Janúardagbók 2005

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. janúar 2005

Eitthvað hef ég trassað það að setja inn nýjar myndir. Bætti þó ráð mitt örlítið og þið getið skoðað nokkrar myndir frá síðstu vikum janúarmánaðar með því að smella á myndina af vinkonunum Maríu og Freyju litlu.

Nú er ég hins vegar að hugsa um að vinna að því hörðum höndum að koma síðunni í vorbúning. Vonast til að geta uppfært frísklegri síðu, uppfulla af laufblöðum, blómum og vorstemmningu, eftir nokkra daga! Hvenær það verður nákvæmlega fer allt eftir því hversu kyrr María og Hugi verða þegar ég reyni að taka nýjar myndir af þeim á forsíðuna! Þangað til næst ... góðar stundir!

 

26. janúar 2005

Núna þegar næstum allur klaki er bráðnaður og hitamælar um alla borg komnir vel yfir fimm gráðurnar þykir mér rétt að fara að losna við allan þenna snjó af síðunni. Væri ekki betra að fara frekar að fylla hér allt af vorblómum og einhverju væmnu dótaríi? Það held ég og hef hugsað mér að bæta úr þessu á næstu dögum, í það minnsta fyrir afmælið mitt!

Og ég hef tekið aðra ákvörðun varðandi síðuna mína. Ég ætla aldrei framar að skrifa hér inn titla á nýútkomnum bókum! Ég bý svo vel að vera með ótrúlega skemmtilegan teljara sem getur sagt mér í gegnum hvaða leitarorð fólk kemur inn á síðuna mína. Þar til skömmu fyrir jól skemmti ég mér hið besta yfir öllum undarlegu orðunum sem fólk slær inn í hinar ýmsu leitarvélar. Eftir að ég setti þrjár glænýjar skáldsögur niður á jólagjafaóskalista hefur teljarinn hins vegar fyllst af bókartitlum. Að sjálfsögðu gleðst ég mjög yfir að það séu svona margir menningarlega sinnaðir að leita á netinu (og hafi sama bókarsmekk og ég!) ... en hvað varð um skemmtileg leitarorð á borð við „mamma mín er flugfreyja“, „myndir af byssum“, „slöngur“ og „menn með skalla“!!! Það var einhvern veginn miklu skemmtilegra að lesa slíkt og ímynda sér fólkið sem byggi að baki þeim. Vona til dæmis að sá eða sú sem leitaði að mönnum með skalla hafi verið hugguleg miðaldra kona í leit að rosknum og fjárhagslega sjálfstæðum ferðafélaga! Er einhvern veginn alveg viss um að byssumennirnir hafi verið 13 ára unglingar utan að landi og slönguáhugamennirnir sömu leiðis. En mér er alveg fyrirmunað að ímynda mér hver í ósköpunum slær inn sem leitarorð að mamma hans sé flugfreyja!!! Gefur einhver sig fram?

 

20. janúar 2005

Enn um ritgerðir og mig!

Þá hefur hinu mikla ritverki um myndhvörf í orðræðu læknavísinda verið skilað inn! Gleði mín er ólýsanleg! Þegar ég stóð í gættinni í litlu sætu húsi í Hafnarfirði og rétti kennaranum þennan doðrant minn þá kom allt í einu upp í hugann á mér, svona algjörlega fyrirvaralaust, fyrsta ritgerðin sem ég skrifaði á lífsleiðinni!

Þegar ég var 12 ára setti tónmenntakennarinn í Austurbæjarskóla okkur fyrir að skrifa ritgerð um Mozart! Þetta var augnablik sem ég hafði beðið lengi eftir! Það var komið að fyrstu ritgerðinni á skólaferilnum og ég sá strax fyrir mér að þetta markaði ákveðið skref í átt minni til fullorðinsára. Ritgerð var eitthvað fyrirbæri sem ég vissi að fylgdi efri og æðri skólastigum og mér fannst þetta verkefni bæði heillandi og óyfirstíganlegt. Ég fann fyrir mikilli ábyrgðartilfinningu sem var í senn ánægjuleg en jafnframt kvíðablandin. Eitthvað hafði ég heyrt á skotspónum orðið „heimildaritgerð“ ... þetta fannst mér mjög framandi orð en taldi mig þó hafa aflað mér nægra upplýsinga til að átta mig á að í þessu fólst að maður læsi bækur um tiltekið efni og skrifaði svo um það sem maður hafði lesið í ritgerðinni. Tónmenntakennarinn talaði reyndar aldrei um „heimildaritgerð“, en mér fannst þó öruggast að storma beint niður á Borgarbókasafn í von um að finna þar einhverjar bækur um Mozart. Þaðan sneri ég út skömmu seinna vopnuð góðri bók um tónskáldið mikla. Ég fór heim og hófst handa. Ég þóttist vita að í svona heimildavinnu fælist að vinsa úr aðalatriðin ... vandmálið við bókina um Mozart var að mér fannst allt jafnmerkilegt. Allt frá því Mozart sló fyrstu nóturnar á píanóið, nokkurra mánaðagamall, þar til hann dó drottni sínum nokkrum áratugum síðar ... þetta varð bara allt að fá að vera með í ritgerðinni! Ég sat því sveitt við og handskrifaði blaðsíðu eftir blaðsíðu um ævi og störf Mozarts, samviskusöm tíundaði ég smáatriði eftir smáatriði í frásögninni. Þegar upp var staðið taldi ritgerðin einar 12 blaðsíður!!! Ég skilaði henni stolt, en nokkuð áhyggjufull, inn til kennarans nokkrum dögum síðar.

Í ljós kom að ekki höfðu allir bekkjarfélagarnir skilið verkefnið á sama hátt og ég. Flest allir skiluðu inn verkefnum upp á 3 línur, í mesta lagi hálfa síðu! Í nær öllum þeirra var greint stuttlega frá því að Mozart hafi verið austurrískt tónskáld, hann hafi samið hin og þessi lögin sem flestir þekkja og hafi verið uppi á árunum 1756-1791. Þar stóð ekkert um það þegar Mozart sá píanó í fyrsta skipti, ekkert um það þegar hann gat spilað lög nákvæmlega eftir eyranu bara þriggja ára, ekkert um systurina, ekkert um flutninginn milli hinna ýmsu borga, námið og störfin ... já, bara nánast ekkert af því sem mér hafði þótt algjörlega ómissandi í minni ritgerð. Það undarlegasta af öllu var að tónmenntakennarinn virtist jafnánægður með þriggjalínuritgerðirnar og minn doðrant! Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég áttaði mig á að það var ég sem var kjáninn ... það hafði alls ekkert átt að skrifa „heimildaritgerð“ með tilheyrandi bóksafnsferðum og vökum fram á nótt við að hreinrita blaðsíðurnar tólf!!! Það var ég sem hafði, í þrá minni eftir fullorðinsverkefnum, hlaupið á mig! 

Í mörg ár fékk ég vægan kjánahroll þegar ég hugsaði um þessa ritgerð. En ekki lengur! Í dag sé ég bara að örlög mín voru ráðin ansi snemma. Ég er ritgerðaóð og hef alltaf verið! Sama þó ég kvarti undan þeim meðan ég er að skrifa þá finnst mér þetta alveg ótrúlega skemmtilegt. Viljið þið minna mig á þetta þegar næsta hrina skellur á?!

 

12. janúar 2005

Nokkrar staðreyndir um ritgerðir og mig!

*Mér finnst alltaf alveg óstjórnlega leiðinlegt að skrifa ritgerðir

*Mér finnst sérstaklega skelfilegt að skrifa ritgerðir í janúar þegar aðrir nemendur njóta þess að slaka á síðustu daga jólafrísins og þurfa ekki einu sinni að hafa áhyggjur af heimalærdómi, hvað þá meir.

*Mig minnir undantekningalaust að það hafi verið gaman að skrifa ritgerðirnar þegar ég er búin með þær! 

*Því meira sem þú skrifar, því meira áttu eftir! Þetta er lögmál sem ég hef enn engan botn fengið í. Þegar ég byrja á ritgerð finnst mér ævinlega að þetta verði ekkert mál og ímynda mér að ég geti slengt fram einum 20 síðum á svona þremur dögum (engan veginn raunhæft mat). Því meira sem ég skrifa og þeim mun fleiri dagar sem líða því fjær finnst mér ég vera frá því að klára! Get alveg séð ofsjónum yfir að eiga bara eftir að lesa yfir og lagfæra og finnst, jafnvel þó allt annað sé klárt, að það muni sennilega taka mig tvær vikur (sem betur fer ekki heldur raunhæft mat)!

*Ég er ekki enn búin að læra það að lykilinn að því hvernig best sé að byrja næstu setningu er ekki að finna á skemmtilegum bloggsíðum eða öðru efni á alheimsnetinu sem ég sogast ósjálfrátt að þegar ég þarf að finna snjalla leið til að orða hlutina!

*Þið hin getið séð það hvenær ég er að skrifa ritgerðir því teljarinn á heimasíðum ykkar rýkur þá skyndilega upp úr öllu valdi!

*Þegar ég er að skrifa ritgerð ímynda ég mér alltaf að ef það væri ekki fyrir þetta bévítans verkefni þá væri ég löngu búin að þrífa íbúðina hátt og lágt, setja í fjórar vélar, útbúa girnilegan mat til að setja í frystinn (til að eiga tilbúinn fyrir svona ritgerðartímabil!) og baka eitthvað gott með kaffinu til að bjóða öðrum fjölskyldumeðlimum upp á svona síðdegis.

*Þegar ég er að skrifa ritgerðir langar mig miklu meira til að vera að uppfæra þessa síðu og setja inn nýjar myndir

*Þegar ég er að skrifa ritgerð þarf ég meira en nokkru sinni fyrr á því að halda að heyra frá fólkinu mínu. Bendi góðhjörtuðum á að styrkja auman námsmann með huggulegum kommentum eða tölvubréfum. Gestabókin stendur líka fyrir sínu. Símtöl og heimsóknir eru að sjálfsögðu toppurinn! Geeeriði það!!!

 

7. janúar 2005

Stór og sterkur ... og fimur!

Hugi er þriggja ára í dag!!! Afmælisdagar eru mikið gleðiefni hér á Bárugötu og orðin hefð fyrir pakka og afmæliskakói að morgni slíkra merkisdaga. Vanalega hafa verið teknar nokkrar myndir við þessi tækifæri og engar undantekningar voru gerðar núna. Þið getið séð afraksturinn með að smella á myndina af afmælisbarninu, afmælissysturinni og sjóræningjaskipinu hér fyrir neðan.

Sjálfur vill Hugi ekki kannast við að vera þriggja ára í dag en hann telur þó að dagurinn marki ákveðið spor í lífi hans, hann sé núna orðinn stór og sterkur af því að hann borði svo mikið grænmeti!!! Það gætir reyndar dálítils misskilnings hér á bæ (og sennilega víðar) varðandi aldur og stærð. Börnin eru á eilífðri uppleið, þau bæði eldast og stækka með hverju árinu! Fyrir vikið hafa þau sett ákveðið samasem merki þarna á milli. Um daginn heyrði María einhvern speking í útvarpinu segja að fólk hætti að stækka þegar það væri um 20 ára. Hún æpti upp fyrir sig og sagði: „Þetta er einhver vitleysa! Pabbi er orðinn 31 árs og þú ert að verða 29 ára mamma“! Já, hún hafði þarna mjög áþreifanlegar sannanir fyrir mistökum útvarpsmanna! Og Hugi hefur líka orðið fyrir ákveðnum áhrifum af útvarpinu. Í gær greip hann í handlegginn á mér og horfði alvarlegur í augu mér og sagði: „Mamma, ég er landsliðsmaður í fimleikum“!!! Við Einar og María óskum landsliðsmanninum af öllu hjarta til hamingju með þriðja afmælisdaginn! Hann lengi lifi ... húrra, húrra, húrra!!!

 

3. janúar 2005

Við hérna á Minni síðu bjóðum ártalið 2005 velkomið til leiks! Klapp, klapp, klapp ... !!!

Síðastliðna þrjá daga hef ég verið upptekin af þeirri tilhugsun að nú geti allt gerst. Heilt ár er ansi langur tími og þannig lagað séð er alveg ómögulegt að spá fyrir um hvernig lífi mínu verði háttað um næstu áramót! Ég hef því látið mér detta í hug hina ýmsu möguleika á því hvernig mínum málum gæti undið fram árið 2005: 

Ég gæti eignast þriðja barnið! Já, heilt ár er feikinógur tími til að búa til barn! Ég til hins vegar ólíklegt að til þess komi þetta árið ... nema helst ef loksins yrði fundin upp leið til að búa til börn með on/off takka á bakinu sem hægt er að slökkva á og setja inn í skáp þegar maður nennir ekki lengur að eiga þau (mamma segir að þetta sé í hnotskurn það að vera amma ... og það er því miður útilokað að sú staða standi mér til boða á árinu 2005!).

Ég gæti orðið fræg! Mig langar það svo sem ekkert sérstaklega en þar sem það tekur suma ekki nema örfáar mínútur að öðlast heimsfræg finnst mér vel við hæfi að skrásetja þetta sem einn möguleika á því sem geti gerst á árinu 2005. Hér sé ég fyrir mér ýmsar leiðir ef þorstinn eftir mínum fimm mínútum grípur mig. Ég gæti til dæmis farið þá leið að gera einhverja athyglisverða tilraun. Mig hefur t.d. alltaf langað að vita hversu langt lyktin myndi finnast ef maður myndi þekja alla auða bletti á landinu með reykelsum! Alveg er ég viss um að ég myndi komast í alla fjölmiðla með því, kannski kæmist ég m.a.s. í fangelsi fyrir að troða reykelsum niður á einkalóðum fólks og spilla hálendinu með jarðraski? Annars grunar mig að þetta yrði of tímafrekt verkefni til að ná því á árinu ... ég verð því að upphugsa fleiri leiðir til frægðar!

Ég gæti fengið einhver verðlaun! Mig langar auðvitað mest í Nóbelsverðlaun fyrir bókmenntir en ég er ansi hrædd um að ég þurfi að hafa dálítið hraðar hendur við það, skrifa góða bók, fá útgefna og þýdda ... þetta gæti orðið erfitt. Sérstaklega þar sem mér dettur ekkert í hug að skrifa um ... hvernig líst ykkur á sögu um lítinn hund? Kannski ekki líklegt til að verða verðalaunabók? Ég þarf aðeins að liggja á þessu ... allar hugmyndir vel þegnar! Ég sé hins vegar í hendi mér að ég geti auðveldlega fengið Nóbelsverðlaun fyrir störf í þágu læknavísinda. Miðað við öll skiptin sem ég hef hangið ein hér heima, hugsað um börn og bú, frestað því að skrifa ritgerðir eða gera aðra merkilega hluti á meðan Einar snýtir veikum krökkum annars staðar í bænum eða potar í rassinn á gömlum körlum, þá finnst mér ég svo sannarlega eiga verðlaun skilin! Hvar væri heimurinn ef ég hefði staðið fyrir dyrum þegar Einar ætlaði á vaktir? Nú ef ég set markið of hátt með Nóbelnum þá ætti ég að eiga góðan séns í eins og eina Fálkaorðu, þær eru ekki afhentar fyrr en í lok árs þannig að ég hef u.þ.b. 11 og hálfan mánuð til að sanna að ég eigi eina slíka inni.

Ég gæti orðið milljónamæringur! Í raun mjög miklar líkur á því miðað við framboðið á lottóum, skafmiðum og gullpottum! Kannski kemst upp að ég er einkaerfingi brjálæðislega ríks en bráðum dauðs athafnamanns á Portúgal ... kannski finn ég ferðatösku fulla af peningaseðlum á gangi meðfram Ægissíðunni ... kannski fatta ég loks hvernig á að fremja hið fullkomna bankarán?

Þetta eru aðeins nokkrir af fjölmörgum möguleikum í stöðunni. Það getur allt gerst og maður skyldi aldrei segja aldrei. Hver veit nema að ári setji ég hér inn myndir af mér að taka á móti Fálkaorðunni í skóm úr ekta demöntum (af því ég hef efni á þeim) og með tveggja mánaða kríli á handleggnum?! Þangað til látum við okkur nægja myndir frá nýliðnun áramótafagnaði á Bakkastöðum og Sóleyjargötu. 

Enn og aftur óska ég ykkur gleðilegs árs og vona að það verði jafn viðburðaríkt hjá ykkur og mitt ár stefnir í að vera!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband     Gestabókin okkar