Hrekkjavaka 2008 

Hefð hefur skapast fyrir léttum hrekkjavökuhátíðahöldum hér á Konsulentvägen. Maríu og Huga þykir þetta alveg frábær dagur og virðast enn ekki hafa áttað sig á hvað það er í raun lélegt af foreldrunum að bjóða ekki upp á neitt annað en að þau banki upp á á eigin heimili og hrópi „Grikk eða gott?!“ Þau fá að vísu óhemjumikið nammi þennan dag svo kannski er engin ástæða til að kvarta!

Hér sjáið þið systkinin uppábúin í tilefni dagsins. Þau laumuðust út og bönkuðu svo „óvænt“ á hurðina út á pall og skutu okkur Einari skelk í bringu. Við gátum auðvitað ekki tekið sénsinn á að upplifa grikk frá þessum hryllingsverum svo við reiddum nammiskálina fúslega fram.

Úti á palli var líka graskerið góða sem Einar skar út að þessu sinni. Það var bara til eitt grasker í Ica Maxi þegar Einar kom þangað og neyddist hann því til að kaupa það þótt það væri riiisastórt. Sem betur fer var það þó afskaplega bragðgott og við eigum enn góðan slatta af kjöti sem hægt verður að nota í ýmislegt góðgæti!

Úhúúúúúúúú ...

         

Eftir að allar kryddjurtir eru horfnar úr eldhúsgluggunum hér á Konsulentvägen hefur María eignast notalegt horn. Þarna finnst henni notalegt að sitja, horfa út um gluggann eða jafnvel glugga í bók. Bókin sem hún var að lesa þennan daginn (en er auðvitað löngu búin með) var vel við hæfi enda nýjasta eintakið í uppáhaldsbókaflokki Maríu um Aramintu Spookie og fjallaði um vampýrustrák!

Að sjálfsögðu var löguð hefðbundin hrekkjavökusúpa. Hér bíða feðgarnir spenntir eftir að fá að bragða á þessari góðu graskerssúpu.

Reyndar verður að játa að Maríu og Huga þykir súpan ekki nándar nærri eins góð og okkur foreldrunum!

Í eftirrétt bakaði ég graskersmöffins. Þau voru mjög góð en kremið var alveg misheppnað! Reyndar var það allt í lagi þarna fyrsta kvöldið og svo breyttist það bara í einhverja ókennilega kvoðu!

Eftir kvöldmat þvoði María framan úr sér og kúrði sig í sjónvarpssófanum með pabba.

Hugi var hins vegar enn í fullum skrúða og úðaði í sig nammi!