Gönguferð í sveitina

Eftir að Einar byrjaði í feðraorlofi númer tvö höfum við verið dugleg að fara út að ganga með Baldur Tuma í vagninum. Sem betur fer höfum við uppgötvað nokkrar skemmtilegar gönguleiðir hér í nágrenni Vänge og þessar myndir eru teknar á leið okkar eftir sveitavegi í lok apríl.

Baldur Tumi var spenntur að leggja af stað í gönguferðina. Það slokknaði hins vegar á honum eftir nokkurra mínútna göngu svo hann missti af stærstum hluta sveitaferðarinnar.

Leiðin liggur framhjá bóndabæ þar sem voru ær með lömb í haga. Við stóðumst ekki mátið og stálumst upp að girðingunni til að spjalla við þær og taka nokkrar myndir.

Þessar mæðgur fylgust forvitnar með aðkomufólkinu.

Ah, svo gott að teygja sig í morgunsólinni.

Ég var alveg að missa mig úr hamingju yfir öllum sætu litlu lömbunum og tók kannski aðeins of mikið af myndum!

Þið getið því rétt ímyndað ykkur hvað ég varð kát þegar þetta litla skott ákvað að koma alveg upp að girðingunni til að heilsa upp á okkur!

Mér sýnist hún ekki geta beðið eftir að fá að sjá hvað lífið ætlar að bjóða upp á næst!

Það er gott að fá sér vatnssopa í sólinni.

Vitsippur í skógarjaðrinum.

Og blåsippur.

Fullt, fullt, fullt af blåsippum.

Við mætum yfirleitt ekki nema 2-3 bílum á þessum göngum okkar, jafnvel þótt við séum stundum í tvo og hálfan tíma. Baldur Tumi sefur því óáreittur í fuglasöng og flugnasuði.

Hér endar vegurinn.

Hér er nýjasta draumahúsið mitt. Í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Vänge er bærinn Finnsta. „Bær“ er reyndar aðeins of stórt orð, þetta eru kannski 20-30 hús sem standa í hnapp án allrar þjónustu. En þar er sem sagt þetta fína falurauða hús sem lítur afar vel út!

Best af öllu er að húsinu fylgir lítill hænsnakofi og þegar við fórum til að skoða hann nánar komum við auga á þennan glæsilega hana uppi á steini.

Hopp! (Mér finnst að þetta hljóti að vera frábærasta mynd af hana sem tekin hefur verið!)

Fljótlega mættu nokkrar vinkonur á svæðið líka.

Þægilegt að geta snúið höfðinu svona við ef maður er orðinn þreyttur á myndatökum!

Við hlökkum til að heimsækja hænsnin aftur fljótlega og vonumst til að þá verði kannski komnir ungar!

Einhverjir Finnstabúar eru með tvo Íslandshesta og einn pony í litlu gerði við húsið sitt.

Mér líður dálítið eins og við séum með okkar eigin Húsdýragarð í næsta nágrenni!

Snúllinn vaknaði í sóksinsskapi á heimleiðinni.

Sætasta barn í heimi?

Ég held það hljóti að vera!

Drengurinn vaknaði tímanlega til að skoða kindurnar og lömbin áður en við fórum framhjá þeim á bakaleiðinni. Þetta þótti honum merkilegt og var alvarlegur yfir öllu saman.

Alveg er ég viss um að kindamömmurnar hafa vart haldið vatni yfir litla unganum mínum enda enginn eins sætur og hann!