Fyrstu dagarnir í ágúst

Tíminn frá því við fluttum hefur verið fljótur að líða enda alltaf nóg að gera ... eins og eftirfarandi myndasyrpa sýnir vel!

  

Hugi veit vel að María er að fara að byrja í skóla og öfundar hana dálítið. Um daginn gaf ég henni pennaveski, stílabók og reikningsbók sem hún hefur verið að dunda sér við að skrifa í. Huga fannst nokkuð að sér vegið og daginn eftir var því keypt svipað sett handa honum. Í bílnum á leiðinni heim sagði hann upp úr eins manns hljóði: „Það fyrsta sem ég ætla að gera þegar ég kem heim er að fara að skrifa“! Og það gerði hann, hann settist við og skrifaði A E H og M aftur og aftur og aftur!!!

Verðandi skólastúlka með sitt fína skóladót!

Og svo kom gámurinn 2. ágúst ... loksins!!! Reyndar fór móttaka hans fram með örlítið öðrum hætti en við höfðum áætlað! Fyrir það fyrsta vorum við búin að tala við fjölda manns og fá fólk til að hjálpa okkur að bera út úr gámnum þegar hann kæmi og í öðru lagi höfðum við margítrekað óskað eftir að fá gám á jörð en ekki gám á grind. Gámur á jörð þýðir að gámurinn er, eins og orðanna hljóðan gefur til kynna, settur á jörðina. Gámur á grind þýðir að hann kemur á vörubíl og þá er næstum mannhæð upp í hann. Þegar að stóru stundinni kom loksins mætti hins vegar vörubíll! Í ofan á lag var allt liðið sem við vorum búin að kalla út fast í vinnu enda áttum við ekki von á að afhending yrði fyrr en seinni partinn. Eins og þetta væri ekki nóg tilkynnti bílstjórinn að við hefðum klukkutíma til að tæma allt út! Þegar við Einar stóðum því tvö með troðfullan gáminn hátt uppi yfir höfðunum á okkur féllust okkur gjörsamlega hendur! En klukkan tifaði og ekki um annað að ræða en að byrja. Við hringdum í vinkonu okkar sem var í sumarfríi og gátum platað hana til að koma og hjálpa okkur og svo hömuðumst við þrjú í þessu, eitt uppi í bílnum og hin niðri á götu. Ég veit ekki alveg hvernig það tókst en við, Einar og tvær litlar og aumar konur, náðum að klára þetta á nákvæmlega klukkutíma og 22 mínútum! Á myndinni sést lítið brot af búslóðinni okkar og bálreiður Einar að hringja í flutingafyrirtækið!!!

Þar sem allt gekk út á að tæma gáminn sem allra fyrst skelltum við megninu af dótinu okkar inn í bílskúrinn sem stendur við götuna ... við hefðum verið tíu sinnum lengur ef það hefði þurft að bera hvern einasta hlut inn í hús. Þrátt fyrir það var nóg af dóti úti í garði sem beið þess að komast inn hið allra snarasta.

Tvöfaldi bílskúrinn er alveg stappfullur!!!

Við hófumst strax handa við að koma dótinu okkar fyrir. María sá um að þjappa pappírnum sem varið hafði dótið okkar ofan í stóran kassa!!!

Allt á hvolfi í eldhúsinu! Við komumst að því að litla eldhúsið á Bárugötu hefur verið með einstaklega mikið skápapláss því það var mikið púsuspil að koma öllu dótinu fyrir í nýja og stóra eldhúsinu okkar!

Næstu dagar fóru eingöngu í að taka upp úr kössum og mála hluta hússins. María og Hugi voru því nokkuð afskipt ... greyin! Þau fundu sér hins vegar ýmislegt til dundurs og hér eru þau í sjóræningjaleik uppi í tréhúsi ... með viskastykki um höfuðin!

Þeir eru óvenjusætir þessi sjóræningjar ... enda stálu þeir bara nammi úr eldhúsinu hjá mömmu!

Sjáið þið grilla í þau þarna í stóra grenitrénu?!

Inni málaði Einar ... hér er stofan að verða tilbúin!

Þegar sjóræningjaleikurinn var hættur að vera spennandi voru börnin send í rifsberjatínslu.

María stolt með hluta afraksturins.

Ég lýg engu þegar ég segi að greinarnar svigni undan berjaklösum!

Í garðinum okkar er eitt plómutré og á því vex ein lítil plóma!!!

Eplatréð er hins vegar stórt og mikið og á því vaxa hundruðir epla!!!

  

Nú er búið að setja aparóluna upp í garðinum hér á Konsulentvägen. Hún er allaf jafnvinsæl!

Þetta er húsið við hliðina á okkur. Einu sinni tilheyrði lóðin okkar þessu gamla húsi en síðan var henni skipt í tvennt og okkar hús byggt árið 1990. Fyrir vikið búum við í tiltölulega nýju húsi en afskaplega grónu hverfi. Í þessu ótrúlega fallega gula húsi býr einstæð móðir með tvær dætur, svona á að giska 16 g 12 ára gamlar. Þær gætu hæglega tekið þátt í föstum dálki Séð og heyrt um sprækustu mæðgurnar enda allar ljóshærðar, sólbrúnar og leggjalangar ... eins og reyndar flest allt sænskt kvenfólk! Í húsinu býr líka hundurinn Wille sem ég veit því miður ekki hverrar tegundar er en hann er ákaflega stilltur og þægur og geltir aldrei!

Svo kom amma í heimsókn að kvöldi 3. ágúst! Það voru miklir fagnaðarfundir þó ekki hefði aðskilnaðurinn varað nema viku!

Um kvöldið fórum við að borða á grískum stað í Uppsölum sem stendur við ána. Staðurinn er ótrúlega skemmtilegur, útsýnið ómetanlegt og maturinn frábærlega góður. Svo sannarlega eitt af því sem ég set á dagskránna fyrir komandi gesti!

María vafði sig inn í teppi og sötraði safa!

Hugi velti vöngum yfir stöðunni.

Og Einar og mamma skoðuðu nýja bleika símann þeirrar síðarnefndu.

Hugi sætur að vanda!

Laugardaginn 5. ágúst höfðum við ráðgert ferð til Stokkhólms. Hún var snarlega felld niður þegar María vaknaði fárveik. Hún var með næstum 40° hita yfir daginn og kastaði öllu upp sem hún setti í sig. Úr varð að amma passaði systkinin meðan foreldrarnir fóru í útréttingaferð til Uppsala og nýttu síðasta daginn með bílaleigubílinn.

Hugi fékk að fara aðeins í laugina meðan stóra systir svaf inni.

Þó það væri gaman fann maður að hann var dálítið vængbrotinn að hafa ekki Maríu sína með og viðdvölin í lauginni var mun styttri en þegar þau busluðu þar saman nokkrum dögum áður.

Sunnudaginn 6. ágúst hjóluðum við mæðgurnar í kaffi til Ekeby By. Það var yndislegt að hjóla þessa leið í sól og hita og setjast svo niður með saft, kaffi og bollur. Mömmu leist jafnvel á þetta og okkur hinum!

Mylluna bar við gömlu bæjarhúsinu en minningin um maurana frá því síðast gerði það þó að verkum að mamma var ekki dregin upp að henni!

Mamma á leiðinni heim frá Ekeby By á hjólinu hans Einars.

  

Ég á leiðinni heim á ótrúlega fallega og góða hjólinu mínu!

Þegar maður kemur að Vänge er kirkjan það sem fyrst blasir við manni. Alla leið inn til Uppsala er þessi fíni hjólreiðastígur og því hæg heimatökin að skella sér þangað ef maður hefur tíma og úthald! Ég hugsa þó að ég láti mér kaffiferðir til Ekeby By nægja að sinni!

María var hressari á sunnudaginn en hélt sig þó algjörlega í rúminu. Hugi stóð við rúmstokkinn hjá henni allan daginn og vildi helst ekki einu sinni fara út úr herberginu! Við vorum sem betur fer nýbúin að fá svefnsófa og því gat María haft bækistöð í gestaherberginu með ömmu í þessum veikindum. Við foreldrarnir sváfum enn á beddum og því illmögulegt að fá nokkurn upp í til sín!

Á sunnudagskvöldinu fengum við góða gesti í mat. Alfreð og Björk eru að flytja tímabundið til Uppsala frá Stokkhólmi og voru gripin í mat á Konsulentvägen eftir að hafa ferjað hluta af búslóðinni sinni á Stålgatan. Mamma kom með humar frá Íslandi sem skellt var á grillið.

Björk og Alfreð eru ekki eingöngu að flytja um næstu mánaðarmót heldur eiga þau þá líka von á sínu fyrsta barni!

Hvað skyldi hafa verið svona fyndið?!

Mamma við grillið!

Verðandi foreldrar! Okkur þykir afskaplega spennandi að komast bráðum í návígi við svona ponsulítið kríli sem hægt verður að skoða putta og tásur á og finna góða ungbarnalykt úr hálsakotinu!

Humarinn bragðaðist frábærlega vel og meðlætið var gott líka ... þetta get ég fullyrt þar sem ég kom ekki nálægt matargerðinni á nokkurn hátt!

Ég sá hins vegar að venju um eftirréttinn og bauð upp á nýbakaða eplaköku úr eplum í garðinum. Ég er auðvitað ekki dómbær á árangurinn en eins og þessi mynd sýnir var hún nánast borðuðu upp til agna!

Hugi borðaði svolítinn humar með okkur en vildi svo strax drífa sig aftur inn til Marí systur.

Pabbinn með börnin í stofunni að morgni mánudagsins 7. ágúst.

 

Við kvöddum Imbu ömmu þennan dag og hún hél heim til Íslands í rigninguna.

Um kvöldið var Hugi stunginn af geitungi og það í annað sinn frá því við fluttum hingað. Fyrst var hann stunginn í handlegginn innan við tíu mínútum eftir að við komum hingað á Konsulentvägen og svo aftur í sköflunginn þetta kvöld. Við höfum ekki hugmynd um hvers vegna geitungarnir hafa svona mikið dálæti á honum ... nema ef vera skyldi bara af því að hann er svo sætur! Hér er hann að setja kalt á stunguna!

Systkinin í morgunsólinni úti á tröppum 8. ágúst.

María nýtur þess að slaka á í sólinni ... hún er svo sæt!

Hugi í kunnuglegum stellingum!

Ég verð að hafa enn eina mynd af þessari sætu og duglegu stelpu í sólskinsskapi!

Og enn ein myndin af eplatrénu fylgir líka með! Mér finnst það svo ótrúlega fallegt ... get ekki beðið eftir að sjá það í blóma næsta vor!

Að morgni þessa ágæta þriðjudags fengum við Einar loksins nýtt rúm!!! Við vorum orðin ansi þreytt á að liggja á beddunum góðu og þetta var því mikil gleðistund!

Rúmið er sænskt Hästens rúm og við fengum það á góðu verði í búð hér í Uppsölum. Það allra besta var að við skyldum fá það afhent svona fljótt en við vorum búin að undirbúa okkur undir 6 vikna afhendingarfrest en það virðist einhvers konar lykiltala í sænsku verslunar- og viðskiptalífi! Hérna sést líka svefnherbergið okkar Einars sem er voða fínt. Veggfóðrinu verður útrýmt eins fljótt og kostur er! Það sést reyndar ekki borðinn sem er upp við loftið sem er með einhvers konar grísku þema!!!

Eftir að búið var að máta rúmið aðeins héldum við í borgarferð til Uppsala. Það tekur okkur u.þ.b. 20 mínútur að fara með strætó þangað frá litla sveitaþorpinu okkar sem er alveg hæfileg vegalengd. Huga fannst allt of heitt að sitja í sólinni á útikaffihúsi enda skein sólin glatt þennan dag! Það er alveg nýtt fyrir okkur Íslendingunum að elta skuggann!

Fátt er betra í hitanum en að fá sér ís ...

  

... um það eru Einar og systkinin hjartanlega sammála!

  

Fjölskyldan á einni af fjölmörgum fallegum brúm sem liggja yfir Fyrisån sem rennur í gegnum miðja Uppsali.

Eftir dálítið bæjarþramm héldum við í Stadsträdgården sem er ákfalega fallegur garður rétt við höllina sem blasir við hér að aftan!

Hugi starir heillaður á uppsprettu lítils lækjar í garðinum!

Á lítilli tjörn í garðinum flutu fjölmargar vatnaliljur. Þeir sem eitthvað þekkja mig vita að vatnaliljur eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér!

Blómamyndaáhuginn sagði fljótt til sín og ég eyddi dágóðri stund á bakka tjarnarinnar með myndavélina. Hér hefur lítill leynigestur laumað sér inn á myndina!

Þessi er fyrir Tobba sem bíður spenntur eftir nýjum blómamyndum!!!

Mikið sem vatnaliljur eru óskaplega fallegar!!!

Þessi er fyrir Svanhildi, sælla minninga! Það eru greinilega líka til falleg fiðrildi í Svíþjóð!

Ég veit ekki hvað starfsfólkið og aðrir gestir Stadsträdgården halda um mig ... fyrst hálf úti í tjörninni með myndavélina á lofti og svo óð ég inn í mitt blómabeð til að taka mynd af einu litlu fiðrildi sem sjálfsagt er afar hversdagslegt fyrir þeim!

Í garðinum er líka þessi fíni róluvöllur og hér er María á leiðinni í eina salibunu í rennibrautinni.

Mér finnst þessi mynd svo skemmtileg! Hér er María augljóslega að horfa á eitthvað mjög spennandi en maður sér ekkert annað eina eina hönd þarna í vinstri kanti myndarinnar og veit því ekkert hvað þessi áhugaverði maður var að gera!

María og Hugi í skemtilegri rólu.

  

Stundum verða litlir fætur þreyttir á að ganga, sérstaklega í svona miklum hita. Þá er nú gott að pabbi getur tekið tvo krakka í einu í sætaferðir!

  

Í miðjum garðinum er sæt kaffisala og þar fengum við okkur ís og krap til að svala okkur í hitanum.

  

Krakkarnir fundu klifrugrind sem þeim fannst afar skemmtileg hvort sem hún var notuð til að klifra í ...

  

... eða hanga í!

Á leiðinni heim keyptum við innkaupakerru sem er hið mesta þarfaþing, a.m.k. á meðan við erum ekki með bíl. Hér erum við komin aftur með strætónum okkar til Vänge, heimabæjarins!

Í borgarferðinni fundum við æðislega litla dótabúð og þar fengu María og Hugi að velja sér ný leikföng. Hugi var ekki nokkrum vafa um að þetta kóngdress skyldi verða hans! Með skikkjunni og kóruninni fylgja reyndar líka sverð og fáni með drekamynd á sem ekki sjást á myndinni. Drengurinn hefur verið alveg gagntekinn af þessum búning síðan! Hann kemur gjarnan upp í til okkar foreldranna síðla nætur eða snemma morguns og um daginn varð ég vör við að hann var kominn að rúmstokknum hjá mér en hvarf svo aftur inn í sitt herbergi. Hálfri mínútu síðar mætti hann aftur og skreið undir sæng til mín en hafði þá í millitíðinni klætt sig í kóngabúninginn!!!

María valdi sér hins vegar þessa ótrúlega fínu dúkku sem hefur fengið nafnið Tinna. Þær sóma sér vel saman,  „mæðgurnar“!