Heiðmörk í september

Eftir þessa vel heppnuðu ferð til Þingvalla var eins og runnið hefði upp ljós fyrir litlu fjölskyldunni ... það er gaman að eiga notalegar samverustundir úti í náttúrunni og ferska loftinu! Nokkrum dögum seinna var því haldið í nákvæmlega þeim tilgangi upp í helstu útivistarparadís höfuðborgarsvæðisins, Heiðmörk.

Hér eru María og Hugi á leiðinni inn í skóginn ... Hugi spurði okkur reyndar í sífellu hvort þetta væri regnskógur! Hann er greinilega búinn að horfa einum of oft á Tarzan (sem hann reyndar kallar Parsan) heima hjá ömmu sinni!

Litli stígurinn sem við völdum okkur lá fyrst í gegnum þéttan greniskóg en svo tóku við kjarrvaxnar hæðir. Það var ævintýralegt að ganga í gegnum skógarþykknið, sjá bara glitta í himininn á stöku stað milli greinanna og fylgjast með samleik ljóss og skugga á stígunum.

Systkinin bregða á leik!

Þangað til börnin verða orðin nógu þroskuð til að ég treysti þeim fyrir myndavélinni minni (sem verður sjálfsagt aldrei!) verðið þið bara að þola endalausar sjálfsmyndir af okkur hjónaleysunum!

Þetta var einstaklega fallegur dagur og útsýnið ótrúlega flott ... hefði verið enn betra ef það hefði ekki verið einhver forljótur golfvöllur að þvælast þarna fyrir neðan!

Við fundum okkur notalega laut til að setjast í, sleiktum haustsólina og snæddum dálítið nesti. María var sátt við þeta allt saman og fannst spennandi að leggjast svona í lyngið!

Hugi með kókómjólk og súkkulaðikex ... þetta eru nú veitingar að hans skapi! (P.s. ... hann er að fara í klippingu á morgun!!!)

Við mæðginin á spjalli. Huga var tíðrætt um hve gómsæt górilluber væru ... annað merki um of mikið Parsangláp!

María kát með greniskóginn í baksýn.

Mér finnst þessi mynd alveg frábær, það er svo ótrúleg dramatík í henni! Finnst eins og hún gæti verið beint upp úr einhverri íslenskri kvikmynd ... einhverri sem gæti kannski heitið Vinnukonan á Hóli. María myndi þá leika forsmáða vinnukonu sem er jaskað út af húsbændum sínum en stendur þó að lokum uppi sem sigurvegari!

Systkinin skemmtu sér afskaplega vel í haustlitunum í Heiðmörk.

Allra skemmtilegast þótti þeim þó að klifra í trjánum og þarna var svo sannarlega nóg af þeim!

 

Víða voru svona skrælnaðir grenilundir þar sem öll trén voru visin og berar greinar stóðu í allar áttir eftir bolnum endilöngum og ekkert barr lengur eftir til að stinga sig á ... bara næstum alveg eins og stigi (a.m.k. í augum barnanna). Þetta þóttu þeim mest freistandi svæðin í ferðinni þó við foreldrarnir kysum frekar græna og rauðleita gróðursældina!

Svona ber voru út um allt í Heiðmörk en ég verð að játa fávisku mína ... ég kannast bara ekkert við þau. Allar upplýsingar vel þegnar.

María varð fljótt ansi dugleg í klifrinu og komst hátt upp í trén. Hugi sem vanalega er helsti klifurkötturinn á heimilinu varð að láta sér nægja að príla í neðstu greinunum á meðan.

Stelpan hátt uppi í tré ... mér finnst þetta ótrúlega fín mynd!

Litli bróðir var óskaplega spældur að komast ekki svona hátt og reyndi allt hvað hann gat að komast í sömu hæð og systirin. Sjáiði einbeitinguna sem skín úr svipnum?!

Maríu þótti rétt að kíkja eftir tröllinu undir brúnni! Sjálf er hún alveg eins og önnur þjóðsagnapersóna beint út úr hól!

Er þetta ekki hinn alræmdi og baneitraði Berserkjasveppur?!

Eins og flestum börnum þykir Maríu, og þó sérstaklega Huga, ofur skemmtilegt að bardúsa með stórar trjágreinar. Þarna komust þau í mikið gósenland!

Víða var dimmt og næstum drungalegt í skóginum ... en samt á þennan ævintýralega spennandi hátt.

Hugi með sína trjágrein ... hann lagði drög að því að flytja eitt svona ferlíki heim á Bárugötu en móðirin bannaði alveg slíkan innflutning!

Sveppagreifinn! Við fundum nokkra sveppi þó við værum sennilega allt of seint á ferðinni fyrir alvöru sveppatínslu. Einar kippti þó nokkrum stykkjum með í poka sem við höfum reyndar ekki hugmynd um hvort séu baneitraðir eða valdi jafnvel ofskynjunum! Það skiptir þó ekki öllu þar sem ég hef hvort eð er fyrirskipað að þeim verði hent hið fyrsta þar sem af þeim leggur megna pissufýlu! Á næsta ári væri einstaklega skemmtilegt að kynna sér íslensku sveppaflóruna fyrirfram og skreppa í Heiðmörk með huggulega bastkörfu á la Heiða í fjöllunum og tína ferska sveppi í matargerð! Í það minnsta erum við fjölskyldan spennt að skella okkur aftur í ævintýraferð í Heiðmörk.