Haustfagnaður Mótettukórsins 2005

Föstudaginn 28. október var hinn árlegi haustfagnaður kórfélaga haldinn í félagsheimilinu Faxaskjóli. Í þetta sinn var rússneskt þema alls ráðandi, boðið var upp á blini og Stolichnaya. Að öðru leyti var dagskráin hefðbundin með nýliðaskemmtiatriði, söng og linnulausu stuði langt fram eftir nóttu!

Hérna sjáið þið Halldísi, Björgu, Emelíu og Kristínu. Þrjár þessara stúlkna eru í altinum, ein í sópraninum. Tvær þeirra eru í stjórn. Emelía er ekki í bláum kjól. Sú sem er í sópraninum er líka í stjórn, það er ekki Kristín. Kristín er ekki að drekka bjór. Björg er að drekka rauðvín. Sú sem er í stjórninni en er ekki í sópraninum, hún er ekki að drekka bjór og er ekki með armband. Sópraninn er ekki heldur með armband. Halldís er í stjórn. Tvær eru með hálsfestar, önnur þeirra er Emelía. Nú eigið þið að geta upp á því hver er hvað, hverjar eru í altinum, hver í sópraninum og hverjar tvær í stjórn. Góða skemmtun!!!!!!!!!!!

Kórinn gerði veitingunum góð skil og færir þeim Erlu Elínu og Halldísi sérstakar þakkir fyrir að hafa bakað blini. Laxinn hans Harðar og urriðinn brögðuðust sérlega vel og sjálfsagt hefur mörgum þótt rússneski vodkinn góður ... en ég er reyndar ekki ein af þeim!

    

Kristín var með sýnikennslu í hvernig skyldi borða blini án þess að tapa dömunni! Þetta tekst þó engum nema henni!

Hrefna og Kristín brostu sínu blíðasta í haustfagnaðinum og skinu skært! (Er nokkuð farið að slá í þennan Séð og heyrt brandara hjá mér?!?)

Þrír af nýju stjórnarmeðlimunum, Snorri Sigurðsson, Björg Sigurðardóttir og Halldís Sigurðardóttir.

Stefán kynnir siðareglur tenóra fyrir Kristjáni nýliða. „ ... þú mátt aldrei vera of seinn á æfingu, þú mátt aldrei vingast við bassa, þú verður að passa þig að syngja aldrei of veikt, þú verður að ... “

    

Hörður skálar ... og skrafar!

Skemmtiatriðahrinan hófst með tískusýningu sem kjólameistarinn Ása stóð fyrir. Sýndir voru allir búningar kórsins frá upphafi, hver öðrum smartari. Hér kynna Egill og Ása Lind fyrstu búninga Mótettukórsins sem voru, eins og sjá má, einkar glæsilegir. Takið sérstaklega eftir bláa leðurlíkisbindinu og rauða jólalindanum.

Þessir búningar tóku svo við. Hvíti silkikjóllinn klæðir Björgu einstaklega vel og púffermarnar eru punkturinn yfir i-ið. Það reyndist erfitt að rífa Ágúst Inga úr búningnum sem karlpeningur kórsins klæddist til margra ára, enda lengi verið draumur hjá honum að komast í Landslið íslenskra þjóna.

Brynhildur og Stefán geisluðu af þokka í dressunum sem næst tók við. Mikil eftirsjá ríkir enn í kórnum vegna jakkanna, slæðunnar og niðurþröngu herrabuxnanna.

Þessa þekkjum við svo að sjálfsögðu öll! Halldís og Narfi tóku af allan vafa um það að ég er virkilega fegin að hafa ekki byrjað í Mótettukórnum fyrr en haustið '99!!! Í tuttugu ára búningasögu kórsins bera þessir augljóslega af ... skyldum við hlæja jafnmikið að þeim eftir tuttugu ár og við hlógum að öllum hinum dressunum?!

Mótettukórinn þá og nú! Hvað framtíðin ber í skauti sér er óljóst en að öllum líkindum mun kórinn skrýðast nýjum búningum á allra næstu mánuðum.

Næst tók fyrrum kvartettinn Una, nú kvartettinn Iða, við. (Var það ekki annars Iða?) Þresti pabba hefur nú verið skipt út fyrir Sæberg og saman sungu þau Stefán, Gunna og Halldís nokkur falleg lög.

Gestasöngvarinn Halldór var svo kvaddur til leiks við fádæma undirtektir. Halldór lét sér ekki nægja að rústa rándýrri erfða-karöflu heldur reyndi hann líka að stanga antík ljósakrónuna niður úr loftinu enda var hann búinn að drekka allt of mikið hvítvín þegar þarna var komið sögu!

Erla Elín veitti tenórunum verðlaun fyrir góða mætingu. Mér finnst alveg óskiljanlegt hvers vegna ákveðið var að veita einstökum röddum verðlaun en ekki bara þeim einstaklingum sem eru með 100% mætingu það sem af er hausti ... óskiljanlegt, segi ég! Þótt ég verði með 42° hita, þótt ég muni þurfa að moka mér leið upp í kirkju gengum snjóinn, þótt ég eigi að skila mastersritgerðinni daginn eftir og sé enn á bls. 2 ... þá mun ég mæta á æfingar þangað til mér verður úthlutaður einn svona gullmoli fyrir mína 100% mætingu!!!

Nýliðarnir spáðu í spilin áður en sjómannalögin voru kyrjuð af krafti með tilheyrandi ölduróti og roki. Nebojsa, Kristján, Einar og Halla stóðu sig með stakri prýði og hlutu vígslu sem Mótettingar. Nú eiga þau ekkert annað eftir en Vitabarinn til að inngangan sé endanleg!

Kristján og Einar voru á sokkunum einir manna. Greinilegt að þeir hafa hlotið sómsamlegt uppeldi fyrst þeim datt ekki í hug, eins og öllum öðrum, að vaða beint inn á parketið úr snjónum og slyddunni!

Úti geisaði stormur en inni var hlýtt, notalegt og skemmtilegt.

Altarnir voru með eitthvað mont og þóttust vera bestar ... allt á misskilningi byggt að sjálfsögðu!

Björg, ég og Halldís. Sá sem tók þessa mynd (sem ég man alls ekki hver var) ber að öllum líkindum ábyrgðina á fingrafarinu sem kemur út eins og reykur neðst á þessari mynd og öllum í kjölfarið! Sá hinn sami þarf að gjalda þess dýru verði því nú þurfa allir að mæta aftur í partýið, nákvæmlega eins klæddir og allt, til að hægt sé að taka sömu myndirnar án fingrafarsins! Auk þess mun reiði mín bitna á þessum aðila með margvíslegum hætti! Þorir einhver að gefa sig fram?!?

Zophonías lét reyna á jakkann góða og þjónshæfileikana.

Ég þreytist aldrei á að segja söguna af því þegar ég dáðist að Halldísi, nýfæddri og agnarsmárri, í vöggu og fannst hún dásamlegasta barn sem ég hafði augum litið. Mér þykir alltaf jafnmerkilegt að við höfum verið sópransystur og jafningar í svona mörg ár þrátt fyrir að mér hafi þótt himinn og haf skilja okkur að á Barónstígnum forðum daga! (Ath! þetta er ekki reykur sem stígur upp af lærunum á mér heldur fingrafar!)

Le Hauksson familie!

Seint um kvöldið héldu nokkrar djarfar stúlkur gjörning sem túlka má sem nokkurs konar óð til Kirkjulistahátíðar. Svipmyndirnar hér á eftir bera gífurlegrar tjáningarþarfar og djúprar túlkunar vitni.

Kristín var aldeilis ótrúleg með blöðruna og þær Helga Sigga, Sigga Ásta og Hrefna gáfu henni ekkert eftir. Rétt aðeins glittir í kontratenórinn Emelíu þarna til hliðar en gjörningurinn hefði aldrei orðið samur ef hennar hefði ekki notið við.

Eftir þennan gjörning var ljósmyndarinn svo agndofa og uppfullur af bæði aðdáun og minnimáttarkennd að hann pakkaði myndavélinni niður og eyddi því sem eftir var kvöldsins í að ráfa um félagsheimilið meðan póstmódernískar hugmyndir byltust um í höfðinu á honum. Jú og svo var líka sötraður bjór, farið í Sannleikann eða kontór, sungin Bítlalög og sagðar skemmti sögur af mönnum og málefnum.

Takk fyrir frábæran haustfagnað kæri kór!