Janúardagbók 2007  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

 

 

31. janúar 2007

Lífsbjörg á köldum vetrarmorgnum:

Kaffi - Einar reynir ekki einu sinni að vekja mig fyrr en hann er búinn að laga stóran bolla af kaffi handa mér! Þá skrönglast ég niður stigann, alveg harðákveðin í að ég muni fara beint upp í rúm aftur um leið og tækifæri gefst. En þegar ég er búin með kaffið þá finnst mér allt í einu eins og þetta verði kannski svo skemmtilegur dagur að ég tími bara alls ekki að eyða honum í rúminu.

Stóra lopapeysan hans Einars - Einar á risastóra, þæfða, hneppta lopapeysu sem mamma hans prjónaði á hann fyrir löngu síðan. Þetta er engin aðsniðin tískulopapeysa sem er rennd í báðar áttir ... en þetta er hlýjasta og notalegasta flík sem ég hef komist í kynni við! Ég stel henni stundum af honum fyrst á morgnana því annars myndi ég aldrei tíma að fara undan sænginni.

Pollapönk - Elli gaf Maríu og Huga þennan geisladisk í jólagjöf og hefur hann slegið í gegn hjá bæði ungum og öldnum Konsulentum. Við erum með hann í bílnum og hlustum á hann á hverjum morgni þegar Maríu er skutlað í skólann og Huga á leikskólann þar á eftir. Lögin hressa okkur öll við og koma okkur í gott skap sem er nauðsynleg byrjun á deginum!

Ef þetta þrennt dugar ekki til má alltaf skoða myndaalbúm eins og þetta:

Í frosti og snjó

Ég kemst að minnsta kosti í ótrúlega gott skap þegar ég skoða þessar myndir ... en ég er nú líka ekki alveg hlutlaus!

 

24. janúar 2007

Lifað fallega

Nokkur fíngerð snjókorn svífa letilega til jarðar. Það er snjór yfir öllu, grenitrén svigna undan honum, hann hefur sest á öll grindverk og í alla runna. Frostið hefur hrímað fíngerðar trjágreinar og barrnálar. Allt er hvítt. Engin ummerki um mannaferðir, ekki einu sinni fótspor í snjónum. Í litlum glugga sést loga á fimm kertum. Inni er eldur á arni sem brennur með daufu snarki og stöku brestum. Á gólfinu framan við arininn er mjúkur garnhnykill sem teygir spottann upp í ljósan hægindastól þar sem prjónadóti hefur verið fleygt kæruleysislega á sessuna. Á litlu borðstofuborði stendur vasi með gulum og hvítum túlípönum. Við borðið situr ung kona í ljósrauðum ullarbol, doppóttu silkipilsi, svörtum ullarsokkabuxum og hvítum ullarsokkum. Við hlið hennar er barmafullur kaffibolli með heitri, hvítri mjólkurfroðu. Fyrir framan hana liggur opin bók um löngu látinn mann með þykkt yfirvaraskegg, djúpt hökuskarð og leiftrandi augu.

Og úti herðir á snjókomunni.

 

21. janúar 2007

Stiklað á stóru og smáu

Já, það hefur verið fremur lítil hreyfing á þessari annars ágætu síðu undanfarið. Ástæðu þess má meðal annars rekja til eftirfarandi:

* Hugi varð fimm ára fyrir tveimur vikum! Fimm ára!!! Dálítið langt síðan maður var svona:

Við komumst hins vegar að því að við kunnum ekkert að halda upp á afmæli hér í Svíþjóð! Ég kann bara að halda afmæli þar sem Jódís frænka bakar einhverja stórkostlega afmælisköku eftir óskum barnanna, þar sem mæðgurnar Erla Kristín og Kristín Klara mæta fyrstar (Erla er eiginlega eina manneskjan sem ég þekki sem er ekki alltaf of sein!), Ölvir og Keli dást að spínatsalatinu, frú Ragna mætir í glamúrdressi, Orri bræðir hjörtun, allt er uppfullt af litlum stelpum í bleikum sparikjólum með spennur í hárinu og gaurum í vestum og lakkskóm sem hlaupa upp í dúkkukrók og aftur niður í barnaherbergi, eltast við Bjart og tæta leikföng úr skúffum og skápum! Fimmta afmælisveisla Huga bíður því þangað til ég er búin að gera það upp við mig hvernig halda skal upp á afmæli þegar fæst af þessu er í boði! (Grát!!!)

* Ég er loksins byrjuð að lesa fyrir mastersritgerðina! Eins og mér hefur fundist þetta óyfirstíganlegt verkefni í marga mánuði þá settist ég bara niður um daginn, opnaði bókina og byrjaði að lesa eins og ekkert væri sjálfsagðara. Og ég er búin að vera ansi dugleg síðan, sit og les af kappi alla virka daga og miðar hratt og örugglega áfram. Ég veit svo sem alveg að þessi nýfengna einbeiting er ekkert endilega komi til að vera. En er á meðan er og ég les eins og ég get þangað til næsta letikast hellist yfir mig!

* Ég er ekki bara að lesa um Hannes Hafstein heldur er ég algjörlega límd við skáldsögu um Marilyn Monroe eftir Joyce Carol Oates. Þeir sem hafa þekkt mig lengst vita að ég er eldheitur Marilyn aðdáandi og hef verið með konuna á heilanum frá því ég var svona 9 ára gömul. Þessi bók er svo frábær að ég hef margoft lesið langt fram eftir nóttu og pínt mig til að slökkva ljósið þegar ég er farin að geta talið klukkutímana þangað til ég á að vakna á fingrum annarrar handar!

* Við Einar duttum inn í Grey's Anatomy síðasta haust. Þá var önnur serían rúmlega hálfnuð og það tók mig áreiðanlega fimm þætti að átta mig svona nokkurn veginn á því hver væri ástfanginn af hverjum, hver hataði hvern og svo framvegis. Þrátt fyrir að það hafi allt komist á hreint að lokum hef ég verið friðlaus síðan að sjá þættina sem þegar var búið að sýna þegar ég byrjaði að fylgjast með. Ég útvegaði mér því fyrstu seríuna og fyrri hluta annarrar. Við Einar sitjum núna öll kvöld yfir sjónvarpinu og lifum okkur inn í líf skurðlæknanna á Seattle Grace sjúkrahúsinu. Við erum að sjálfsögðu algjörlega komin með þáttinn á heilann og Einar óttast það mjög að hann muni í einhverju fáti vísa sjúklingum sínum til Dr. Burke eða Dr. Shepard! Ég er get heldur ekki hætt að hugsa um þriðju seríuna sem þið á Íslandi fylgist með núna og iða í skinninu eftir að komast yfir hana. Einar segir þó að það sé yfirhöfuð óþarfi að vera að horfa á þessa þætti, hann eigi nefnilega bókina (hahaha)!

* Ég er líka búin að vera að dunda mér við að setja inn fullt, fullt af myndum:

             

                                    Hugi verður fimm ára                            Janúar á Konsulentvägen

Hér á Konsulentvägen er sem sagt nóg að gera og ég er dugleg við ýmislegt gagnlegt sem ógagnlegt! Bráðum ætla ég líka að fara að vera dugleg að skrifa á þessa síðu. Takk fyrir að lesa!

 

6. janúar 2007

Heima og heiman

Nú höfum við Konsulentarnir snúið aftur heim eftir næstum tveggja vikna dvöl heima á Íslandi. Það var ákaflega gaman að hitta alla, fjölskyldur okkar og vini, og ótrúlega dýrmætt að eiga stund með öllu þessu góða fólki. Það var líka óskaplega gaman að koma heim, hingað til Svíþjóðar. Ég var dálítið leið á Keflavíkurflugvelli yfir að hafa ekki náð að hitta alla og yfir að hafa ekki náð að hitta þá sem ég þó náði að hitta oftar! En um leið og hjól flugvélarinnar snertu Arlandaflugvöll fylltist ég barnslegri gleði yfir að vera komin heim! (Reyndar kann flughræðslan og léttirinn yfir lendingunni að hafa aukið aðeins á fögnuðinn en hann var engu að síður til staðar!)

Í flugferðinni hittum við íslenska fjölskyldu sem var einmitt að flytja hingað til Uppsala. Dótið þeirra var í gámi á leiðinni, miklar Ikeaferðir fyrirhugaðar og móðirin ekki einu sinni búin að sjá húsið sem fjölskyldan hafði fest kaup á. Allt hljómaði þetta afskaplega kunnuglega og þeytti mér í huganum aftur til 26. júlí síðastliðins þegar ég var í nákvæmlega sömu sporum: á leiðinni til borgar sem ég hafði aldrei komið til, í (galtómt) hús sem ég hafði aldrei séð og þóttist ætla að fara að kalla þetta heimili mitt! Núna, um fimm mánuðum síðar, fann ég hvað ég var komin langt frá þessum upphafspunkti. Ég hlakkaði svo til að fara heim í húsið mitt í litla garðinum mínum, hlakkaði til að sitja í sófanum fyrir framan arininn minn, drekka kaffi í eldhúsinu mínu og fylgjast með fuglunum mínum fyrir utan gluggann, sofa í rúminu mínu, ganga í skóginum mínum, fara inn í miðbæinn minn, fylgjast með hversu mikið vatn væri í ánni minni, kíkja í mínar búðir og fara á mín kaffihús.

Ég komst að því í sumar þegar við vorum að tæma íbúðina á Bárugötu og yfirgefa land og þjóð að ég væri ekki bara þessi líkami sem gengur undir nafninu Guðrún Lára, hugsun hans og gjörðir. Ég fattaði allt í einu að ég var líka þessi íbúð okkar, göturnar í kringum Landakot, Pétursbúð, Laugavegurinn, Kaffitár og Kron, Skólavörðustígurinn, Hallgrímskirkja, Esjan, Viðey ... og allt það! Þess vegna var svo ógnarskrýtið að ætla að selja Bárugötuna hæstbjóðandi, bara eins og að slíta af sér handlegginn og bjóða hann gestum og gangandi meðan blóðið vætlaði enn úr sárinu. Og skrýtið að hafa valið það sjálfviljug að yfirgefa Landakotið, Laugaveginn og allt það. En þarna á Arlandaflugvelli fattaði ég að þetta var ekki svo slæmt því ég er í raun allt þetta enn þá. Það eina sem hefur breyst er að ég er líka húsið á Konsulentvägen, eplatrén og fuglarnir í garðinum, arininn, skógurinn, göngugatan í miðbæ Uppsala, Fyrisån ... og allt það! Ég er bara stærri ég!

Ég er allt sem ég get kallað mitt: heimilið mitt, dótið mitt, fjölskyldan mín og vinir mínir. Vissulega breytist samsetningin á þessu alltaf smám saman, rétt eins og maður fellir hár af höfðinu eða nuddar burt húðfrumur. En á meðan eitthvað nýtt kemur í staðinn er það allt í lagi. Best af öllu er þó að bæta við sig, vaxa, dafna og verða stöðugt stærri, meiri og betri ég! Og vegna þessarar nýju vitneskju er ég búin að vera glöð á árinu 2007 ... ákaflega glöð!

P.s. Hér eru nokkrar myndir frá því við vorum heima á Íslandi:

Jól og áramót á Íslandi

Gleðilegt ár kæru vinir nær og fjær!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar