Haust í kirkjugarðinum

Ég er vön að ganga eftir Suðurgötunni á leið minni í skólann. Í haust standa hins vegar yfir miklar framkvæmdir þar og gatan er öll sundurgrafin. Ég sá mér því þann kost vænstan að stytta mér leið í gegnum Suðurgötukirkjugarð. Það var orðið ansi langt síðan ég hafði gengið þar um og ég var alveg búin að gleyma hversu mikill griðarstaður garðurinn er í stórborginni. Þó að glitta megi í umferðina inni á milli trjána ríkir fullkomin ró í kirkjugarðinum og ekkert hljóð heyrist nema þytur í laufi og marrið í mölinni undir fótum manns. Þar er varla nokkurn mann að sjá og því gott næði til að rölta um, einn með hugsanir sínar og velta fyrir sér lífinu og tilverunni. Eftir nokkrar friðsælar ferðir þarna í gegn ákvað ég að ég yrði að taka myndavélina með næst. Hér er brot af afrakstri þeirrar ferðar.