Ingi Björn kemur í heimsókn

Við á Konsulentvägen getum ekki kvartað undan gestaleysi þennan fyrsta mánuð okkar sem íbúar í útlandi! Fyrst kom Imba amma, svo kom Jódís og svo kom Ingi til okkar í heila viku! Það var óskaplega gaman að hafa hann svona lengi þar sem okkur gafst nægur tími bæði til að hanga og gera ekki neitt en líka til að þeysast um allt í leit að ævintýrum

Við Hugi og María skelltum okkur á lestarstöðina til að taka á móti Inga. Þaðan héldum við beint á kaffihús til að hressa hann við eftir ferðalagið og safna kröftum fyrir strætóferðina heim til Vänge. María smellti þessari fínu mynd af okkur bókmenntafræðingunum við það tilefni ...

... og Hugi þessari!!!

Ingi var duglegur að drösla okkur inn til Uppsala á hverjum degi eftir að skólagöngu lauk hjá Maríu. Einn daginn, á leiðinni heim úr bænum, keyptum við slatta af ferskum jarðaberjum og hindberjum sem við gæddum okkur svo á í eftirrétt um kvöldið. Þar sem uppskerutíminn stendur sem hæst núna eru fjölmargir litlir básar við göngugötuna í Uppsölum sem selja þessar krásir og að auki bláber, kirsuber, brómber og jafnvel kantarellusveppi. Hér sést María í glænýjum ballettbúning að gæða sér á berjum, nýbúin að halda danssýningu í stofunni fyrir herrana sem eru með henni á myndinni og mömmuna sem stendur á bak við linsuna!

  

Sænska hamborgarakeðjan Max hefur unnið hug og hjörtu fjölskyldumeðlima. Við erum gríðarlega ánægð með þessa keðju og þykir hún gott mótvægi við McDonald's og Burger King. Hér hafa systkinin fyndnu búið til riddarahjálma úr barnaboxunum!

Ingi og Einar með Maríu Max-riddara á milli sín með barnabox-hjálm, frisbídiska-skjöld og franskrar karfötlu-spjót! Ingi Björn dáðist ekki alveg eins mikið að Max hamborgurunum og við ... greinilega orðið dálítið síðan hann bragðaði t.d. Burger King viðbjóðinn! Við höfum hins vegar neyðst til að gefa amerísku risunum of mörg tækifæri að undanförnu þar sem við vorum með lélega aðstöðu til að elda heima til að byrja með og lendum þar að auki reglulega í því að þurfa að gleypa í okkur kvöldmat í miðbænum vegna óhentugra strætóferða heim til Vänge.

Eftir Max máltíðina kvöddum við Ingi Einar og börnin og stukkum upp í lest til Stokkhólms. Aðeins um klukkutíma seinna vorum við lent í Gamla Stan og þar var Ingi dreginn á Kladdkökuna ... nema hvað!

Endurnærð eftir kaffiþamb lögðum við af stað í rölt um þetta frábæra hverfi. Ingi Björn var nýbúinn að kaupa sér myndavél sem honum tókst einhvern veginn að festa í macro-stillingunni! Hér er hann að reyna að græja vandamálið!

Ég lýsi því hér með yfir opinberlega að þetta er ljótasta gína sem ég hef nokkurn tíma eða mun nokkurn tíma sjá! Hvað eru verslunareigendurnir eiginlega að pæla? Reyndar get ég svo sem alveg svarað því sjálf! Þankagangur þeirra hefur verið eitthvað á þessa leið: „Æ, hvað það er nú óhentugt að allar gínur sem hægt er að fá séu mótaðar eftir 40 kílóa konum með skuggalega mjótt mitti, aðeins of stór brjóst og fótleggi sem ná nokkurn veginn upp í kok. Þar sem okkar markhópur lítur þannig út í fæstum tilvikum væri betra að við hefðum gínu sem endurspeglaði raunverulegar konur. Hey, kannski ættum við bara að búa eina slíka til sjálf sem gefur raunsannari mynd af okkar viðskiptavinum og kvenfólki almennt!!!!“ Þó ég kunni því persónulega vel að fólk berjist á móti staðalímyndum kvenna þá finnst mér þessi gína bara aðeins of skrýtin ... venjulegar konur eru líka ekki með svona agalegan morðingjasvip og meinfýsið glott!!!

Við fórum ekki inn til Stokkhólms fyrr en seint í eftirmiðdaginn þannig að það fór fljótlega að rökkva og kveikt var á öllum ótrúlega fallegu götuljósunum í Gamla Stan.

Ingi ... enn að reyna að græja myndavélina!

Gamalt hús, gamall bekkur og gamalt kastaníutré ... er þetta ekki undurfagurt?!

Ég fæ aldrei nóg af húsunum á Stóra torginu!

Tveir bókmenntafræðingar leggja höfuðin saman og reyna að svara spurningunni hvort höfundurinn sé dauður!

Síðast þegar við Ingi Björn fórum saman í ferðalag var engin myndavél með í för og svona eftir á að hyggja kunnum við því bara ágætlega. Höfum látið okkur nægja allar þær myndir sem við getum framkallað í huganum. Ég var því ekki alveg viss hvort ég ætti yfir höfuð að reyna að fanga stemmninguna í Gamla Stan þetta kvöld á filmu eða ekki. Lét þó slag standa og sé ekkert eftir því! Við ímynduðum okkur að eftir þessari götu hefði Strindberg oft gengið ... alveg pottþétt í einhverju dramakasti!

Það sést því miður ekki alveg nógu vel á myndinni hvað þessi gata er þröng ...

... en það má nota ljósastaurinn til viðmiðunar, hann nær endanna á milli!

Það er vonlaust að teygja út handleggina í þessari götu sem er hér með orðin uppáhaldsgatan mín í Stokkhólmi ... og það þrátt fyrir að ekki sé eina einustu búð að finna við hana!!!

Við lukum þessu frábæra kvöldi í Stokkhólmi á snarli við Järntorget í Gamla Stan og skáluðum fyrir borginni, bæjarhlutanum og félögum okkar á Íslandi.

Ingi svaf yfirleitt á meðan við Hugi fylgdum Maríu í skólann. Á leiðinni heim úr slíkum leiðangri hittum við einu sinni þessa sætu kisu. Þar sem elsku Bjartur okkar varð eftir á Bárugötunni (er orðinn lögformlegur aðili að kaupsamningi þar!) vorum við komin í mikla þörf fyrir kisuklapp. Þessi var heldur betur til í að láta klappa sér og Hugi ljómaði eins og sólin!

Í hvert sinn sem ég beygði mig niður til að taka mynd af parinu stökk kisa af stað í áttina til mín, enda væntanlega ekki grunað að önnur ástæða gæti verið fyrir því að ég krypi svona niður nema bara sú að ég ætlaði að klappa henni og klóra! Hugi varð dálítið hissa á að hún skyldi alltaf koma til mín en fattaði svo að sennilega væri hún bara hrædd við Súpermannbolinn hans!

Við Ingi erum mikið búin að skemmta okkur yfir þessu plakati sem hangir á tilkynningatöflu Vängebúa.

Við höfum hlegið mikið að litlu systur Jerry Lee Lewis ...

... en þó allra mest að fyrsta rokkkóngi Svía, Little Gerhard!

Þessi fuglahópur virðist bíða spenntur eftir að fá eitthvað með póstinum. Þennan dag fengum við Ingi hins vegar heimboð á Nóbelssafnið í Stokkhólmi sem sérlegir fulltrúar Gljúfrasteins. Í boði var leiðsögn um safnið og lönsj með fulltrúum þess. Því miður átti ég ekki heimangengt vegna barnagæslu og bústarfa en Ingi skellti sér og skilaði kveðju frá mér.

Daginn eftir fórum við félagarnir enn og aftur inn til Stokkhólms og í þetta sinn héldum við beint á Strindbergsafnið. Í Bláa turninum var heimili skáldsins síðustu fjögur árin sem hann lifði og þar er hægt að skoða íbúðina hans í nokkurn veginn upprunalegu horfi. Þangað var gaman að koma en að sjálfsögðu stóðst safnið Gljúfrasteini ekki snúning! Sem vonlegt er var bannað að taka myndir á safninu sjálfu en hér erum við í hinum undurfagra og bláa stigagangi hússins.

Í íbúðunum allt í kring býr fullt af venjulegu fólki sem þykir sjálfsagt alveg óþolandi að íslenskir bókmenntafræðingar rápi um gangana þeirra og rýni í nafnspjöld á hurðum!

Eftir Bláa turninn keyptum við okkur nesti og tókum með okkur í Humlegården sem ætti að vera orðinn lesendum síðunnar að góðu kunnur! Prosciutto skinkan okkar, snittubrauðið, ostarnir og sykurkringlurnar brögðuðust enn betur í þessu frábæra umhverfi og það var ótrúlega gaman að fylgjast með öðrum gestum garðsins og ímynda sér hvað þeir væru að hugsa eða tala um meðan nestið var snætt.

Ingi dáðist mikið að trénu þarna í bakgrunni. Kærustuparið sem situr undir því var okkur hins vegar hulin ráðgáta, stúlkan grét mikið og unnustinn reyndi að hugga hana en inni á milli borðuðu þau nesti í miklum makindum og virtust þá allt í einu hafa það afskaplega gott! Ef einhver vill leggja tillögur í púkkið þá er það guðvelkomið!!!

Eftir Kunglige Humlegården röltum við niður að Slussen og fundum okkur lítinn bar undir beru lofti til að setjast á og hugðumst gera stuttan stans þar áður en haldið væri inn í Gamla Stan. Staðurinn reyndist hins vegar svo ótrúlega frábær, með góðu hvítvíni, humri og óviðjafnanlegu útsýni yfir Slussen, Skeppsholmen og Södermalm að við ílengdumst þar í nokkra klukkutíma! Þarna bak við humarinn og hvítvínið glittir í uppáhaldsbókina mína þessa dagana! Ég hafði gripið hana í fljótheitum á lestarstöðinni fyrr um daginn án þess að vita nákvæmlega hverju ég ætti von á. Brev til samhället reyndist hins vegar ein fyndnasta bók sem ég hef lesið lengi, ef ég hef þá nokkrn tíma lesið fyndnari bók! Hún samanstendur af bréfum sem Eric Ericson skrifar ýmsum fyrirtækjum og opinberum stofnunum í Svíþjóð og svörin sem hann fékk á móti. Hljómar kannski ekki fyndið ... en trúið mér!!! Á næstu mánuðum og árum hef ég hugsað mér að senda öllum sem mér finnast með góðan húmor þessa bók í pósti!!! Telji fólk sig ekki örugga í þeim hópi getur það sent mér bréf þar sem það sannar fyrir mér að það sé mjög fyndið og fær þá áreiðanlega bók að launum skömmu seinna hafi ætlunarverkið tekist!!!

Ingi er orðinn alveg myndatökuóður!!!

Það var svo óskaplega skemmtilegt á þessum stað að við gleymdum okkur alveg. Lögðum þó tímanlega af stað til að ná síðustu lestinni, vorum komin á lestarstöðina nokkru fyrir brottför, gáðum af hvaða spori lestin færi og keyptum síðan miða. Okkur fannst reyndar dálítið skrýtið að lestin væri ekki komin á rétt spor þegar við settumst niður til að bíða en höfðum þó engar áhyggjur af slíkum smámunum. Nokkrum mínútum fyrir brottför var hins vegar tilkynnt í kallkerfinu að lestin færi af allt öðru spori sem var á allt öðrum stað í byggingunni. Upphófust nú mikil hlaup og verður að viðurkennast að hvívínsglösin uðru okkur þar ekki til framdráttar! Þegar við loksins komumst á réttan pall sáum við í rauðglóandi afturendann á lestinni renna út af sporinu! Þið munið: Þetta var síðasta lestin til Uppsala og engin önnur væntanleg fyrr en um sjöleytið morguninn eftir! Nú voru góð ráð dýr! Einar stóð sig eins og besti neyðarlínustarfsmaður, var í beinu sambandi við okkur og fann næturrútu sem fara átti um einum og hálfum tíma síðar. Eftir þó nokkurt ráf fundum við loks rútustöðina og hraðbankaferð, Burger King ferð og pissustoppi seinna gátum við loks lagt af stað heim á leið! Ævintýralegt svona eftir á ... en ekki svo mjög meðan ég hélt enn að við þyrftum að sofa á lestarstöðinni!!!

Að sjálfsögðu var svo haldið í Ekeby By á sunnudeginum. Ingi og María voru ánægð með kaffið, saftið og bollurnar!

Í Ekeby By var ein af kennslukonum Maríu að afgreiða og hún átti þennan ótrúlega sæta hund sem beið prúður fyrir utan! Fleiri rótgrónir Vängebúar voru við kaffiafgreiðslu á staðnum og það var alveg ljóst að við nýbúarnir skoruðum mörg stig með því að vera að koma í aðra og þriðju ferð okkar til Ekeby! Þeim virtist a.m.k. þykja mikið til þess koma enda skilst okkur að margir íbúar hérna viti ekki enn af þessum dásamlega stað!

Við héldum enn og aftur upp að myllunni, staðráðin í að láta hvorki hunangsflugur né maura stoppa okkur í þetta sinn! Ingi tók myndir eins og óður væri!

Systkinin komu sér fyrir uppi á steini í von um að forðast maurana þannig ...

... en allt kom fyrir ekki og María var AFTUR bitin af einum slíkum. Þessi mynd er nú án efa orðin ein af uppáhaldsmyndunum mínum ... hvílík sorg!

Við börnin flúðum því niður af hæðinni aftur en Einar og Ingi voru meiri hetjur og skoðuðu sig dálítið um í nágrenni myllunnar.

Eftir þessa miklu hættuför gengum við aðeins meira um svæðið ...

... skoðuðum lítil og sæt hús sem enn er búið í ...

... og falleg blóm!

Þessi eru voða vinsæl hér í nágrenninu!

Hugi Einarsson sem ætlar bráðum að verða leikskólastrákur hér í Svíþjóð!

Við föttuðum ekki fyrr en í þessari Ekeby By ferð að það liggja göng undir þjóðveginn svo maður þurfi ekki að hætta lífi og limum þegar maður hleypur yfir götuna!

Mamman er ótrúlega léleg í að taka börn á háhest og þótti systkinunum því mikill fengur að því að fá Inga! Með hans aðstoð gátu báðir farið á háhest í einu á leiðinni heim.

Þetta síðasta kvöld Inga í heimsókn (í bili!) lögðu þeir Einar í mikið samvinnuverkefni í tengslum við kvöldmatinn. Svínakjöt var marinerað og grillað, grænmeti þrætt upp á spjót, sveppar fylltir og kartöflur bakaðar. Ég gerði ekkert annað en að þakka fyrir mig!!!

Hugi og María grínast við kvöldverðarborðið! Að sjálfsögðu sáu grillmeistararnir þeim sérstaklega fyrir pylsum og brauði!

Við kvöddum Inga með söknuðu morguninn eftir og vonumst auðvitað til að fá hann sem allra fyrst aftur!!!

 

!