Handavinna vor 2010

Það er alveg til vandræða hvað ég er alltaf sein með þetta handavinnumont mitt þannig að þið eruð yfirleitt búin að sjá öllum verkefnunum bregða fyrir í öðrum albúmum. Hvað um það, hér koma myndir af því sem ég lauk við á tímabilinu janúar til apríl 2010.

Íkornapeysuna og sokkana í stíl kláraði ég í janúar en hafði nú verið að vinna hana meira og minna allt haustið. Peysan er prjónuð úr dásamlegu Alpacagarni frá Drops og þaðan kemur líka munstrið.

Nærmynd af munstrinu ...

... og mamma segir að alvöru prjónakonur leggi mikið upp úr því að hafa rönguna fallega svo ég birti mynd af henni líka!

Og hér er svo eigandinn íklæddur dressinu!

Æ, hvað maður var eitthvað lítill þarna, kunni bara rétt svo að sitja og með engar tennur!

Nú er þetta náttúrulega alveg að breytast í eitthvað barnamontsalbúm! Hann er bara svo sætur og mér finnst svo merkilegt að uppgötva að hann hafi stækkað svona mikið frá því í ársbyrjun!

Við verðum nú að sýna þeim sokkana líka mamma!

Áður en við fórum til Íslands í janúar lauk ég við að sauma smekki handa Baldri Tuma. Er búin að gera smekki handa svo að segja öllum börnum sem fæðst hafa í kringum mig að undanförnu en gerði svo lengi vel ekki einn einasta handa mínum eigin syni. En úr því var sem sagt bætt í byrjun árs - svo um munaði! 16 smekkir voru framleiddir á einum sólarhring. Ég var að vísu búin að stimpla á miðana áður og að mig minnir sníða eitthvað af efninu en svo sat ég við og saumaði allt í einum rykk.

     

Nokkur sýnishorn af efnum sem ég hafði ekki notað áður. Þetta græna með broddgöltunum er algjörlega uppáhalds. Það hefur verið algjörlega ófáanlegt um langt skeið svo þegar ég sá lítinn bút til sölu stökk ég á hann. Síðan hefur mér að vísu tekist að komast yfir lítinn bút af sama efni með bleikum bakgrunni svo nú vantar mig bara stelpu til að sauma smekk fyrir!

María virðist áhyggjufull yfir þessu öllu saman enda kannski ekki nema von þar sem mamman var fullkomlega rænulaus meðan á þessari törn stóð!

Í febrúar lauk ég við þessa vettlinga handa Maríu, upp úr íslensku vettlingabókinni Hlýjar hendur. Ef einhver sem þetta les hefur í hyggju að prjóna svona vettlinga vil ég bara segja að það er eitthvað mjög dularfullt við uppskriftina að blúndunni neðst við úlnliðinn. Mig minnir að ég hafi leyst það með því að hafa 11 lykkjur á hverjum prjóni í staðinn fyrir 10 eins og uppskriftin gerði ráð fyrir. Annars get ég áreiðanlega rifjað þetta betur upp ef einhver skyldi lenda í vandræðum með þetta.

Þessa húfu gerði ég líka í febrúar. Hún er úr blöndu af merino- og kasmírull (já, já, ég er alltaf að nota þannig garn!) og uppskriftin er úr bók sem heitir Vintage Knits for Modern Babies. Mjög skemmtileg bók með mörgum fínum og einföldum uppskriftum.

Stærsti hluti húfunnar er prjónaður með tvöföldu perluprjóni (2 lykkjur, 2 umferðir) ...

...en svo er hún með svona fínni stjörnu og sléttu prjóni í hnakkann. Húfan gengur undir nafninu riddarahúfan hér enda minnir hún dálítið á hettu á hringabrynju.

Húfuna og trefilinn prjónaði ég handa Einari og lauk við í byrjun mars. Ég prjónaði þetta úr mjög fallegu tweedgarni frá Rowan en uppskriftin var nú bara upp úr mér. Ég var ánægð með húfuna en fannst trefillinn frekar mis. Var því dálítið sorrý þegar húfan týndist mánuði síðar!

Ég gerði svo þessa húfu handa mér. Garnið heitir Malabrigo Chunky (minnir mig) en munstrið var upp úr Debbie Bliss blaði.

Það sést ekkert hvað húfan er fín nema hún sé á höfði svo ég þurfti að setja mig í mjög annarlegar stellingar til að taka mynd af henni í heild! Ég prjónaði svo einfalda vettlinga úr sama garni í stíl en nennti nú ekki að mynda þá. Vettlingana gerði ég líka bara upp úr mér og það er alveg merkilegt hvað það tekur alltaf miklu lengri tíma en að styðjast við uppskift. Ég var t.d. mun fljótari með húfuna með öllum þessum köðlum og snúningum en slétta pínulitla vettlinga!

Í mars lauk ég við þessa peysu sem er líka úr blöndu af merino- og kasmírull og líka upp úr Vintage Knits for Modern Babies.

Mynd af yokinu ... heitir það berustykki á íslensku? Og finnst ykkur tölurnar ekki fínar? Ég fékk þær í Storkinum þegar ég var á Íslandi í janúar.

         

Og hér er svo dúllurassinn í peysunni sinni. Svona peysur sem eru bara hnepptar yfir brjóstið/í hálsinn þykja mér alltaf óskaplega gagnlegar og svo vaxa þær svo vel með barninu. Mikið er þetta annars fallegur lítill drengur sem ég á!

Síðasta verkefnið sem ég lauk við á þessu tímabili var svo peysa á sjálfa mig. Fyrst af öllu verð ég samt að segja að mér þykir alveg hörmulegt að vera að birta hér einhverjar ljótar myndir af sjálfri mér, sérstaklega þar sem peysan sést ekki einu sinni nógu vel! En hún sést eiginlega enn verr ef maður reynir að mynda hana flata og svo er ég náttúrulega búin að flækja mig í því að verða að birta myndir af öllu sem ég geri svo ég tímdi ekki að sleppa þessari mynd. Nú en yfir í peysuna! Þetta er líka Malabrigo garn (Malabrigo Lace) í sama lit og húfan. Upskriftina að peysunni fékk ég hjá Svanhildi vinkonu minni sem aftur á móti fékk hana í Storkinum. Peysan er prjónuð frá ermi til ermi, síðan er hálsmálið/handvegurinn prjónað í hring þar utan á og svo bakið niður úr því. Þetta er ótrúlega mjúk og notaleg peysa og ég er einmitt núna að prjóna aðra peysu úr sama garni á mig. Ég byrjaði sem sagt á henni áður en ég fattaði þetta með myndbirtinguna!