Í blábyrjun nýs árs

Nokkrar nýársmyndir af frosti og snjó, kakódrykkju og kósíheitum á Konsulentvägen!

Við byrjuðum nýja árið í snjóþotubrekkunni í Hammarskogen. Það kom því miður í ljós að ég kann ekki alveg að taka fínar myndir á nýju vélina í lítilli birtu utandyra svo það eru ekkert sérstaklega margar eða fínar myndir frá þessari annars góðu stund. En það er auðvitað bara skemmtilegt að hafa eitthvað verkefni að takast á við og ná tökum á nýrri tækni.

Við höfum ekki farið mikið út með Baldur Tuma í þessum fimbulkulda sem ríkt hefur hér að undanförnu. Og þegar hann fer út er hann veeeel klæddur. Hér kúrir hann því í vagninum sínum og hefur það gott undir ýmsum lögum af ull, skinni, dún og flís!

Stóri strákurinn minn í snjókomunni.

Nýja myndavélin gerir okkur Einari aðeins erfiðara fyrir í þessari klassísku uppstillingu. Sú gamla var nefnilega með handhægum skjá á hjörum sem maður gat snúið fram og séð hvað maður væri að gera. Nýja vélin býður ekki upp á þennan möguleika svo við miðum blint.

Rennsli.

Úti var áreiðanlega milli 15° og 20° gráðu frost svo það var gott að skella sér inn á herragarðinn og panta heitt kakó og kökur eftir dvölina í snjóþotubrekkunni. Við köllum Baldur Tuma gjarnan Birki Borkason þegar hann er í þessari múnderingu! Alla vega er ég viss um að Birkir hefur átt svona skinnhúfu, -lúffur og -skó! Við erum svo heppin að amma Kata kann að sauma úr skinni og hefur gert þetta allt sjálf og gefið okkur á hin ýmsu börn. Við hefðum sjálfsagt aldrei farið með Baldur Tuma út í þetta frost ef ekki hefði verið fyrir gæruna.

Notaleg stund í garðskála herragarðsins.

Feðgar, hver öðrum sætari.

Heimasætan hlæjandi.

Það þarf oft lítið til að gleðja Baldur Tuma. Hér er ósköp hversdagsleg teskeið um það bil að slá í gegn!

    

Sá litli ræður sér ekki fyrir kæti en pabbinn er greinilega eitthvað farinn að þreytast á brandaranum!

Grenitréð á flötinni fyrir framan herragarðinn var í jólaskrúða.

Okkur Maríu fannst svolítil Narníustemmning í skóginum.

Herragarðurinn kvaddur að sinni.

Komin heim í hlýjuna.

Baldri Tuma fannst gaman að það væri komið nýtt ár og hann gæti nú talið bæði 2009 og 2010 á afrekaskrá sinni!

Nýársmaturinn var dásamlegur! Mér finnst tilheyra að fá sér hugglegan samtíning einhvern jóladaganna og þetta kvöld var boðið upp á hangikjöt og heimabakaðar flatkökur, reyktan lax með piparrótarsósu og alls konar girnilega osta, brauð og kex. Við vorum öll hæstánægð með þetta eftir allt kjötátið.

Á öðrum degi nýs árs fórum við í göngutúr um Vänge í frosti og snjókomu. Hér eru systkinin þrjú að leggja af stað og mér þykir rétt að taka það fram að María er ekki með snuð heldur að blása tyggjókúlu!

Baldur Tumi var í Birkis Borkasonar múnderingunni!

Það verður að muna eftir smáfuglunum í svona frosthörkum. Þeir líta að vísu ekki við fína rauða eplinu en það er hins vegar eins og fínasta skraut í trénu.

Myndavélin prufukeyrð!

Upp á háum, háum, himinháum hól ... allan þennan snjó hefur Einar mokað á bílastæðinu okkar.

Rósarunni í vetrarskrúða. Ég hef reyndar hrikalegar áhyggjur af þessum runna þar sem hann hefur næstum allur lagst í jörðina undan snjóþunga og við svo ekki þorað að hreyfa mikið við honum þar sem frostið hefur verið svo mikið að allar greinar verða stökkar og viðkvæmar. Er einhver sem getur hughreyst mig og fullvissað um að runninn verði jafngóður næsta vor?!

Á Konsulentvägen í vetrarsól.

Hugi hleypur á undan með snjóþotuna.

Þetta hús eyðilagðist í hræðilegum eldsvoða fyrr í vetur. Það sprakk olíupanna í kjallara hússins sem varð alelda á nokkrum augnablikum. Hjónin sem bjuggu þarna og hundurinn þeirra náðu að bjarga sjálfum sér út en engu öðru. Við fjölskyldan vorum akkúrat á leiðinni heim úr bænum þegar þetta gerðist og ég hef aldrei upplifað eins hræðilega aðkomu og þarna. Það er eitthvað svo óhugnalegt við að mæta eldhafi þegar maður keyrir inn götuna sína.

Snjóberin alveg hætt að vera hvít sem mjöll.

Þetta er ein af ótrúlega mörgum misheppnuðum tilraunum til að fanga það á mynd hve umhverfið er fallegt svona þegar allt er á kafi í snjó og trén umhverfis alhvít. Ég kann hins vegar ekki betur að taka myndir en svo að snjórinn verður aldrei neitt sérstaklega áberandi! Þetta er augljóslega eitt af því sem ég þarf að æfa mig í á nýju myndavélina!

Sem ég stóð þarna og reyndi að fanga vetrarumhverfið sá ég mynd af litlu snjókorni fremst á linsunni á nýju myndavélinni og hugsaði með mér að þarna væri greinilega einhver stilling sem ég hefði ekki tekið eftir áður eða heyrt um, sennilega ætluð fyrir myndatökur í snjó (auðvitað eintóm óskhyggja þar sem mér gekk svo illa að taka þessar vetrarmyndir mínar!). Þegar ég var búin að stara í smá stund á þetta litla merki fattaði ég að þetta var ekki mynd af snjókorni heldur ekta snjókorn! Ég hef aldrei áður séð snjókorn með berum augum, auðvitað oft séð snjóflyksur en ekki eitt einangrað snjókorn. Mér fannst verst að geta ekki tekið mynd af fyrirbærinu en það var jú ómögulegt þar sem snjókornið var á myndavélinni sjálfri. Við nánari aðgát sá ég hins vegar að svona snjókorn voru út um allt! Hér sjást nokkur á úlpunni hans Einars (rennilásinn er ágætis stærðarviðmið!).

Og á rauða vagninum var ótrúlegt magn agnarsmárra snjókristalla! Ég geri ráð fyrir því að ástæðan fyrir þessu sé sú að það var ofankoma í miklu frosti, yfirleitt er jú að snjóa þegar það er í kringum frostmark en þarna var milli 10° og 15° frost.

Nú getur vel verið að ég sé bara eitthvað blind og að þetta sé mjög algengt í snjókomu þótt ég hafi aldrei séð svona áður! En mér líður alla vega eins og ég hafi þarna upplifað einstætt náttúruundur! Ég vissi ekki einu sinni að það væri hægt að sjá ískristalla með berum augum!

Komið heim í snjókomunni.

Við máttum svo til með að taka eina mynd af okkur undir sólhlífinni í frosti og snjó! Mér þykir samt rétt að taka það fram að hún var bara spennt upp af þessu tilefni, hefur annars verið lokuð. Ekki að það geri það nokkuð skárra að við séum ekki löngu búin að koma þessu inn í bílskúr en maður reynir eitthvað að klóra í bakkann!!!

Vantar ekkert nema sólarvörnina og svaladrykkinn!

Klifurjurt með vetrarhúfu.

Sauna nágrannans í snjókomu.

Eins og flest annað í garðinum lítur kartöflugarðurinn út eins og þar hafi einhver verið að vinna en bara rétt stokkið inn að fá sér vatnssopa og gleymt sér svo í fjóra mánuði!

Elsku litla fallega, hlýja og notalega húsið mitt!

Kakó og kósí fyrir framan arineldinn eftir göngutúr í frostinu.

Baldur Tumi og barnapía nr. 1!