Hreiður á Konsulentvägen

... sagan öll!

Eins og lesendur síðunnar vita eignuðumst við Konsulentarnir óvænta nágranna þegar þrastarhjón gerðu sér hreiður í vetrareplatrénu okkar nú í vor. Við fylgdumst spennt með tilhugalífi hjónanna, hreiðurgerðinni og svo auðvitað ungunum sjálfum, allt frá því þeir skriðu úr eggi og þar til þeir flugu úr hreiðrinu nokkrum vikum síðar. Hér fyrir neðan verður þessi dramatíska saga sögð í máli og myndum, frá upphafi til enda!

17. apríl

Þessi mynd hefur auðvitað birst hér áður en verður að fá að vera með þar sem hún sýnir bláupphaf sögunnar sem hér fer á eftir. Hér er sem sagt þrastarmamma/þrastarpabbi að útbúa hreiður. Efniviðurinn er kominn upp á grein en stráin eru enn í óskipulagðri bendu ... sem sagt steypujárn upp úr grunni og ónaglhreinsaðar spýtur!

27. apríl

Tíu dögum síðar var hreiðrið löngu tilbúið og ungamamman farin að sitja mikið á því. Af og til virtist hún mikið þurfa að skoða ofan í hreiðrið þannig að aðeins stélið stóð upp úr og grunaði okkur því að á þessum tímapunkti væru eggin komin. (Þessi mynd hefur líka birst áður.)

7. maí

Fyrstu vikuna í maí blómstruðu plómutrén okkar! Við áttum nú ekki von á neitt sérstaklega miklu þar sem aðeins hafði komið ein plóma á hvort tré í fyrra en sem betur fer fóru þau bæði fram úr okkar björtustu vonum og voru alsett litlum, hvítum og fíngerðum blómum.

Himneskt!

Sama dag og myndirnar af plómutrénu voru teknar var þessari smellt af ungamömmunni. Um þetta leyti fór okkur að gruna að komnir væru ungar í hreiðrið og nokkrum dögum síðar stalst Einar til að kíkja í ofan í það meðan frúin var fjarverandi og sá því til staðfestingar sofandi lítil ungagrey í hrúgu!

Þennan dag þótti líka rétt að mynda eplatréð sem var komið nálægt því að blómgast þótt það væri dálítið á eftir plómutrjánum.

14. maí

Viku síðar voru ungarnir festir á filmu í fyrsta sinn! Hér sjáið þið ungamömmu koma með fæðu handa litlu krílunum sínum og tveir gapa á móti (maður sér aðallega goggana enda eru þeir eiginlega ekkert nema goggurinn svona fyrst).

16. maí

Þessi mynd er tekin af ungunum aðeins tveimur dögum síðar og mér fannst þeir hafa braggast heilmikið á þessum stutta tíma. Það fór hins vegar að verða æ erfiðara að mynda þá úr kvistglugganum þar sem vetrareplatréð laufgaðist hratt. Okkur fannst alltaf dálítið undarlegt að þrastarhjónin skyldu velja hreiðri sínu svona berangurslegan stað en það stóð á endum að einmitt um það leiti sem ungarnir voru komnir sást varla í hreiðrið fyrir grænu laufþakinu. Náttúran lætur ekki að sér hæða!

   

Vetrareplatréð skemmdist þegar húsið okkar var byggt (það stóð s.s. á lóðinni fyrir) og því ber það eiginlega engin blóm og fáa ávexti eftir því. Hin eplatrén í garðinum voru hins vegar óðum að springa út um þetta leyti. Hér sést stóra eplatréð í fullum blóma. Það komu reyndar mun færri blóm á það en í fyrra (Einar var hér að skoða húsið einmitt um þetta leyti) en við vitum ekki alveg af hverju það stafar, hvort það er veðurfarslegt atriði, hefur eitthvað með það að gera hvernig við klipptum það í vor eða er jafnvel bara háð duttlungum eins og margt annað. Í ofan á lag gekk einstaklega illa að festa blómin á filmu þannig að þau blóm sem komu sjást einhvern veginn ekki einu sinni almennilega á myndunum!

17. maí

Það var dagamunur á ungunum um þetta leyti og nú fóru loksins að nást myndir af einhverju öðru en bara goggunum! Hér er ein dúlla með hárstrýið upp í loftið! Þessi mynd er tekin nákvæmlega mánuði á eftir þeirri af hreiðurgerðinni. Góðir hlutir geta því greinilega líka gerst hratt!

Þrír goggar ... mér fannst alltaf eins og þeir væru að slaka á í sólbaði þegar þeir voru í þessari stellingu!

Einmitt um þetta leyti stóð clemantis klifurjurtin okkar í blóma.

    

Ungarnir eru ansi heimtufrekri á mat og mamman fór áreiðanlega á kortersfresti að sækja eitthvað handa þeim í gogginn. (Ég sé það núna að ótrúlegt magn líkinga sækir í þetta tímabil í lífi fugla sem þeir eru með unga og hreiður. Vel þekkt myndmál á borð við „sækja í gogginn“, „hreiðurgerð“ og „fljúga úr hreiðrinu“ koma stöðugt fyrir í þessu albúmi nema bara ekki í yfirfærðri merkingu!) Um þetta leyti fór ungamamman líka að vera afar vör um sig og passaði ungana sína vel. María og Hugi eru með sandkassagemling beint undir trénu og hún lét þau ekki í friði, var stöðugt að steypa sér niður á þau með óhljóðum og reyna að fæla þau frá. Steininn tók úr þegar bombu var varpað á Huga þar sem hann sat í mestu makindum í miðjum ofurhetjuleik!

21. maí

Aðeins nokkrum dögum síðar tók ég eftir að ungarnir voru flognir úr hreiðrinu! Þetta kom mér gjörsamlega í opna skjöldu þar sem mér fannst þeir bara ný„fæddir“ og enn svo mikil grey! Og reyndar voru þeir eiginlega nýfæddir, þessi mynd er tekin nákvæmlega viku á eftir fyrstu ungamyndinni! En grey voru þeir ekki! Nei, þarna flögruðu þeir milli greina vetrareplatrésins og báru sig nokkuð vel þrátt fyrir að þeir færu ekki langt og að enn skorti augljóslega dálítið upp á flugfærnina.

Mér finnst þessi mynd æðisleg!!! Þarna er einn unginn eitthvað að æfa sig í flugtaki en það lítur einhvern veginn út eins og hann sé bara að stíga vals þarna á greininni!

Sem betur fer voru þó ekki allir ungarnir orðnir nógu þroskaðir til að halda út í hinn stóra heim alveg strax og tveir héldu sig því alveg í hreiðrinu þennan dag. Mér finnst þetta hárstrý þeirra svo krúttlegt!

Þrír flögruðu hins vegar um í garðinum og hér má sjá tvo unga á grein.

Mamman hugsaði þó enn vel um börnin sín, sat hjá þeim sem enn voru í hreiðrinu og fylgdist vandlega með þeim sem voru farnir að fikra sig af stað út í veröldina. Hún var alveg brjáluð þennan dag ef maður nálgaðist tréð og ég varð því að sæta færis og taka myndir þegar hún fór í ormaleiðangra. Mér finnst þessi mynd alveg ótrúlega krúttleg! Svipurinn á neðri unganum alveg óborganlegur ... og eiginlega bara á þeim báðum!

  

Eftir því sem leið á daginn urðu ungarnir frakkari og færðu sig meira um. Hér er einn kominn yfir í plómutréð sem á þessum tímapunkti var búið að fella blómin og orðið alsett grænum laufum. Þennan dag voru, sem fyrr sagði, tveir ungar í enn í hreiðrinu og hinir þrír héldu sig að mestu í trjánum hér við Konsulentvägen númer 2. Daginn eftir voru hins vegar allir flognir af stað og greinilega farnir að fara í langferðir. Síðan þá stendur hreiðrið autt. Ég verð að játa að ég var pínulítið döpur innst inni og saknaði unganna minna. Sem betur fer hafa þeir þó ekki enn yfirgefið mig alveg. Þeir eru oft hér í garðinum að skottast þótt þeir hafi bara skamma viðdvöl í einu ... og orðnir svo stórir og duglegir!!!