Vorferð til Hollands

Þann 2. - 5. apríl dvaldi ég í góðu yfirlæti hjá Ingu, Vigni og Björtu Ingu í Haag. Þetta var sannkallað húsmæðraorlof og Holland tók á móti mér með öllu því vori og allri þeirri fegurð sem hugsast getur! Þar átti ég dásamlega daga við kaffidrykkju og kökuát, bæjarrölt og búðarölt, yndi og ánægju, gleði og gaman.

 

Laugardagurinn 2. apríl ... flogið til Amsterdam eldsnemma morguns, sólin sleikt í Haag og ýmsar ævintýralegar kompur og kytrur skoðaðar.

Inga kom og sótti mig á Schiphol og þaðan lá leiðin beint með lest til Haag og tramma á Buijs Ballotstraat. Inga var búin að baka súkkulaðiköku og lagaði góðan kaffibolla handa þreyttum ferðalangi þegar áfangastað var loks náð.

Í fallegu stofunni hennar Ingu var svo kakan var borðuð og kaffi drukkið (úr þessum ákaflega fallegu postulínsbollum sem hollenska húsmóðirin keypti á leiðinni heim og ég fékk að velja fyrir hana!!!) Um svipað leyti komu Björt og Vignir heim úr gönguferð í sólinni og settust niður með okkur.

Eftir stutt stopp í Inguhúsi héldum við vinkonurnar í könnunarleiðangur um Haag. Borgin skartaði sínu fegursta og brumhnappar og blóm á hverri trjágrein. Við vorum alveg heillaðar (og alveg blindaðar af sólinni ... samanber undarlegan svip á mér á þessari mynd!).

Hvergi var fegurðinn meiri en á magnolíutrjánum sem stóðu í blóma ...

... er þetta ekki annars alveg örugglega magnolíutré? Svanhildur?!

Við ætluðum að reyna að taka mynd af okkur með tréð í baksýn en það gekk ekki betur en svo að aðeins eitt blóm af svona milljón náðist inn á myndina!!!

„Mig langar í þennan“ ... segir Inga þegar hún skoðar í glugga uppáhaldsbúðarinnar sinnar! Hvern langar ekki að versla dálítið þarna?! Við eyddum deginum svo í að skoða hressilegar verslanir í Haag, sötruðum bjór á útikaffihúsum og borðuðum indverskan mat um kvöldið!

 

Sunnudagur 3. apríl ... morgunkaffi á Buijs Ballotstraat og dásamleg ferð til Amsterdam þar sem túlípanar, síki og verslanir voru skoðuð.

Það var ekki bara ég sem gisti á heimilinu þessa nótt heldur var hún Áróra, dóttir Guðrúnar Hrundar og Gunnars, líka í heimsókn! Þær frænkurnar byrjuðu daginn á að fara í sumarkjóla og léku sér saman meðan sólin skein inn um risastóra gluggana.

Björt var í senjórítudressi!

  

Inga var húsleg á sunnudagsmorgni! Þegar ég fór loks á fætur var hún búin að skella í bananabrauð. Hér aðgætir hún baksturinn í ofninum og fylgist með að mjólkin í kaffið sjóði ekki upp úr á hellunni.

Björt fór út í gönguferð með pabba sínum og kom dálítið slösuð til baka, með sár á hnénu og rispur á sköflungnum ... það tók dálítið á og taldi daman ekki útlokað að hringja þyrfti á sjúkrabíl!

Við Inga lögðum svo af stað til Amsterdam. Hér kemur stúlkan, heldur vonsvikin á svip, út úr búð sem ekki seldi miða í trammann.

Enn fleiri dásamleg blómatré í Haag. Litli depillinn á myndinni er fluga!!!

Eftir óvenjulanga lestarferð vorum við komnar til Amsterdam. Borgin tók á móti okkur í sínu fínasta pússi, sólin skein og mildur andvari liðaðist yfir síkin. Við vorum glaðar!

Húsin í Amsterdam eru löng og mjó. Orsökina skilst mér að sé í því að finna að einhver gjöld (sem ég man að sjálfsögðu ekki hver eru) eru miðuð við fermetrafjölda á jörðu. Þeir sem vilja vita meira verða að tala við Ingu!

Á einni sexsjoppunni var verið að viðra sængur eftir átök næturinnar! Hafi okkur þarna tekist að ráfa inn í Rauða hverfið þá ráfuðum við grunlausar beint úr úr því aftur því engar fleiri sjoppur af sama toga urðu á vegi okkar, né konur í gluggum!

Á einni síkisbrúnni settumst við niður og fengum okkur hádegisverð og nutum sólarinnar. Einmitt á þessu augnabliki barst mér svohljóðandi sms frá Einari: „Erum úti á róló að leika í snjónum“! Einhvern veginn var allt önnur stemmning í Amsterdam!

Mörg gömlu húsanna eru orðin dálítið skökk ... eins og til dæmis þetta.

Hvíti bjórinn með sítrónunni og stapparanum sló í gegn!

Á aðaltorginu í Amsterdam var tívolí. Þetta var örlítið tilkomumeira en það á Miðbakka og Parísarhjólið var sérdeilis glæsilegt.

Við létum það samt alveg eiga sig að fá okkur snúning enda ég enn töluvert ferðaveik eftir lestina!

Eftir drjúga ferð í H&M var haldið á blómamarkaðinn. Þvlílíka og aðra eins paradís á jörðu hlýtur að vera erfitt að finna fyrir blómaáhugakonu eins og mig!

Þarna er ég með einhverja dásamlega trópíska jurt í baksýn! Það hefði nú ekki verið amalegt að geta kippt einum svona potti með sér til að stilla upp í stofuglugganum!

    

Örlítið brot af túlípanaúrvalinu á markaðnum!

Túlípanar, rósir anemónur, sólblóm ... bara allt!!!

Við Inga féllum kylliflatar fyrir ljósbleiku túlípönunum og keyptum einn stóran vönd. Ákváðum að láta þessa rauðu og gulu fljóta með. Samtals voru þetta 100 túlípanar sem voru keyptir á þúsund krónur íslenskar eða þar um bil. Mun vandasamara var að finna vasa á heimilinu undir blómahafið en að greiða fyrir það!

Við héldum áfram að rölta um borgina, sleikja sólina, drekka í okkur andrúmsloftið og anda að okkur ilminum af túlípönunum hundrað! Inga og síki og húsalengja þar sem flest húsanna voru frá 17. öld!

Þessi mynd er í uppáhaldi hjá mér enda nær hún svona nokkurn veginn að fanga stemmninguna.

  

Kaffihúsaferð í góðum félagsskap, falleg hús, trén í vorskrúða, fuglar að flögra, fólk að sigla á síkinu og allir í kringum mann svo glaðir yfir lífinu og tilverunni! Augnablik til að eima og setja á flösku sem svo hægt væri að fá sér örlítinn sopa úr ef maður þyrfti á upplyftingu að halda!

Á leiðinni í lestina gengum við aftur í gegnum tívolíið góða. Inga lét ekki freistast af böngsunum sem í verðlaun voru í pílukastkeppninni!

Ég með draugahúsið í baksýn ...

... og þar var þessi „draugur“ sem okkur þótti dálítið fyndinn!

 

Mánudagur 4. apríl ... heimsókn í barnaskóla, Haag-rölt og heimildamyndakvöld.

 

Er nokkuð hægt að hugsa sér notalegra morgunkaffi? (Eitthvað voru túlípanarnir samt slappir eftir borgarröltið daginn áður!)

Þeir voru samt dásamlega fallegir og einhvern veginn tókst að koma þeim öllum í vatn þó til þess þyrfti að draga fram alla koppa og kirnur heimilisins!

Rauða og gula gerðin var líka falleg!

Út um gluggann hennar Ingu er þetta fína útsýni yfir hverfið. Síðar um daginn fórum við í viðtal hjá skóla í hverfinu sem jafnvel stendur til að Björt fari í eftir nokkrar vikur. Í Hollandi byrja börn í skóla daginn eftir fjögurra ára afmælisdaginn sinn. Okkur Ingu leist vel á skólann og það er til marks um hversu frjálslegur skólastjórinn var að það virtist taka hann nokkra stund að átta sig á að ég væri ekki „hin mamman“!

  

„Súúúúúúúkkulaði kaka segr þú“ ... gæti Inga verið að segja á fyrri myndinni! Þarna erum við á kaffihúsi í Haag og sólin búin að yfirgefa okkur í fyrsta sinn í ferðinni. Þar sem tiltölulega stutt er síðan byrjaði að vora reyndist nauðsynlegt að renna upp í háls þegar sólarinnar naut ekki lengur við!

Ég keypti agalega fínt skapalón í hinni frábæru búð Hema. Svona fínt flórsykurmunstur munu allar mínar frönsku súkkulaðikökur bera í framtíðinni! Einari finnst að ég ætti líka að gerast graffitilistamaður!!! Eftir góðan dag í bænum var haldið aftur heim á Buijs Ballotstraat þar sem Vignir stóð fyrir heimildamyndakvöldi ... mér er gjörsamlega óskiljanlegt hvers vegna engin mynd af Vigni fyrirfinnst meðal alls þess fjölda sem tekinn var í ferðinni!

 

Mánudagur 5. apríl ... hjólreiðatúr, morgunkaffi hjá Guðrúnu Hrund og farið heim til Íslands síðla dags.

Björt Inga fékk þessa fínu peysu í fyrirfram afmælisgjöf frá mér. María fékk nákvæmlega eins og Björt var alveg með það á hreinu að þær yrðu eins og tvíburar!

  

Elsnemma um morguninn hjóluðum við í gegnum hverfið til að fara í morgunkaffi til Guðrúnar Hrundar, Gunnars og Áróru. Við tókum súkkulaðiköku með okkur í poka á stýrinu og náðum að pakka dálitlu sýnishorni af túlípanakaupunum frá því í Amsterdam inn til að færa húsráðendum! Mæðgurnar voru sætar og kátar í morgunsólinni!

Notalegt morgunkaffi í notalegum húsakynnum hinnar Faxaskjólssysturinnar!

Frænkurnar sætu ...

... og systurnar sætu!

Guðrún og Gunni eru með þessar fínu svalir og stelpunum fannst kominn tími á vorhreingerningu þar!

Allt of snemma var komið að kveðjustund. Björt varð eftir hjá Guðrúnu meðan Inga fylgdi mér á flugvöllinn. Sem betur fér „kyssti hún mig í klessu“ áður en ég fór!

Ég fékk hjólið hans Vignis lánað en náði því miður ekki að hjóla eins mikið og ég hefði viljað. Leiðin lá beint aftur á Buijs Ballotstraat til að sækja ferðatöskuna (sem var orðin úttroðin af barnafötum!) og þaðan með tramma og lest á flugvöllinn!

Heimkoman var þó langt í frá slæm ... ég gat fengið að leika jólasvein þegar ég tók upp úr töskunum og gladdi fólkið mitt með hollenskum gjöfum!!!

Nú er stefnan bara sett á Holland 2006!!!