Haust á Bárugötunni

Haustið er komið fyrir fullt og allt. Út um litlu þakgluggana okkar blasir Esjan við í vetrarbúningi og á ísköldum og stilltum morgnum læðist sú hugsun að manni að kannski skríði snjórinn ofan úr hlíðum hennar  og niður í borgina fyrr en vari. Hvað um það, inni á Bárugötunni er alltaf hlýtt og notalegt ... og alltaf verið að taka einhverjar myndir!

Hugi elskar að leika með dýrin sín og honum finnst skemmtilegast að raða þeim upp í langar raðir, t.d. meðfram sófaborðinu. Mér finnst hann líka allra sætastur á þessari mynd!

Svona heldur hann hins vegar að hann sé sætastur, þetta er sem sagt myndavélabrosið! Hann er reyndar ósköp yndislegur svona líka, það er ekki það!

Enn eitt rósabúntið úr Dalsgarði. Ætli ég muni enn nenna að keyra þangað reglulega í snjó og skafrenningi í vetur til að sækja mér falleg blóm?!

Á haustin má fá snjóberjagreinar í flestum betri blómabúðum bæjarins ...

... ég læt þau sjaldnast fram hjá mér fara.

María og Hugi fengu fullt, fullt af strumpum frá Pétri móðurbróður sínum sem er nú orðinn hálffullorðið karlmenni! Þau geta endalaust leikið sér með þá. Hugi hefur enn sem fyrr mestan áhuga á að raða í beinar raðir en María fer í ákaflega þróaða strumpaleiki þar sem skautasvell, hátíðir og eiginmenn koma meðal annars við sögu!

María slappar af heima í stofu.

Einar blaðar í matreiðslubók í leit að vænlegum rétti fyrir kvöldið. Ég er meðvituð um hve gjörspillt ég er orðin af sambúð með manni sem framreiðir veislurétti á hverjum degi! En það fylgir þó böggull skammrifi ... glæsilegir kvöldverðir Einars láta mína eldamennsku (sem aðeins er lögð stund á þegar Einar er á vöktum) líta enn verr út í samanburðinum!

Feðginin. Þó ég vilji halda því fram að María sé eins og snýtt út úr nefinu á mér þá er hún með alveg návæmlega eins augabrúnir og pabbi sinn, eins og sést á þessari mynd! Þær og stærðfræðiáhugann má rekja beint til hans!

Nýjasta áhugamálið mitt er fuglamyndataka! Allt í kringum húsið okkar eru há og reisuleg reynitré sem um þessar mundir bera þunga og rauða berjaklasa sem litlum þröstum þykja afskaplega freistandi. Mér þykir hins vegar freistandi að hanga hálf út um þakgluggana í von um að festa þá á filmu (eða minniskubb!)! Afraksturinn er reyndar ekki mjög glæsilegur og gæðin á myndunum ekkert frábær ... en þrestirnir eru krútt og standa alltaf fyrir sínu!

Þenur brjóst og sperrir stél!

Ef vel er að gáð má sjá reyniber í gogginum sem fuglinn er um það bil að fara að renna niður! Ótrúlegt að það standi ekki í þeim af þessu!

Saddur og sæll!

Mér finnst þessi sætastur!

Þessi kann að setja sig í stellingar fyrir myndavélar og horfa beint í ljósopið!

En eins og allar góðar fyrirsætur var hann á eilífum faraldsfæti, floginn burt fyrr en varði!