Í garðinum

Á þessum árstíma líður okkur Konsulentunum eins og húsið okkar hafi tvöfaldast að stærð ... eða að minnsta kosti að tvö rúmgóð og falleg herbergi hafi bæst við: garðinurinn fyrir framan húsið og sólpallurinn fyrir aftan. Það sem er einna skemmtilegast við þessi tvö herbergi er að þangað koma gestir sem við fáum yfirleitt ekki inn í húsið (og værum sennilega ekkert allt of hress með að hafa í heimsókn þar)!

  

Þessi fallega bjalla heimsótti okkur til dæmis um daginn og þáði gómsætar veitingar úr rósinni undir eldhúsglugganum! Ég ákvað að birta tvær myndir þannig að þið gætuð séð hvað liturinn á skelinni breytist eftir því hvernig ljósið brotnar á henni. Allt frá því að vera skærgræn yfir í að vera koparlituð eða rústrauð.

Um daginn tók María eftir því að lítill fugl virtist gera sér tíðar ferðir í litla fuglahúsið okkar á bílskúrnum. Þegar hún fór að aðgæta þetta nánar heyrði hún ámátlegt tíst innan úr húsinu af og til. Við tókum því að fylgjast markvisst með umferð í kringum húsið og fljótlega áttuðum við okkur á því að fuglinn af tegundinni Svartvit flugsnappare væri búinn að gera sér hreiður þarna inni og kominn með unga. Hér sést mamman leggja af stað í enn eina veiðiferðina en þessi fugl veiðir flugur á flugi og það er hreint ótrúlegt að fylgjast með honum að störfum.

Og hér er hún í nærmynd með flugugrey í gogginum, lítur vel og vandlega í kringum sig og gengur úr skugga um að engar óvættir séu í nágrenni áður en hún stingur kollinum inn og matar litlu ungana sína. (Takið eftir eplinu þarna til hægri, það er útlit fyrir meteplauppskeru í ár!)

Það hefur gengið svo óskaplega vel með dalíurnar mínar að ég fylltist sjálfstrausti um daginn og keypti mér eina í viðbót, rauða og risastóra.

Það hefur rignt heilan helling hjá okkur undanfarið en það hefur reyndar ekki angrað mig nokkurn skapaðan hlut. Bæði vegna þess að ég er að reyna að vinna í grein og þá er ekkert sérstaklega hvetjandi að vera með sól og hita fyrir utan gluggann og svo þykir mér fátt notalegra en að heyra regnið bylja á þakinu. Hér er María vel búin til fótanna á einum slíkum degi!

Um daginn fengum við heldur betur skemmtilegan og kærkominn gest í garðinn! Í kvöldhúminu tókum við eftir litlum broddgelti sem spígsporaði um á nýju stéttinni og virtist helst vera að leggja mat á handbragð Einars! Í þetta sinn hættum við okkur ekki út til að hann myndi ekki hlaupa í burtu (þeir komast ótrúlega hratt yfir!) heldur mynduðum hann bara út um eldhúsgluggann! Birtan var auðvitað ekki sem best og þrefalda glerið hjálpaði ekki heldur til þannig að myndirnar eru frekar óskýrar en staðfesta þó án vafa heimsóknina!

Broddgeltir fara af stað í ljósaskiptunum að leita sér fæðu og samkvæmt því sem ég hef lesið fara þeir þá yfirleitt alltaf sömu leið. Þar sem þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem broddgölturinn heimsækir okkur þykir okkur líklegt að þetta árið hafi hann valið að fara sinn hefðbundna kvöld- og næturrúnt um okkar garð. Jeij!

Mig hefur alltaf langað að eiga gælubroddgölt og hef fyrir lifandi löngu ákveðið að hann skuli heita Bátsmaður (eftir hundinum í Á Saltkráku). María er hins vegar búin að ákveða að þessi skuli kallaður Herra Bjössi.

Ungarnir í bláa húsinu stækka hratt! Nú sér maður þá vel og greinilega þar sem þeir teygja álkuna í átt að opinu og opna munninn eins og á hjörum þegar mamma kemur með matinn.

Rósirnar undir eldhúsglugganum, dalíurnar á tröppunum.

Enn meiri jafnvægisganga eftir pallinum. Það var þó sennilega meira til að skapa Kodak móment að drengurinn setti hendurnar í svona flotta jafnvægisstöðu!

         

Hopp og hí og hamagangur á Hóli.

Vinir mínir og fjölskylda vita að ég hef ánægju og yndi af að baka kanelsnúða! Í nálægt fimmtán ár hafa kanilsnúðarnir verið mitt aðalsmerki í bakstri og margur gesturinn hefur verið trakteraður með þeim. Undanfarið hefur hins vegar sótt á mig löngun til að poppa baksturinn aðeins upp og um daginn ákvað ég að baka kanilsnúðaköku og sulla yfir hana appelsínuglassúr. Ég er að segja ykkur það að þetta var alveg himneskt! Það var sérstaklega ánægjulegt að setja þennan stólpa í gastrónómískri hefð heimilisins í nýja búning, eins en þó allt öðruvísi. Og appelsína og kanill falla auðvitað eins og flís við rass hvort að öðru!

Það var ekki bara ég sem naut nýbreytninnar því aðrir fjölskyldumeðlimir voru jafnánægðir. Það er því aldrei að vita nema framtíðargestum verði boðið upp á þessa köku með kaffinu!

Jarðaberin okkar eru á ágætu skriði en vilja drekka mikið!

         

Mæðgin í kvöldsólinni næstsíðasta dag júnímánaðar.