Ingudagar

Við vorum svo ótrúlega heppin að fá hana Ingu lánaða frá Hollandi í nokkra daga um síðustu mánaðarmót. Mér finnst stundum að það sé sérstaklega langt á milli mín og þeirra vina minna sem búa erlendis núna þegar Ísland er ekki lengur beinn tengiliður. Inga sýndi hins vegar og sannaði að það er  bara styttra ef eitthvað er!

Fimmtudagurinn 30. nóvember

Inga lenti hress og kát á Arlanda rétt eftir hádegið. Ég vann það mikla þrekvirki að fara ein að sækja hana út á völl, hef aldrei þorað að keyra þangað áður! Við brunuðum svo sem leið lá frá flugvellinum og beint á Barista, annað af uppáhaldskaffihúsunum mínum hér í Uppsölum. Það opnaði í haust og um leið var opnuð Design Torget búð við hliðina á en Design Torget búðirnar eru einmitt uppáhaldsbúðirnar mínar í allri Svíþjóð! Við stöllurnar létum líka hendur sópa þar eftir kaffið á Barista enda engin ástæða til að tefja jólagjafakaupin neitt frekar!

Við tvær höfum verið saman í Reykjavík, París, Den Haag, Amsterdam, London og nú Uppsölum og Stokkhólmi! Megi þessi borgarlisti lengjast og lengjast og lengjast!

Eftir að við höfðum drukkið nægju okkar af kaffi á Barista og straujað kortin á Design Torget héldum við í dómkirkjuna okkar góðu. Við vorum dálítið meyrar yrir því að vera aftur saman í svona stórri kirkju, ekki síst þegar einhver byrjaði að æfa jólalögin á orgelið! Okkur tókst þó að halda aftur af tárunum (í þetta skiptið!) enda nennir maður ekki að eyða tímanum í að gráta þegar maður er nýbúinn að hitta hjartkæra vinkonu sína í fyrsta sinn í marga mánuði!!!

Úr miðbænum var haldið heim á Konsulentvägen og börnin tínd upp á leiðinni. Þegar heim var komið brá Inga sér í hlutverk jólasveinsins, dró upp úr töskunni sinni dásamlegar gjafir handa fjölskyldumeðlimum og hélt Litlu jólin fyrir okkur. Dagatöl, Jip og Janneke stílabók og seglar, hreindýraservéttur, hvítvín, regnhlíf ...

... og hinn dásamlegi ostur Old Amsterdam sem ég komst í kynni við hjá Ásu og Narfa eftir síðustu kórárshátíð! Við Inga höfðum afskaplega gaman af þessum hressandi músaumbúðum utan um ostinn ... enda báðar séð fullmikið af þess konar nagdýrum að undanförnu!

María er alveg steinhissa á einhverju sem Inga er að segja henni, kannski einhverjar skemmtisögur af Björtu eða prakkarasögur af Ísleifi?!

Þar sem aðventan var um það bil að ganga í garð var kominn tími til að sía rifsberjalíkjörinn sem við hjónaleysin höfum verið að brugga í eldhúsinu að undanförnu eftir uppskrift Sverris! Inga aðstoðaði við verkið af miklum myndarskap. Að sjálfsögðu var svo haldin smökkun síðar um kvöldið!

Föstudagurinn 1. desember

Eftir að ég hafði farið með börnin í leikskóla og skóla og dundað mér við að baka eina ostaköku vaknaði Inga af þyrnirósarsvefi! Við drukkum saman morgunkaffi í eldhúsinu í ró og næði ... allt þar til það var bankað harkalega á gluggann! Í ljós kom að lítill blåmes hafði eitthvað villst og flogið beint á rúðuna. Greyið litla var svo vankað að fyrst flaug hann bara í marga hringi í garðinum en settist svo loksins undir aparóluna. Þar kúrði hann hreyfingarlaus og sjálfsagt fullkomlega ringlaður næsta korterið eða svo! Sem betur fer hresstist hann nú og flaug af stað aftur, vonandi við hestaheilsu!

Eftir morgunkaffi og blåmesa-vakt héldum við af stað inn í miðbæ Uppsala.

Við byrjuðum bæjarferðina á Ofvandahls, hinu uppáhaldskaffihúsinu mínu!

Inga tók myndir af antík húsgögnunum, kristalsljósakrónunum ...

... jólatrénu ...

... og veitingunum. Í Svíþjóð eru eplakökur og allar aðrar gerðir af svo kölluðum smulpaj borðuð með vanillusósu. Mér finnst það bæði krúttlegt og gott!

Loksins, loksins var kveikt á jólaljósunum í miðbænum! Við María höfum fylgst spenntar með jólaskreytingunum undanfarnar vikur. Við sáum að þær voru hengdar upp á sífellt fleiri staði en aldrei kveikt á þeim! Það var okkur því sérstakt gleðiefni að standa í uppljómaðri og jólalegri göngugötunni!

Inga og jólaskrautið. Það verður að segjast að við vorum ansi duglegar í jólagjafainnkaupum þennan dag ... það er greinilega ekki alslæmt úrval verslana hér í Uppsölum!

Það dimmir ansi snemma hjá okkur núna, ekki síst eftir að skipt var yfir í vetrartíma. Yfirleitt er komið kolniðamyrkur upp úr þrjú! Í það minnsta var orðið aldimmt þegar búið var að sækja bæði börnin og við komin aftur niður í bæ. Hér er dálítið hreyfð fjölskylda með fallegu jólaljósin sem sett hafa verið upp á trén við ánna í baksýn!

Og aftur var haldið á Barista! Inga og María er góðar vinkonur, eins og sjá má!

  

Úff, það var svo óskaplega þjált að tala um Bárugötubörnin ... Konsulentvägenbörnin hljómar bara ekkert sérstaklega vel! En hvað um það hér eru Konsulentvägenbörnin (púff) að gæða sér á muffins. Við elsku muffinsið á Barista! Fyrir jólin hafa m.a.s. bæst við tvær nýjar tegundir, saffranmuffins og piparkökumuffins!

Knús á kaffihúsi!

Þegar heim var komið hófumst við handa við að leira. Við Inga höfðum keypt fullt, fullt af leir í bænum um daginn og það engan venjulegan leir heldur leir með lykt! Súkkulaðileirinn sló í gegn, sérstaklega hjá Huga! María ákvað strax að setja upp leirbakarí!

Hér er Súpermann að leira krókódíl við kertaljós!

Vinkonurnar að störfum í bakaríinu!

Það var ekki boðið upp á neitt slor ... prinsessutertur, kanilbulla, marsipanmýs og -grísi ... og úrvalið átti bara eftir að aukast!

Á meðan sá Einar um að elda hin sívinsælu kjúklingaspjót með satay sósu!

Í tilefni af komu Ingu drifum við loks í að hengja nokkrar myndir upp á veggi! Við byrjuðum líka að skreyta pínulítið fyrir aðventuna, m.a. setti ég upp þetta glænýja og ótrúlega fallega Lúsíuljós!

Dásemd ekki satt?!

Bókaskápurinn fékk líka smá andlitslyftingu með rauðum stjörnum! Kvöldið leið hjá við mat, drykk, arineld og mikið, mikið, mikið af góðu spjalli!

Laugardagurinn 2. desember

Á laugardagsmorgninum brunuðum við vinkonurnar með lestinni til Stokkhólms. Við byrjðuðum daginn á Vetekatten ... nema hvað!

Ekta sænskt, prinsessuterta og hallongrotta!

Við með skrýtna jólatréð í Vetekatten-garðinum í baksýn. Úff, mér finnst svo stutt síðan ég sat þarna úti á stuttermabol í sól og sumaryl!

Frá Vetekatten héldum við áfram eftir Kungsgötunni. Á Hötorget voru æstir blómasalar að störfum fyrir aftan breiður af túlípönum, rósum, amaryllisum og hyacintum!

Inga skoðar fallega peysu á Hötorginu!

Skömmu seinna vorum við komnar á rauða dregilinn á fagurlega skreyttri Biblioteksgötunni.

Þessi ótrúlega „hressi“ maður vildi endilega vera á mynd með mér ... vinur Hressa klórar sér í rassinum þarna fyrir aftan (það var sko eiginlega bara út af honum að ég ákvað að birta þessa mynd!)!

Hressarnir létu sig sem betur fer hverfa fljótlega! En aftur að Biblioteksgötunni ... finnast ykkur þessir rauðu kransar ekki fallegir?! Það var alla vega ekki hægt annað en að komast í jólaskap á þessari stundu!

Stokkhólmssæla!

Við komumst að því að það opnaði Urban Outfitters búð á Biblioteksgötunni í haust. Búðin fór þó næstum fram hjá okkur þar sem hún er staðsett í gömlu kvikmyndahúsi og markmiðið hefur greinilega verið að hrófla við sem minnstu, bæði að innan sem utan, þótt húsið hafi skipt um tilgang. Einmitt þess vegna er þetta ein flottasta búð sem ég hef komið í! Þarna sést yfir salinn ofan af svölunum, mátunarklefarnir eru staðsettir þarna uppi á sviðinu milli rauðu flauelistjaldanna!

Og loftið er ekkert slor! Ég fann reyndar ekkert þarna inni sem mig langaði að kaupa en gæti sko vel hugsað mér að koma þarna við í hverri einustu Stokkhólmsferð bara til að dást að fegurð búðarinnar og forvörslulegu gildi hennar!

Inga á svölunum í Urban: „Er þetta dömu- eða herrasnið?“

Eftir Biblioteksgötuna héldum við á jólamarkað í Kungsträdgården. Ég er með hreindýraæði þessa dagana þannig að það þótti vel við hæfi að mynda mig með þessu sæta hreindýri ... uppstoppuðu að vísu!

Í Kungstädgården var barna- og unglingakór að syngja Lúsíu- og jólalög. Okkur kórsystrunum vöknaði um auga af kórsöknuði og drifum okkur því hið fyrsta af stað aftur áður en ástandið varð vandræðalegt. Héldum við sem leið á í Gamla Stan þar sem við röltum eftir þröngum götum og skoðuðum í glugga hjá antiksölunum.

Við vorum staddar í lítilli, ótrúlega sætri búð að skoða dásamlegt jólaskraut þegar klukkur Þýsku kirkjunnar sem var handan við götuna byrjuðu að slá sex. Við litum hvor á aðra og töluðum um hvað það væri notalegt að heyra klukkurnar slá. Skömmu seinna héldum við út á götu, enn undir klukknahljómnum. Þar rak Inga augun í auglýsingu fyrir aðventutónleika Stockholms Kammarkör sem einmitt áttu að hefjast í Þýsku kirkjunni á slagnu klukkan 18. Klukkurnar hljómuðu enn þegar við ákváðum að fara inn til að fá að kíkja í prógrammið og sjá hvað þau ætluðu að syngja. Á síðustu slögum klukkunnar vorum við komnar með miðana í hendurnar og sestar inn í þessa ótrúlega fallegu kirkju.

Þarna uppi á orgelloftinu hóf kórinn upp raust sína og söng „Jauchzet frohlocket“! Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég átti að vera, var með kökk í hálsinum en langaði líka svo að standa upp og syngja með! Alla tónleikana áttum við sópransysturnar dálítið erfitt með að halda aftur af tárunum. Þegar fyrstu tónarnir úr hinu kunnuglega „Guðs sanni son“ hljómuðu var okkur báðum öllum lokið og byrjuðum að gráta, nánast með ekka! Það var ekki fyrr en lagið var rúmlega hálfnað að ég mundi að mér finnst þetta lag ekki einu sinni neitt sérstaklega skemmtilegt!!! Allt minnti um of á Mótettukórinn okkar sem við söknum báðar svo sárt. Lengi framan af var það mitt eina haldreipi í kórsaknaðaröldunni að Stockholms kammarkör liti að minnsta kosti ekki út fyrir að vera eins hress og minn kór! Nei, kórstjórinn leit svo sannarlega ekki út fyrir að vera að fara að halda eitthvað ótrúlega hressandi kórpartý til að fagna vel heppnuðum tónleikum eins og minn kórstjóri myndi gera ... alla vega ekki partý sem endaði í heitum potti í morgunsárið! Þetta síðasta hálmstrá fauk út í veður og vind þegar kórinn raðaði sér hringinn í kringum áheyrendur með kórstjórann í miðjunni (hafa þau mætt á tónleika með Mótó?)! Þá blöstu skyndilega við eldrauðir, ógeðslega támjóir skór úr krókódílaskinni á fótum kórstjórans!!! Þar með var nokkuð ljóst að það væri eitthvað ótrúlega hresst og rokkað partý í vændum hjá kórnum hans eftir tónleikana! En þrátt fyrir söknuðinn voru þetta frábærir tónleikar með frábærum kór! Við vorum svo ótrúlega glaðar og hamingjusamar með að hafa svona óvænt rambað inn á þá, einmitt á sömu stundu og gömlu kórfélagarnir okkar hófu upp raust sína á jólatónleikum í Hallgrímskirkju!

Eftir að tónleikunum lauk sátum við í smá stund á kirkjubekkjunum til að jafna okkur, hlógum og grétum til skiptis og tókum svo myndir af fallegu kirkjunni þess á milli. Einn eldri maður sá ástæðu til að koma til okkar og mæla nokkur huggunarorð enda sjálfsagt þótt við eiga mjög bágt að gráta svona mikið á eins gleðilegum viðburði og jólatónleikum!!!

Tárvotar í myrkrinu fyrir utan kirkjuna að tónleikum loknum!

Inn um glugga safnaðarheimilisins sáust kórmeðlimir á nærbuxunum að skipta um föt ... allt eins og í Mótettukórnum! Því miður festust fataskiptin ekki á filmu ... kannski eins gott, annars hefðum við ef til vill verið handteknar fyrir gluggagægjur!

Eftir alla þessa geðshræringu kom ekki annað til greina en að dreypa á hvítvíni á næsta huggulega veitingastað. Við komum okkur því vel fyrir á ítölskum restaurant í Gamla Stan, borðuðum góðan mat (eða ekki!), drukkum hvítvín og töluðum um heima og geima!

Sunnudagurinn 3. desember

Eftir pönnukökuát á sunnudagsmorgninum var kominn tími til að keyra Ingu aftur á Arlanda. Í þetta skipti fór öll fjölskyldan með enda vildu allir fá að horfa á eftir þessum frábæra gesti upp rúllustigann. Við María skældum báðar smá þegar hún var horfin!

Elsku Vignir, Björt og Ísleifur, takk fyrir að lána okkur hana í nokkra daga! Við vonumst til að fá ykkur öll í heimsókn sem fyrst, það er svoooo margt sem við viljum fá að gera með ykkur hérna! Og elsku Ingan mín, takk fyrir allt! Eins gott að við sjáumst á Íslandi eftir bara rúmlega tvær vikur!!!