Janúar á Konsulentvägen

Við Konsulentar komum heim með margar troðfullar töskur eftir jólafrí á Íslandi og höfum verið í óða önn undanfarið við að koma öllu nýja dótinu okkar á sína staði. Eitt af því sem við fluttum með okkur frá föðurlandinu var málverkið sem sést hér yfir sófanum. Það er eftir Hall Karl Hinriksson og heitir Stóri Dímon í rökkri. Við keyptum það í haust án þess að hafa séð það (sem sagt bara séð mynd af því) en höfðum ekki tök á að flytja það hingað út til okkar fyrr en eftir jólafríið. Við erum himinsæl með myndina og finnst mikil prýði að henni í stofunni.

Það er líka óskaplega gott að hafa íslensku fjöllin stöðugt fyrir augunum hérna í útlegðinni!

Í byrjun janúar kom smá frost og einn morguninn var hrímföl yfir öllu úti. María dreif sig út í „snjóinn“ að moka!

Sæta og stóra stelpan úti ... einmitt í úlpu sem hún fékk í jólagjöf frá okkur foreldrunum. Það gæti hugsast að jólagjafir yrðu eitt meginstefið á þessari myndasíðu!

Síðla hausts náðum við loksins að klára að gera barnaherbergin klár eftir mikla yfirhalningu. Ég vissi að Svanhildur biði spennt eftir myndum af þeim og dreif því í að smella af skömmu eftir að tekið hafði verið til hjá krökkunum, annars gætu hafa liðið margar vikur þangað til herbergin yrðu aftur myndhæf! Hér er sem sagt herbergið hennar Maríu. Það er frekar ílangt og mjótt og þetta er annar endinn.

Bókahillur við enda rúmsins. Ef vel er að gáð má sjá plastfilmu með hvítum krossi á milli bókaskápsins og gluggakarmsins. Þetta er gluggi sem María föndraði sjálf. Hún er algjörlega óstöðvandi í að föndra!

Kommóður undir dót og drasl. Zamiloo borgin nýtur sín vel þarna ofan á.

Og þetta er svo hinn endi herbergisins. Þar hefur skólastúlkan nú fengið smá skrifstofuaðstöðu! Ég leitaði og leitaði út um allt að skrifborði fyrir hana en fann ekkert sem mér líkaði fyrr en ég rakst á þetta í Rúmfatalagernum sænska. Það er kannski dálítið svona forstjóralegt fyrir sex ára en mjög fallegt engu að síður!

Ég veit að ég hef margoft lýst yfir mikilli andúð minni á veggfóðri hér á þessari síðu! Það kann því að virðast óskiljanlegt að ég hafi kosið að veggfóðra smávegis í báðum barnaherbergjunum. Ég komst hins vegar að því þegar ég fór á stúfana að það er til mikið af afskaplega fallegu veggfóðri hérna þótt ég virðist vera eina manneskjan sem þekki smaragðana úr meðal alls grjótsins! Hér er nærmynd af því sem prýðir báða endaveggina hjá Maríu. Þetta er eins konar gullborg og við skemmtum okkur stundum við að velja í hvaða húsi við myndum helst vilja búa. Við Einar og María höfum öll valið sama húsið (án þess að vita hvert af vali hins) en það má einmitt sjá í heild sinni neðst í vinstra horni myndarinnar.

Svona til samanburðar sýni ég ykkur þessa mynd sem tekin er af systkinunum í Maríuherbergi í október síðastliðnum áður en endurbætur hófust. Hverjum dettur svona hryllingur í hug?!? (Á myndinni eru þau að halda tónleika fyrir okkur foreldrana, það voru meira að segja útbúnir boðsmiðar, sætanúmer og margt fleira!)

Þá er það Huga herbergi. Þegar ég kom þangað inn sá ég hins vegar þessa ótrúlega krúttlegu uppstillingu þar sem búið er að leggja háhyrninginn á koddann og breiða yfir hann sængina. Ég mátti til með að byrja á að smella mynd af því áður en búið var um rúmið fyrir hina eiginlegu myndatöku!

Hugaherbergi er mun minna en Maríu og ekki svona ílangt. Það er dálítið erfitt að taka myndir af því svo vel sé vegna smæðarinnar. Hugi er hins vegar hæstánægður með það og nýtur þess í botn að vera í sérherbergi, finnst æðislegt að loka að sér og leika sér með dótið sitt í friði. María hefur tekið aðskilnaðinn meira nærri sér og saknar Huga óskaplega, sérstaklega á kvöldin!

Herramaðurinn á búninginakistunni sinni. Hugi er líka með kommóður eins og María (reyndar aðeins minni) og svo er hann með lítinn fataskáp þannig að það rúmast ansi vel inni í þessu litla herbergi.

Gólfplássið er fínt þrátt fyrir smæð herbergisins og nóg rými til að setja upp Briodótið sem hann fékk í jólagjöf frá mömmu og pabba.

Nærmynd af veggfóðrinu inni hjá Huga. Fyrrum íbúum til varnar skal tekið fram að ástandið í hans herbergi var mun skárra en í Maríu, bara ljósblátt veggfóður (reyndar með þessari hrikalega hallærislegu tuskuáferð ... æ, munið þið ekki þegar það var í tísku að mála alla veggi með tuskum eða svömpum eða einhverju svoleiðis?!).

Myndunum í stofunni fjölgaði dálítið eftir jóla- og afmælisvertíðina. Á skenknum er líka annað fjall sem fylgdi okkur frá Íslandi. Það er eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur og var jólagjöf frá mér til Einars.

Þegar þarna var komið sögu í öllum þessum innanhússmyndatökum datt mér í hug að það gæti verið sniðug hugmynd að taka nærmynd af myndunum yfir skenknum, hverri og einni, og segja sögu þeirra. Ég skil ekki alveg núna hvað ég var að pæla en þar sem það er mun meira vesen að taka þessar ljósmyndir aftur út af vefnum en að henda þeim hingað inn og skrifa um þær, fá þær að fljóta með. Þetta er sem sagt mynd eftir Hönnu vinkonu mína sem hún málaði og gaf mér árið 1996. Þetta er algjörlega ein af uppáhaldsmyndunum mínum í öllum heiminum og Hanna er auðvitað ein af uppáhaldsstelpunum mínum í öllum heiminum! Verst hvað myndatakan var misheppnuð ... mér tókst einhvern veginn að speglast sjálf í myndinni.

Þetta er eftirprentun af teikningu eftir Halldór Pétursson sem er gerð árið 1953. Maðurinn á myndinni er Lárus Ingólfsson leikari og leiktjaldamálari en frá honum hef ég Láru nafnið. Pabbi hefur frá því ég man eftir mér átt alveg eins mynd uppi á vegg hjá sér en honum áskotnaðist annað eintak fyrir nokkrum árum og gaf mér það þá í jólagjöf. Eins og allar hinar myndirnar er þessi í miklu uppáhaldi.

Þessa mynd gaf amma mér þegar hún heimsótti okkur síðastliðið haust. Myndina fékk ég í uppáhaldsbúðinni minni hér í Uppsölum sem selur notað og nýtt í bland. Myndin heitir Blåklockor og er hrikalega krúttleg! Ég er alltaf að vona að hún tilheyri einhverri seríu sem heiti eftir hinum ýmsu blómategundum og geri mér þær gyllivonir að rekast kannski einhvern tímann á hin blómin!!!

Die schönsten Tulpen frá árinu 1958 ætti að vera lesendum síðunnar að góðu kunn. Hmm, reyndar sannar hún ef til vill að myndatakan á myndunum var ekki aðeins framin í stundarbrjálæði heldur er þetta greinilega eitthvað sem mér finnst reglulega að muni vera sniðugt!

Þessa mynd keypti í Barcelona í fyrrasumar. Þetta er sem sagt útsaumur í pappír, hundgamalt, þótt þetta sé hins vegar áreiðanlega ekki jafngamalt og sölukonan á markaðnum reyndi að telja mér trú um (þá hlyti þetta bara að hafa kostað meira en nokkra þúsundkalla!!!). Ef mér skjöplast ekki er myndin af heilögum Antoniusi með Jesú Krist í fanginu. Í mínum augum er þetta ótrúlegur dýrgripur!

Að lokum er það svo nýjasta myndin í uppáhaldssafninu. Þessa fékk ég í jólagjöf frá Einari en hún kom reyndar lítið á óvart þar sem ég hafði sjálf fundið hana og séð til þess að hún væri keypt handa mér. Hún fékkst í sömu antiksölu og Die schönsten Tulpen og líkt og hún er þetta útklipptur svartur pappír á upprunalegu undirlagi. Eins og sjá má er myndin gerð 1917 og er því aldursforsetinn í hópnum fyrir utan spænska útsauminn sem allt er á huldu með!!!

 

Fyrir skemmstu var keypt andlitsmálning í búið hér á Konsulentvägen. María var búin að suða í mér í marga daga að mála sig í framan áður en ég lét tilleiðast. Hér er daman í kisugervi, ansi hress!

María er mesti safnari sem ég þekki!!! Um daginn þegar til stóð að þvo úlpuna hennar kom allt þetta dót upp úr tveimur litlum vösum!!! Þrír pennar, einn vaxlitur, sex stórir grjóthnullungar og ógrynni smásteina, könglar, handfang af skrúfjárni, hárspenna, sælgætisbréf, grenigrein, bandspotti, bréfmiðar og plastpoki ... ég bara skil ekki hvernig hún getur druslast um með þetta alla daga!!!

 

Huga finnst rosalega gaman að fá að elda mat með pabba sínum. Hér eru þeir feðgar að útbúa nammigóðar kjötbollur og Hugi kominn vel á veg með að rúlla „foringjakjötbollur“.

    

    

Nú er túlípanatíminn genginn í garð og mega lesendur því eiga von á túlípanamyndaflóði eins og vanalega!!! Þessir eru ógnarfallegir og kostuðu mig ekki nema sem samsvarar 340 krónum íslenskum!!!

Í síðustu viku veiktist Hugi í fyrsta sinn í ég veit ekki hvað langan tíma. Hann vaknaði aðfaranótt föstudagsins með 39° hita og var því heima hjá mömmu daginn eftir. Hann var reyndar ótrúlega hress miðað við hitatölur og lék sér eins og ekkert amaði að. Eftir skamma stund fannst móðurinni þó eins og fullhljótt væri í stóru-strákaherberginu og kíkti inn. Blasti þá þessi dásamlega sjón við henni.

Þó maður sé fimm ára þá er maður nú samt svolítið lítill þegar maður er lasinn!

Ekki alveg jafnfínt í herberginu og þegar myndatakan mikla var framkvæmd!!!

Einar kom færandi hendi heim úr vinnunni um daginn og gaf mér þessa fallegu sænsku túlípana. Ég elska túlípana sem leggjast svona í allar áttir og eru almennt dálítið frjálslegir!

Túlípanar eru uppáhaldsblómin mín ... en það vissuð þið nú sjálfsagt flest!!!

  

Það leið ekki á löngu þar til María þurfti ekki lengur á mömmu sinni að halda við andlitsmálninguna, hún var auðvitað fullfær um að gera þetta sjálf eins og næstum allt annað. Hér er hún búin að umbreyta sér í tígrisdýr ... ég hefði ekki gert þetta betur sjálf!!!

Við drifum loksins, núna í lok janúar í að skila beddunum sem við fengum lánað í sumar og sváfum á fyrstu næturnar eftir að við fluttum!!! Hér eru systkinin að borða laugardagsnammi og gera síðasta tékk á beddunum!

Einar og María skelltu sér svo til Gunnars Más og Ingu Sifjar með beddana og voru boðin í heljarinnar veislu í leiðinni. Þar sem Hugi var enn veikur stóðum við mæðginin hins vegar fyrir kósíkvöldi fyrir tvo heima á Konsulentvägen. Við byrjuðum á rómantískum kvöldverði og ræddum um sjóræningja meðan á borðhaldi stóð. Eftir það horfðum við á Harry Potter og leyniklefann á náttfötunum og borðuðum vínber.

Þann 21. janúar var allt komið á kaf í snjó ... loksins!!! Eftir nóttina prýddi 20-30 cm jafnfallinn snjór garðinn okkar, trén og allt nágrennið.

María skellti sér strax út að leika, moka og búa til snjóengla. Hugi varð enn sem áður að vera inni vegna veikinda. Það gerir þó ekkert til því spáð er frosti svo langt sem augað eygir og því nánast víst að enn verður snjóþotufæri þegar hann kemst á fætur.

Það sést jafnvel enn betur þegar horft er af pallinum hversu hvítt umhverfið er. Ó, svo fallegt!!!

Loksins kom snjórinn og þá er bara að byrja að hlakka til vorsins!!!