Hitabylgja

Eins og flestir vita vonandi fengum við að upplifa alvörunni hitabylgju aðra vikuna í ágúst. Við Bárugötufjölskyldan nýttum þessa góðu daga einstaklega vel og það er ljóst að þegar veðrið er svona þarf enginn að kaupa sér rándýrar ferðir á sólarströnd!

 

11. ágúst - hitametin falla í hrönnum

María og Hugi áttu ævintýralega daga á leikskólanum meðan á þessu blíðviðri stóð. Svona tók Hugi á móti okkur þann 11. ágúst þegar við foreldrarnir komum til að sækja systkinin! Þá voru þau búin að vera úti allan daginn að sulla í risastórum vatnsbölum. Hugi lét sig ekki muna um að skella sér út í þá og ákveðið var því að hentugasti klæðnaðurinn væri enginn!!!

Það gekk illa að drífa manninn í einhvern fatnað enda höfðu hitametin fallið í hrönnum um daginn!

Sumarleg stemmning á Drafnarborg!

 

12. ágúst - morgunn í Vesturbæ

María og Hugi á leiðinni á leikskólann þann 12. ágúst. Ég get ekki lýst því hvað það hefur verið dásamlegt að geta sent þau út á morgnana á stuttermabolum og sandölum!

Það er alveg ótrúlegt hvað það munar miklu að koma þeim af stað á morgnana í svona góðu veðri og þegar ekki þarf að dúða í jakka og húfur ... að ekki sé nú talað um blessaða útigallana og kuldaskóna!

Með morgunsólina í baksýn!

Hleypið okkur inn!!!

 

12. ágúst - síðdegi á Bakkastöðum

Eftir að börnin voru búin á leikskólanum og móðirin hafði steikt sig í sólbaði var haldið á Bakkastaði! Útsýnið þar var ekki af lakara taginu!

Þar fengu María og Hugi að dýfa sér ofan í buslulaugina. Þeim fannst upplagt að sameina það við smá hressingu! Skömmu eftir að þessi mynd var tekin uppgötvaðist hins vegar kúkur í lauginni (ákveðinn ungur maður liggur undir grun) og allir voru reknir upp úr!!!

Meðan laugin var tæmd, hreinsuð og fyllt að nýju léku krakkarnir sér við Ella frænda!

Hugi fékk að prófa sólgleraugu og fannst hann greinilega frekar fínn!!!

María var líka hin hressasta!

Mamman var hins vegar pínulítið sólbrunnin og hélt sig því bara í skugganum ... ekkert sérstaklega hress! Stíf sólböð tvo daga í röð var greinilega aðeins of mikið af því góða! Skaðinn var þó ekki varanlegur en köld sturta var nauðsyleg um kvöldið!

María hefur greinilega haft takmarkaðan áhuga á þessari myndatöku en þeim mun meiri á einhverju sem var að gerast utan rammans!

Komið vatn í laugina að nýju! Í þetta sinn voru krílin höfð í stuttermabolum til að koma í veg fyrir að eins illa færi fyrir þeim og mömmunni!!!

Það þarf kannski ekki að taka það fram en systkinunum þótti þetta alveg frábær skemmtun! Þau hefðu í það minnsta alveg verið til í að halda áfram fram á kvöld en skemmtunin var stöðvuð áður en að því kom!!!

 

13. ágúst - berjatínsla á Bárugötu

Á föstudeginum var frekar lítil sól þó enn væri hlýtt og notalegt úti við! Tíminn var því nýttur til að tína sólberin í garðinum á Bárugötu. María stóð sig gífurlega vel en Hugi hafði meiri áhuga á að setja berin bara beint upp í munn! Uppskeran í ár var sú stærsta hingað til og vorum við einstaklega stolt af því! Hins vegar finnst mér sólber alls ekki góð en sultan er svona rétt þolanleg!!!

Um kvöldið var svo sulta soðin í risapotti heimilisins! Uppskeran dugði í fjórar krukkur en hingað til höfum við aldrei náð að fylla fleiri en eina.

 

14. ágúst - sumardagur á Bakkastöðum

Það kom manni eiginlega alveg í opna skjöldu þegar laugardagurinn rann upp svona bjartur og fagur enda svartsýnin löngu búin að ná taki á manni. En sá dagur var síst verri en hinir þó lofthiti hafi verið eitthvað lægri. Við fjölskyldan brugðum okkur aftur í heimsókn á Bakkastaði til ömmu og Ella frænda! Börnin voru berháttuð enda einstaklega heitt í skjólinu við húsið hennar ömmu!

Hugi vildi nú helst smella sér yfir á rólóinn sem er handan götunnar og lét nektina lítið á sig fá! Foreldrarnir stöðvuðu hins vegar uppátækið við lélegar undirtektir strípalingsins!

Til að bjarga rólómálinu var ákveðið að græja laugina enda hafði hún vakið þvílíka lukku tveimur dögum áður. Amma þurfti hins vegar að bruna í búð til að kaupa vatnsslöngu og á meðan fengu María og Hugi inni í laug nágrannanna!

María alsæl!

Og Hugi líka!

Eins við foreldrarnir!

Fljótlega var laugin hennar ömmu hins vegar komin í gagnið og þar var plássið mun meira!

Hugi lærði að pissa standandi þennan dag enda ekki hægt að vera að hlaupa inn á kopp í þessari blíðu, hvað þá að vera með bleiu! Mamma þurfti nú samt að aðstoða smá!!!

Þau voru ótrúlega sæt að sulla!

Á Bakkastöðum hafa óskaplega fallegar rósir sprungið út í sumar, hér er smá sýnishorn.

Einar lét sig ekki muna um að fara upp á þak til að vökva fyrir tengdamóðurina.

Þessi er sígildur ... Einar að pissa uppi á þaki!!!

Aðalstuðið var að fá sitt hvort litla handklæðið sem hægt var að rennbleyta og fleygja með miklum gusugangi í laugina! Þetta var heilmikið mál og á milli voru gluggar og þil þvegin rækilega með handklæðunum góðu!

Það fór svo sannarlega vel um krakkana!

Sjáðu, pabbi er uppi á þaki að taka mynd af okkur!!!

Þeir sem stóðu nálægt lauginni fengu undantekningalaust yfir sig miklar vatnsgusur!

Útsýnið ofan af þaki var hreint ótrúlegt! Þarna blasir Esjan við og varla ský á himni! Hins vegar læddust af og til einhverjir þokubakkar þarna meðfram ströndinni en þeir fóru sem betur fer fram hjá okkur!

Ég hafði það náðugt í sólinni og reyndi að jafna aðeins sólbrúnkuna meðan ég las í Vernon G. Little (er reyndar bara rúmlega hálfnuð en mæli hiklaust með henni!).

Einar enn uppi á þaki!

 

14. ágúst - síðkvöld á Eyrarbakka og Stokkseyri

Þar sem María og Hugi heimtuðu að fá að gista hjá ömmu sinni eftir þennan frábæra dag ákváðum við Einar að skella okkur austur fyrir fjall og borða á hinu margrómaða humarhúsi, Við fjöruborðið, á Stokkseyri. Eftir matinn nutum við útsýnisins yfir fjöruna og fallegs sólarlags.

Kannski þessi mynd sé svolítið táknræn fyrir þetta kvöld enda má eiginlega segja að hitabylgjan hafi fjarað út einmitt þá. Þarna standa sólstólarnir mannlausir í kvöldsólinni enda komið rok og tekið að kólna verulega aftur!

Mér fundust þeir samt óskaplega fallegir svona einir og yfirgefnir!

Íslenska rokið tók hressilega í þarna í fjörunni og dró mann niður á jörðina aftur eftir ævintýralega og óraunverulega daga í hitabylgju.