni einni saman. Það verður verkefni næstu daga en fyrst af öllu ætla ég að halda upp á sjö ára afmæli uppáhaldsstráksins míns á morgun!

 

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar