Handavinna frá maí til desember 2010

Síðasta handavinnualbúm dekkaði fyrstu fjóra mánuði ársins 2010. Því miður gerðist voðalega eitthvað lítið hjá mér það sem eftir lifði árs svo ekki hefur verið tilefni til að setja inn nýtt albúm fyrr en núna. Ástæðuna má aðallega rekja til eins stórs og tímafreksverkefnis og þess að ég byrjaði jólagjafaföndrið í tæka tíð þetta árið!

Ég eyddi vorinu og sumrinu í tímafreka verkefnið en undir haust varð ég að fá smá tilbreytingu og prjónaði þessa peysu á Baldur Tuma úr Drops garni (Fabel) og eftir uppskrift frá framleiðandanum. Það er auðvitað svo langt síðan peysan var tilbúin að ég er löngu búin að birta myndir af eigandanum í henni þannig að þetta er ekkert sérstaklega spennandi „frumsýning“!

En sætur er hann í henni! Og peysan er mjög fín, ég var ánægð með hana. Uppskriftin, eins og allar Drops uppskriftir, er ókeypis á netinu á www.garnstudio.com.

Eplahúfuna voruð þið auðvitað búin að sjá og svo er ekki eins og þetta sé nein nýjung þar sem ég er búin að gera svo margar. Baldurs Tuma húfa er þó úr nýju garni þar sem það gamla er hætt í framleiðslu og þurfti ég að aðlaga uppskriftina að því. Nýja garnið er hið gamalkunna og margnotaða Debbie Bliss Baby Casmerino - stendur alltaf fyrir sínu.

Hér er eina saumaverkefnið mitt í þessari lotu. Þetta box gerði ég úr gömlu útsaumuðu koddaveri ... og fullt af flíselíni (stífu milliefni sem gerir það að verkum að boxið stendur sjálft). Ég hafði séð áþekk box á netinu og ákvað að prófa að gera eitthvað svipað. Þar sem ég var ekki með uppskrift bullaði ég bara eitthvað og yfirleitt endar svoleiðis með því að ég sé fram á að þetta verði gjörsamlega misheppnað, ákveð samt að klára en hætti alveg að vanda mig. Síðan þegar allt er tilbúið sé ég að þetta var ekki svo galið og að ef ég bara hefði vandað mig aðeins meira hefði þetta orðið fínt!!! Saumarnir eru sem sagt ansi skakkir og á einum stað hef ég ekki náð að sauma í gegnum öll lögin (sem voru fjögur, framhlið, fóður og tvöfalt flíselín) þannig að ýmislegt hefði mátt betur fara. Ég er hins vegar staðráðin í að gera fleiri tilraunir með boxin en þar sem ég átti ekki fleiri koddaver verður slíkt að bíða fram á næsta vor þegar flóamarkaðir og skransölur opna að nýju.

Í næsta albúmi kemur svo í ljós hvaða hlutverk boxið fékk hér á Konsulentvägen.Da da da damm!

Einhvern tímann var ég nú búin að sýna ykkur þetta verkefni í vinnslu. Það kláraði ég loksins síðasta haust þegar ég var búin með allt annað og nennti ekki að sinna eilífðarverkefninu! Þetta er sem sagt krossaumsstykki sem ég veit ekki alveg hvað ég ætla að gera við, hvort ég ramma það inn eða nota sem framstykki á eitthvað saumaverkefni ... nú eða teipa það bara upp á vegg eins og ég gerði fyrir myndatökuna, það er líka dáldið fínt. Allar uppástungur vel þegnar!

Ég var annars ekkert súperdúper ánægð með þetta. Ég breytti litunum frá upprunalegu uppskriftinni, stafrófið átti að vera gráblárra og dekkra, berin á greinunum gul og laufin dálítið muskugrænni. Ég skipti sem sagt yfir í klassíska Guðrúnar-liti en sé dálítið eftir því. Litasamsetningin ljósblátt, eplagrænt, rautt og dökkbrúnt er vissulega falleg og stendur alltaf fyrir sínu en ég er alveg búin að ofnota hana! Það er of mikil vinna að sauma út (og ekki hægt að horfa á sjónvarpið á meðan eins og þegar maður prjónar) til að gera eitthvað sem maður er ekki ánægður með! Næst vel ég því liti af meiri kostgæfni.

Og svo var það blessað jólaföndrið. Að þessu sinni heklaði ég sett af snjókornum handa flestum þeim sem ég gaf gjafir. Uppskriftin kemur úr japanskri heklubók og snjókornin voru öll mjög einföld. Það flóknasta var eiginlega að finna út úr því hvernig best væri að stífa þau. (Ég notaði bæði stífelsissprey og eitthvað krem úr túpu sem maður blandaði í vatn og dýfði dótinu ofan í. Það síðara virkaði mun betur.) Uppáhaldssnjókornið mitt er það sem er efst til vinstri, það með blóminu í miðjunni. Það var líka frekar skemmtilegt að gera það. Skemmtilegast var samt að gera litlu stjörnuna neðst til vinstri. Leiðinlegast var snjókornið efst til hægri og svo var þetta í miðjunni í neðri röð líka frekar leiðinlegt. Leiðinlegast af öllu var samt að festa spottann í og ganga frá endum ... gubb! Þetta er ég auðvitað allt búin að greina í spað enda reiknast mér til að ég hafi allt í allt gefið 9 sett og gert 3 handa sjálfri mér. Plús fyrsta settið sem ég gerði til prufu en hvorki gaf né notaði þar sem þar var ýmislegt sem ég var ekki nógu ánægð með og breytti í síðari settunum. Sem sagt þrettán sett og allt í allt 65 snjókorn. Flest gerði ég í nóvember og á fyrstu dögum desember en byrjaði samt ansi snemma að prófa mig áfram - guði sé lof!

Meðfram snjókornasettunum prófaði ég að hekla aðeins stærri snjókorn sem ég hafði hugsað mér að nota kannski sjálf í einhverjar jólaskreytingar. Á endanum datt mér reyndar ekkert í hug að gera við þau þannig að þau lágu bara í þvottahúsinu yfir hátíðirnar en það var gaman að prófa að hekla eitthvað svona aðeins stærra. Uppskriftirnar komu úr annarri japanskri heklubók og voru líka mjög einfaldar þótt umferðirnar væru aðeins fleiri en í litlu dúllunum. Þetta snjókorn varð reyndar eins og krossfiskur, dáldið misheppnað.

Þetta var voða sætt og ég gæti alveg hugsað mér að gera kannski bara fleiri svona fyrir næstu jól.

Og svo fannst mér þetta epli voða krúttlegt líka. Ég þarf endilega að finna eitthvað sem ég get notað það í. Ég notaði annars sömu garndokkuna í öll snjókornin og þessar stóru dúllur - og á meira að segja smá afgang. Þetta var ósköp hversdagslegt bómullargarn sem ég keypti í Åhléns og ég vil helst ekki segja hvað það var hrikalega ódýrt þannig að þiggjendur gjafanna geti ekki reiknað verðið út sjálfir!

Og svo var það %&"#%&$ eilífðarverkefnið! Það var sem sagt þessi peysa sem ég kláraði á jóladag. Ég tók hins vegar ekki myndir af henni fyrr en nokkrum vikum seinna og þá var hún öll orðin hnökruð og teygð. En ég vona að þið sjáið hvers vegna það tók mig marga mánuði að ljúka við hana! Garnið er fáránlega fíngert, svokallað lace-garn (úr merinoull frá Malabrigo) sem prjónaðist á prjóna númer 3,5. Og peysan er stór, meira að segja á mig. Hún er bæði síð og víð og með breiðum boðungum þannig að það voru ófáar lykkjurnar sem fóru í að byggja hana upp. En hún er dásamlega mjúk og hlý, hún má eiga það.

Ég reyndi að taka myndir af mér í henni til að sýna ykkur hvernig hún mátast en þær voru allar svo sjúklega hræðilega ljótar, skakkar og úr fókus að ég hætti við. Smelli samt þessari inn þar sem það er næstum engin undirhaka á henni og gamla skólaplakatið mitt er svo fínt þarna í bakgrunni.

         

Síðasta verkefni ársins var svo þessi kragi sem ég var líka búin að vera að dunda mér við í nokkrar vikur. Mér hefur lengi verið meinilla við svona marglitt garn en það hefur eitthvað verið að ná til mín að undanförnu og þegar ég sá þetta varð ég að kaupa það. Samt eitthvað svo ó-Guðrúnarlegir litir verð ég að segja. Ég hafði strax skýra mynd í kollinum af því hvernig ég vildi hafa kragann, vissi að ég vildi hafa hann langan og með einhverju svona hnútaprjóni til að blanda litunum rækilega saman. Ef maður prjónar svona marglitt garn bara slétt er hætt við að það verði aðeins of áberandi regnbogaeffekt í því (eins og sést á stroffinu efst og neðst) og þótt það geti alveg verið skemmtilegt undir vissum kringumstæðum langaði mig ekki að hafa þennan þannig. Prjónið fann ég í einhverri bókinni minni þar sem það átti að prýða peysu en svona prjón kallast annars „trinity“. Garnið er merinoull frá Malabrigo eins og það í peysunni en þetta er nú töluvert grófara!

Og að lokum verður að vera ein með kraganum um hálsinn (dáldið auðveldara að taka þannig mynd en að reyna að ná heilli síðri peysu á sjálfsmynd!).

Gleðilegt nýtt handavinnu ár!