Sumarfrí á skerjagarðseyjunni Grinda 

Dagana 13. - 15. ágúst dvöldum við á skerjagarðseyjunni Grinda. Þetta var okkar eina almennilega sumarfrí þetta árið og þótt dagarnir væru fáir voru þeir nýttir til hins ýtrasta. Í tvo heila sólarhringa gerðum við ekkert annað en að borða góðan mat, synda í sjó og baða okkur í geislum sólarinnar ... eins og sjá má á eftirfarandi myndasyrpu.

Mánudagurinn 13. ágúst
Siglt til Grinda, skógarganga með ferðatösku á hjólum, pakkað upp í svítunni og dásamlegar veitingar snæddar í kvöldsólinni. Að auki hittir fjölskyldan Måns Zelmerlöw ... næstum!

Við byrjuðum ferðalagið á lestarferð frá Uppsölum til Stokkhólms. Þegar þangað var komið röltum við í rólegheitum niður á Strömkajen með góðu stoppi á Vetekatten þar sem við vorum næstum orðin sjónvarpsstjörnur (Kanal 5 var að undirbúa upptökur þar, á hverju vitum við ekki þar sem við þurftum að drífa okkur af stað til að ná bátnum en í huganum er ég alveg búin að ákveða að það hafi pottþétt verið viðtal við Måns Zelmerlöw!) Í höfninni beið báturinn okkar tilbúinn ... og við vorum svo sannarlega tilbúin að leggja af stað í langþráð fjölskyldufrí! Hér eru ferðalangarnir komnir um borð.

Hugi var ákaflega spenntur yfir siglingunni en var samt pínulítið hræddur um að eitthvað grimmt sjávardýr á borð við kolkrabba eða hákarl myndi ráðast á okkur. Slíkar áhyggjur eru sem betur fer algjörlega óþarfar á siglingu um sænska skerjagarðinn!

Siglt af stað og hin fallega borg Stokkhólmur lögð að baki.

Fjölskyldufaðirinn um borð í bátnum Västan sem smíðaður var árið 1900.

Þar sem við höfðum valið að fara með hægfara báti sem stoppaði oft á leiðinni var þetta dálítið löng sigling, rúmir þrír tímar. Þannig náðum við hins vegar að upplifa skerjagarðinn almennilega og njóta útsýnisins. Börnin voru ákaflega dugleg á þessu ferðalagi og fundu sér ýmislegt til dundurs þótt þeim þætti reyndar óskiljanlega skemmtilegt bara að standa við borðstokkinn og horfa ofan í sjóinn! Hér er Hugi að teikna með einbeitingarsvip sem vöðvarnir í andlitinu á mér kannast ósjálfrátt við!

Sæta-María á skipsfjöl.

Siglt milli eyja og skerja undir sænskum fána.

Einmana viti. Veðrið var fremur þungbúið þennan dag og við vorum farin að óttast að dagskráin okkar á Grinda myndi einna helst samanstanda af kúldri uppi í rúmi á hótelherbergi að lesa bækur. Ekki að það væri alslæmt ... en okkur langaði auðvitað líka til að synda í sjónum, liggja í sólbaði og skoða okkur almennilega um á eyjunni.

Grinda var síðasti áfangastaður ferjunnar og þrátt fyrir að siglingin hafi verið vel heppnuð vorum við glöð að vera með fast land undir fótum á ný. Af bryggjunni lá malarstígur inn í skógarþykknið og við héldum af stað eftir honum, alls óviss um hvert við ættum að stefna eða hvort við værum yfirhöfuð að fara í rétta átt! Fljótlega birtust þó vegvísar sem gáfu til kynna hvar Värdshúsið væri að finna.

Dálítið spes að vera með ferðatösku með sér í skógarferð!

Á leið okkar eftir malarstígnum gengum við fram á haga með kindum á beit. Sveitalegt og sætt!

Hugi þarf alltaf að príla í öllum klettum og á öllum steinum sem við göngum fram á. Á þessari mynd veit ég að hann lítur bara út fyrir að vera að hvíla lúin bein á göngunni en í raun og sannleika var þetta bara augnabliks stund milli stríða í endalausu príli!

Og svo allt í einu, eftir eina beygjuna blasti það við í allri sinni dýrð: Grinda Värdshus! Ég er ekki frá því að sólin hafi brotist fram úr skýjunum á einmitt þessu augnabliki!

Þegar við tékkuðum okkur inn á hótelið komumst við að því að okkur hafði verið úthlutuð önnur af tveimur svítum sem Grinda Värdshus hefur upp á að bjóða. Ástæðan var þó væntanlega ekki að við værum svo frægir gestir (næstum nýbúin að hitta Måns Zelmerlöw og allt það), heldur var okkur sennilega bara plantað í stærsta herbergið þar sem við höfðum beðið um pláss fyrir tvö aukarúm. Við vorum engu að síður óskaplega ánægð með þessa tilhögun enda var herbergið, sem reyndar voru tvö herbergi, einstaklega þægilegt. Hér er okkar Einars hluti ...

... hér er Einar í sófanum í hinu herberginu ...

... og hér eru María og Hugi í rúmunum sínum í því sama herbergi. (Er þetta nokkuð farið að líta út eins og auglýsingabæklingur fyrir Grinda Värdshus?!)

         

Þegar við vorum búin að hvíla okkur eftir siglingu og skógargöngu í stutta stund héldum við á veitingastaðinn margrómaða í kvöldverð. Þar sem veðrið hafði verið fremur þungbúið fyrr um daginn, eins og áður sagði, höfðu tiltölulega fáir ferðalangar lagt leið sína til Grinda þennan dag og var rólegt á veitingastaðnum eftir því. Eins og áður sagði birti hins vegar til skömmu eftir að við lögðumst að bryggju og við nutum því kvöldsólarinnar og himnesks útsýnis þarna á veröndinni.

Það var aðdáunarvert hversu vel var nostrað við öll smáatriði í umgjörð ferðamannaþjónustu Grinda. Yfirleitt finnst mér Svíar svo uppteknir af því að spara að þeir leyfi sér aldrei að njóta þess að gera umgjörðina huggulega, fallega eða skemmtilega. Það var því hressandi að sjá að annað var uppi á teningnum á Grinda eins og þessi áletrun á vatnskönnunni (sem eiginlega var gamaldags flaska) ber með sér. Þarna er sem sagt bent á að vatnið sem borið sé á borð fyrir gesti komi úr uppsprettu á eyjunni sjálfri. Þetta er auðvitað bara sama vatn og flæðir úr krönununum á Grinda allan liðlangan daginn og sjálfsagt er þetta fyrirkomulag mjög algengt á öðrum skerjagarðseyjum en mér finnst þetta samt dálítið heillandi. Bæði af því að það er heillandi út af fyrir sig að ímynda sér einhverja litla skoppandi og freyðandi uppsprettu á þessari sætu eyju og svo fannst mér líka heillandi að mér sem gesti á eyjunni, væri sýnd svo mikil athygli að það væri lagt út í kostnað og tíma við að prenta þessar upplýsingar á vatnskönnurnar einungis til ánægju og yndisauka! Og er þá lokið allri lofgjörð um ferðamannaiðnaðinn á Grinda ... ég lofa!!!

Eftir matinn var Hugi svo elskulegur að tína blóm handa mömmu sinni. Hann kom til mín með hendur fyrir aftan bak og bað mig að velja hönd. Ég valdi og fékk að launum vallhumal en þá sagði herramaðurinn að bragði: „En mamma, það er alveg rooosalega fallegt blóm í hinari!“ Sem betur fer mátti velja aftur!

Vallhumallinn og rosalega fallega blómið í Grindavatni í kvöldsólinni.

Sólsetur á Grinda.

Það var ekki amalegt að halda til hvílu undir svona himni að afloknum dásamlegum kvöldverði.

Þriðjudagurinn 14. ágúst
Eyjan skoðuð og farið í skógarferð, borðað, baðað og borðað ... og baðað og borðað. Sagt frá hræðilegu skrímsli sem verður á vegi okkar!

Það voru allir mjög hressir og kátir í morgunmatnum daginn eftir þótt annað megi vissulega lesa út úr þessari mynd!

Hér eru Hugi og María þennan sama morgun fyrir utan húsið okkar. Flest hótelherbergjanna eru sem sagt í fjórum húsum sem standa rétt á bakvið hið eiginlega Värdshus. Sex til átta herbergi eru í hverju húsi og bera þau á efri hæðunum nöfn fuglategunda sem finna má í skerjagarðinum en þau á neðri hæðunum eru nefnd eftir fiskum. Við dvöldum í Skrattmåsen sem þýðir „hláturmáfur“ en ber pottþétt eitthvað annað og mun leiðinlegra heiti á íslensku eins og til dæmis „hettumáfur“! (Ókei, ég játa það ... textinn við þess mynd er lítt dulbúin lofgjörð um ferðamannaþjónustuna á Grinda!)

Við ákváðum að byrja á að fara í stutta gönguferð um eyna og María og Hugi stukku hamingjusöm af stað.

Fyrsti viðkomustaður okka var litla búðin. Mér finnst eins og þetta gæti verið huti af leikmynd í einhverju skemmtilegu barnaleikriti!!!

Næsti héldum við niður að gestahöfninni. Stór hluti þeirra sem sækja Grinda heim koma þangað á eigin bátum enda hefur lygilega hátt hlutfall Svía aðgang að slíkum farkosti. Mikið held ég að það sé gaman að sigla um skerjagarðinn í eins og eina eða tvær vikur, kasta akkerum á Grinda yfir eina nótt og njóta alls þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða áður en maður siglir yfir á næstu dásamlegu krútteyju!

Hér eru feðgarnir að spá og spekúlera í leigubátum. Við féllum að lokum frá öllum áformum um að leigja bát enda var tíminn naumur og margt sem okkur langaði frekar að eyða honum í en að sökkva árabát undan ströndum Grinda og fljóta svo á björgunarvestunum í land!!! Við erum nefnilega litlir sjómenn, við Einar!

Frá gestahöfninni lá leið okkar inn í skóg ... en ekki fyrr en búið var að smella mynd af okkur hjúunum í sígildri uppstillingu!

Í skóginum hittum við íkorna sem ég eyddi áreiðanlega 20 mínútum í að reyna að taka mynd af ... með lélegum árangri þó samanber þessa hér að ofan! Í skóginum hittum við líka mygg ... mikið, mikið af mygg!

Grindavatnið kemur við sögu á ýmsum myndum! Í skóginum gengum við fram á þennan vatnshana sem vakti mikinn áhuga barnanna sem dældu og dældu án þess að nokkuð gerðist ...

... fyrr en seint og um síðir en þá rann það líka í stríðum straumum, small hressilega á steinstöplinum og glitraði í morgunsólinni.

Eftir skógargönguna ákváðum við að fá okkur hádegismat á Framfickan sem er eins konar útibú frá veitingastað Värdshússins við gestahöfnina. Svona minna hátíðlegar útgáfur af fínum stöðum eru gjarnan kallaðar bakfickan (rassvasinn) hér í Svíþjóð enda yfirleitt staðsettar baka til. Þannig hýsir hið glæsilega óperuhús í Stokkhólmi allt í senn Konunglegu óperuna, Óperukjallarann sem er einn fínasti veitingastaður borgarinnar og svo Bakfickan sem er þá minni og hversdagslegri staður þar sem er hægt að droppa inn í drykki fyrir eða eftir sýningar (ímynda ég mér, ég hef svo sem aldrei komið þangað!) Framfickan á Grinda er sem sagt svona bakficka Värdshússins ... bara fyrir framan það!

Verönd Framfickunnar rís eiginlega upp úr sjónum og þaðan er frábært útsýni yfir klettótta strönd Grinda og nærliggjandi eyjar. Það skapar óneitanlega sumarlega og skemmtilega stemmningu að fylgjast með öðrum eyjaskeggjum baða, synda og sóla sig.

Þrír fjórðu hlutar fjölskyldunnar fengu sér pönnukökur með sultu og rjóma ...

... og sumum fannst passa mjög vel að drekka bjór með!

  

Aðrir beita heldur villimannslegum aðferðum við pönnukökuátið! Ef maður hefur verið svo heppinn að hafa fengið stóran munn í vöggugjöf þá er um að gera að nota hann til fullnustu ... ekki satt?

Eftir ljúffengan hádegisverð sóttum við sunddótið okkar upp á herbergi og röltum af stað í litla vík sem við höfðum komið auga á á skógargöngunni fyrr um morguninn.

Eftir sólarvarnaráburð og kútablástur skelltu systkinin sér út í sjóinn. Okkur fannst hann lygilega hlýr miðað við að sumarið hefur þótt frekar kalt ... mig minnir að ég hafi séð í blaðinu um daginn að hitastig vatnsins á flestum baðstöðum sé í kringum 18 eða 19°.

Ég skellti mér líka í sjóinn og synti út í nærliggjandi eyju ... eða svona kallast nú kannski bara sker!

María og Hugi elska að baða! Og bara svona til að fyrirbyggja allan misskilning þá þýðir „bada“ á sænsku einfaldlega að synda í sjó eða stöðuvatni og liggja í sólbaði á klöppum, sandi eða grasi þar í kring. Ég var nefnilega dálítið rugluð í þessu eilífa baðtali fyrst, vildi alltaf reyna að troða einhverjum niðurföllum, sjampóum og sápulöðri með í spilið! Reyndar getur allt þetta baðtal líka valdið vandræðum hjá Svíunum sjálfum, í það minnsta hafði ákveðin búð í Stokkhólmi sett upp skilti í gluggann hjá sér þar sem „Bad Shorts“ voru auglýstar á kostakjörum!!! Spurning hvort fólk hafi verið mjög spennt fyrir þessu tilboði!

Hugi (með einbeitingarsvipinn sem við eigum sameiginlegan) að moka í sandinum.

Eftir að hafa setið á litlu eyjunni (ókei, ókei ... skerinu þá!), kastað mæðinni og látið sólina þurrka mig til hálfs synti ég aftur yfir á ströndina. Ég veit ekki af hverju ég er með eitthvað voðalegt stærilætisglott á þessari mynd ... mér fannst þetta nefnilega lúmskt erfitt!

Þegar ég var komin á þurrt tók Einar við og synti út á skerið, að sjálfsögðu af mun meira kappi en ég! Í fjarska sigldu bátar og skútur með þanin segl.

Ekkert raskaði hins vegar ró barnanna þar sem þau óðu í sjónum eða grófu sig ofan í sandinn.

Á toppi tilverunnar!

Mig grunar nú að þessi sandströnd sé ekki alveg náttúruleg en það skiptir svo sem engu fyrir Maríu sem elskar fátt eins mikið og að sitja í sandi og finna litlar öldur gjálfra í kringum sig!

Þótt vatnið hafi verið hlýtt er það auðvitað tæpum 20° undir eðlilegum líkamshita. Börnin voru því orðin blá á vörunum eftir klukkustunda sull í sjónum. Engu að síður þurfti að draga þau upp úr með valdi til að hægt væri að vefja þeim inn í handklæða og knúsa svolítinn yl í litlu kroppana aftur.

         

Þeir eru misjafnir farskjótarnir sem flytja baðgestina í litlu víkina. Einhver kemur á reiðhjóli meðan annar kemur á kajak!

Ofurmennið rís úr djúpinu!

Einar var mikill sundkappi þegar við kynntumst og synti daglega langar vegalengdir í Vesturbæjarlauginni. Hann snarhætti því hins vegar um leið og hann tók saman við mig en ég verð að játa að ég veit ekki alveg hvort það er vegna þess að ég er svo skemmtileg að hann hefur ekki tímt að missa mínútu með mér eða af því að ég er svo frek og finnst hann svo skemmtilegur að ég hef ekki tímt að missa neinn tíma með honum!!!

Eftir að handklæðið hafði lokið hlutverki sínu sem kroppavermir umbreyttist það í ofurhetjuskikkju!

María tók því hins vegar rólega, lá á sínu handklæði og las í bók ferðarinnar, Alfinni Álfakóngi. Hún er auðvitað löngu búin með hana og að minnsta kosti eina til frá því við komum heim! (Mér finnst þetta svo ótrúlega dúlluleg mynd!)

Fjölskyldufaðirinn sólar sig og reyni að ná af sér svona dýpstu bláu tónunum!!! (Ekki það að mér yrði nú fyrst um og ó ef hann færi að taka á sig sama lit og sænsku piparkökukallarnir!)

Himinblámi.

Það tilheyrir algjörlega að taka nokkrar svona hjónasjálfsmyndir á góðum stundum eins og þessum og mér þykir alltaf mjög vænt um þær. Það breytir því ekki að mér dettur aldrei neitt sniðugt í hug til að segja við þær!!!

Þegar feðgarnir gerðust þreyttir á sól, sjálfsmyndum og skikkjum héldu þeir í könnunarleiðangur upp klettana. Skömmu síðar sneru þeir til baka og Hugi sem skoppað hafði á methraða niður kom hlaupandi til mín með æsingsglampa í augum og sagði: „Mamma, veistu hvað var þarna uppi?!!“ Ég svaraði neitandi en ímyndaði mér helst að þeir hefðu rekist á eitthvað áhugavert dýr. „Það var útsýni!!!“ sagði pilturinn þá af miklum ákafa! Og að sjálfsögðu sendi ég feðgana aðra ferð upp klettana en nú með myndavélina með í för í von um að útsýnið hefði ekki stokkið í burtu í millitíðinni og þeir gætu smellt af því eins og einni eða tveimur myndum!

Og hér er afraksturinn, útsýnið í allri sinni dýrð. Litla eyjan okkar er þarna lengst til vinstri.

Hugi, María og útsýnið!

Þetta var svo ótrúlega fallegur dagur, sólríkur og hlýr. Vegna leiðinlega veðursins daginn áður voru, eins og ég hef áður minnst á, frekar fáir gestir á eyjunni þennan dag og því rólegt í litlu víkinni okkar. Þegar við snerum aftur að värdshúsinu nokkru seinna hafð mannlífið þar hins vegar heldur betur tekið stakkaskiptum og allt úði og grúði af bátum og fólki.

Síðasta dýfa áður en haldið var „heim“!

Skömmu eftir að þessi huggulega mynd hafði verið tekin af okkur hjónum gerðist einn sá hræðilegasti atburður í lífi mínu sem hefur nokkurn tímann átt sér stað: Ég sá höggorm!!! Alvörunni, lifandi og mjög ógeðslegan höggorm!!! Þegar við gengum eftir skógarstígnum tók ég eftir einhverju út undan mér sem hreyfðist og sá sem sagt við nánari aðgát að þetta var höggormur. Ég vildi alls ekki fara að öskra stjórnlaust (eins og eðlið sagði mér að gera) til að hræða ekki börnin og rétt náði að koma í veg fyrir það en í staðinn lamaðist ég gjörsamlega úr hræðslu! Skrímslið hlykkjaðist hins vegar sína leið, flúði okkur inn í kjarrið og Einar og María náðu bara rétt að sjá í skottið á honum. Hugi missti hins vegar af öllu fjörinu en lætur það ekkert stoppa sig í að lýsa kokhraustur yfir: „Ég sá höggorm á eyjunni!“

Eitt af því sem mér finnst skemmtilegt við þessa eyju er hve mannlífið þar er fjölbreytt. Við erum með Värdshusið með sínu huggulega hóteli og fína veitingastað, við erum með sumarstúkubyggð fulla af fjölskyldum sem dvelja viku í senn á eynni við að grilla pulsur og baða, við erum með tjaldstæði og farfuglaheimili ... og svo þetta ótrúlega undarlega fyrirbæri sem sést á myndinni. Þetta er einhvers konar hústjaldabyggð að því er mér sýndist. Fólk virðist hafa hróflað upp einhverjum hústjöldum (svona með plastgluggum og þykjó hurð og allt það) en svo jafnvel byggt fínustu verönd fyrir framan og þar var búið að setja upp borð og stóla, luktir og blóm. Ég sá ekki eina einustu mannveru í þessum hústjöldum sem voru þó nokkur á svæðinu sem við gengum um. Mjög spes en líka dálítið fallegt! Ef einhver getur upplýst mig frekar um þennan menningarafkima væri slíkt vel þegið!

Við vorum orðin svöng eftir langa dvöl í litlu sólskinsvíkinni okkar og héldum því beint á kaffihúsið til að fá okkur hressingu.

Eftir kaffihúsið ákváðum við að prófa annan baðstað á eyjunni þótt degi væri farið að halla. Sá virtist mun barnvænni enda sendinn og mjúkur botn lengst út og vatnið grunnt. Það var hins vegar miklu meira af fólki þar og meiri læti og við Einar sáum allt í einu hvað fyrri baðstaðurinn hafði haft ótrúlega mikinn sjarma með öllum sínum klöppum sem hölluðu í upp og niður, út og suður og eyjum og skerjum útifyrir ströndum. Okkur að óvörum voru börnin hjartanlega sammála! Við busluðum þó góða stund þarna og á þessari mynd finnst mér María og Hugi alveg eins og þau séu að dansa Suður-Ameríska samkvæmisdansa úti í vatninu!!!

Hugi í vatninu.

Þetta var nú samt ósköp sæt lítil strönd og við höfðum það auðvitað bara mjög gott þarna í síðdegissólinni, fórum ekki heim á hótel fyrr en klukkan rúmlega sex!

Eftir sturtur og fataskipti vorum við aftur kominn á veitingastaðinn ljúfa.

Hugi er kominn með nýjan myndavélasvip sem hann notar óspart! Ég er strax farin að hafa þungar áhyggjur af jólakortamyndatökunni í ár!!!

Við stelpurnar sátum á móti strákunum með kvöldsólina í augun.

Grinda Äpple Martini í fordrykk.

Eftirrétturinn var ekki síður fallegur en góður, fjólupannacotta með kryddjurtamarineruðum brómberjum. Ísinn hans Einars og jarðaberin í bakgrunni.

Stóll á flótta!

Við stóðum á blístri þegar við héldum upp á Skrattmåsen að lesa um Tinna og kolafarminn fyrir háttinn.

Miðvikudagurinn 15. ágúst
Baðað enn meira, nestinu deilt með öndum, sagt frá sólþurrkaðri skáldsögu og svo siglt heim

Dagurinn eftir byrjaði með morgunverði á hótelinu og meðan Einar gerði reikninginn upp í kjölfarið laumaðist ég til að taka mynd af barnum sem mér fannst afar skemmtilega skreyttur með gömlum björgunarvestum uppi undir rjáfri. (Æ, mér virðist ekkert ætla að ganga með þetta heit um að hætta að hljóma eins og auglýsingabæklingur fyrir Grinda Värdshus!)

Eftir að við vorum búin að tæma herbergið og koma töskunni í geymslu héldum við aftur í víkina okkar góðu. Þetta átti nú að vera mynd af sundgörpum miklum þar sem við vorum bæði búin að taka einn srett út í litlu eyjuna en einhvern veginn erum við ekki neitt sérstaklega sundleg á myndinni og það sést varla að hárið á mér sé blautt!

Andarmæðgin heimsóttu okkur í víkina ...

... og María gaf þeim brot af nestinu sem við höfðum keypt í leikmyndalegu búðinni fyrr um morguninn.

Það var samt nóg eftir fyrir okkur mannfólkið þegar hungrið tók að sverfa að. Maður verður svangur af að synda í sjó og liggja í sólbaði ... að ekki sé nú talað um þyrstur!

Fjölskyldan í röð. (Vinsamlegast athugið að konan á nærbuxunum og með hattinn sem flatmagar þarna efst í röðinni tilheyrir fjölskyldunni á Konsulentvägen ekki á neinn hátt!)

Ég hef grun um að sumarhitinn hafi brætt límið sem heldur bókinni sem ég hef verið að lesa saman. Í það minnsta hafa blaðsíðurnar losnað úr henni hver á fætur annarri og leituðu frelsis á Grinda. Orðin reyndu ákaft að flögra út á sjó en náðust þó aftur, voru fönguð undir stein og þurrkuð í sólinni á klöppunum.

Eins og nánast allar persónur í bókum Enid Blyton segja: „Allur matur bragðast betur þegar hann er borðaður úti“!

Stóra stelpan okkar.

Og svo ein af þessum myndum!

Þegar við vorum búin að busla og baða og sleikja sólina dágóða stund tók að þykkna upp og hvessa. Við kvöddum því litlu víkina í bili með fyrirheitum um að heimsækja hana sem fyrst aftur og héldum að Framfickan. Meðan við hjónaleysin sötruðum einn bjór sátu María og Hugi á klöppunum og fylgdust með flot-saununni sem lónaði þarna rétt fyrir utan. Þar sem það bætti stöðugt í vindinn og við vorum hvort eð er búin að missa hótelherbergið ákváðum við í skyndi að halda heim örlítið fyrr en áætlað hafði verið. Taskan var því sótt í hvelli og dregin á methraða eftir malarstígunum að Södra bryggan. Þaðan klifruðum við um borð í hraðskreiðan bát sem augnablikum síðar var farinn að kljúfa öldurnar á leið til Stokkhólms.

Maður verður rosalega þreyttur af svona miklum sjóböðum og bátsferðum. Hugi geyspar en Einar reynir að fylla á með kaffi.

Við mæðgurnar skrifuðum hins vegar póstkort þar sem við lýstum fyrir vinum og ættingjum hversu dásamleg dvölin á Grinda hefði verið, hve gaman hefði verið að baða, lýstum góða matnum sem við höfðum fengið og greindum frá því hversu glöð við værum með að hafa loks drifið okkur í almennilegt, alvöru, ekta sumarfrí saman!