Handavinna janúar til maí 2012

 

Það fyrsta sem ég lauk við á nýju ári var þetta vesti á Baldur Tuma. Ég hafði séð svipað vesti í smábarnadeildinni í Noa Noa og fannst það svo fallegt að ég fór næstum að gráta. Því miður var það hvorki til í stærð á minn litla mann né þótti mér það í nógu fallegum litum svo ég ákvað að reyna að prjóna mína eigin útgáfu. Nú verð ég svo sem að játa að það sem ég prjónaði var kannski ekkert mjög líkt fyrirmyndinni fyrir utan að það var með stroffi, garðaprjóni í hliðunum og tveimur tölum í hálsmáli en ég var samt nokkuð ánægð með þetta. Vestið er úr alpaca ull frá Viking (minnir mig) og er ótrúlega mjúkt og hlýtt, tilvalið sem utanyfir ullarbolur á köldum dögum.

Næst á eftir vestinu gerði ég tehettu. Ég keypti mér þennan ótrúlega krúttaralega teketil skömmu fyrir jól og svo fékk ég fullt af góðu tei í jólagjöf þannig að tedrykkja mín jókst um mörghundruð prósent á einum mánuði. Og þá vantaði mig auðvitað tehettu! Já og almennt vantaði mig bara handavinnuverkefni svo ég kafaði í afgangapokann og sá að ég átti nóg af fallegri ljósri ull til að gera eitthvað fínt til heimilisins. Tehettan var algjörlega misheppnuð þegar ég var búin að prjóna hana - alveg svona brandara-misheppnuð. Ég heklaði þá kant neðan á hana til að síkka hana en það breytti engu. Ég var um það bil að fara að henda henni í ruslið þegar mér datt í hug að prófa að þæfa hana. Ég las mér til um þæfingu og hófst svo handa, skolaði og sápaði til skiptis og ferlið var töfrum líkast! Ég var svo æst eftir að ég var búin að þæfa hettuna að minnstu munaði að ég gripi hinar og þessar ullarflíkurnar og færa að þæfa - en mér tókst að stöðva mig.

Hún er svolítið eins og hvítt fjall þarna á bakvið, frekar fínt finnst mér.

Lykkjan þarna efst er auðvitað aðallega til að ríma við teketilinn sjálfan og tehettan er prjónuð og þæfð til að passa nákvæmlega utan um hann. Garnið er Malabrigo ull.

Og enn var kafað í afgangapokann. Þennan krúttlega hund heklaði ég handa Baldri Tuma á einni helgi eða svo. Hann er úr Baby Cashmerino og uppskriftin kom úr japanskri amigurumi-bók sem ég á en gæti ekki skrifað nafnið þótt ég ætti lífið að leysa!

Hann á lítinn rauðan skó til að leika sér með! Enginn kemst með hælana þar sem Japanir hafa tærnar í krúttlegheitum.

Eins og sjá mátti á afmælisóskalistanum mínum langaði mig óskaplega í garn í tvær peysur. Eiginlega langaði mig orðið ekki að gera neitt annað en aðra hvora þeirra en hafði ekki alveg efni á að kaupa mér garnið í þær allt í einu. Þannig að ég afgangaprjónaði! Þess vettlinga gerði ég handa sjálfri mér í afmælisgjöf. Mig hefur alltaf langað í eitthvað með svona áttblaðarós svo þessi uppskrift úr Hlýjar hendur hefur lengi kallað á mig. Garnið er að sjálfsögðu Kambgarn, hlýtt og gott.

Ég var búin að fletta öllum prjónabókum og -blöðum fram og til baka í leit að afgangainspirasjón og var alveg komin með margfalt ógeð á öllu. Það vildi mér til happs að Drops gaf út nýtt ungbarnablað og ég féll alveg fyrir þessu vesti og ákvað að prjóna það handa honum Skírni vini mínum í síðbúna velkominn-í-heiminn-gjöf.

Garnið kom að vísu ekki úr afgangapokanum góða heldur keypti ég þetta fína Drops alpaca- og silkigarn. Þrjár hespur af því kosta sáralítið (alla vega ekkert miðað við fínar Rowanpeysur) en það er samt bæði dúnmjúkt og hlýtt.

Og svo gafst ég alveg upp á afgangaprjóninu, bara gat ekki meir. Mamma var á leiðinni í heimsókn til mín og ég bað hana að kaupa fyrir mig einband í svona fína sjalpeysu eins og Rósa prjónaði einu sinni á mig (einhvers staðar hér er mynd af henni). Ég nota þá peysu svo ótrúlega mikið að mér datt í hug að gott gæti verið að eiga eina svarta og þá jafnvel með aðeins styttri framstykkjum. Og nú er hún sem sagt loksins tilbúin og þá er sumarið auðvitað rétt mátulega komið og lítil þörf fyrir ullarpeysur! Að vísu hefur verið ömurlegt veður undanfarna viku eða svo þannig að peysan kemur í góð not enn um sinn!

Það er erfitt að mynda þessa peysu svo vel sé. Framhliðar og bak er prjónað í einu beinu stykki og ermarnar svo settar inn í eftir á. Fyrir vikið er hún dálítið sniðlaus og myndast ekkert voðalega vel hangandi á herðatré. Mér finnst hún dálítið eins og Batmanskikkja á þessari!

Ég gerði líka heiðarlega tilraun til að taka mynd af sjálfri mér í henni en það tókst ekkert voðalega vel! En ef þið reyni að líta framhjá einbeitingarsvipnum á mér þar sem ég held myndavélinni í algjörlega vonlasri stellingu sjáið þið alla vega hvað fína skeljamynstrið er fallegt!

Nú er ég hins vegar með prjónakörfuna mína fulla af nýju og fallegu garni og ýmislegt nýtt og spennandi á prjónunum. Meira um það í næsta hefti!