Hitabylgja

Síðustu dagana í júní gekk mikil hitabylgja yfir Svíþjóð, 30°, glampandi sól ... og því miður skrilljón trilljónir af moskítóflugum. Hér eru nokkrar hitabylgjumyndir.

Hér er Lilli litli léttklæddur í vögunni sinni að skoða dót og hlusta á tónlist. Það er spildadósakanínan hans Huga sem heldur uppi stuðinu og dótið er teikning eftir undirritaða sem hún útbjó einmitt fyrir sjö árum handa þeim síðastnefnda og hefur náð að flækjast með okkur milli landa. Samkvæmt einhverju sem ég las þarna endur fyrir löngu sjá ungabörn langbest svarta og hvíta tóna og miðað við áhuga Lilla á myndinni er það áreiðanlega alveg rétt!

Mamma og Lilli leggja sig saman. Voða voða notalegt!

Í upphafi hitabylgjunnar höfðum við það afskaplega gott og nutum þess í fyrsta sinn þetta sumar að borða kvöldverðinn úti á palli.

María og Einar voru eldhress og litli kúturinn kúrði í vagninum vel varinn undir flugnanetinu.

Myndavélin mín er orðin óttalega eitthvað léleg og á orðið erfitt með að taka myndir í fókus. Það sést samt vonandi alveg hvað þetta er sætur lítill stúfur sem við eigum.

Strákarnir eru komnir í meirihluta hér á Konsulentvägen og kúldrast hér allir þrír uppi í sófa. Þegar þessi mynd var tekin skein sólin látlaust úti en innandyra var enn nokkuð svalt og hægt að opna út á kvöldin og kæla húsið vel niður.

Litli í trópískri samfellu í sumarhitanum. Við héldum honum auðvitað alveg inni þessa heitu daga enda eiga sól og smábörn ekkert sérstaklega vel saman.

Berglind vinkona okkar sendi óskaplega fínan pakka frá Lúxemborg og í honum var meðal annars að finna þessa fallegu samfellu sem er ein af örfáum flíkum sem litli maðurinn á sem ekki er allt of stór! Takk elsku Berglind!

Mig er farið að gruna að gríðarmikið Top Model áhorf mitt á meðgöngunni hafi haft áhrif á drenginn, alla vega horfir hann alltaf einbeittur beint í linsu myndavélarinnar eins og hann hafi aldrei gert neitt annað en að láta mynda sig. Verra er ef hann hefur haft það upp úr þáttunum að skella sér í megrun eins og hann gerði beint eftir fæðinguna!

Þótt Lilli þyrfti að halda sig innandyra í hitabylgjunni nutu stóru systkinin sólarinnar á sundfötum einum saman. Þau kíktu þó við hér inni af og til, tóku smávegis í tölvuspil og spjölluðu við litla bróður.

Stóra systir og litli bróðir.

Þegar það uppgötvaðist að allar buslulaugar heimilisins voru ónýtar þurfti að fjárfesta í enn einni enda ólíft í hitabylgjunni nema geta dýft sér í kalt vatn af og til. Raunar gátu systkinin bara notað laugina fínu í tvo daga því eftir það fór að verða ólíft undandyra vegna moskítófaraldurs ... en meira um það seinna!

Þessi mynd verður að fá að fljóta með því það er svo augljóst á henni hvað Huga er orðið kalt af að sitja fyrir í 12° „heitu“ vatninu! Þarna er hann einmitt að spyrja mig hvort ég sé ekki að verða búin að taka myndir og svo stökk hann upp úr um leið og smellt hafði verið af!

Moskítófaraldurinn já! Í júní sköpuðust kjöraðstæður fyrir ákveðna gerð moskítóflugna til að fjölga sér hér í Uppsölum. Vanalega sjáum við ekki mygg hér þótt við höfum vaknað með eitt og eitt bit ef við höfum sofið við opinn gluggann. En núna sitja þær um húsið í stórum og þykkum svermum. Það sem verra er er að þessi tiltekna gerð mygg er sérstaklega árásargjörn og þeim eiginleikum gædd að stinga ekki bara á kvöldin og næturnar heldur hvenær sem er sólarhringsins. Verandi með ungabarn á heimilinu höfum við viljað halda flugunum úti og einmitt þegar hitabylgjan var í hámarki gátum við ekkert opnað út á kvöldin til að kæla okkur niður. Ástandið varð mjög fljótt óbærilegt enda fer fátt eins illa með geðslagið eins og að sitja sveittur í 30° hita innandyra og hafa lítið við að vera annað en að gefa brjóst og reyna að slá flugur niður með upprúlluðu dagblaði! Eina nóttina þegar ég var alvarlega farin að íhuga að fá mig bara innlagða á loftkældan spítalann einu sinni enn (og þá á geðdeild!) rifjaðist upp fyrir mér að ég átti í fórum mínum hræódýrar Ikeagardínur úr eins konar neti. Þær drifum við fram, klipptum niður og teipuðum svo fyrir gluggana með málningarlímbandi! Þannig gátum við opnað glugga án þess að fá flugurnar inn.

Það verður seint sagt að heimilið líti vel út í þessum undarlega búningi en maður lifandi hvað það var mikill léttir að geta opnað út aftur! Nú hefur hitabylgjunni slotað en faraldurinn er hvergi nærri rénum enda lifa flugurnar víst í 6-8 vikur! Sennilega munum við því halda áfram að búa við umsátursástand þar sem þarf að plana allar ferðir út fyrir hússins dyr vandalega til að minnka hættuna á að allt fyllist af flugum innandyra og takmarka bit fjölskyldumeðlima (við erum öll ansi illa útleikin nema Lilli sem hefur sloppið hingað til ... 7, 9, 13). Púff!