Heimsókn og hitt og þetta

Á hrekkjavöku skárum við út grasker og bjuggum til graskerssúpuna okkar góðu. Þá bakaði ég líka graskersostaköku sem við María og Hugi brögðuðum á daginn eftir.

Kakan leit vel út en var því miður ekkert mjög góð, ein af fáum kökum sem hafa farið í ruslið hálfétnar hér á þessum bæ!

Í byrjun nóvember fór ég til Íslands til að vera leynigestur í sjötugsafmæli pabba míns. Ég skildi myndavélina eftir heima þannig að Einar gæti tekið myndir af stórviðburðum hér á Konsulentvägen í fjarveru minni. Hann tók þessa mynd - enga aðra! Ég hefði betur tekið myndavélina með og þá getað sýnt ykkur stórskemmtilegar myndir af því þegar leynigesturinn ég birtist óvænt í brunch á 19. hæðinni, af keramikmálun þar sem pabbi, Gitta og öll börnin skreyttu hvert sinn bolla, af súkkulaði á Mokka, matarboði hjá Þórunni, veislu í Borgarleikhúsinu, heimsókn til Svanhildar og kaffihúsaferð með Ingu. En í staðinn fáið þið sem sagt þessa mynd af Baldri Tuma á gamla rugguhestinum hans Huga. Hún er svo sem mjög sæt!

Tveimur dögum eftir að ég kom frá Íslandi kom Þórunn systir í heimsókn hingað til okkar. Baldur Tumi var ekki vitundarögn feiminn við hana heldur þótti honum ákaflega gaman að vera búinn að fá fleiri aðila til að stjana við sig og skemmta sér.

Þórunn fékk að upplifa hefðbundnar föstudagspizzur á Konsulentvägen.

         

En annars var þetta hennar helsta iðja þessa daga hér hjá okkur, að hlusta á geisladiska með Baldri Tuma, leyfa honum að skoða ljósin og takkana á græjunum og syngja svolítið með! Það var dásamlega krúttlegt þegar Baldur Tumi dró hana af stað með sér, teymdi að hillunni og benti upp á græjunar - og var þá augljóst hvað hann vildi.

Krakkarnir á Konsulentvägen ásamt móðursysturinni. Hugi var ekki eins dapur og hann lítur út fyrir að vera á þessum myndum!

Við Þórunn gerðum annars margt skemmtilegt, fórum í Iittala outlet, til Stokkhólms þar sem við sátum á Vetekatten og þræddum Gamla Stan, í innkaupaferðir í Uppsölum og svo sátum við mikið við eldhússborðið og drukkum kaffi eða í sófanum og prjónuðum. Því miður voru ekki teknar myndir af neinum þessara viðburða. En þessi af Þórunni og krúttunum stendur samt alveg fyrir sínu!

Lestrarstund í sófanum. Notalegt!

Svo flaug Þórunn aftur heim til Steina og stelpnanna og hversdagurinn tók við hjá okkur Baldri Tuma enn á ný. Ein eftirlætis dægradvöl þess stutta er að príla upp á stóla og opna/loka hurðum!

Svo fórum við út í snjóinn (sem kom aðeins of snemma þetta árið). Það var leiðinlegt, eins og sjá má!

Snjórinn festist í vettlingunum og allt varð blautt og skrýtið.

Það eina sem hægt var að gera í þessari stöðu var að æða út á götu og kanna hvort ekki væri skárra ástand þar - en þá komr mamma og stoppaði mann!

Baldur Tumi er óskaplega húslegur og vill gjarnan taka þátt í allri eldamennsku og uppvöskun. Hér er hann í óða önn við að búa til kaffi handa mér. Hann kveikir alveg sjálfur á kaffivélinni og svo hreyfir hann stöngina upp og niður, hellir vatni út í mjókurkönnuna og kann greinilega alveg að græja þetta!

Fyrsti lussebulla skammturinn!

Við strákarnir fengum okkur smakk við eldhússborðið en María sem var með vinkonu fékk heimsendingu upp í herbergi.

Hann Koko var í heimsókn hjá okkur þessa helgi og var alveg vitlaus í bullað. Koko er vinur krakkanna í 2A í Vänge skola og fær að fara heim með einu barni um hverja helgi.

Hingað til hefur raunin verið sú að mér tekst aldrei að baka lussebulla oftar en einu sinni fyrir hver jól. Það er því spurning hvort þetta var fyrsti og eini skammturinn þetta árið. Ég er að vísu búin að kaupa inn í annan skammt og geri mér því nokkrar vonir um að ná alla vega einum í viðbót.

Föstudagspizzubakstur í eldhúsinu. Baldur Tumi tekur þátt í honum eins og öðru.

Maður þarf að vera lítill og nettur til að komast fyrir milli skápa, svona sirka 78,5 cm og 10,5 kg!

Fysta snjóþotuferðin var farin í garðinum! Vakti hún almennt litla lukku ...

... það var helst að bros færðist yfir rétt á meðan hann vinkaði Maríu stóru systur sem kíkti á hann út um eldhússgluggann.

María er svo skemmtileg að það liggur við að maður gleymi alveg snjóþotuleiðindunum!

         

En svo rifjast þau skyndilega upp fyrir manni og þá er best að reyna bara að koma sér í burt!

Koko drekkur kakó með Huga. Koko átti annars náðuga daga hér hjá okkur og fékk meðal annars að koma með okkur í bíó að sjá Harry Potter. Hann vill að ég komi því til skila að hann varð ekkert hræddur, ekki einu sinni í slönguatriðinu!