Glimmer og snjór

Þrátt fyrir að lítið hafi frá okkur Konsulentunum heyrst á þessum vettvangi í nóvember höfum við ekki setið auðum höndum. Nei, við höfum bakað og farið í búninga, föndrað, leikið í snjónum og haft það ósköp gott!

         

Í byrjun mánaðarins var bekkjarkvöld hjá Maríu með hryllngsþema í anda hrekkjavökunnar. María skellti sér þangað uppábúin sem vampýra. Förðunina sá hún um alveg sjálf og búningurinn var samansettur úr ýmsum áttum en af bar þó auðvitað glæný og ótrúlega flott skikkja með rauðum blóðdropa-demöntum.

Um svipað leyti missti Hugi fyrri framtönnina í efri góm. Hann brosir því skögultenntu og afar sjarmerandi brosi þessa dagana!

María fékk að baka brauð alveg sjálf eina helgina. Hér er hún stolt með afraksturinn. Og ég get sagt ykkur að brauðið hennar var svo ákaflega gott að það kláraðist upp til agna á örfáum klukkutímum (voru þó hleifarnir tveir)!

Við ákváðum að byrja jólaföndrið með fyrra fallinu í ár. Oft finnst mér ég í svo mikilli jólastemmningu nokkrum vikum fyrir aðventuna en þá finnst mér alltaf of snemmt að byrja að gera eitthvað. Það bregst hins vegar ekki að þegar aðventan er gengin í garð hefur maður um nóg annað að hugsa en jólaföndur og rólegheit svo ég sé alltaf eftir að hafa ekki bara látið eftir mér að byrja aðeins fyrr þegar ég hef tíma til að njóta þess. Og í ár tókst það!

Verkefni dagsins voru svona fínir sprittkertastjakar búnir til úr sultukrukkum og skreyttir með glansmyndum, glimmeri og jólaborða.

Feðgarnir hjálpuðust að við að klippa glansmyndirnar út. Sem betur fer er ég vel byrg af slíkum gersemum og geymi til að mynda enn allar glansmyndirnar sem ég safnaði fyrir sirka 25 árum! Þær eru meira að segja enn í sama kassa og í gamla daga og utan á honum má enn sjá hinar ýmsu tölur krotaðar þar sem ég hafði þann sið á að telja glansmyndirnar dýrmætu reglulega og skrifa niðurstöðuna á lokið á kassanum. Að vísu hefur eitthvað fækkað í honum þar sem ég tími af og til að setja eina og eina á kort til fólks sem mér þykir mjög mikið vænt um!

Kertaljósunum fjölgaði ört enda fjölskyldan komin í mikinn föndurham!

María gerði þessa sem mér finnst svo fín!

Og hér er hún að framleiða eina í viðbót. Merkilegt nokk tókst okkur að gera þetta án þess að verða algjörlega glimmerhúðuð sjálf!

Meðan María lagði lokahönd á verkið var fjölskyldufaðirinn búinn að gefast upp á kertakrúsum og hafði í staðinn fengið sér hænublund undir Stóra Dímon.

Þetta var mögulega besta stund mánaðarins! Ég fékk Einar með mér að leita uppi litla sveitamatvöruverslun hér í Uppsölum þar sem uppáhalds hunangið mitt er selt. Þar keypti ég mér eina krukku með ilmandi appelsínu hunangi. Því næst komum við við í Himla lagersölunni þar sem má fá gæða vefnaðarvöru á hálfvirði og þar keypti ég mér ullarteppi, blátt á annarri hliðinni en hvítt á hinni. Og í bæjarferð seinna sama dag keypti ég mér jólate með appelsínum, möndlum, kryddum og vanillu já og meira að segja nýjan bolla. Að lokum keypti ég mér eitt sænskt jólablað í Maxi. Svo átti ég dásamlega stund fyrir framan arininn um kvöldið þar sem ég sat undir teppinu, sötraði teið með hunanginu úr nýja bollanum og skoðaði fína blaðið! Ég skammaðist mín reyndar dálítið fyrir góðærisbraginn en reyndi að sannfæra mig um að te og útsöluteppi væri kannski ekki alveg sambærilegt við kampavín og hönnunarföt!

Og svo kom snjórinn, langþráður! María og Hugi kættust mjög og eyddu löngum stundum í garðinum.

Hér er Hugi til dæmis að reyna að búa til snjóþotubrekku!

Búraleg systkin í vetrarbúnaði.

Sólin skein í augun og gerði fyrirsætustörfin erfiðari. Einhvern veginn finnst mér svo stutt síðan við sátum á þessum sama bekk undir sólhlífinni, íklædd stuttermabol og hugsuðum um það eitt að þamba svaladrykki og skella okkur í buslulaugina!

Snjóenglar!

Nokkrum dögum síðar hafði snjóað helling í viðbót svo skaflarnir náðu húsmóðurinni vel upp yfir kuldastígvélin!

Í júní tók ég mynd frá svipuðu sjónarhorni en þá var runninn sem nú er á kafi í snjó þakinn bleikum rósum!

Undir lok mánaðarins var ekki neitt ráðið við jólastemmninguna og við Hugi ákváðum að baka stóran skammt af lussebulla!

Þær eru bragðgóðar og fallegar!

Og hér má sjá bakaradrenginn við afurðirnar.

Lussebullabakstur var þó ekki það eina sem Hugi afrekaði í eldhúsinu þennan mánuðinn. Ó nei! Síðustu helgina í nóvember lagaði hann nefnilega ratatouille eftir eigin uppskrift í hádegismat handa allri fjölskyldunni! Hann hefur nefnilega verið önnum kafinn við að semja matreiðslubók að undanförnu (er sko búinn með Shrek handritið) og í henni var að finna þessa dásamlegu uppskrift að ratatouille. Matreiðslan fór nokkurn veginn þannig fram að hann skar niður gúrku og tómata, blandaði síðan í skál tómatsósu og smá rifnum osti, lagði grænmetið þar ofan á, tók það upp aftur og raðið í svona  „kúlu“ á diskana! Stórkostlegasta máltíð mánaðarins sem meira að segja sló villisveppa risottoinu sem Einar bjó til handa mér algjörlega við!