Ingi kemur í heimsókn ... aftur!

Þann 8. maí fengum við góðan gest í heimsókn sem flaug til okkar beint frá Ítalíu. Þessi víðförli heimsborgari er enginn annar en Ingi Björn Guðnason bókmenntafræðingur sem sótti okkur Konsulentana heim í annað sinn.

Miðvikudagur, 9. maí

Daginn eftir að Ingi kom hingað til Uppsala héldum við vinirnir í Stadsträdgården. Þar er allt í blóma um þessar mundir og hér er Ingi umkringdur hyacintum, túlípönum og baldursbrám.

Það eru fleiri blómamyndaáhugamenn í Uppsölum en ég! Myndin hér að ofan er ágæt áminning um hversu kjánaleg ég er við þessa eftirlætisiðju mína!

Ingi við hola tréð í sólinni. Það var ágætt veður þennan dag, a.m.k. nógu gott til að við fórum úr jökkunum rétt eftir að þessi mynd var tekin. En þar með lauk eiginlega góðviðriskaflanum og það sem eftir var heimsóknarinnar var fremur svalt. Ég er ansi hrædd um að Uppsalir hafi ekki staðist Róm snúning hvað þetta varðar!

    

Þegar síðasta sumri lauk beið ég æsispennt eftir að öll þessi tré hér í Uppsölum myndu skipta litum og taka á sig haustlegan blæ. Mér til mikilla vonbrigða voru haustlitirnir hér hins vegar fremur tilþrifalitlir þrátt fyrir mikið magn af laufum. Einstaka tré urðu fallega gul og appelsínugul en flest urðu bara dökkgræn, svo skítagræn og að lokum drullubrún. Ég sé hins vegar núna að ég hef greinilega verið að stilla mig inn á vitlausa árstíð, hér er litadýrðin fyrst og fremst á vorin. Fyrir það fyrsta eru óteljandi grænir litir í gangi, dökkgrænt, ljósgrænt, skærgrænt, gulgrænt, grágrænt og rauðgrænt (sem er litur sem ég vissi ekki einu sinni að væri til!). Þó nokkuð mörg tré eru rauð og vínrauð ... litir sem ég hélt að sæjust aðeins á haustin. Ofan á þetta bætast svo óteljandi blómstrandi tré og runnar með hvítum krónublöðum, ljósbleikum og dökkbleikum, bláum og fjólubláum. Myndirnar tvær hér að ofan sýna brot af þessari litadýrð í Stadsträdgården.

Eftir að við Ingi höfðum átt góðan dag í miðbæ Uppsala, borðað sushi og drukkið kaffi, sóttum við börnin í skólana og Einar í vinnuna og héldum rakleiðis á víkingaslóðir í Gamla Uppsala. Hugi dreif sig beint upp á hól.

Mér finnst þetta fín mynd!

Einar og Ingi neituðu að láta undan óskum ljósmyndarans um að þykjast vera að berjast eins og víkingar á þessari mynd! Hér eru þeir því mjög óvíkingalegir en nokkuð hressir með víkingahaug í baksýn.

María og Pinkípæ voru auðvitað með í Gamla Uppsala. Ekki verður annað sagt en að Pinkípæ hafi fallið stórvel inn í miðaldaumhverfi bæjarins, sérstaklega þegar hún hóf upp raust sína og sagði: Jag är hungrig! Kan du mata mig! Jag älskar dig, mamma! Dásamlegt barn (eða er það folald?) hún Pinkípæ!

Börnin í kirkjudyrunum.

Í þau tvö skipti sem ég hef sótt þessa eldgömlu dómkirkju heim hef ég mikið undrast hvað öll leiði eru ný. Skýringuna sáum við á litlum skiltum við sum leiðanna. Þú hefur s.s. bara rétt til að hvíla í þinni eigin gröf í svo og svo langan tíma og þá fær einhver annar að komast að. Í Svíþjóð verður maður náttúrulega að deila ÖLLU með restinni af samfélaginu, maður er ekki einu sinni látinn í friði þegar maður drepst!

Blóm og börn í grasinu.

Hin óvinsæla jurt fíflar vex af alveg jafnmiklum krafti í Uppsölum og á Íslandi! Mér finnast þeir samt alltaf voða sætir ... og María og Hugi líka!

Höllin og dómkirkjan í Uppsölum gnæfa yfir borginni og sjást víða að.

Nú er búið að dubba víkingaskipið fyrir utan víkingasafnið í Gömlu Uppsölum upp fyrir sumarið. Það er komið með segl, árar og skildi. Þar er líka að finna nokkur sverð, fjársjóðskistu, veiðistöng og fiska, sem sagt allt sem þarf í góðan leik! María og Hugi kættust mjög og eru hér að leika forfeður sína. Takið sérstaklega eftir hvað María er illileg á svipinn!

Svo fóru þau að skylmast. María var mjög einbeitt í leiknum en Hugi vildi vera alveg viss um að ljósmyndarinn næði þessum stórkostlegu augnablikum á filmu!

   

Á Óðinsborg fengum við okkur alvöru mjöð bruggaðan á staðnum. Mér fannst hann vondur er Ingi og Einar kunnu að meta beiskt jurtabragðið.

Huga er meinilla við flugur eftir að hann var stunginn af geitungi í tvígang síðasta sumar. Þegar hann uppgötvaði stóra hunangsflugu í glugganum sem hann sat við flúði hann því yfir á annað borð og sat þar einn það sem eftir var dvalarinnar í Óðinsborg.

Fimmtudagur, 10. maí

Á fimmtudegi héldum við Ingi inn til Stokkhólms og eftir stutt stopp á Vetekatten héldum við á Vasasafnið sem staðsett er á Djurgården. Ég hafði mikla fordóma fyrir þessu safni þegar ég kom fyrst til Stokkhólms fyrir svona þremur árum. Ég vissi það eitt að safnið snerist um eitthvað eða einhver skip og hélt að þetta væri nokkurs konar sjóminjasafn. Ég hafði hins vegar rækilega rangt fyrir mér enda er þetta áreiðanlega skemmtilegasta safnið í Stokkhólmi og samkvæmt öruggum heimildum það vinsælasta. Það má eiginlega segja að safnið sé byggt utan um einn safnmun, Vasaskipið, sem sökk á jómfrúarsiglingu sinni aðeins 100 metra frá landi árið 1628. Það fannst 330 árum seinna eftir þrotlausa leit eins manns, var bjargað á land í heilu lagi og er sem sagt nú til sýnis, ásamt ýmsum munum sem fundust um borð, á samnefndu safni. Ég hvet alla sem eiga leið um Stokkhólm til að heimsækja Vasasafnið.

„Hérna á ég heima“, sagði þessi litla við ömmu sína þar sem þær skoða kort af Svíþjóð á 17. öld. Kynslóðirnar sameinast á Vasasafninu!

Í kjallara safnsins er hægt að spreyta sig á að búa til betra skip en Vasa sem var svo hræðilega illa hannað að það sökk í höfninni í blankalogni! Hér er Ingi við smíðar.

Kóngurinn var rosa ánægður með mig og borgaði mér marga koparpeninga fyrir mitt skip ... eftir nokkrar atlögur!

Skipið er allt útskorið og frá því það var dregið á þurrt hafa farið fram viðamiklar rannsóknir á því hvernig það hefur verið málað. Margar lágmyndanna er búið að endurgera í réttum litum og eru þær sýndar á safninu. Vasa var smíðað, ásamt 2-3 öðrum skipum, eftir pöntun kóngsins sem vildi stækka flota sinn í 30 ára stríðinu. Það lá sem sagt mikið á þeim en engu að síður var nostrað við að skera út tær, lafublöð og hárlokka, mála allt og gylla! Magnað!

Við Ingi erum ekki alveg nógu góð í sjálfsmyndatökunni! Ingi segir að það sé af því að ég sé of lítil en ég vil nú ekki gangast við því! Ég hefði a.m.k. þótt mjög hávaxin kona á tímum Vasa þegar flestir voru í kringum 160 cm!

Hér má sjá útskorna bakhlið skipsins ... heitir það ekki skutur?

Efst yfir öllu trónir svo kóngurinn sjálfur ... meira mikilmennskubrjálæðið sem sumt fólk hefur verið haldið!

Föstudagur, 11. maí

Á föstudeginum losnaði Einar óvænt snemma úr vinnu og því tókum við skyndiákvörðun um að heimsækja Linnés Hammarby heim. Linné ætti nú að vera orðinn lesendum síðunnar góðu kunnur en hann ber sem sagt ábyrgð á flokkunarkerfi plantna. Hann á 300 ára afmæli í ár og segja má að það ríki gífurlegt Linné-æði hér í Svíþjóð í tilefni af því. Linné bjó í Uppsölum en keypti sér lítið sveitasetur skammt fyrir utan bæinn til að komast burt úr heilsuspillandi borgarlífinu yfir sumartímann. Og þangað fórum við!

Í garðinum við Hammarby rakst ég á þessa kungsängslilju. Kungsängsliljurnar vaxa á mjög litlu svæði hér í kringum Uppsali, eru táknmynd lénsins og ákaflega elskaðar hér í borg. Ég hef aldrei séð hana villta áður og varð því að sýna ykkur þessa mynd þótt hún sé dálítið léleg og úr fókus.

Á hvað skyldu systkinin horfa svona einbeitt?

    

Jú, það er Ingi Björn sem ekki getur slitið sig úr leiðsögumannshlutverkinu og segir hér skemmtilega sögu af Linné og hundinum hans!

Einari fannst hundasagan líka mjög fyndin. Þeir sem vilja heyra söguna verða bara að koma með mér í Hammarby!

Þessi jurt heitir vitsippa á sænsku og vex villt um engi og skóga. Á kvöldin lokast blómin og hún drúpir höfði þar til geislar sólarinnar vekja hana að nýju næsta morgun. Þetta blóm er líka út um allt í skóginum mínum og mér þykir voða vænt um það.

Blóm eplatrésins í forgrunni og systkinin í bakgrunni!

Á klukkutíma fresti er leiðsögn um húsið sjálft og einhvern veginn tókst okkur að missa af henni í tvígang. Þar sem ekki mátti fara inn í húsið nema í fylgd leiðsögumanns ákváðum við að bíða eftir þriðju umferð og á meðan nutu börnin þess að hlaupa um garðinn.

Og hér er Hammarby sjálfur! Húsið er frá 17. öld og í ótrúlega góðu ástandi, með upprunalegu veggfóðri og m.a.s. þurrkuðum blómum sem Linné sjálfur límdi upp á veggina til að njóta fegurðar þeirra sem best!

Sætur lítill lundur í garðinum ... þarna hafa þau áreiðanlega átt rómantískar stundir Linné og Saga Lisa konan hans!

Ingi og María skoða snigla af miklum áhuga!

Hugi er líka mikill áhugamaður um snigla og önnur skordýr!

Laugardagur, 12. maí

    

Á laugardeginum var Vängeskolas dag. Við Einar og Hugi héldum því með Maríu í skólann snemma dags en skildum Inga eftir heima að skrifa mastersritgerð á meðan. Aðalnúmerið þennan dag var svo kallað hattparad. Öll börnin voru búin að föndra skrautlega hatta og gengu í halarófu um svæðið meðan tónlist hljómaði úr hátölurum og gestirnir klöppuðu í takt. Hér er María ásamt Maddicken vinkonu sinni fyrir og á meðan á göngunni stendur!

    

Börnin fengu svo smá útrás í leiktækjunum áður en haldið var heim til Inga aftur. Huga fannst slökkviliðsmannastöngina á skólalóðinni hjá stóru systur rosalega flott en María varð helst að söngla „víú-víú-víú-víú ...“ á meðan hann renndi sér niður til að maxáhrifum væri náð!

Eftir allt fjörið í Vängeskola og hádegisverð á Konsulentvägen var haldið til Vaxholm. Í þetta sinn var ákveðið að hlífa lesendum síðunnar við fleiri myndum af kaffihúsinu Síldarmáfinum og myndavélin því ekki dregin upp fyrr en komið var þaðan út! Hér erum við á rölti við bryggjuna og María og Hugi í miklu stuði eins og sjá má!

Í gamla bæjarhlutanum var sírenan um það bil að fara að blómstra handan við rauðmálaðar girðingar. Sírenur minna mig alltaf á Evu og Gunna ... og ég fékk saknaðarsting í hjartað! Vona að þau bjóða mér á pallinn til sín í sumar meðan sírenan blómstrar!

María á Lotsgötunni!

Ferðafélagarnir fyrir framan framtíðarhúsið mitt, Ingi og Einar í forgrunni og María og Hugi þarna fyrir aftan.

Týpískt sænskt: rauðmálað hús með hvítum gluggapóstum, rauðmálað grindverk, lítill geymsluskúr á lóðinni, stórt tré og steinklöpp.

Ég fékk smá myndavélabrjálæði í þessari skerjagarðsferð, þetta var allt svo fallegt og dásamlegt!

Við ákváðum að ganga aðeins stærri hring í gamla bænum í Vaxholm en vanalega og rákumst á þessa ótrúlega sætu, litlu götu. Ótrúlega sæt, lítil stelpa passaði vel inn í þetta umhverfi!

Þessi gamli Volvo fór ákaflega vel við umhverfið. Það er nefnilega bara eitt sem gerir það að verkum að fullkominni fegurð Vaxholm er ógnað og það eru glæsikerrurnar sem vanalega standa við öll þessi sætu gömlu timburhús! Þar sem hús á þessum stað kostar lágmark 100 milljónir íslenskar eiga eigendur þeirra yfirleitt glænýja, rándýra og voðalega flotta bíla sem parkerað er við rauðmáluðu grindverkin undir eldgömlu eplatrjánum. Mér finnst það bara ekki passa alveg nógu vel! En ég hefði auðvitað ekkert átt að segja ykkur þetta heldur bara birta myndina af gamla Volvónum og láta ykkur draga þá ályktun að svona sé þetta alls staðar!

Litla sæta gatan lá niður að lítilli og sætri smábátahöfn. Þarna vögguðu nokkrir litlir og sætir bátar við litlar og sætar bryggjur og litlu og sætu börnin mín voru æsispennt yfir að vera komin niður að sjó (ef sjó skyldi kalla, ég held að þetta sé nú að miklu leyti ferskvatn þarna!).

   

Þarna niðri við bryggjuna fann ég nýtt uppáhaldshús! Er þetta ekki dásamlegt?

Annað fallegt hús í skerjagarðinum ... þetta var samt aðeins of lítið fyrir minn smekk.

Blómstrandi kirsuberjatré er bara eitt það fallegasta í heimi!

   

Við Einar erum orðin æsispennt að gróðursetja eitt svona í garðinum á Konsulentvägen!

Svensk idyll: Rauðmálað grindverk, blómstrandi kirsuberjatré, póstkassi og lítið skilti sem á stendur „Varist hundinn“.

Ég játa að ég missti mig alveg í að taka myndir af sætum húsum í Vaxholm og sennilega hef ég misst mig dálítð aftur þegar ég valdi úr þeim nokkrar til að birta hér á síðunni (þið verðið að athuga að þið fáið ekki að sjá nema brotabrot hér!). En ég bara verð að sýna ykkur þessa mynd! Fyrir nú utan hvað húsið er fallegt og hvað sírenan fer vel við hvítu gluggapóstana þá fannst mér svo ótrúlega krúttlegt að póstkassinn skyldi vera á þessum stað ... dálítið notaleg tilhugsun að teygja sig bara út um gluggann til að sækja blaðið á morgnana eða þreifa ofan í kassann í heitri von um að fingurgómarnir snerti sendibréf sem lengi hefur verið beðið eftir!

María og Ingi spá í spilin.

Hugi að príla.

Eftir frekari göngu um Vaxholm komum við aftur að litlu smábátahöfninni úr annarri átt. Þar tylltum við okkur niður á bekk og nutum góða veðursins og fallega útsýnisins.

Eldri maður kom siglandi á lítilli bátsskel og lagði við bryggjuna.

Allir klárir í bátana frá Hlölla. (Sorrý, mér datt bara ekkert í hug til að skrifa við þessa mynd!)

Það hlýtur að vera frábært að vera með „sjóinn“ bara svona hinum meginn við grindverkið hjá sér.

Eftir að maðurinn á bátsskelinni hafði drepið á mótornum tyllti hann sér á bryggjuna og fylgdist með öldunum gæla við skerin og máfunum sveima yfir haffletinum. Við fylgdumst hins vegar af mikilli athygli með manninum sjálfum. Hvað var hann eiginlega að gera þarna? Hvaðan var hann að koma? Og af hverju fór hann ekki lengra í land en bara upp á bryggjuna? Spurningarnar hrönnuðust upp!

Ég er svo fullkomlega sjarmeruð af skerjagarðinum að ég á ekki orð til að lýsa því. Eða jú, kannski er því best lýst svona: Mig langar að eiga hús úti á lítilli eyju einhvers staðar þarna handan við skerið og baujurnar. Ég ætla að vakna í litla húsinu mínu klukkan 5 á morgnana og hefjast handa við að baka eins og 5-6 ótrúlega girnilegar kökur. Klukkan 10 mínútur í 8 munum við Einar stíga um borð í litlu bátsskelina okkar og sigla af stað til Vaxholm. Þar fer Einar til vinnu á heilsugæslustöðinni en ég held beint með kökurnar mínar á kaffihúsið Síldarmáfinn þar sem þær eru seldar ásamt fleiri heimabökuðum kökum sem aðrar húsmæður í skerjagarðinum hafa bakað. Eftir kaffibolla og spjall við elskulegu starfsstúlkurnar á Síldarmáfinum sigli ég aftur yfir í eyjuna mína, sulla með börnunum á bryggjunni, reyti arfa í garðinum og fer svo inn og vökva ljósbleiku pelargóníurnar mínar. Undir kvöld sigli ég eftir Einari og við eldum kvöldmat saman í litla eldhúsinu. Áður en ég fer að sofa set ég út skál með mjólk handa broddgeltinum og kannski líka eplabáta. Sofna snemma, því ég þarf jú líka að vakna snemma daginn eftir til að setja á mig svuntuna og baka fleiri kökur.

Meðan við sátum á bekknum og ég lét mig dreyma um skerjagarðslífið leystist gátan um manninn á bátnum. Í ljós kom hann virðist lifa nákvæmlega lífinu sem mig dreymdi um! Eftir að hann hafði beðið skamma stund komu eldri kona og ungur maður aðvífandi. Konan með innkaupapoka úr kjörbúðinni og maðurin með litla ferðatösku. Við sáum strax að þetta myndi vera eiginkona bátsmannsins að koma úr innkaupaferð í Vaxholm og sonur þeirra hjóna sem hefði komið með áætlunarferjunni frá Stokkhólmi til þess að eyða helginni með mömmu og pabba. Þau sigldu öll af stað á bátsskelinni og tóku stefnuna út í næstu eyju.

„Denna dagen - ett liv“.

Það hlýtur að vera skemmtilegt að vera með bát en ekki bíl í heimreiðinni hjá sér!

Á lítilli einkabryggju var fjölskylda að dytta að bátnum sínum og snæddi svo saman hádegisverð á pallinum við bryggjuhúsið í sólinni.

Diskarnir í glugga antikbúðarinnar fóru svo vel við blómin á clemantis-klifurjurtinni að samspilið verðskuldaði mynd.

Sunnudagur, 13. maí

Á sunnudeginum var haldið á Skansen. Páfuglarnir tóku á móti okkur með gargi og glæsilegu stéli.

Hér eru Einar og börnin að líta í heimsókn inn í samatjald.

Það er vor á Skansinum og ungviðið setur svo sannarlega sinn svip á safnið. Þarna er lítill hreindýrskálfur að kúra hjá mömmu sinni.

Og annar hreindýrskálfur. Þeir eru ótrúlega sætir!

Það tókst með herkjum að stilla upp fyrir myndatöku enda voru börnin orðin ansi lúin á langvarnadi myndatökuæði móður sinnar sem alltaf er með vélina í för þegar haldið er í skemmtiferðir. Skemmtiferðirnar eru auðvitað sérstaklega margar þegar skemmtilegur gestur er í heimsókn þannig að þeim var greyjunum alveg nóg boðið þarna á fimmta degi!

Það voru líka nýbornir elgskálfar á Skansen. Eða kallar maður ekki afkvæmi elga kálfa? Eru þeim kannski kastað frekar en að þeir séu bornir? Spyr borgarbarnið ringlað!

Fallegur lítill elgskálfur (ég held mig bara við kálfinn þar til annað sannast!).

Okkur grunaði að afkvæmin hafi jafnvel fæðst bara þarna um morguninn eða a.m.k. mjög nýlega því mamman (hvað heita kvenkyns elgir?) var gjörsamlega að fara á taugum. Hún æddi meðfram girðingunni fram og til baka í mannýgu ástandi og var greinilega sjúklega hrædd um afkvæmin og umhugað um að vernda þau fyrir öllu þessu fólki sem ó-aði og ahh-aði, myndaði í gríð og erg og kepptist um að komast alveg að girðingunni. Við vorkenndum henni svo mikið að við vorum frekar fljót að láta okkur hverfa.

Lúin systkin með Stokkhólm í baksýn.

    

Í bjarnagryfjunni voru stálpaðir húnar að leika sér. Þessir til vinstri voru í óðaönn að krafsa í klóakið ... spennandi leikur!

Bangsapabbi tók sér hins vegar bara lúr.

Krökkunum fannst gaman að leika sér á trébangsanum. Hér er Hugi einmitt að sýna mér hvernig trén sem notuð voru til að smíða bangsann voru felld!

Það voru ógurleg læti í páfuglunum þennan dag og þeir voru alls staðar að þvælast. Okkur fannst þessi dálítið fyndinn, gargandi uppi á geymsluskúr.

Loksins sáum við úlfana! Þeir hafa hingað til verið vant viðlátnir þegar við höfum átt leið um Skansen. Úlfarnir tóku þó lífinu með ró og bærðu varla auga þegar þyrla flaug yfir.

Á Lill-Skansen voru komnir kiðlingar og máttu gestirnir príla inn fyrir girðinguna og klappa þeim að vild. Hafið þið séð svona ótrúlega mikla dúllu áður?!

María var alveg heilluð af þessum litla sem reyndi að sjúga ermina á flíspeysunni hennar.

Þessi var hins vegar hrifinn af Einari og virtist helst vera að reyna að klifra upp á axlirnar á honum eins og Bjartur okkar gerði forðum daga!

    

Huga fannst allt æðislegt við geiturnar og kiðlingana ... trylltist úr gleði þegar þær jörmuðu og allt! Hér eru þau systkinin að klappa litlum svörtum kiðakið sem virðist gruna að María geymi eitthvað góðgæti handa honum í vasanum!

María og Hugi í sæluvímu!

Þessi var eitthvað svo mikið krútt að kíkja fyrir hornið! Einmitt á þessu augnabliki varð myndavélin mín batteríislaus og þar sem Ingi hélt heim til Íslands eldsnemma morguninn eftir náðust ekki frekari myndir af þessum góða gesti! Þær verða bara fleiri næst!!!