Haustverk og heimsókn

Haustið kom nokkuð bratt hjá okkur þetta árið og strax 1. september þótti okkur ástæða til að kveikja upp í arninum - heimilismönnum til mikillar gleði! Úti í bílskúr biðu fjórir rúmmetrar af dásamlega fallegum birkivið og því ekkert að vanbúnaði.

Hin síðari ár markar þessi viðburður upphaf haustsins hér á Konsulentvägen. Reyndar hefur kannski ekki verið alveg nógu kalt til að kynda mikið þannig að suma af þessum septemberdögum hef ég eiginlega þurft að opna út á pall eftir að kulnað hefur í arninum þar sem það er orðið bakarofnsheitt í húsinu!

Fyrstu helgina í september héldum við til Södertälje ásamt góðvinum okkar Nick, Malin og Filip til að heimsækja hið ótrúlega skemmtilega vísinda- og tilraunasafn Tom Tits Experiment. Ég tók nú allt of fáar myndir enda hefði ég þá eiginlega þurft að vera með vélina stöðugt á lofti því allt var svo skemmtilegt! En hér má sjá Huga prófa hvernig er að vera í þyngdarleysi úti í geimnum.

María og Hugi í risalandi.

Félagarnir Filip og Hugi rannsaka innviði mannslíkamans ásamt Malin.

Þetta tæki var ótrúlega skemmtilegt! Báðir þátttakendur settu á sig svona smart ennisband sem nemur einhverjar heilabylgjur. Þeir eiga svo að reyna að slaka á og tæma hugann. Í glerrennunni milli keppendanna er svo bolti sem rúllar í áttina frá þeim sem nær meiri slökun, markmiðið er sem sagt a skora mark hjá hinum. Feðginin tóku fyrstu keppnina og Einar vann.

Næstir voru feðgarnir Nick og Filip ... og María hejaði!

Filip fór lét með að rústa pabba sínum enda var hann eins og besti zen-meistari þarna við borðsendann!

Hér er Malin í annarri skemmtilegri tilraun sem fólst í því að reyna að muna í hvaða röð ljósin í borðinu blikkuðu. Í hverri umferð var bætt við nýju ljósi fyrir aftan romsuna og samkvæmt bækling safnsins er metið í 11 ljósum. Ég gat hins vegar 13 og Malin 14 þannig að þeir þurfa greinilega eitthvað að fara að uppfæra þennan pésa sinn!!!

Safnið sjálft er á fjórum hæðum og svo er risastór garður í kring og þar er ýmislegt skemmtilegt að finna. Allra skemmtilegast þótti börnunum þó þessi vindvél þar sem hægt var að upplifa rok allt upp í 29 metra á sekúndu. Úti var grenjandi rigning þannig að þegar mesta vindhraðanum var náð fannst okkur Einari við nú bara komin heim til Íslands!

Krökkunum fannst þetta ógnarskemmtilegt og vildu endurtaka leikinn aftur og aftur og aftur! Nick og Malin standa í skjóli og fylgjast með hvar Filip fýkur burt og María og Hugi berjast við að halda sér á sínum stað!

Í Tom Tits er skemmtileg gjafabúð og þar keypti María sér efni í skopparaboltaframleiðslu. Daginn eftir ferðina til Södertälje hófst hún handa og bjó til hvern skopparaboltann á fætur öðrum. Ég var farin að sjá ægilega eftir að hafa ekki keypt svona dót til að setja í alla krakka-jólapakka ársins en varð afskaplega fegin að hafa ekki drifið í því þegar í ljós kom að aðeins nokkurra daga gamlir höfðu boltarnir alveg misst hæfileikann til að skoppa heldur dúndruðust bara í gólfið eins og grjót!

Þá er það handavinnumontið! Mér finnst svooooo skemmtilegt að gera svona smekki og nýti hvaða afsökun sem er til að halda framleiðslunni áfram. Hér eru nokkrir sem bættust í safn guðsonar míns, Arnaldar Kára, í september!

 

Ég elska bæði þessi efni!

Smá stimpiltilraunir! Skýjaefnið er sænsk hönnun eftir Gunillu Axen frá árinu 1964 ... minnir mig!

Apar, tré og dýragarður.

Og Kári sem er lítill vinur minn í Lúxemborg fékk þessa.

Kári fékk líka þessa húfu úr kasmír- og merinoullargarni. Ég hef aldrei gert svona djöflahúfu áður en fannst ótrúlega skemmtilegt að búa hana til svo ég mun áreiðanlega gera fleiri í framtíðinni! Nú langar mig reyndar voðalega í uppskrift að svona „gamaldags“ djöflahúfu sem er prjónuð á hlið ... einhver?!

Til að sýna hvað húfan er fín fékk ég hana Freyju litlu Maríudóttur til að sitja fyrir með hana. Hún er að vísu aðeins of stór á hana en þið sjáið hvernig þetta kemur út. Pilsið hennar Freyju gerði ég líka, byrjaði á því snemma árs og ætlaði eiginlega að gera kjól. Mér entist þó ekki kraftur í það og eftir að hafa grafið verkefnið neðst í prjónakassanum mínum tók ég það upp um daginn, breytti snarlega í pils og smellti á það bandi með smá svona kirsuberjaeffekt. Freyja á svo sína eigin eplahúfu í stíl en ég nenni nú ekki að birta mynd af henni (og þið nennið pottþétt enn síður að skoða hana!)!

  

Mamma mín átti afmæli í ágúst og ég sendi henni síðbúinn pakka í september þar sem meðal annars var að finna þessa sundtösku og -buddu sem ég saumaði. Efnið er svona vaxhúðuð bómull sem hrindir frá sér vatni þannig að það verður ekki allt gegnblautt. Já, já og buddan getur opnast og allt! Mér þykir rétt að sýna ykkur það þar sem ég þurfi allnokkrar atrennur að þessari buddu og það var alls ekkert alltaf hægt að opna!

Maríu þykir alveg ógeðslega skemmtilegt að fá að ryksuga, en þó sérstaklega skúra, í herberginu sínu! Spurning hvort ég ætti að fara að nýta mér þetta eitthvað markvisst?

     

Garðvinnudagur að hefjast á Konsulentinum! Hugi sveiflar sér í trjánum, María er í fýlu (aðallega plat þó) yfir að þurfa að vera úti og Einar sýnir okkur hvað hann er ótrúlega ósmart með rúllað upp á skálmarnar!

         

Aðalverkefni dagsins var að setja niður haustlauka. Hér er Einar að moka og María passar upp á tvær gerðir af krókusum áður en þeir fara ofan í moldina. Þið trúið ekki hvað ég er spennt að sjá þá koma upp næsta vor!

Fläderberin eru óðum að verða þroskuð. Við klikkuðum á að búa til saft úr blómunum í vor en það ku víst líka vera gott að safta berin svo það er spurning hvort við eigum enn séns. Það sem helst heldur aftur af mér er að fläderplantan er snarlík hinum svo kallaða druvfläder en sá er baneitraður! Þótt ég telji mig alveg vera búna að ganga úr skugga um að við séum með saklausan fläder í garðinum veit ég ekki alveg hvort ég legg í mikla matvælaframleiðslu!

Til að koma sem flestum haustlaukum fyrir bjuggum við til lítil beð í kringum nokkra trjástofna í garðinum. Hér er Einar að moka í sól og blíðu. Veðrið í september hefur verið afskaplega gott en dálítið svona „í og úr“ veður þar sem maður þarf að fara í jakka eða peysu ef það er skýjað (eða ef maður fer út snemma á morgnana) en er svo alveg að kafna úr hita um leið og sólin brýst fram úr skýjunum.

Meðan við Einar mokuðum og röðuðum laukum spiluðu systkinin fótbolta ...

... eða týndu epli. Þetta litla eplatré uppgötvuðum við síðasta haust. Við töldum fyrst að það hefði sáð sér sjálft þarna við lóðamörkin en samkvæmt öllum fræðum ætti það þá ekki að bera ávexti. En í sumar kom hellingur af pínulitlum og krúttlegum epum á það svo mögulega er sú kenning fallin. Nema að eitthvert af hinum trjánum í nágrenninu frjóvgi það. Nei það er ekki auðvelt að átta sig á kynlífi eplatrjáa!

Ekki rata nú alveg öll eplin ofan í fatið.

Þegar við grófum í kringum Transparent Blanche tréð okkar brá okkur heldur betur í brún. Í ljós kom að einhver sveppur hefur étið sig í gegnum hálfan stofninn neðanjarðar sem væntanlega skýrir af hverju um það bil hálft tréð er dautt og fúið. Eplin af þessu tré eru einmitt sérstaklega góð svo við erum nokkuð uggandi yfir stöðunni. Á endanum ákváðum við þó að aðhafast ekkert, þykjumst viss um að tréð muni ekki falla á nein verðmæti ef illa færi og vonum svo bara að það eigi nokkur góð ár í viðbót.

Veika tréð fékk stórt knús frá Maríu hinni hjartahlýju.

Allra fallegustu haustlaukarnir fóru líka niður í moldina við einmitt það tré. Og nöfnin eru viðeigandi, þessir ljósbleiku túlípanar heita Angelique og þeir svörtu Black Hero. Við erum viss um að þeir hjálpi til við að vernda tréð.

Eins og áður sagði hafa veðurguðirnir leikið við okkur í september. Einn morguninn þegar ég kom heim úr hinni daglegu gönguferð um Vänge fannst mér garðurinn, húsið og allt umhverfið svo fallegt í morgunsólinni að ég bara varð að taka nokkrar myndir. Hlynurinn þarna vinstra meginn við húsið er auðvitað stjarnan, eins og logandi eldhaf yfir húsþakinu.

Haustlitir og heiðblár himinn.

Á nýju stéttinni er orðið haustlegt um að litast, enginn gerir ráð fyrir að borða morgun- eða hádegismat þar á næstu mánuðum og engin þörf er á sólhlíf. Það getur þó vel verið að mann langi að tylla sér aðeins út með kaffibolla eða lesa nokkrar síður í góðri bók í frísku haustloftinu svo bekkurinn fær að standa örlítið áfram. Sitt hvoru meginn við hann eru tómataplönturnar að reyna að ná í síðustu sólargeisla sumarsins til að þroska alla þessa skrilljón tómata sem þær bera.

Í lok september kom amma Imba í heimsókn til okkar. Við buðum henni meðal annars í bíltúr til Sigtuna og á leiðinni þangað keyrðum við framhjá þessum dásamlega falurauða bóndabæ, umrkingdum trjám í haustlitum og högum þar sem hestar voru á beit. Við stóðumst ekki mátið að taka nokkrar myndir - jafnvel þótt þær geri dýrðinni auðvitað engan veginn nógu góð skil.

Ástæðuna fyrir því að við stoppuðum við bóndabæinn má sjá hér: Hugi var bílveikur. Hann hresstist þó fljótt og við náðum áfangstað fyrr en varði.

         

Í Sigtuna byrjuðum við á að stoppa í RC Chocolat. Þar fengu börnin sér dásamlegan ís og voru afar ánægð svo ekki sé meira sagt!

Við mamma fengum okkur hins vegar svona bakkelsi sem var undursamlega gott! Ég elska hvítt súkkulaði!

         

Allir sáttir! Það er útibú frá RC Chocolat hér í Uppsölum sem ég hef reyndar aldrei farið í. Spurning hvort það breytist ekki eitthvað á næstu vikum.

Símaklefi í Sigtuna.

Á rölti eftir aðalgötunni.

Mig langar að eiga heima fyrir innan þetta hlið!

Þá gæti ég kíkt út um þennan litla glugga á hverjum degi!

Við smábátahöfnina voru tveir hressir menn að gefa pylsur. Ég hef ekki hugmynd um af hverju þeir voru svona gjafmildir en þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég sé fólk gefa alls kyns kræsingar úti á götu. Í sumar þáðum við til dæmis vöfflur með sultu og rjóma af hópi fólks sem svöruðu því einu til, aðspurð hvers vegna þau væru að bjóða gestum og gangandi upp á vöfflur, að þau væru bara svo glöð og langaði að fagna!

Einari, Maríu og Huga þykja pylsur mjög góðar en mér þykja þær aðallega góð ástæða til að borða sinnep - sem mér þykir sem sagt ákaflega gott! Ég þáði eina hjá gjafmildu mönnunum einmitt í þessum tilgangi!

Sef, smábátar og falleg hús.

Hugi horfir út á Mälaren, María klifrar í tré.

Systkinin uppi í pílviði. Mér þykir þessi mynd æðisleg, sérstaklega út af „hjartanu“ sem þau standa á.

Haustlauf, fjölskylda á göngu og einmana bátur úti á vatni.

Börn á bryggju.

Þarna við vatnsbakkann standa fjölmörg pílviðartré og sum þeirra eru orðin ansi gömul og bogin. Hér eru Einar og börnin komin upp í eitt sem styður sig við staf.

Gamla tréð er orðið næstum alveg lárétt og hægt að standa á stofninum.

Mér finnst eitthvað svo ævintýralegt, jafnvel Fimm-bókalegt, við þessa mynd. Nema bara það voru yfirleitt engir sköllóttir kallar að þvælast með Finni, Dísu og þeim öllum!

Maríu finnst þessi stytta það allra merkilegasta í Sigtuna. Málið er sem sagt að sjái maður hana aftan frá lítur strákurinn út fyrir að vera að pissa. Það þykir Maríu mikið fyndið!

Endur og endurspeglun.

Það væri nú ekki heldur amalegt að geta kíkt út um þennan glugga á hverjum degi.

Mamma kom heldur betur færandi hendi því hún flutt með sér heil 2 kg af humri! Eftir Sigtunaferðina slógum við upp veislu, grilluðum helminginn af humrinum í hvítlaukssmjöri og buðum upp á hið svo kallaða njálgasalat með. Njálgasalat nefnist öðru nafni quinoa, nafngiftin útskýrir sig sjálf þegar maður sér það soðið!

Mamma bauð okkur líka út að borða á notalegum ítölskum stað við Gamla torgið í Uppsölum kvöldið áður en hún flaug aftur í rokið og rigninguna á Íslandi. Frábær endir á frábærum mánuði!