Hugi 3ja ára

Að morgni þriðja afmælisdagsins vaknaði Hugi eldsnemma. Það hafði reyndar ekki tekist að koma honum almennilega í skilning um hvaða merkisdagur væri í vændum og því var hann ekkert sérstaklega upprifinn, enda morgunfúll með eindæmum! Hann hresstist þó til muna eftir hefðbundið afmæliskakó og ekki var verra þegar mamma og pabbi buðu honum að opna risastóran afmælispakka!

María fylgdist spennt með honum opna pakkann. Hún varð ægilega sár þegar hún var vakin og uppgötvaði að allir aðrir voru komnir á fætur. Í ljós kom að hún hafði alveg séð í hyllingum að við þrjú, hún og foreldrarnir, myndum vekja afmælisdrenginn með söng og gleði. Það voru því voðaleg vonbrigði þegar hún sá að þessar fyrirætlanir myndu ekki ganga eftir!

Einar þurfti að þjóta í vinnuna, eins og sést á þessari mynd!

Upp úr pakkanum kom þetta líka fína sjóræningjaskip sem Hugi hafði sýnt mikinn áhuga deginum áður og pabbi hans og systir keyptu með mikilli leynd!

Allt komið á sinn stað! Hugi hefur mest gaman af „kaðal“stiganum sem liggur utan á skipinu. Alla stiga kallar hann reyndar því undarlega nafni „fætitæki“ sem enginn veit hvaðan kemur! Eru slík tæki að jafnaði mjög vinsæl og skipið skorar þar með hátt!

Hugi horfir á aðfarir Maríu af mikilli athygli! Stóra systir gerir allt svo spennandi!

In the eye of the storm, I am still ... æ, nei, þetta er úr einhverri ilmvatnsauglýsingu!!!

Hugi og María fóru svo á leikskóla eins og vanalega en þar fá afmælisbörnin að draga fána að húni í tilefni dagsins. Beðið verður með frekara afmælishald þar til móðirin hefur lokið ritgerðum og faðirinn unnið nokkrar næturvaktir!