Janúardagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

28. janúar 2004

Shopping ... just do it!!!

Bolla með þessari stórkostlegu áletrun fékk ég frá Svanhildi í tilefni af skilum á Ævisöguritgerðinni minni fyrir jól. Á bollanum er einnig mynd af verulega smart dömu sem blikkar mig kankvís undir þessum fleygu orðum! Kaffidrykkja úr bollanum góða virðist hafa haft tilætluð áhrif og ég er ekki frá því að ég hafi tileinkað mér þessa lífsspeki undanfarna daga. Ég er búin að versla eins og ég eigi lífið að leysa og í gær bættust við buxur og samfellur á Huga, dásamleg angórupeysa á mig, bolur til að vera í innan undir henni og ótrúlega fögur græn orkidea!!! (Við tölum ekkert um pilsið, buxurnar, vetrarskóna og hvítu orkideuna sem ég keypti fyrir skemmstu!!!) Ég lít þó svo á að það þurfi alltaf að vera tilefni af öllum slíkum kaupum og að þau falli annað hvort í flokkinn „sárabætur“ eða „verðlaun“! Kaupin í gær voru í verðlaunaflokknum! Það kom nefninlega loksins einkunn fyrir Ævisögukúrsinn (sem svo skemmtilega var einmitt tilefni af Shopping ... just do it bollanum). Ég fékk 9, hæstu einkunnina sem gefin var!!! Deili henni reyndar með öðrum nemanda svo allt komi skýrt og rétt fram. Ég er búin að vera alveg í skýjunum yfir þessu, ekki síst þar sem ég lagði blóð, svita og tár í þessa ritgerð. Raunar lagði ég líka í hana spurninguna um hvort ég ætti framtíð fyrir mér innan fagsins, innan bókmenntafræðinnar. Því þrátt fyrir að ég hafi reynt allt hvað ég gat til að líta ekki allt of hátíðlega á þetta fyrsta masters-námskeið mitt þá verð ég að játa að ég leit svolítið á það sem mitt „ make or brake“, annað hvort sæi ég á því að ég væri búin að finna mér rétta hillu í lífinu nú eða þá að ég myndi snúa mér að einhverju allt öðru. Ég get ekki litið á þessa einkunn öðruvísi en svo að ég eigi að þessi hilla sé einmitt góður staður fyrir mig og mun því húka þar áfram ... um sinn að minnsta kosti! Reyndar verð ég að játa að ég var ekki búin að komast að þessu um einkunnina þegar farið var í verslunarferðina ... en ásetningur getur komið eftir á ... er það ekki?!? 

 

26. janúar 2004

Öll loforð um að ritgerð verði skilað inn í dag hafa verið felldar úr gildi!!! Eftir tvö stutt símtöl, annað við starfsmann heimspekideildar og hitt við kennarann minn, áttaði ég mig á að það lægi ekki lífið á og að sjálfsögðu ákvað ég því að nota tækifærið til að drolla svolítið lengur með þetta! Spái svo að stressið hellist yfir mig síðar í vikunni og ég eigi eftir að reyta hár mitt yfir þessum seinagangi sem stofnar langþráðri útskrift í hættu! En það er víst best að vera ekki að hafa áhyggjur af því strax!!!

María var heima í dag vegna raddleysis. Reyndar erum við foreldrarnir komnir á þá skoðun eftir daginn að raddleysið hafi ekki stafað af meintum veikindum heldur einfaldlega af því að stúlkan unga talar í svona 20 tíma á sólarhring!!! Að öllu óbreyttu fer hún því aftur á Drafnarborg á morgun og þar taka önnur eyru við upplýsingaflóðinu sem streymir út um munninn smáa ... foreldraeyrun fá þá dulitla og langþráða hvíld!!!

Að lokum ein blómamynd til að létta okkur lífið í skammdeginu:

og ein mynd af litla Bárugötuherranum:

Ég vona svo að vikan verði skemmtileg hjá okkur öllum. Eftir viku verður kominn febrúar og þá fara hjólin að snúast ... tónleikar, afmælið mitt, útskriftin mín ... endalaus gleði!!!

 

25. janúar 2004

Það gengur svo hægt með þessa ritgerð að þið trúið því ekki! Ég bara kem mér ekki í rétta stuðið heldur horfi bara á skjalið í tölvunni og einbeiti mér af fullum krafti að því hve leiðinlegt þetta sé og hvað ég nenni þess lítið!!! Verst að ég var búin að ákveða að skila ritgerðinni á morgun og tilkynna kennaranum það hátíðlega. Veit nú ekki alveg hvernig það fer þar sem ég er enn á blaðsíðu þrjú!!! 

Til marks um það hvað mér þykir nauðsynlegt að gera nákvæmlega allt annað en að skrifa um Maður uppi á þaki þá smellti ég inn nokkrum myndum af systkinunum sætu sem þið getið skoðað með því að smella á myndina hér fyrir neðan! 

En best að halda sig við efnið ... úff, púff ...

 

24. janúar 2004

Gleði, gleði, gleði ....

Ég er búin að vera í alveg óstjórnlega góðu skapi í gær og í dag! Veit ekki alveg hvað veldur en grunar helst að þetta undarlega vorveður sem ríkt hefur síðustu daga eigi einhvern hlut að máli. Þó ég elski snjóinn og finnist alveg frábær stemmning að kúra sig heima í blindbyl og kveikja á litlum lömpum og kertum í myrkrinu þá hlakka ég óstjórnlega til að sjá fyrstu krókusana kíkja upp úr moldinni og finna gróðurangan í loftinu. Ég þarf nú sennilega að bíða aðeins eftir því samt!!! 

Þetta góða skap mitt hefur hins vegar valdið því að mér gengur herfilega illa að einbeita mér að ritgerðinni. Það er skömm frá því að segja en ég er enn á fyrstu blaðsíðu!!! Mig langar bara svo óskaplega að gera eitthvað skemmtilegt svona í takt við góða skapið. Hef mun meiri áhuga á að spóka mig í bænum, kíkja í blómabúðir og heimsækja skemmtilegt fólk heldur en að húka yfir þjóðfélagsgagrýni og blóðugum morðum. Það er því viðbúið að góða skapið snúist einhvern tíman á næstu sólarhringum og breytist í geysilega angist og kvíða yfir allri vinnunni sem eftir er og skilafrestinum sem nálgast óðfluga!

Eitt af því sem ég hef mun meiri áhuga á að gera en að húka yfir ritgerðinni er að skipuleggja nýja og vorlegri heimasíðu. Ég er alveg gjörsamlega búin að fá nóg af öllum snjónum, kuldanum og frostinu sem hér ríkir og heiti ykkur frísklegri síðu á næstu dögum, uppfullri af blómum, stjörnum og glaðlegum doppum!!! Ohhh ... hvað ég hlakka til!!!

 

22. janúar 2004

Í gær þegar ég var að rölta í skólann fannst mér eins og vorið væri komið. Kannski misskilningur hjá mér enda á víst að frysta aftur um helgina!!! En í tilefni af þessari vorkomu í hjarta mínu set ég þó inn þessa indælu og vorlegu mynd sem ég tók fyrr í dag:

Ég hef oft rætt um áhuga minn á blómamyndum og mun því ekki fjölyrða frekar um hann hér en þetta er sem sagt hluti af dásamlega fögrum túlípanavendi sem ég keypti mér fyrr í vikunni.

En úr draumkenndum heimi vorsins yfir í ískaldan og stingandi raunveruleikann!!! Ég er byrjuð á ritgerðinni skelfilegu. Svarta ritgerðarkúlan var löngu farin að veltast um í maga mér og því algjörlega tímabært að byrja skrifin til að aflétta því ástandi. Ég er reyndar ekki búin að skrifa nema tæplega eina blaðsíðu en trúi statt og stöðugt á máltækið um að hálfnað sé verk þá hafið sé! Það verður gott þegar þetta er búið og enn betra þegar ég verð loksins útskrifaður bókmenntafræðingur. Það er satt að segja svolítið undarleg staða að vera á annarri önn í mastersnámi en hafa ekki enn lokið B.A.-gráðunni né fengið einkunn fyrir fyrsta masterskúrsinn. Á meðan ástandið er þannig veit ég hreinlega ekki hvort það eru nokkrar forsendur fyrir veru minni í skólanum!!! En þetta stendur sem sagt allt til bóta, ritgerðin „hálfnuð“ og einkunnin hlýtur að fara að skila sér hvað á hverju. 

Svona í lokin verð ég líka að fá að skella inn fleiri myndum. Þannig er nefninlega mál með vexti að Þjóðleikhúsið stendur fyrir myndasamkeppni í tengslum við sýninguna á Dýrunum í Hálsaskógi. Eins og alþjóð veit nú orðið þá fórum við fjölskyldan á það mikla verk fyrir skemmstu og að sjálfsögðu tók heimasætan áskorun um þátttöku í keppninni. Hér er hennar framlag:

  

Vinstri myndin er af Patta broddgelti en sú hægra megin af sjálfum Mikka Ref ... eins og allir geta séð!!! Ég er ákaflega stolt af þessari listsköpun dóttur minnar og er farin að eiga í mesta basli með að sætta mig við að senda þær út af heimilinu! En hvað gerir maður ekki í þágu listarinnar?!

 

21. janúar 2004

Fræðilegar flækjur!

Það er miðvikudagsmorgun, niðamyrkur úti og algjör kyrrð í hverfinu mínu. Einar, María og Hugi eru farin til sinna starfa en Bjartur malar notalega í námunda við mig. Ég er fullkomlega búin að sannfæra sjálfa mig um að holan mín sé enn hlý og notaleg frá því ég fór fram úr í morgun og þar af leiðandi langar mig óstjórnlega að skríða upp í rúm aftur, draga sængina upp yfir eyru og loka augunum rétt sem snöggvast ...

... en í staðinn fyrir að láta það eftir mér sit ég við tölvuna og reyni að berjast í gegnum stuttan, fræðilegan og óskiljanlegan texta um Bakhtin og samtíma gagnrýni. Síðar í dag mun ég nefninlega bera ábyrgð á því að samnemendur mínir öðlist töluverðan skilning á málinu og því puða ég áfram þó rúmið sé freistandi. Textinn er alveg óstjórnlega tyrfinn og þrátt fyrir að af og til örli á skilningi þá fennir hann í kaf jafnóðum!!! Fyrir vikið flokkast vinna mín þessa stundina fyrst og fremst við skelfilega lélegar þýðingar frekar en að ég sé að útskýra nokkuð. Smá dæmi getur sýnt fram á hvað ég meina: 

Gegn textatengslum teflir Bakhtin hugtakinu heteroglossia en samkvæmt því er fagurfræðilega framsagan alltaf til staðar í heiminum og á eigin hátt hefur hún samskipti við þau félagslegu tungumál sem tilheyra henni ...

Sjálf hef ég ekki grænan grun um hvað þetta þýðir og þá er sennilega borin von að mér takist á útskýra þetta fyrir öðrum nemendum á námskeiðinu. Ég þakka því bara fyrir að kennarinn verður á svæðinu og getur vonandi aðstoðað mig eitthvað við þetta!!! Í bili get ég lítið gert annað en að halda áfram að snara óskiljanlegum enskum orðum og setnignum yfir á óskiljanlega íslensku ... og jú, fengið mér einn kaffibolla enn!!!

 

19. janúar 2004

Ný vika, ný markmið ... nei, djók!!!! Þetta er nú orðin svolítið þreytt!!! Samt ætla ég raunar enn á ný að gera þessa fyrirætlan að minni því ég er u.þ.b. að leggja af stað út úr húsi og ætla að halda til ömmu hvar ég hyggst læra af kappi í allan dag. Ég veit að þetta hlýtur samt að vera farið að hljóma eins og „Úlfur, úlfur“!!! Ég hef reyndar verið öll af vilja gerð til að standa við nýju markmiðin mín en þessi nýja vinna hans Einars setur hins vegar svolítið strik í reikninginn hér á heimilinu. Hann er í dag að vinna 15. daginn í röð án þess að hafa fengið nokkuð frí og heimilið ber þess augljós merki sem og lærdómur minn. Heimilið er í rúst svo ekki sé meira sagt og ég á eftir að lesa upp námsefni síðustu tveggja vikna, lesa fyrir þessa viku og skrifa eitt stykki ritgerð. Þar sem börnin hafa skipst á pestum að undanförnu hef ég lítið getað nýtt mér daginn og svo hefur Einar reglulega verið að vinna fram á kvöld sem og undanfarnar helgar. En komandi vika á að vera skapleg hvað vaktir varðar, börnin nýbúin að vera veik og leggjast vonandi ekki strax aftur svo ég lít á það sem svo að minn tími sé kominn!!!

Í tengslum við sumartilhlökkunina hef ég verið að ígrunda að gera mikilvægar útlitsbreytingar á síðunni. Já, þegar maður getur ekki beðið eftir að sumarið komi er ómögulegt að vera með allt uppfullt af snjó og frosti á síðunni, jafnvel þó það rími mun betur verið raunveruleikann en blóm og fiðrildi. Ég stefni því á að taka til hér á heimasvæðinu innan skamms ... mun reyndar láta Bárugötuheimilið ganga fyrir þar sem mylsnan á gólfinu hér gæti sennilega dugað í eina sex kexpakka!!! 

En það er víst best að drolla ekki mikið lengur hér heima heldur arka út í snjóinn og halda niður á Sóló. Reyndar er eitt sem vekur mér kvíða og hefur valdið mér töluverðu hugarangri á öllum þessum göngum mínum til ömmu. Ég geng yfirleitt niður Túngötuna og neðst við hana standa nú yfir gríðarlegar byggingarframkvæmdir. Á lóðinni eru a.m.k. tveir risastórir byggingarkranar sem gnæfa yfir allt nágrennið. Einari finnast þessir kranar alveg rosalega flottir og það finnst syni okkar raunar líka!!! En ég er hins vegar skelfingu lostin í hvert skipti sem ég geng þarna fram hjá ... finnst einhvern veginn töluvert líklegt að þeir sporðreisist og detti ofan á mig! Ég get t.d. ekki betur séð en að byggingamennirnir treysti bara á að vogaraflið haldi krönunum á sínum stað með því að hlaða þarna ofan á einhverjum hellum!!! Þetta finnst mér afar ótraustvekjandi svo ekki sé meira sagt. Og vigta þeir þá allt sem þeir festa á krókinn hinum megin svona til að ganga úr skugga um að það sé örugglega ekki þyngra en hellurnar sem þeir eru búnir að hlaða á þann enda sem á að vera fastur við jörðina???!!! Er alveg öruggt að kranarnir haldist á sínum stað??? Ætti ég að skipta um gönguleið þegar ég þarf að fara til ömmu??? Ég þarfnast öruggra svara við þessum spurningum mínum!!! Ég veit að einhverjir verkfræðingar (og verkfræðingsfrúr!) skoða síðuna ... þið getið kannski aðstoðað mig?!! Anyone??!!

 

16. janúar 2004

Hvenær er eiginlega tímabært að fara að hlakka til sumarsins?!

Yfirleitt er ég bara frekar ánægð með þann árstíma sem ríkir hverju sinni, finnst gaman í lok sumars þegar haustið nálgast, finnst alltaf jafnskemmtilegt þegar fyrsti snjórinn kemur o.s.frv. En af einhverjum ástæðum er ég farin að hlakka svolítið til sumarsins, þó það sé fullkomlega ótímabært. Kannski er ástæðan sú að veður og færð hafa ekki verið með allra skemmtilegasta móti undanfarið? Nú eða þá að skarlatsóttin sem börnin mín hafa smitað hvort annað af undanfarið hafi breytt sýn minni á tilveruna, enda getur verið ótrúlega fúlt að hanga inni svo dögum skiptir og geta ekkert gert af viti? Hmmmm ... En kannski er ástæðan sú að næsta sumar mun byrja alveg einstaklega vel!!! Um miðjan júní mun ég leggja í Frakklandsreisu! Já, ásamt yndislegum kórfélögum mínum ætla ég að dvelja á herragarði utan við París í nokkra daga og eyða svo jafnlöngum tíma í sjálfri borg ástarinnar! Hver myndi ekki hlakka til slíkrar skemmtunar!!! Þegar mér skrikar fótur á öldóttum klakastykkjum borgarinnar og ég vef kápunni enn fastar utan um mig um leið og  trefilinn er dreginn upp yfir eyru í vonlausri tilraun til að hrekja kuldabola í burtu ... þá minnist ég þeirrar tilfinningar að vakna upp á nýjum stað og horfa á morgunsólina skína miskunnarlaust á framandi landslag ... þá dreymir mig um berar tásur í sandölum sem skoppa eftir grónum götum franskra sveita ... þá sé ég fyrir mér ilmandi kaffibolla á skröltandi borði sem stendur á hellulagðri stétt í Montmartre hverfinu ... þá ímynda ég mér franskan súkkulaði croissant bráðna á tungunni meðan kinnar og berar axlir bakast létt í miðdegissólinni ... þá hugsa ég um hlátrasköll og söng rauðvínshreifra kórfélaga á fallegu sumarkvöldi í París ...  

Þá ... þá ... þá ...

 

12. janúar 2004

Ný vika, ný markmið ...

já, ég veit að ég segi þetta reglulega, en það er líka gott að minna sig á svona góða hluti!!! Í þessari viku ætla ég að vera dugleg að læra. Í dag dundaði ég mér við að lesa svolítið um Bakhtin, var reyndar ekkert voðalega dugleg enda er ég nú bara rétt að hita mig upp fyrir þessa mögnuðu lestrarsyrpu sem vorönnin verður! Undir kvöld kom ég svo við á hinni dásamlegu Háskólafjölritun og beið þar í dágóða (lesist: viðbjóðslega langa og leiðinlega) stund eftir að geta keypt hefti fyrir Sjálfssögurnar. Það er tími í þeim í fyrramálið og ég er því aðeins að reyna að kynna mér það efni sem er á kennsluáætlun. Í þessum töluðu orðum er ég að reyna að átta mig á hugtakinu mise en abyme ... læt ykkur kannski vita þegar ég er búin að fatta um hvað málið snýst!!! 

Við á Bárugötunni fórum í fyrstu fjölskylduleikhúsferðina í gær! Við skunduðum í Þjóðleikhúsið hvar við sáum þá félaga Mikka Ref og Lilla Klifurmús fara á kostum í einu stærsta verki leikbókmenntanna, Dýrunum í Hálsaskógi! Við áttum nú allt eins von á því að Hugi myndi þverneita svona leikhúsvitleysu en viti menn, hann sat stilltur og prúður allan tímann og fylgdist dolfallinn með því sem fram fór á sviðinu. María er náttúrulega vön leikhúskona enda búin að fara tvisvar í leikhús með ömmu sinni. Hún veit því upp á hár hvernig á að haga sér í svona stofnunum, söng með lögunum og hrópaði leiðbeiningar til persónanna á sviðinu. Allt eins og það á að vera þegar maður er tæplega fjögurra ára í leikhúsi! Ég ætti kannski að prófa þessa tækni og syngja hástöfum með All that jazz þegar ég fer á Chicago!!!! Það er annars eins gott að María hagi sér almennilega í leikhúsinu því hún ætlar nefninlega að vera leikkona. Ó, já! Hún ætlaði reyndar að verða ballerína þar til nýlega. Ég fann nefninlega mynd af nokkrum íðilfögrum og langleggjuðum kanadískum ballettmeyjum um daginn þar sem þær teygja og sveigja skankana í allar áttir með táskóna á fótum sér. Þessa mynd sýndi ég Maríu sem horfði þegjandi á hana dálitla stund en sagði svo: „Kannski ætla ég bara að verða leikkona“!!! 

Áfram með smjörið ... áfram með myse en abyme ...

 

9. janúar 2004

Veikindi og aftur veikindi!

Já, Hugi er enn veikur, ekki í fyrsta sinn og alveg örugglega ekki í það síðasta! Reyndar hafa undanfarnir mánuðir verið algjör hátíð hvað pestir varðar miðað við t.d. síðasta vor þegar telja mátti dagana sem bæði börnin voru frísk á fingrum annarrar handar! Alveg er líka týpískt að veikindin komi akkúrat þegar Einar er að fara á næturvaktatörn. Alveg ótrúlegt hvað ein lítil pest getur sett mikið úr skorðum þegar ég þarf að hugsa um börnin ein alla nóttina og í raun allan daginn þar á eftir! Veikindin koma þó vonandi ekki í veg fyrir að fjölskyldan komist á sýningu á Dýrunum í Hálsaskógi n.k. sunnudag ... enda búið að bíða lengi eftir þeim viðburði! Við erum reyndar alls ekki viss um að Hugi þoli við á svona æsispennandi hasarleikriti og því væri sjálfsagt saklaust af hans hálfu að fyrsta leikhúsferðin frestaðist örlítið!!! En við hin stefnum ótrauð að því að mæta þeim Mikka og Lilla af fullum krafti!

Eitthvað hefur lítið gerst í lærdómnum hjá mér þó ég hafi hlakkað þessi ósköp til að byrja. Veit ekki alveg hvað ég er að láta stoppa mig ... kannski helst einhver vandræðagangur þar sem ég veit ekki alveg á hverju ég ætti helst að byrja. Ætli það sé þó ekki skynsamlegast að reyna að rífa þessa ritgerð í gang enda er ég, í annað sinn (!), búin að staðfesta við Skrifstofu Heimspekideildar að ég hyggist útskrifast á komandi brautskráningardegi!!! Vona svo sannarlega að af því geti orðið í þetta sinn. Ég set þó enn meiri fyrirvara við það en nokkru sinni fyrr ... fyrst svo fór sem fór síðast þá er greinilega ekker örugt í þessum málum og fæst orð hafa sem minnsta ábyrgð!

 

8. janúar 2004

Skólinn byrjaður enn á ný!

Nú er ég búin að mæta í tíma í báðum kúrsunum sem ég ætla að sitja á vorönninni. Líst frámunalega vel á þá báða!!! Einhvern veginn finnst mér ég alveg eiga það skilið því síðasta önn fór eitthvað svo illa af stað. Þá mætti ég í fyrstu tímana í kúrsunum mínum og kom út með tárin í augunum og hnút í maganum. Í dag er ég hins vegar bara búin að vera í sæluvímu ... hlakka mikið til að komast í gang og fara að lesa og svona. Og í þetta skiptið hef ég lesið alveg slatta af námsefninu áður. Í fyrra fékk ég nefninlega stundum alveg meira en nóg af því hvað allir aðrir höfðu lesið mikið og þekktu eitthvað voðalega vel hina og þessa höfundana og fræðimennina! Ég var alltaf að reyna að hughreysta sjálfa mig með því að það væri örugglega eitthvað annað sem ég hefði lesið og kannski ekki hinir. Og í dag sá ég að það er bara alveg rétt ... ég hef lesið þrjár skáldsögur og eina smásögu sem á að lesa á námskeiðinu Sjálfssögur. Ekki það að ég þarf nú sjálfsagt að renna yfir þær aftur en það ýtti svona aðeins undir sjálfsálitið að hafa lesið eitthvað sem enginn annar þekkti! Ég hef svo sem ekki lesið mikið um eða eftir Bakhtin sem hitt námskeiðið mitt snýst einmitt um en þekki töluvert til hans og hlakka mikið til að kíkja betur á hans hugmyndir! Já þetta lofar góðu og ég vona að framhaldið verði jafnáhugavert!

Einar er svo að fara á næturvakt innan skamms ... úff, ég hlakka nú ekkert voðalega til þeirra. Sérstaklega ekki þar sem Hugi litli er orðinn fárveikur! Aumingja skinnið, hann er kominn með háan hita og búinn að vera voðalega lítill í sér í kvöld, vill bara fá að kúra sig í fangi okkar foreldranna. Mikið er ég samt fegin að hann var enn frískur í gær, á afmælisdeginum. Já, þið haldið örugglega að ég sé alveg rugluð að vera svona æst yfir afmælisdegi sonar míns því hér kemur enn ein myndasyrpan tengd honum! En nú er afmælisfárið búið og verður ekki endurtekið í bráð ... eða alla vega ekki fyrr en í apríl þegar Maria veðrur 4ra ára! Já og kannski eftir um mánuð þegar ég verð 28 ára!!!

 

7. janúar 2004

Hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag, hann á afmæli hann Hugi, hann á afmæli í dag!!!

Afmælisdagar barnanna manns eru dagar minninga, í það minnsta fyrir mig! Þá daga lætur maður hugann reika aftur til þeirrar stundar þegar þau fæddust og maður fékk þau, svo agnarsmá, í fangið í fyrsta sinn. Minningarbrotin þyrlast upp og ég man sko alveg upp á hár hvað ég var að gera fyrir nákvæmlega tveimur árum síðan:

Ég man að það var einmitt klukkan rétt rúmlega níu að morgni sem það rann upp fyrir mér ljós að ég væri um það bil að fara að láta skera á mig gat og að út um það yrði þetta litla kríli sem ég var búin að hafa innanborðs s.l. níu mánuði fiskað! 

Ég man að ég var löngu komin á spítalann, komin í sjúkrahúsdressið, upp í rúm og hafði verið að lesa gömul Séð og heyrt, eins pollróleg og hugsast gat. Já allt var í stökustu rólegheitum þar til ég heyrði kröftugan grát í nýbura frammi á gangi og vissi að fyrra keisarabarnið þennan daginn væri fætt sem gæti aðeins þýtt að ég væri næst í röðinni! 

Og ég man að allt í einu var ég ekki pollróleg lengur heldur alveg skíthrædd, rennsveitt í lófunum og örugglega kríthvít í framan! Ég held að ég hafi aldrei verið jafnhrædd á ævi minni enda er góð ástæða fyrir því að fólki er gefin róandi sprauta fyrir allar skurðaðgerðir ... nema keisaraskurð! 

Ég man að skömmu seinna var mér rúllað í sjúkrarúminu upp á næstu hæð, inn á skurðstofu og ballið byrjaði! Já, mikið skelfingar ósköp er nú skrítið að láta rista sig á hol án þess að finna nokkuð fyrir því! Ógn og skelfing!!!

Ég man raunar ekki svo mikið eftir þessu öllu enda var ég viti mínu fjær af hræðslu!!!

Ég man rödd úr fjarska sem sagði: „Nú er ég að byrja að opna inn í legið“ og allt í einu var ég ekkert svo óttaslegin lengur.

Ég man eftir að hafa heyrt vatnsgusu og ég man þegar Einar hvíslaði að mér: „Þetta er strákur“! 

Ég man þegar ég sá hann í fyrsta sinn þegar læknirinn lyfti honum öskureiðum yfir tjaldið sem skildi á milli okkar!

Ég man þegar ég fékk hann í fangið, vafinn inn í teppi og litla höndin hans greip um vísifingurinn minn og hélt fast.

Eftir að ég eignaðist börnin mín finnast mér afmælisdagar vera fyrst og fremst dagar mömmunnar! Satt best að segja botna ég ekkert í því hvers vegna það eru ekki þær sem fá gjafirnar á þessum merkisdegi!!! Af einhverjum ástæðum er það þó ekki þannig og því var það Hugi Einarsson sem opnaði pakkana í morgun hér á þessum bæ! Mamman gerði lítið annað en að laga kakó og ylja sér við það og minningarnar fram eftir morgni! Já, maður verður að fá að vera svolítið væminn!!! Enda tók ég mig til og smellti inn nokkrum myndum af piltinum nýfæddum sem og frá afmælismorgninum! En dagurinn er bara rétt að byrja, ég held að ég hendist niður aftur, lagi mér gott kaffi og skoði gömlu myndaalbúmin a.m.k. einu sinni í gegn áður en ég mæti í skólann í fyrsta skipti á þessari önn!

 

6. janúar 2004

Óendanleg eru leiðindin við að taka niður jólaskrautið ... ágætt að taka sér smá pásu til að uppfæra!

Annars hef ég átt alveg frábæran dag. Bauð Svanhildi á kaffihús í hádeginu og heimtaði að borga, harðbannaði henni m.a.s. að bjóða mér upp á kaffi ... þangað til ég uppgötvaði að ég hafði gleymt veskinu heima!!! Svolítið neyðarlegt, eins gott að við þekkjumst vel því eins og Svanhildur benti á þá hefði þetta nú kannski komið illa út ef ég hefði verið að reyna að koma á viðskiptasamningi milli okkar eða eitthvað álíka! En ég býð þá bara enn betur næst, já ég þarf bara að bjóða töluvert vel því við höfum nefninlega líka fengið stöðumælasekt í næstum hvert einasta skipti sem við höfum farið saman í bæinn að undanförnu og Svanhildur borgað þær allar! Úff, mér er farið að sýnast á öllu að ég þurfi bara að bjóða henni til Kýpur svona til að rétta minn hlut!!!

Einar er á svokallaðri g-vakt í dag. Veit ekki hvað g-ið stendur fyrir en veit þó að það þýðir að hann er í vinnunni frá 8 til 19. Reyndar er ég farin að þekkja minn mann vel og þetta blessaða spítalalíf og spái því að hann verði ekki kominn heim fyrr en rétt upp úr átta ... í fyrsta lagi!!! Einar lifir hins vegar enn í þeirri blekkingu að á slaginu klukkan sjö muni hann henda af sér sloppnum, leggja frá sér stuðtækin og skilja skjólstæðingana eftir í hjartastoppi!!!

Á morgun verður gleði, gleði, gleði ... afmælisdagur Huga og fyrsti skóladagur hjá mér! Tjah, það síðarnefnda er nú kannski aðeins málum blandið. Vissulega er alltaf skemmtilegt að byrja nýja önn en þetta er bara svolítið farið að renna allt saman hjá mér. Fyrir ári síðan byrjaði ég aftur í skólanum eftir langt hlé, sú önn rann svo saman við vinnuna við B.A.-ritgerðina í sumar sem rann svo aftur saman við haustönnina sem rann saman við vinnuna við þessa fj****** Morðsöguritgerð sem bersýnilega er að fara að renna saman við þessa vorönn!!! Auðvitað ekki búið að læra á hverjum einasta degi í heilt ár en alveg tvímælalaust hefði ég átt að vera að læra alla þessa 365 daga og stemmningin eftir því! Það er sko alveg á hreinu að ég ætla ekki að vera í skólanum í sumar!!!

 

5. janúar 2004

Komið nýtt ár og meira að segja fyrir löngu síðan!!! 

Fimm dagar án þess að nokkuð hafi verið skrifað í þessa dagbók og ég veit varla hvar ég á að byrja! Púff! Jú eftir notaleg áramót (myndir!) hefur alvara lífsins tekið við á ný. Einar er byrjaður í nýrri vinnu, los krílos komin aftur á leikskólann og ég er enn og aftur og í milljónasta sinn byrjuð á nýrri ritgerð!!! Nei, þetta tekur engan enda!!! Nú er það sú sem ég þarf að skrifa til að geta útskrifast, tveggja og hálfrar einingar ritgerð um sænska krimmann Maður uppi á þaki! Það hefur nú ekki gengið neitt svaka vel en ég hef þó ekki mjög miklar áhyggjur enda er ég búin að taka munnlegt próf upp úr efninu og mun gera lítið annað en að skrifa þau svör mín út og dulbúa sem ritgerð! Já, markið er ekki sett neitt svakalega hátt. Það eina sem flækir málið er að skólinn byrjar eftir tvo daga og þá þyrfti ég eiginlega að byrja að læra af fullu kappi fyrir námskeiðið Sjálfsögur og svo eitthvað eitt annað námskeið sem ég á alveg eftir að ákveða hvert verður!!!

Já og eftir tvo daga á hann Hugi minn líka afmæli! Hann verður tveggja ára þótt ótrúlegt kunni að þykja! Við fórum, stoltir foreldrarnir, í dag og keyptum handa honum afmælisgjafir. Aumingja skinnið að vera fæddur svona skömmu eftir þetta mikla eyðsufyllerí þar sem það mun aldrei nokkur geta hugsað sér að eyða miklu í afmælisgjafir handa honum! Í það minnsta fórum við foreldrarnir praktísku leiðina og keyptum góða úlpu (sem við hefðum örugglega keypt hvað sem öllum afmælum líður) og smá dót með! Við stefnum svo að því að halda upp á afmælið seinna í mánuðinum. Nú verður maður víst að fara að venjast þeirri tilhugsun aftur að heimilisfaðirinn sé ekki laus öll kvöld og allar helgar. Ég var nefninlega hálfpartinn farin að bjóða í barnaafmæli næstu helgi þar til kom í ljós að einmitt þá er Einar á næturvöktum og því tæplega í nokkru standi til að baka bollur og laga kaffi í stórum stíl á daginn! En hann mun vonandi taka á móti ykkur í góðu stuði ef svo illa vildi til að þið fótbrytuð ykkur aðfaranótt föstudags, laugardags eða sunnudags!!!

Það er svo ef til vill það fréttnæmasta héðan af Bárugötunni að við hjónaleysin skelltum okkur í bíó í gær! Hún Silja sem hefur búið á Bakkastöðum undanfarna mánuði átti afmæli en var auk þess að kveðja okkur þar sem hún hélt aftur til Finnlands í dag. Hún og foreldarar hennar buði sem sagt til veislu á Mímisbar og svo var öllum gestum boðið á Kaldaljós! Kannski svona fullorðinsútgáfa af McDonalds afmælum og vídeóspólu!!! En myndin var alveg frábær fannst okkur og ég hvet ykkur öll til að sjá hana! Og svona út af fyrir sig var voða gaman að fara í bíó aftur eftir lahahahahangt hlé!!! Við fórum nefninlega síðast á Birdget Jones's Diary!!!!!! Já, ég veit þetta er mjög skammarlegt! Einhvern veginn hefur þetta bara orðið útundan eftir að heimilið stækkaði og maður fór að hrynja örþreyttur í rúmið klukkan tíu á kvöldin!!! Æ og svo er ég líka farin að gráta svo voðalega mikið í bíó að mér er farið að þykja þetta hálfvandræðalegt! Grenjaði m.a.s. fullt á umræddri Bridget Jones þó ég hefði fyrirfram staðið í þeirri trú að þetta væri gamanmynd! Orsakast kannski (og vonandi!!!) af því að ég var ólétt þá! En vonandi að þessi bíóferð hafi ýtt okkur aftur í gang! Stefnan er alla vega tekin á að sjá síðustu Lord of the Rings myndina í bíó og svo ætlum við Svanhildur að fara saman á Love Actually (Svanhildur ... þú hefur kannski gefist upp á að bíða eftir mér, bíófælunni, og ert búin að fara???!!!)! 

Kæru lesendur, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á því gamla!!!

 

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar