I denna ljuva sommartid

Fyrstu dagarnir í júní hafa verið draumi líkastir hér á Konsulentvägen. Ekkert nema sól og sumarylur, blómstrandi rósarunnar, endalaus grill á pallinum, busl í buslulauginni og svo hefur mikið verið sungið og skrafað um stéttskipulag!

1. júní 2008

Fyrsta daginn í júní fórum við í pikknikk að skógarvatni í hér í nágrenni Uppsala ásamt Filip vin Huga af leikskólanum, foreldrum hans og bræðrum. Þeir félagarnir höfðu ákveðið að hittast þennan dag til að leika en þegar pabbarnir töluðu saman til að skipuleggja það nánar kom í ljós að báðar fjölskyldur höfðu hug á að fara í pikknikk í veðurblíðunni og úr varð að við fórum öll saman til Fjällnora. Hér eru vinirnir Hugi og Filip komnir í strandfötin og farnir að útbúa sandkastala á ströndinni.

María var auðvitað með í för og alsæl með þetta allt saman enda þykir henni fátt skemmtilegra en að busla svolítið í sjó eða vatni!

Þar sem það var uppundir 30° hiti þennan dag var svæðið pakkað af fólki í sömu erindagjörðum og við! Þrátt fyrir mannmergðina féllum við alveg fyrir þessum stað og eigum án nokkurs efa eftir að leggja leið okkar þangað oft í sumar. Á leiðinni að sjálfu baðsvæðinu gengur maður eftir litlum sveitastígum meðfram gróskumiklum högum þar sem kindur eru á beit. Aðstaðan á staðnum er líka frábær, litlar flotbryggjur hér og þar og að minnsta kosti ein úti á miðju vatni með dýfingapalli. Þarna er hægt að leigja kanó og báta og kaupa ís og pulsur í lítilli búð. Öðru megin við þetta strandsvæði er svo að finna hundabað og hinum megin er nektarströnd fyrir þá sem kjósa frjálslegri baðaðstöðu! Sem sagt allt til alls!

Og þarna í fjarska sitja þau Einar og Nick og Malin foreldrar Filips sem eru afskaplega huggulegt fólk! Nú held ég svei mér þá að ég sé alveg að ná þessu pikknikkdæmi og var vel útbúin þennan dag með svaladrykki, kaffi, brauð og álegg og svo kökuna góðu með greipglassúrnum (ég þarf nú endilega að birta hana hér við gott tækifæri)!

Strákarnir léku sér svo ótrúlega góðir saman allan daginn og María skottaðist milli þeirra og okkar á teppinu, buslaði í vatninu, las í Spiderwick bók og hleraði svo dálítið samræður fullorðna fólksins!

Þrátt fyrir að sumarið væri rétt að byrja var vatnið orðið nógu hlýtt til að hægt væri að synda og busla en í þetta sinn sáu börnin þó ein um þá deild. Við höfðum tekið sundfatnaðinn þeirra með meira upp á grín en að við ættum von á að hægt yrði að baða en datt ekki í hug að taka með slíkan útbúnað fyrir okkur sjálf. Við Einar vorum því óumdeilanlega mest klædda fólkið á ströndinni þennan dag ... en því miður ekki það best klædda!

         

Þótt vatnið væri hlýtt miðað við árstíma varð Maríu nú ansi kalt eftir allar ferðirnar þar sem hún óð upp að höku. Þá var nú gott að geta sest á teppið, vafið um sig handklæði og ...

... fengið sér eins og eina kökusneið!

Strákarnir voru minna í sullinu og meira í spædermanleikjunum ...

... eða þá að príla í litlu björkinni sem stóð kengbogin á miðju svæðinu.

Einar tók svo þátt í æsispennandi strandboltaleik, pabbar á móti unglingspiltum! Hér eru pabbarnir þrír í aksjón ...

... en unglingarnir fjórir þurftu auðvitað lítið að hafa fyrir því að rúlla þeim upp!

Litlu dúllurnar stóðu á kantinum og hrópuðu „Heja pappa“!

Einari til afsökunar hafði hann ekki spilað strandbolta (heitir þetta ekki það á íslensku?) síðan í Reykhólaskóla forðum daga! Eftir að leiknum lauk með tapi pabbanna héldum við aftur hem á Konsulentvägen, sæl eftir góðan dag.

2. júní 2008

Eftir skóla og leikskóla mánudaginn 2. júní smelltum við krakkarnir tveimur buslbölum upp á pallinum. María lét Barbí baða sig ...

... en Hugi var aftur á móti allur í sæskrímslunum.

Ég vökvaði jarðaberjaplönturnar okkar, las í sænskri glæpasögu og sleikti sólina.

Að sjálfsögðu er ekki hægt að binda ísinn við laugardagana í svona hitabylgjum!

Nudista-sundskóli Maríu!

Hræðileg innrás í sundskólann!

Stóru krúttin mín!!!

Þjóðhátíðardagur Svía, 6. júní 2008

Þann 5. - 8. júní fengum við litla fjölskyldan fjögurra daga helgi. Á fimmtudeginum var María í fríi frá sínum skóla og Einar og Hugi ákváðu þá að fá frí frá sínum störfum líka. Föstudaginn 6. júní var svo þjóðhátíðardagur Svía sem að vísu er bara nýlega orðinn rauður dagur og því lítil hefð fyrir fagnaðarlátum. Það gafst því gott næði til að vera heima á Konsulentvägen, njóta 30° hitans og sinna ýmsum verkum utandyra. Litla buslulaugin sem við keyptum fyrsta sumarið okkar hér eyðilagðist í fyrra og í ár var því ákveðið að festa í nýrri og mun stærri og betri laug. Systkinin vígðu hana glöð í bragði á þjóðhátíðardaginn.

Eins og sjá má var mikið fjör!!! Ég get ekki að því gert að ég fer alltaf að brosa þegar ég skoða þessa mynd!

Aðalstuðið er auðvitað að skvetta eins mikið í allar áttir og maður bara mögulega getur!

Rósarunninn við garðshliðið er loksins að springa út, svo dásamlegur alsettum litlum bleikum blómum.

Þarna bak við haf af bleikum rósum glittir í litla húsið mitt!

Það er nú ekki amalegt að sækja póstinn sinn á svona stað! Þarna fjærst er litli blái póstkassinn okkar sem ég opna eftirvæntingarfull á hverjum degi í von um einhverja skemmtilega sendingu!

Hin fegursta rósin er fundin ...

Þarna á tröppunum situr Einar í þungum þönkum og hugsar um stéttskipulag. Ekki þó í félagslegum skilningi, nei, hann var nú ekki háfleygari en svo að hann var að spá í hvernig hann ætti að raða steinunum í nýju stéttina sem við ætluðum að setja upp framan við húsið svo við gætum borðað morgun- og hádegisverð úti í sólinni.

En auðvitað þýðir ekki að hugsa of mikið í svona tilvikum heldur þarf að framkvæma! Því var ekki um annað að ræða en að hefjast handa og vona að útkoman yrði góð!

Eftir að hafa fylgst með Einari leggja fyrstu steinana kom ég að börnunum í þessum notalegu stellingum á pallinum, hvort í sínum sólstól að lesa bók!

Gægst inn um glufur!

Um kvöldið borðuðum við hátíðarmáltíð á pallinum í 27° hita og sól. Að sjálfsögðu var það hið rómaða og víðfræga Thai beef salat sem var á boðstólum! Hugi sá um borðskreytingarnar að þessu sinni og þóttu þær ansi viðeigandi!

7. júní 2008

Á laugardeginum var enn jafnfrábært veður og börnin voru enn og aftur komin í sundfötin og út á pall að lesa með ís í hönd!

Mamman fór líka í sólbað enda þurfti hún að slaka á eftir langan kóræfingarmorgun sem lauk með kór-pikknikki í leynigarðinum við dómkirkjuna!

Pabbinn lagði hins vegar steina í skugganum! Þarna var pallurinn nú farinn að taka á sig mynd þótt enn væri ríflega helmingurinn eftir. Það er ekkert smá mál að útbúa svona stétt, ég sem hélt að maður tæki bara upp grasið og raðaði steinum. Nei, það þarf að grafa djúpa holu, fylla hana af möl og sandi, passa upp á að allt halli samkvæmt nákvæmum útreikningum og að flöturinn sé sléttur ... og svo framvegis og svo framvegis! Þúsundþjalasmiðnum Einari er þó ekkert ómögulegt!

8. júní 2008

Á sunnudagsmorgninum var síðasti steinninn lagður með viðhöfn í stéttina!

Sko, þarna smellur hann ofan í ... tadamm!!!

Ekki var þó allt búið enn því næsta skref var að sópa fúgusandi í allar skorur.

Eftir enn einn sólbaðsmorguninn héldum við niður í bæ þar sem ég fór á kóræfingu í dómkirkjunni (sem þarna sést í fjarska) en Einar og börnin fengu sér ís niðri við ánna.

Það var enn steikjandi hiti en frekar mikill vindur sem gerði útiveru bærilegri. Þetta virðist vera mikil roktíð hér í Uppsölum því það var einmitt fyrir um það bil ári sem sólhlífin okkar sveif upp úr steypufætinum og tók borðið með sér á leið sinni yfir handriðið og út af pallinum!

Það er heilmikið mál að borða ís, allar taugar þandar til hins ítrasta og munnurinn opnaður upp á gátt!

Klukkan 18 þennan dag voru svo sumartónleikar kórsins míns, Schola Cantorum. Þar sem það voru 30° úti átti ég nú ekki von á að margir kæmu að hlusta en svalinn sem gjarnan fylgir gömlum, stórum kirkjum hefur greinilega haft sitt aðdráttarafl því það var fullt af fólki! Tónleikarnir gengu vel og mér fannst ótrúlega gaman að syngja fallegu sænsku, rómantísku sumarlögin, Nystedtana tvo, Poulenc og franska fuglalagið (þar sem kórinn gerði sitt besta til að leika gauk, næturgala og fleiri fugla). Svo sungum við líka sumarsálminn sem þetta albúm heitir eftir, „I denna ljuva sommartid“ (og á eftir ætla ég einmitt að byrja á bók með sama nafni!) og fleiri falleg lög. Einar, María og Hugi komu á tónleikana og krakkarnir voru svo ótrúlega dugleg, sátu þæg og prúð og hlustuðu full af athygli. Að tónleikunum loknum fannst okkur full ástæða til að fagna og héldum því á gríska staðinn Tzatziki sem stendur við ánna rétt undir dómkirkjunni.

         

Feðginin að snæðingi ...

         

... og við mæðginin.

Eftirréttirnir girnilegu komnir á borðið! Það vildi svo skemmtilega til að tveir aðrir kórfélgar fóru á Tzatziki eftir tónleikana til að fagna með sínum fjölskyldum, einmitt þau Sara og Magnus sem byrjuðu í kórnum á sama tíma og ég!

         

Hugi vildi endilega láta taka mynd af sér að drekka bjór og ég lét undan þótt mér liði dálítið eins og sóðalegri Barnalandsmömmu. Þrátt fyrir að flaskan væri galtóm og hefði þar að auki aðeins innihaldið léttbjór leist Maríu ekki á blikuna!

Þegar við komum heim eftir vel heppnað kvöld áttuðum við okkur á því að það er hreiður í garðinum okkar þrátt fyrir allt! Í fyrra gerði þrastarpar sér hreiður í vetrareplatrénu (eins og allir muna!) og sú hreiðurgerð hófst um miðjan apríl þannig að við gáfum upp alla von um að leikurinn yrði endurtekinn þegar komið var fram yfir miðjan maí án þess að nokkur hreiður hefðu verið reist á Konsulentvägen 2. En undanfarna daga hef ég séð tvo þresti fljúga í sífellu inn í og út úr stóra eplatrénu og ákvað að kíkja hvort það gæti nokkuð mögulega verið vegna hreiðurgerðar. Og það stóð heima, á einni greininni var þetta myndarlega þrastarheimili risið! Við vitum ekki alveg hvort fuglalífið er almennt eitthvað seinna á ferðinni í ár, hvort þetta tiltekna par er kannski bara svona óstundvíst eða hvort þau eru kannski bara að taka annan umgang. En hver svo sem ástæðan er erum við afskaplega stolt yfir að fá að vera gestgjafar verðandi foreldra og svo bráðum lítilla unga!