Handavinna frá mars til desember 2011

Eins og svo oft áður er ég orðin það sein með handavinnualbúmið mitt að ég held að það hafi þegar birst mynd af öllum verkefnunum í öðru samhengi á þessari síðu! Hins vegar er þetta langskemmtilegasta leiðin fyrir mig að halda verkefnadagbók svo hér kemur nýjasta handavinnuuppgjörið!

  

Þetta var fyrsta verkefnið sem ég tókst á hendur eftir að hinu hræðilega afgangatímabili loksins lauk! Ekki að það hafi verið hræðilegt í sjálfu sér, ég var bara orðin svo rosalega þreytt á því. Það var því mikil gleði þegar ég hófst handa við þennan vor-/haustjakka á Baldur Tuma. (Garn Debbie Bliss Eco og uppskrift Debbie Bliss Magazine vor/sumar 2009.)

  

Hann lítur vissulega einfaldur út, úr grófu garni og svona en það er alltaf heilmikið maus að gera kraga og vasa. Ég var næstum búin að missa vitið þegar ég saumaði vasana niður að innan! Það mótar alltaf fyrir þeim frá réttunni svo það skiptir máli að þeir séu algjörlega samhverfir en það er hins vegar ekki eins auðvelt og það hljómar! Ánægðust var ég hins vegar með að hafa látið mér detta í hug að bæta litlum hanka við í hálsmálið til að hengja jakkann upp á krók. Stundum eru það litlu hlutirnir ...

         

Næst vatt ég mér í þennan bangsagalla handa þá ófæddum syni Brynhildar og David vina minna. Gallinn þvældist með mér til Lysekil og Svenljunga og ég átti ekki alveg nógu auðvelt með að einbeita mér að því að prjóna hann á öllu þessu flakki og mitt í sumarhitanum. Þegar hann loksins var tilbúinn var barnið fætt - og ekkert sérstaklega stutt eins og ég hafði vonað! Gallinn var nefnilega í minnstu stærð! Ég flýtti mér svo að pressa hann, pakka honum inn og koma honum í póst að ég steingleymdi að taka mynd af honum hér heima. Þessa mynd af litlum skógarbangsa fékk ég því senda frá stoltum foreldrum Louis Oldfield - sem virðist að minnsta kosti hafa getað notað gallann í nokkra daga! (Garn Debbie Bliss Baby Cashmerino og uppskrift Debbie Bliss Baby Cashmerino nr. 1.)

En það var von á fleiri börnum í vinahóp mínum árið 2011. Þetta silkihúfusett prjónaði ég handa Friðrik Sólimann Fjölnissyni áður en hann fæddist. (Garnið er Jaipur Silk Fino og uppskriftina fékk ég Nálinni sálugu en minnir að hún hafi komið úr einhverju eintaki Húsfreyjunnar.)

Og þessi galli var líka handa honum. Ég held að stærstan hluta hans hafi ég prjónað brunandi eftir þjóðvegum á leið til og frá Danmörku. Ég er yfirleitt frekar hrædd um að verða bílveik en komst að því að þegar maður er bara að keyra beint og þarf ekki að horfa mikið á það sem maður er að gera er vel hægt að prjóna í bíl. Ég aðlagaði uppskriftina aðeins að mínum þörfum. Rendurnar áttu nefnilega að vera þrjár umferðir hver. Vant prjónafólk áttar sig strax á að það þýðir að maður endar með spotta sitt hvoru meginn út úr hverri einustu rönd sem ganga þarf frá! Ég nenni ýmsu þegar ég prjóna og í sjálfu sér nennti ég þessu alveg, ég prófaði meira að segja að gera hálfa skálm með þessum hætti. Hins vegar var svo ljótt að vera með allan þennan endafrágang að ég hætti við og hafði rendurnar fjórar umferðir hverja. (Garn MillaMia merinoull, uppskrift MillaMia Wonderland.)

         

Þegar haustið nálgaðist ákvað ég að prjóna mér húfu. Ég gerði mér húfu fyrir rúmu ári síðan en hef aldrei kunnað almennilega við hana svo ég ákvað að gera nýja atlögu að höfuðfati. Ég var reyndar ekkert sérstaklega ánægð með þessa heldur, það er að segja mér fannst hún ekki fara mér neitt sérstaklega vel þótt húfan sé mjög falleg. Almennt held ég að sé bara ekki með andlit fyrir húfur! En svo lét ég loks klippa mig fyrir jólin og eftir það fer hún mér reyndar aðeins betur en sést á þessari mynd! (Garn Rowan Cocoon, uppskrift Kim Hargreaves Cherished.)

Mig langaði voðalega að prjóna leikskólapeysu á Baldur Tuma, einhverja þunna en hlýja peysu sem auðvelt væri að hafa innan undir úlpu. Ég var alveg ákveðin í að nota grátt alpacagarn og vildi hafa hana með garðaprjónsbekk að ofan. Ég fletti öllum blöðum og bókum aftur og aftur en fann ekkert fyrr en í örugglega fimmtu yfirferð, þá var hún þarna allan tímann  peysan sem ég hafði leitað að! Í blaðinu sem ég fann hana í var hún bara prjónuð úr marglitu garni svo ég sá ekki strax að hún var einmitt með réttu sniði og munstri! Ég hafðist glöð handa en eins og svo oft áður þegar um Drops uppskriftir er að ræða hætti mér alveg að lítast á blikuna svona miðja vegu og íhugaði alvarlega að rekja upp og hætta við allt saman. Ég veit ekki hvað það er en þessar uppskriftir gera mig yfirleitt brjálæðislega pirraða. Ég píndi mig hins vegar til að klára og svo var ég auðvitað ægilega ánægð með útkomuna! Og Baldur Tumi er búinn að vera í þessari peysu upp á hvern einasta dag í allan vetur!

Einar segir að svona peysur með garðaprjónsbekk efst hafi verið kallaðar sjómannspeysur á hans heimili. Mér finnst það passa vel! (Garn Drops Alpaca, uppskrift Baby Drops nr. 17.)

Ég ætla að leyfa mér að skilgreina jólaföndrið mitt sem handavinnuverkefni, það þurfti jú bæði að sauma með saumvél og búa til dúsk! Ég bjó til þrjá svona bolta til að setja í stofugluggana mína og svo gaf ég einhverja nokkra í jólagjöf, ætli það hafi ekki verið svona átta til viðbótar. Létt og skemmtilegt verkefni, sérstaklega þar sem mér fannst fallegra að dúskurinn væri svolítið úfinn og slapp því við að eyða mjög löngum tíma í að klippa hann til. Ég er annars mjööög nákvæm þegar kemur að dúskum! (Garnið í dúsknum er Debbie Bliss Cashmerino og hugmyndina að boltanum fékk ég í Lantliv Jul & Pyssel 2011 en breytti henni, ef mig minnir rétt, eitthvað smá. Gott ef dúskurinn var ekki mín hugmynd.)

Þegar líða fór að jólum fór dótið hans Baldurs Tuma sem dreifðist hér um alla neðri hæð að angra mig sífellt meira. Þar sem hann á ekkert eigið herbergi og dótið hans er geymt í sjónvarps-/gestaherberginu þá getur verið erfitt að finna öllu stað. Þegar mér datt í hug að vippa upp taupokum undir trékubbana hans og þykjustunni kökurnar var ástandið þó mun skárra.

         

Ég einsetti mér að gera eins lítið mál úr þessu verkefni og hægt væri, ef allt hefði átt að vera fullkomið hefði ég bara frestað þessu út í hið óendanlega. Ég notaðist því bara við það sem til var og reyndi að hugsa sem minnst um að vanda mig! Böndin á annan pokann gerði ég úr skábandi sem ég átti í fórum mínum og sikksakkaði einfaldlega saman en á hinn fór bara flauelsborði. (Efnið frá Kokka og uppskriftin að pokunum frá Weekend Sewing eftir Heather Ross en sennilega hef ég nú aðalagað hana eitthvað.)

Þessi félagi hefur auðvitað hangið á forsíðunni undanfarna fjóra mánuði svo það er nánast óþarfi að hengja hann upp hér líka. En þetta var óumdeilanlega handavinnuverkefni og það var þar að auki meira maus að sauma þetta út en smæð myndarinnar gefu til kynna svo hann fær sinn sess í handavinnuuppgjörinu. Ég gerði hann annars sérstaklega fyrir jólaforsíðuna en naut hans svo sem jólaskrauts hér í framhaldi af því. (Garn DMC bómull, uppskrift Rouge, frönsk útsaumsbók.)

Í desember hófst leitin að jólafötum á börnin en það var sama hvað ég þrammaði um Uppsali og Stokkhólm, ég fann ekkert sem mér líkaði. Korter í jól fékk ég þá „frábæru“ hugmynd að prjóna sjálf vesti á Baldur Tuma. Ég féll alveg fyrir þessari uppskrift frá Drops (þrátt fyrir fyrri reynslu!) og bað Einar að koma við og kaupa garnið fyrir mig samdægurs. Svo prjónaði ég eins og vindurinn og vestið var tilbúið á mettíma. Að vísu var ég líka nánast búin að henda þessu verkefni miðja vegu en hélt sem betur fer út því núna man ég ekki fyrir mitt litla líf hvað mér fannst eiginlega að því.

Vasarnir eru falskir en það var samt smá maus að sauma boðungana niður. Að öðru leyti var þetta þægilegt, enginn saumaskapur, engar lykkjur að taka upp eða neitt svoleiðis rugl. (Garn Drops Baby Merino, uppskrift Baby Drops nr. 21.)