Haust á Konsulentvägen enn á ný

Nokkrar haustmyndir gjörið þið svo vel!

Hér er heimasætan á leiðinni í afmælisveislu í byrjun september. Við mæðgur erum sammála um að hún hljóti nú að vera orðin ansi stór núna þegar hún á orðið bæði minipils og tölvuleik og er þar að auki farin að lesa 100 blaðsíðna glæpasögur á sænsku á nokkrum dögum!

Síðast þegar ég birti mynd af hárgreiðslu Maríu var það að hennar eigin ósk en ég verð að játa að þessi mynd var tekin og birt bara til þess að ég gæti montað mig af því hvað ég kann að gera fína fléttu! Ligga ligga lái!!!

María stóra stelpa á leið í sunnudagaskóla íslensku kirkjunnar hér í Uppsölum ... á laugardegi!

Hugi fékk sínar fyrstu fullorðinstennur um daginn! Eins og María stóra systir fékk hann framtennurnar í neðrigóm áður en barnatennurnar duttu og var því á tímabili með tvöfalda röð tanna eins og hákarl!

Bara tveimur dögum síðar var önnur barnatönnin hins vegar horfin. Aðspurður kannaðist Hugi ekkert við að hafa misst hana og hafði ekki heldur neinn sérstakan áhuga á að ræða þennan tannmissi yfir höfuð því hann var svo spenntur að segja mér frá því að það hefði verið kycklinggryta í hádegismatinn á leikskólanum. Einhvern veginn læðist að mér sá illi grunur að í hans tilviki hafi þetta verið tand- och kycklinggryta!!!

    

Stundum skellum við í eina fljótlega köku þegar börnin koma svöng heim úr skólunum. Þarna vorum við að baka súkkulaðiferninga að sænskum sið.

    

Ég vildi óska þess að ég gæti stundum horfið eins og 25 ár aftur í tímann og verið stödd í eldhúsinu hjá ömmu þar sem hún er að baka og fá að sleikja áhöldin! Þangað til ég finn upp tímavél verð ég hins vegar bara að endurupplifa gamla tíma með því að leyfa börnunum mínum að njóta þessara sælustunda!

Vissuð þið að það væri til Reykjavíkurgata hér í Uppsölum?!

Einn septembersunnudaginn héldum við Konsulentarnir í Stadsträdgården til að skoða haustliti, anda að okkur fersku lofti og kannski róla pínulítið. Ætli þetta sé ekki eitt vinsælasta Uppsalamótífið, bleika höllin, svanatjörnin og gosbrunnurinn? Kannski ekki skrítið þar sem þetta er ákaflega falleg sýn, ekki síst þegar laufin eru farin að skipta litum.

    

Sami staður, sama stund, tvær mismunandi hraðastillingar!!!

Krakkarnir voru kátir að komast á leikvöllinn í garðinum enda er hann í miklu uppáhaldi.

Systkinin róla. (Ég var nett að fríka út í hraðastillingatilraunum þennan dag þannig að sumar myndirnar eru dálítið dökkar!)

Sæta María að æfa sig að halda jafnvægi í rólunni án þess að halda í.

    

Mér finnst þessi klifrugrind alltaf svolítið eins og hvalabeinagrind ... dálítil svona Gosastemmning!

Hugi séður að neðan.

María séð að neðan.

Hann var ægilega ánægður með sig að geta staðið svona án þess að halda sér í, sjáið þið ekki stoltið í svipnum?!

    

Fljúgandi börn!

Lauf á göngustíg.

María á hvolfi.

Eikargrein sem brotnað hefur af tré.

Hugi sætur að príla.

Ætli það sé ekki hættulegt að príla svona annars hugar?!

Einari fannst voðalega fyndið að láta þennan gróðurboga koma svona eins og hárkollu í kringum hausinn á sér. Ég reyni að hlæja með en er þó innst inni skelfingu lostin af að sjá gráu rótina speglast í linsunni! Það skal tekið fram að hún var lituð í burtu strax þetta sama kvöld á hárgreiðslu- og snyrtistofu Einars Þórs á Konsulentvägen!!! Mæli með henni ... maður má horfa á dvd á meðan liturinn er borinn í og allt!!!

Þetta blóm hélt að það væri að leika eld í barnaleikriti!

María í blómahafi ... haustið hefur ekki enn sölsað allan gróður undir sig.

Sum trén eru orðin alrauð og ótrúlega falleg.

Haustmynd Einars I

Haustmynd Einars II

Haustmynd Einars III

Fuglahús og haustepli.

Meðan við hin skoðuðum eplatrén settist Hugi á bekk í nágrenninnu og hugsaði um lífið og tilveruna.

Nypon!

Hugi var óskaplega þreyttur og svekktur út í okkur fyrir að hafa viljað yfirgefa rólóinn og þegar við komum í rósagarðinn hlammaði hann sér fúll á næsta bekk. Maríu bar fljótt að og þarna er hún í óða önn við að reyna að hughreysta bróður sinn.

Fjölskylda á haustgöngu.

Við mæðgurnar týndum dálítið af fallegum haustlaufum til að pressa. Hér er María með sitt safn sposk á svip.

Haustlauf og fjölsylda.

Einar með mitt laufasafn. Þess má geta að þarna í baksýn er Sjukhusvägen þar sem núverandi vinnustaður Einars, Akademiska Sjukhuset er. Sjúkrahúsið er sem sagt ekki hús heldur gata!

Eftir gönguferðina í garðinum tylltum við okkur á Fuglasöngskonditoriið hinum meginn við götuna. Sjáiði hvað Hugi er sætur!

Maríu fannst vont að vera með augun opin í sólinni en veðrið var svo gott þennan dag að við gátum alveg setið úti á peysunum. Síðan hefur kólnað heilmikið.

Hallongrotta, chokladbiskvi og gott kaffi! Ahhhhhh!!!

Mæðgur í góðu skapi.

Og feðgar að knúsast með bleika höll í baksýn.