Hinar og þessar aprílmyndir

Hér eru nokkrar myndir teknar í apríl sem af einhverjum ástæðum fengu ekki pláss í hinum albúmunum! Ykkur sem ekki langar að fylgjast með stórstígum framförum mínum á saumabrautinni bendi ég á að skrolla bara hratt niður þetta albúm!

 

         

Í byrjun apríl hóf ég gífurlega smekkaframleiðslu! Hér eru tvö sýnishorn af þeim sem ég bjó til í þessari lotu og ég var og er mjög ánægð með þá báða!

Og smá nærmynd af áletruninni! Það tók áreiðanlega tíu tilraunir að fá nafnið til að sitja sæmilega vel á efninu en það var samt ótrúlega gaman að stimpla þetta á!

Allt í allt gerði ég tíu smekki handa tveimur börnum! Þeir vinir mínir sem ætla sér að fjölga mannkyninu mega alveg eiga von á því að holskelfa af smekkum steypist yfir þá!

Ég saumaði líka þessa prjónatösku í afmælisgjöf handa Svanhildi vinkonu minni. Ég er líka ægilega stolt af henni!

  

Bláa efnið í fóðrinu fékk ég í saumabúð hér í Uppsölum en Lísu í Undralandi-efnið keypti ég á netinu. Ég er búin að panta svo hrikalega mikið á netinu eftir að ég fékk þessa saumavél að ég held að Einar sé farinn að sjá allsvakalega eftir að hafa gefið mér hana miðað við öll aukaútgjöldin!!!

  

Ég spreytti mig líka á því að sauma efnisbúta á safmellur og boli en verð að játa að það tókst nú kannski ekki alveg nógu vel hjá mér. Ég þarf að æfa mig aðeins meira í því að sauma á svona efni sem teygjast og gefa eftir. En árangurinn er nú samt alveg þolanlegur, er það ekki?

Spilakvöld hjá Konsulentum! Við tökum stundum smá spil saman eftir kvöldmat en fyrir háttatíma. Hér erum við að spila hið skemmtilega og ekki síst undurfallega Jip en Janneke spil! (Oh, mig langar aftur til Hollands!) Við Einar ákváðum að fá okkur tesopa yfir spilinu og börnin vildu endilega smakka líka! Ég þarf væntanlega ekki að taka það fram að þeim þótti þetta mjög vondur drykkur ... og var teið þó með súkkulaðibragði!

Hugi er allur að koma til í spilamennskunni! Takið sérstaklega eftir armbandinu sem hann ber en hann bjó það sjálfur til á leikskólanum og er afskaplega stoltur af því!

Feðginin horfa rannsakandi á Huga líkt og þau gruni hann um svindl!

Þessar myndir keypti ég í lítilli antikverslun í bænum um daginn. Mér þykja þær ótrúlega sætar og finnst ég aldeilis hafa gert góð kaup þar sem stykkið kostaði bara 40 krónur sænskar (tæplega 400 krónur íslenskar á gamla genginu). Er það ekki bara svona sirka það sem kostar að kaupa sér kaffibolla á íslensku kaffihúsi?

Um daginn fórum við í Blomsterlandet og þar féll ég kylliflöt fyrir þessari orkideu. Áður hafði ég verið búin að heita sjálfri mér því að kaupa engar aðrar orkideugerðir framar en bara þessa „venjulegu“ (phalaenopsis sem sagt). Ég kann nefnilega ekkert á aðrar gerðir og þær drepast alltaf hjá mér á mettíma. En þessari féll ég sem sagt alveg fyrir enda er hún svona fallega bleik og svo ilmar hún alveg dásamlega!

Nú er ég búin að eiga hana í svona tvær vikur og hún er alla vega ekki dauð enn!

Um daginn vorum við Hugi heima saman einn virkan dag (ég man ómögulega út af hverju hann fór ekki á leikskólann þarna en hann hefur af ýmsum ástæðum verið dag og dag heima að undanförnu). Einmitt þarna voru um 20° úti og glampandi sól og við mæðginin brugðum okkur því út í garð þar sem Hugi lék sér og ég las í bók og drakk kaffi á tröppunum. Þessi notalega stund fékk þó skjótan enda þar sem Hugi datt beint á brenninetlu og þurfti að fara inn til að kæla höndina. Æ, elsku karlinn, tárin streymdu niður kinnarnar og ég skil hann vel því þetta er alveg ferlega óþægilegt.

Hann virðist líka taka öllu svona húðáreiti afskaplega illa og hlaupa mjög mikið upp. Sjáið þið ekki hvítu hnúðana á úlnliðnum? Úff, mér verður bara illt af að skoða þessa mynd. Bólgan hjaðnaði samt hratt og kláðinn og sviðin dofnaði þannig að hann var orðinn alheill um kvöldið.

Einar er í miklum framkvæmdahug þessa dagana og tókst að draga mig með í Beijer einn sólríkan laugardag í apríl. Þar sem hann er alltaf svo þolinmóður þegar ég dreg hann með mér í búðir sem ég veit að honum þykja afskaplega óspennandi reyndi ég að sýna byggingavörunum í Beijer mikinn áhuga og fékk hann meðal annars til að prófa svona alvöru vinnumannaföt! Við hlógum og skemmtum okkur mjög yfir þessu vesti en því miður voru ekki alveg forsendur fyrir því að kaupa svona græjaðan útbúnað þar sem Einar er jú aðallega að fara að moka mold og klippa trjágreinar! Það er enginn annar en Gunvald Larsson sem gægist þarna upp fyrir vestið!

Hér er einmitt mokstursvinnan í garðinum að hefjast! Þið fáið auðvitað að fylgjast með því hvernig þessum framkvæmdum vindur fram!

María og Hugi eru alltaf dugleg að hjálpa til!

Hér er svo enn eitt saumaverkefnið (sorrý, hvað ég er ótrúlega montin!). Þessa litlu, sætu Jóa og baunagrasið tösku bjó ég til handa litla, sæta stráknum mínum. Það sést kannski ekki alveg nógu vel á myndinni en annað handfangið er stutt en hitt langt og til þess að loka töskunni smeygir maður sem sagt langa handfanginu í gegnum það stutta. Ótrúlega sneddí! Ég verð reyndar að játa að það mistókst svolítið hjá mér að gera botninn og á tímabili var ég næstum búin að henda töskunni í ruslið þar sem ég taldi hana alveg ónýta. Ég ákvað samt að klára að vinna hana þó ekki væri nema til að vera reynslunni ríkari þegar ég gerði aðra tösku í staðinn fyrir þessa misheppnuðu. Útkoman var hins vegar ekki nærri því eins slæm og ég ímyndaði mér og mér finnst taskan bara sæt! Þið munið líka að viðhorf mitt gagnvart saumskapnum er að það taki því ekki að gera þetta sjálfur ef það líti hvort eð er út fyrir að maður hafi keypt það út í búð!

Á töskunni innanverðri er vasi og í hann saumaði ég nafnið hans Huga og símanúmerið okkar! Mér fannst það ótrúlega snjallt hjá mér! (Já, já, ég er agalega góð með mig!)

Strákurinn með töskuna sína sem er til dæmis tilvalin til að geyma einhverja dægradvöl í á ferðlögum!

     

Þennan dag var Hugi í fríi á leikskólanum þar sem mamma hans var með einhverjar liðbólgur í annarri öxlinni og treysti sér ekki til að keyra bílinn. Úti skein sólin og hitamælirinn sýndi 20° en það var alveg hífandi rok! Við mæðginin létum það ekkert á okkur fá og skelltum okkur aðeins út á róló sem er bara í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá litla húsinu okkar. Hugi elskar að klifra í þessu apparati!

  

Sandurinn fauk beint í augun á Huga í rokinu en hann lét það nú samt ekki á sig fá!

Meðan Hugi prílaði og mokaði sat ég á gömlum og fúnum bekk, drakk kaffi og las sænska glæpasögu ... härligt!!! Og þar sem ég er búin að ákveða að þetta verði besta vor og sumar í Svíþjóð í manna minnum þykist ég viss um að ég eigi margar svona stundir í vændum á næstu vikum og mánuðum!